Mín reynsla af húðflúrum og götum Frá því ég var lítil þá hefur þessi lífsstíll alltaf heillað mig mikið. Pabbi er með gamalt sjóaratattoo sem ég dáðist alltaf af þegar ég var yngri en þegar ég var 12 ára byrjaði þetta eiginlega fyrir alvöru. Ég fór að passa fyrir stelpu sem var með mörg tattoo og piercing og má í raun segja að hún sé “idolið mitt” þegar kemur að flúrum og líkamsgötum ;)

Ég fékk fyrstu 2 götin í eyrun þegar ég var lítil. Veit ekki nákvæmlega hvenær en ætli það hafi ekki verið um 6-8 ára aldurinn.. Þau voru gerð á hárgreiðslustofu í Mjóddinni. Smám saman fór ég að bæta við mig götum í eyrun og þegar ég var 12 ára var ég komin með 7 göt í eyrun, þrjú sitthvoru megin í eyrnasneplunum og svo eitt í helix sem ég fékk á einu uppreisnartímabilinu mínu 12 ára :) Öll þessi göt voru gerð með byssu á sömu hárgreiðslustofu í Mjóddinni.
Á þessum tímapunkti var ég farin að suða um gat í tunguna en mamma og pabbi tóku það ekki í mál.. Gat í tunguna á þessu tímabili var ekki mjög þekkt og foreldrar mínir vissu ekkert um svona göt! Ég suðaði á hverjum degi nánast í ár og á endanum gaf mamma mér hið langþráða leyfi. En það var í apríl 2000. Daginn eftir fermingu fór ég niður á Art tattoo á Þingholtsstræti sem Helgi tattoo rak (blessuð sé minning hans) og þar tók Jón Þór flúrari á móti mér og gerði þetta fínasta gat í tunguna á mér! Því miður fékk ég einhverja væga sýkingu en það kom ekki til greina að taka lokkinn úr svo ég þraukaði 2 vikur af verkjum og bólgu en á endanum lagaðist þetta bara og í dag næstum 7 árum seinna er ég ennþá með þetta gat :) Ef ég tek lokkinn úr þá finnst mér vanta á mig putta eða e-ð álíka!
Þegar ég var á stofunni að bíða eftir að Jón Þór gerði allt klárt sá ég mynd af salamöndru uppi á vegg og ég var alveg staðráðin í að fá mér þessa eðlu sem tattoo!

Sirka 2 mánuðum seinna fékk ég mitt fyrsta tattoo.. Sá auglýsingu í sjónvarpinu um jurtatattoo, sagði mömmu frá henni og hún ákvað að leyfa mér að fá mér jurtatattoo svo lengi sem ég borgaði þetta sjálf. Þetta átti náttúrlega að fara af og það var í þeim tilgangi sem mamma leyfði mér þetta! Ég fór á Heilsudrekann, valdi mér kínatákn sem merkir “Kona” og því var skellt á milli herðablaðanna á mér! Tók frekar langan tíma en annars man ég lítið eftir þessu þar sem spennan var alveg í hámarki.. 6 og hálfu ári seinna sit ég uppi með þetta ljóta gráa tattoo sem byrjaði að grána 6 mánuðum eftir að ég lét setja það á mig.. Ég ætla að láta breyta þessu við fyrsta tækifæri því þetta er ekkert á leiðinni að hverfa héðan af svo afhverju ekki að gera e-ð flott cover up úr þessu?

Kínatáknið

Í september eða október sama ár (2000) fékk ég leyfi frá mömmu um að fá mitt fyrsta alvöru tattoo! Ég fór aftur á Art tattoo með skriflegt leyfi frá mömmu og sagði við Helga að ég ætlaði að fá mér eðluna á veggnum!! Helgi gerði allt tilbúið og byrjaði svo að flúra mig… Eðlan er staðsett á innanverðum hægri handlegg (hjá púlsinum) og er rosa sæt! ;) Þetta var nú ekki eins slæmur staður og ég hélt en þetta tók heldur ekkert svo langan tíma.

Eðlan

Nokkrum mánuðum seinna hélt ég áfram að suða í mömmu og í þetta skiptið um gat í augabrúnina! Mamma hélt nú ekki og stóð alveg föst á því… Þetta væri komið nóg!
Ég tók ekki nei fyrir svar og fór inná bað með vinkonu minni með títupjón og lokk og stakk þessu í nefið á mér! (ég þorði ekki að gera sjálf í augabrúnina) .. Ég var tæpa 3 tíma að koma títuprjóninum í gegn enda gerði ég þetta allt saman mjög hægt! Hehe ;) En þetta hafðist á endanum og var ég með lítinn demant í þessu í smá tíma áður en ég setti hring. Mamma var nú ekki sátt við að ég hefði gert þetta á bakvið hana en fannst þetta samt sem áður sætt gat… Ég hélt samt áfram að suða um meiri göt ( mikið rosalega var ég leiðinlegur unglingur) og ennþá var ég hörð á því að fá mér gat í augabrúnina. Ennþá fékk ég nei frá mömmu og aftur tók ég það ekki gilt og bað vin minn að gera gatið sem og hann gerði í október 2001 inni í sjoppu í Breiðholti!! Mamma varð eins og ég bjóst við alveg brjáluð en aldrei tók ég lokkinn úr.

12. mars 2002 fór ég til Sverris tattoo í þeim tilgangi að fá mér gat í vörina.. Ég kom út með nýja lokka í eyrunum og 1 stykki tattoo sem hann skellti á bakið á mér! Þetta er pegasusinn sem ég er með á vinstra herðablaðinu.. Sverrir sýndi mér einhverjar myndir í möppu sem hann var með og ég sá þennan hest og varð ástfangin! Ákvörðunina tók ég á 5 mínútum og ég sé ekki eftir þessu í dag enda mjög fallegt flúr! Mamma komst ekki að þessu fyrr en 8 mánuðum seinna en þá þurfti ég að fara og láta fylla inn í á nokkrum stöðum sem hafði kroppast úr.. Hún leyfði mér að fá mér tattoo en bara lítið.. Ég fór og lét laga, kom svo heim og sýndi henni tattooið sem var augljóslega ekki nýtt en hún fattaði ekki neitt og sagði að þetta væri mjög sætt¨:) I know, ég er mjög nasty en hún veit allt um þetta í dag og við hlægjum bara að þessu! ;)
Stuttu seinna fékk ég mér gat í vörina. Það var gert með nál og tók fljótt af. Ég fann nánast ekkert fyrir því og það gréri mjög fljótlega.

Pegasus

Á þessum tímapunkti var ég með 3 sjáanleg göt í andliti: Hring í nefinu, pinna í augabrúninni og pinna í vörinni.. Mér fannst þetta of mikið og tók pinnann úr augabrúninni og hringinn í nefinu úr.

Tæpu ári seinna fór ég aftur til Sverris og í þetta skiptið fékk ég mér industrial í hægra eyrað og Sverrir teiknaði tribalmunstur í kringum eðluna mína með penna bara til þess að prófa. Mér leist svo vel á að ég lét hann fara ofan í þetta með nál og bleki… Aftur kom ég út með tattoo sem var ekki planað :) Tribal sem er með svörtu og rauðu bleki. Hann lagaði einnig eðluna smávegis, bætti við hana tungu og skerpti allar línur.
Industrial gatið var lengi að gróa! Ég lá alltaf á þessu eyra þegar ég svaf og það var sífelld erting á þessu svæði.. Svæðið var alltaf rautt og heitt og við minnstu snertingu fann ég fyrir miklum sársauka! Ég gafst ekki upp og tæpu ári seinna lagaðist þetta og ég hef ekki fundið fyrir þessu síðan :)

Stuttu seinna tók ég pinnann úr vörinni því hann var farinn að eyða tannholdinu hjá mér.

Sumarið 2003 langaði mig í genital piercing og ákváðum við kærastinn minn að hann myndi gera það þar sem ég hafði engan áhuga á að láta einhvern ókunnugan gera það.. Ég bjóst nú ekki við því að ég myndi þora þessu en ég gerði það nú samt! Við fórum í apótek, keyptum allt sem þurfti og svo fórum við heim þar sem hann stakk gat… Ég fann engan sársauka þegar nálin fór í gegn en fann aðeins fyrir þegar hann reyndi að troða lokknum í sem gekk ekki í fyrstu! Það blæddi svolítið mikið en þetta hafðist og hef ég aldrei fundið fyrir þessu gati samanber sársauka eða óþægindi. Aðeins pleasure ;)

Genital piercing

Í júlí 2004 fórum ég og kærastinn minn saman til Sverris og fengum okkur sitthvoran drekann sem kærastinn minn teiknaði eftir fyrirmynd Paul Kidby í einni Terry Pratchett bók. Drekinn minn er staðsettur á innanverðum vinstri handlegg og er jafnlangur og eðlan/tribalið á hinum handleggnum þannig að það myndast svolítið samræmi í þessu á mér. Það tók Sverri 40 mínútur að flúra drekann og er hann alveg snilldarlega vel gerður. Mér þykir mjög vænt um þennan dreka.. Ég var lengi búin að vera að finna hinn fullkomna dreka og fann hann þegar kærastinn minn sýndi mér það sem hann hafði teiknað.

Drekinn

Í nóvember 2005 lét ég flúra rúnaarmbönd í kringum báða úlnliðina mína! Fullt nafnið mitt í kringum þann vinstri og fullt nafn kærastans mína í kringum þann hægri. Það má líta á þetta sem einskonar óformlega trúlofun þar sem kærastinn minn er einnig með nafnið mitt flúrað á sig í sama rúnaletri. :)

Rúnirnar

Í janúar 2006 fékk ég mér aftur gat í nefið og í þetta skipti lét ég Sverri gera það með stórri nál en ekki tiny títuprjón ;) Ég manaði vinkonu mína upp í þetta og ég ætlaði upphaflega að fá mér gat til hliðar í vörina! Ég hætti við á seinustu stundu og ákvað að fá mér hring í nefið aftur! ;)

Í júní 2006 var haldin tattoo ráðstefna hér á landi og fékk mér eitt stykki tattoo þar. Ég lét víkinginn Colin Dale flúra á mig traditional víkingadreka ofan á hægri ristina á mér… Þetta var allsvakalega vont og án efa sá allra versti staður sem ég hef fengið flúr á!! En drekinn er mjög sætur og er ég mjög ánægð með hann. Colin teiknaði hann fríhendis á mig með penna fyrst og svo nokkrum mínútum síðar fór hann ofan í með nál og bleki. Aftur kom ég út með tattoo sem var ákveðið á staðnum! :) Ég hefði viljað fá mér fleiri tattoo þarna og prófa þá alla þessa útlensku flúrara en ég var bara ekki með svo mikinn pening þannig það verður að bíða betri tíma! Kannski á næsta ári bara ;)

Víkingadrekinn

Í ágúst byrjaði ég að teygja vinstri eyrnasnepilinn minn aftur (ég hafði byrjað áður en hætt svo). Ég teygði sjálf upp í 8mm en áttaði mig svo á því að tunnelið mitt var 10mm. Ég fór því til Sessu og hún gerðist svo góð að teygja þessa 2mm fyrir mig en það fór því miður ekki vel, eyrnasnepillinn rifnaði, ég fékk væga sýkingu en aftur gafst ég ekki upp og var bara dugleg að hreinsa og þetta lagaðist eftir einhvern tíma.. Ég teygði svo hægri eyrnasnepilinn minn alveg sjálf og er ég núna með 10mm tunnel í báðum eyrum.

Tunnel

Svo í október byrjuðum við Sverrir á half sleevinu mínu:
Session 1
Session 2
Session 3

Ég er alls ekki búin að skreyta mig og á ég marga staði eftir! Mig langar að prufa að láta fleiri menn flúra mig og þá sérstaklega þessa útlensku sem vonandi koma hingað einu sinni á ári ef tattoo ráðstefnan verður að árlegum viðburði…. Gaman að prufa e-ð nýtt..

Mamma er alveg hætt að pirra sig á þessu brjálæði í mér og finnst þetta eiginlega bara flott.. Þetta er ákveðinn lífsstíll sem ég lifi og það er ég sem tek ákvörðun um hvernig ég lifi lífinu. Þetta er það sem ég hef mest gaman af og nýt þess í botn að fá mér tattoo! Fólk verður bara að sætta sig við mig eins og ég er ;)

Afsakið lengdina á þessari grein og vonandi höfðuð þið gaman af :)

Kv. PraiseTheLeaf