Rússnesk fangahúðflúr vol. 2 Ég sendi inn grein fyrir nokkru um rússnesk fangahúðflúr http://www.hugi.is/hudflur/articles.php?page=view&contentId=4901124 hér kemur svo framhald.

Eins og ég sagði í fyrri greininni þá var fjöldi fanga gríðarlegur á tímum Leníns í Sovétríkjunum. Eftir uppþot og borgarastyrjaldir varð til gríðarlegur fjöldi munaðarleysingja og barna sem ólust upp á götunni, til að bjarga sér leiddust þau út í þjófnað og alvarlegri glæpi. Fjöldi glæpamanna eða “glæpabarna” varð gríðarlegur og fangelsi og fangabúðir urðu æ fleiri.

Á árunum sem fylgdu hóf stjórn Leníns að stinga venjulegu fólki úr miðstétt inn í stórum stíl fyrir litlar sakir af pólitískum ástæðum. Fólk bæði innan og utan fangelsa varð sífellt fyrir pólitískum áróðri.

Innan fangelsana hóf fólk í sífellt auknum mæli að flúra á sig eitthvað sem sýndi andstöðu þeirra við stjórnvöld. Glæpamenn sneru slagorðum upp í andhverfu sína, t.d. varð “All power to the soviets!” að “All power to the godfathers!”, þeir kölluðu þessa tegund húðflúra “að glotta að yfirvöldum”. Það að húðflúra á sig sönnun um andstöðu sína við stjórnvöld sýnir hversu mikil alvara þeim var. Það var ekki hægt að sýna andstöðu sína á sterkari hátt því það var ekki eins og yfirvöld gætu gert líkama þeirra upptæka og þó þeim væri refsað, þeir væru barðir eða misþyrmt þá var húðflúrið ennþá til staðar svo lengi sem þeir voru á lífi.

Eins og ég minntist á í fyrri greininni þá notuðu fangarnir húðflúr til að koma á reglu í kaosinu sem ríkti innan veggja fangelsana. Í heimi þar lögreglan var allsstaðar, fólki var refsað grimmilega fyrir litlar sem engar sakir og engum var hægt að treysta hófu fangarnir að flúra á sig hverjir þeir voru, hvaðan þeir komu og hver staða þeirra væri. Þannig vissu þeir nákvæmlega hvernig þeir ættu að koma fram við hvorn annan, þeir gátu séð hvað aðrir höfðu gert og hvar þeir höfðu verið, hvaða glæpafjölskyldu þeir tilheyrðu o.s.frv.

Það skipti töluverðu máli fyrir merkingu húðflúrana hvar þau voru staðsett á líkamann. Til að mynda voru nöfn þeirra fangelsa sem viðkomandi hafði setið inni í flúruð á tærnar. Hringir á fingrunum táknuðu hver nákvæmlega staða fangans var og e.t.v. hvað hann sérhæfði sig í t.d. ef fangi var með flúraðan hring með lykli táknaði það að hann var góður í að brjótast inn í hús. Ef eitthvað var húðflúrað á bringuna gaf því meira vægi en ef það var sett einhversstaðar annarsstaðar á líkamann og gaf til kynna háa stöðu þess sem bar flúrið.

Sum tattoo voru notuð sem ákveðin manndómsvígsla fyrir unglinga, t.d. ef unglingur sat í fangelsi yfir 16 eða 18 ára afmælið sitt fékk hann mynd af túlípana eða rós með gaddavír flúraða á sig. Ef unglingurinn sat inni fyrir þjófnað var bætt við hauskúpu, hníf og/eða kórónu.

Dauðinn var gegnumgangandi þema í mörgum húðflúrum fanga, fyrir þeim var það táknrænn dauði að vera í fangelsi og í mörgum tilfellum fannst þeim þeir líka endurfæðast sem meðlimur mafíunar þegar þeir voru innan veggja fangelsisins. Á mörgum húðflúrum stendur “Ég fæddist í fangelsi og ég mun deyja í fangelsi” eða “Ég fæddist til að deyja”. Í húðflúrunum var dauðinn táknaður með hauskúpu eða með logandi kerti sem merkti þá að dauðinn væri á næsta leyti tilbúinn að slökkva logann.

Fangarnir lifðu sig svo mikið inn í þennan heim húðflúra að þeir fóru að hlutgera líkama sína, þeir gengu ekki í fötum nema til að skýla sér frá veðri og vindum og sjálfsfróun og kynlíf var stundað á almannafæri. Þeir gengu meiraðsegja svo langt að bannað var að snerta háttsetta glæpamenn.

Háttsettir glæpamenn voru vegna stöðu sinnar með mjög mörg húðflúr sem táknuðu bæði atburði í lífi þeirra og innsta kjarna þeirra, hverjir þeir voru. Ef einhver snerti þá með höndunum og þar af leiðandi húðflúrin þeirra var eins og hann væri að snerta þann atburð sem húðflúrið táknaði og þar með óhreinka hann. Refsingin við að snerta húðflúr glæpaforinga var dauði.

Þá er ég bara búin í bili, aftur ef einhver vill lesa meira um rússnesk glæpatattoo er bæði hægt að leita á netinu eða lesa “Russian Criminal Tattoo Encylopaedia” vol. eitt og tvö eftir Baldaev, Vasiliev og Plutser-Sarno.

kv. creampuff