Já kæru vinir mér finnst sérdeilis prýðilegt að lesa sögur annarra um þeirra reynslu af tattúum. Hér með ætla ég að fara ítarlega yfir feril minn sem húðflúraáhugamaður sem slagar í tæp 12 ár. Ég á það til að tala tæpitungulaust en vonandi hefur einhver gaman af þessu. Njótið vel!

- Sumarið 1995 gekk ég 13 ára inn á ART-tattoo stofuna á Ingólfsstræti. Hana rak gamla brýnið og goðsögn í lifanda lífi, Helgi tattoo. Ég hafði heyrt svæsnar sögur af honum og hans neyslu en við mér blasti heimilisleg stofa og afar viðkunnalegur maður. Sögusagnirnar voru ekki af rökum reistar og seinna meir lærði ég að einhverja hluta vegna þá verða húðflúrarar oft á milli tannanna á fólki. Helgi var yfirvegaður með eindæmum, konan hans hress og strákurinn hans hann Óskar oftar en ekki skoðandi verk föður síns. Þarna leið mér vel og þurfti ekki að berja í mig kjark því ég treysti Helga 100 prósent. Hann gerði á mig lítið japanskt tákn sem táknaði ILLUR eða BAD :) Maður var harður vandræðaunglingur úr Breiðholti og var nokkuð viss að þetta væri málið en var rekinn aftur tveimur vikum síðar af móður minni til að fá GÓÐUR eða GOOD við hliðina á hinu. Í framhaldi fékk ég mér nokkur lítil frá honum eða eitt lítið á handarbak, eina eðlu á ristina, eina sól á olnbogann og sporðdrekamerkið á púlsinn. Einnig fékk Óskar að gera á mig eitt stykki. Helgi var ljúfur maður sem skók senuna á sínum tíma og á mikið hrós skilið. Blessuð sé minning góðs manns, góðs tattúverara og brautryðjanda í íslensku tattúsamfélagi. Þið sem sjáið um þennan dálk á Huga mættuð endilega gera minningar-tribjút til hans!!!

- Á þessum tíma var skítkastið mikið í senunni. Maður fékk stanslausar háðsglósur fyrir að vera með tattú eftir Helga og grasið var alltaf grænna hinum megin. Ég lét tilleiðast og fór 1997 til Fjölnis og lét hann gera á hitt handarbakið japanskt tákn sem átti að þýða fjölskylda. Hann klúðraði því algjörlega og niðurstaðan sú að ég sat eftir með tákn sem ekkert þýddi. Þó fór ég aftur, fékk mér letur á bakið og ég reyndi að láta hann laga hitt sem tókst þó ekki. Enga að síður gerði hann letrið óaðfinnanlega og þegar Helgi lokaði stofunni á Ingólfsstrætinu þá hélt maður tryggð við Fjölla. Verkin sem hann gerði á mig eftir þetta var stjarna á hinn olnbogann og nafnið mitt á rúnum.

- Ég fékk mér einnig nokkur verk á ferðum mínum erlendis. Þá helst dreka á vinstri kálfann, gaddavír á hendina (úúú hvað ég hef séð eftir honum) og í seinni tíð sporðdreka í kringum sporðdrekamerkið. Hér ætla ég ekki að telja upp verkin eftir skotann Alex heldur fær hann sér klausu hér fyrir neðan.

- Á Íslandi fannst mér mikið vanta upp á senuna og þrátt fyrir mikla löngun í annað þá fann ég mér ekki rétta gæjann til að koma mínum hugmyndum á blað. Þegar þarna var komið við sögu var ég með það í huga að fá mér stærri verk og binda saman eða setja yfir gamlar syndir. Ég ræddi við marga sem staðsettir voru hér á landi en Helgi minn var kominn út til að vinna á stofu Hanky Panky í Amsterdam og Jón Páll alltof upptekinn. Ekkert gekk og leitaði ég logandi ljósi að mönnum sem ég treysti. Óreglan á einni stofunni sem ég vildi helst gera þetta á var mikil og eftir að hafa verið svikinn með tíma í þrjú skipti játaði ég mig sigraðann.

- Það var ekki fyrr en Jón Páll og Búri opnuðu stofu að ég fór niður eftir og ætlaði að bóka tíma hjá Jóni Páli og var í raun sama um biðtíma. Jón Páll var ekki við og eftir að hafa spjallað heillengi við Búra fann ég að þessi maður var svipað þenkjandi og ég. Hann var með brennandi áhuga, þekkti þá listamenn sem ég var að stelpa hugmyndum og stílbrögðum frá og varð það til þess að ég lét slag standa. Nú 30 klst síðar í suði og nálarstungum er ég loks fullkomlega sáttur við flúrin mín. Hann er búinn að binda vinstri hendina mína saman með slívi sem nær frá kjúkum upp á öxl. Við eigum þó eftir eins og 1-2 session til að klára að fylla inn í og lita. Án efa finnst mér Búri vera fagmaður fram í fingurgómana, hann er rólyndismaður með metnaðinn í lagi og tekur vel á móti pælingum mínum. Við höfum gert karaktera úr smiðjum Marvel ásamt Valkyrju og sjóræningjastelpu yfir gamla messið eftir Fjölla. Mig rak þó í rogastans þegar ég áttaði mig á því að Búri er ekki með fordóma fyrir öðrum tattúverurum eins og flestir sem ég hafði talað við. Hann talar vel um þá og leiðbeindi mér hvert ég ætti að fara þegar ég sagðist vilja prófa aðra listamenn líka. Hann sagði mér að fara til Svans, Jón Þórs eða skotans Alex sem kemur reglulega til landsins og flúrar á stofunni hans Svans.

- Vitaskuld tók ég hann á orðinu og flaug til Kaupmannahafnar og tók eitt session hjá skotanum knáa. Þar gerði hann á mig útlínur og shade á stórum japönskum KOI fisk sem við kláruðum svo hérna heima. Sá maður er “traditional japanese lover” og notaðist hann ekkert við stensla heldur teiknaði hann á mig fríhendis. Hann er þrjóskur og þver en listamaður fram í fingurgómana og án efa sá besti sem ég hef fengið mér frá. Þegar tattúráðstefnan var hér síðasta sumar fór ég á Ellefuna á miðvikudeginum þegar ráðstefnan var sett og hitti hann þar. Við ræddum saman yfir einum bjór hvað ég vildi fá frá honum næst og svo skildu leiðir. Ellefu klukkustundum síðar mætti ég á Glaumbar til að fá mér rós frá Búra en þar er Alex kófsveittur við að teikna ósk mína og reif mig í stólinn. Þar fékk ég stóran japanskan samúræjadjöful sem var kostaður með yfirdrætti frá KB-Banka :) Viti menn verkið vann til verðlauna fyrir besta verk ráðstefnunnar og sýni ég það stoltur við öll tækifæri…

- Ég er hvergi nándar hættur heldur á tíma hjá Búra á miðvikudaginn til að fylla inn í slívið. Síðast en alls ekki síst þá er loks komið að því að ég fari til Jóns Páls eftir áralanga bið og ætlar hann að gera á mig kolkrabba í japönskum stíl við samúræjann.

- Maður er ekki í rónni yfir þessu brölti á manni og er þetta svo sannarlega orðið meira en áhugamál. Þetta er lífstíll sem ég tem mér og sjáum svo hvað framtíðin ber í skauti sér. Mig langar í verk eftir fjölmarga erlenda listamenn en hjá flestum er langur biðlisti en má þar nefna: Uncle Allan (Danmörk), Colin Dale (Danmörk), Nick Baxter (USA), Joe Capobianco (USA), Tony Ciavarro (USA), Matthew “Poohki” Ward (USA), Henning Jorgensen (Danmörk), Chris Garver (USA), Boris (Ungverjaland), RANA (Svíþjóð), Sid Siamese (Svíþjóð), Chris O'Donnel (USA), Kevin Le Blanc (USA) og Kat Von D (USA)…

En það er bara óskhyggja en maður má nú lifa í draumnum!
______________________________________