Ég ætla að fjalla aðeins um skotbyssuna og nálina. Ég persónulega kýs nálina, ég mun aldrei koma nálægt byssunni aftur. Ég lét gera fyrstu 4 götin mín með byssu, í skartgripabúð. Þegar ég þurfti nokkrum árum síðar að láta laga tvö af þeim götum sem höfðu gróið, ákvað ég að prófa að fara á tattoo stofu og nota nál. Síðan þá hef ég látið gera 3 nýrri götin + eina lagfæringu + 2 strekkingar á stofu, með nál.

Byssan
Byssan er aðallega úr plasti. Það er mjög erfitt að sótthreinsa hana, oft er bara rétt svo strokið yfir hana með alkóhóli eða öðru sótthreinsandi. Ef það hefur komist blóð á byssuna er ekki víst að það fari af við litla stroku með klúti.
Þegar stungið er í gegnum eyrnasnepil er lokkurinn sjálfur notaður til að gera gatið. Lokkarnir notaðir í þetta eru alls ekki beittir. Það fer mjög illa með vefi eyrnasnepilsins. Byssan kemur festingunni fyrir hinum megin þegar lokkurinn er búinn að ýta sér í gegn.
Þessir lokkar eru mjög þröngir fyrir suma, og gefa oft ekki mikið pláss fyrir bólgu. Systir mín lenti í því að skinnið greri við lokkinn, því það var ekkert pláss fyrir loft eða neitt á bakvið, hjá festingunni. Lokkarnir eru one-size-fits-all, og ekki gert ráð fyrir þykkum sneplum. Þegar það er ekki pláss fyrir loft, grær gatið mjög illa. Einnig getur komið fyrir að hár festist í festingunni, sem er alls ekki gott þegar gatið er að gróa.

Nálin
Nálin er hol að innan. Hún er með beittari odd, og ýtir vefnum til hliðar, tætir hann ekki. Nálir eru einnota. Gatarinn tekur þær ekki úr umbúðunum fyrr en allt er tilbúið, og hendir svo nálinni eftir eina notkun. Mín reynsla sýnir að göt gerð með nál eru mun sársaukaminni en þegar það er notuð byssa.
Ég veit ekki um neinn sem hefur kosið að nota týpíska byssu byrjendalokka eftir að vera stunginn með nál… En flestir kjósa skartgripi sem gefa mun meira pláss. Ég nota til dæmis alltaf skeifu-lokka í ný göt í eyrunum mínum, þá eru festingarnar hvergi nærri gatinu sjálfu, sem mér finnst stór kostur. Það er mun auðveldara að þrífa gatið og lokkinn vel, maður nær góðu aðgengi að honum.


Skartgripabúðir?
Ég veit í rauninni ekki hverjum datt það í hug að láta skartgripasala gata fólk. Mér finnst það persónulega stórskrýtið. Ég er ekki með það á hreinu hversu mikið þær læra um uppbyggingu eyrans og þess háttar, en eitthvað segir mér að það sé ekki jafn mikið og gatarar (ég kalla þessar gellur í skartgripabúðum og hárgreiðslustofum ekki gatara) þurfa að læra og vita til að fá leyfi.

Ég athugaði heimasíðuna hjá búðinni sem ég fór í vegna fyrstu gatanna minna. Þar stendur að börn undir 16 ára aldri þurfi leyfi foreldra. Spurning hvort þær hafi gleymt að uppfæra þetta eftir að sjálfræðisaldurinn breyttist… hvað, var það ekki í kringum 1996?



Smá samantekt
Byssulokkar eru ekki beittir. Nálin er beitt.
Byssulokkar tæta vefinn í sundur. Nálin ýtir honum til hliðar.
Byssan er margnota og erfitt að hreinsa. Nálin er einnota og steríl.
Byssulokkar eru þröngir, one size fits all, oft lítið pláss fyrir loft og bólgu. Eftir nál getur einstaklingur notað þann lokk sem hentar því eyra best.