Jæja. Ég get ekki sofið þannig að ég ætla bara að skella inn smá svona reynsludúlleríi.

Septum.

Í desember 2005 skellti ég mér á Tattoo & Skart og var aðeins með eitt í huga. Septum. Ég hafði ákveðið það að ég þyrði ekki að fá mér göt í eyrun, vegna þess að ég bara vissi að það yrði virkilega vont. Ég hef nokkurn veginn ágæta sýn á það hvað sé vont og hvað ekki, og þar sem ég er með stóra og þykka eyrnasnepla þá vildi ég ekki fá mér göt í eyrun strax.

Það óþægilegasta við septum gatið var töngin. Þetta er svona eins og maður sé alveg að fara að hnerra en það gengur bara ekkert. Ég lokaði augunum eins og það væri verið að fara að berja mig í andlitið og síðan var sagt við mig að það væri sniðugt hjá mér að opna augun til að líta á þetta. Það blæddi ekki neitt og ég fann bara örlítinn sting. Ég var hæstánægð með þetta.

Teygt septum.

Eftir mörg nafnaköll vegna septum gatsins [Aðallega eitthvað í tengslum við mumu] ákvað ég bara að stækka það. Í FÉSIÐ Á ÞÉR, FÉLAGI!! Ég man ekki alveg nákvæmlega stærðirnar, en mig minnir að það sé 1.8mm - 2.4mm - 3.2mm - 4.0mm. Það sveið svona eiginlega mest þegar það var stækkað upp í 4mm.

Eyrnasneplar.

Einhvers staðar þar á milli fékk ég mér gat í hægri eyrnasnepilinn. Aftur fór ég á Tattoo & Skart og þar var skotið. Það var verra en ég hélt það yrði. Enda ég með þykka eyrnasnepla eins og áður sagði og ekki nema ein lengd af skotlokkum. Og sú lengd er ekkert svo svakaleg. Sirka mánuði eða tveimur seinna lét ég skjóta í hinn eyrnasnepilinn minn.

Teygðir eyrnasneplar.

Síðan fór ég að stækka eyrnasneplana. Fór upp í 8mm í hægra eyranu og 6mm í því vinstra. Einhverjum mánuðum eftir að það greri fékk ég kast og minnkaði þetta aftur niður. Þetta var 2006.

Semi-lowbrets.

Í byrjun mars 2007 fór ég á Tattoo & Skart, og bað um gat neðarlega í vörina. Þetta gekk eins og í sögu og ég fór ánægð heim. Fjórum vikum seinna fór ég aftur og fékk mér annað rétt hjá, jafn neðarlega. Það gekk ekki alveg jafn vel að gróa hjá mér, og húðin í kring varð hvít. Ég fór til Sessu sem lét mig hafa krem sem ég átti að bera á þrisvar á dag í nokkra daga. Eftir örfáa daga var þetta orðið allt í gúddí.

Smiley.

Í byrjun júní fór ég svo enn einu sinni á Tattoo & Skart. Sessa var búin að lofa að panta fyrir mig smiley lokka, og átti hún bara einn þennan daginn. Ég ákvað bara að slá til, enda búin að bíða lengi eftir að fá þetta gat. Allt gekk vel og greri frábærlega. Minnsta vesen í heimi.

Eyrnasneplar teygðir aftur.

Þar sem ég átti fullt af tapers, og voðalega lítinn pening ákvað ég að fara að stækka sjálf. Að sjálfsögðu með millibili fyrir sneplana að jafna sig og svona. Byrjaði að fara með annað eyrað upp í 4mm, svo hitt í 4mm og annað í 6mm, og svo 6mm og 8mm, og nú eru bæði komin í 8mm. Það nýjasta sem ég stækkaði var núna síðasta sunnudag.

Helix.

Vinkona mín er búin að vera að vinna á Tattoo & Skart og fylgjast með Sessu. Í lok júní sá ég kork frá henni á MySpace um að hún fengi að æfa sig að gata bráðlega. Ég ákvað að leyfa henni að nota mig sem tilraunadýr og ég fór á Tattoo & Skart síðastliðinn laugardag.

Meiningin var að gata á mér vörina. En þegar ég var búin að skola, hún búin að merkja fínt og var að fara að stinga, þá allt í einu þorði hún því ekki. Sessa stakk þá upp á því að hún æfði sig aðeins á eyranu á mér. Og þótt ég finni mestan sársauka í eyrunum á mér, leyfði ég henni það.

Hún stakk. Lokkurinn komst ekki í gegn og datt. Það fossblæddi úr eyranu á mér. Ég hafði ekki hugmynd um að það gæti blætt svona mikið úr eyra o.O Þegar Sessa var búin að þurrka blóð af eyranu og úr hárinu mínu og svona, þá tók hún við og stakk aftur. Sama vandamál, þannig að Sessa lét vinkonu mína ná í of stóra nál, svo lokkurinn kæmist nú örugglega í gegn. Þessu var öllu saman þrykkt í gegn og lokkurinn small ágætlega. Eftir þetta ævintýri voru ég, hanskarnir þeirra og bekkurinn allt útí blóði. Þetta var þrifið og ég nokkuð sátt með nýja gatið.

Nú er bara spurning með næsta gat :P