Tunnel Hvað er flesh tunnel?

Einfaldasta útskýringin á “flesh tunnel” er gat á líkamanum, t.d. í eyrnasnepli sem þú eða einhver annar teygir/strekkir/skerð og setur svo tunnel lokk í svo hægt sé að sjá í gegnum það. Oft er talað um “large gauge jewelery” í sambandi við tunnel sem vísar í raun til þykktarinnar á lokknum sem er notaður. Því minni sem “gauge” er því þykkari er lokkurinn. Hér á Íslandi tölum við oftast um tunnelin í millímetrum og hér koma helstu þýðingar á “gauge” yfir í mm.

18 gauge = 1,02 mm
16 gauge = 1,29 mm
14 gauge = 1,62 mm
12 gauge = 2,05 mm
10 gauge = 2,58 mm
8 gauge = 3,26 mm
6 gauge = 4,11 mm
4 gauge = 5,18 mm
2 gauge = 6,55 mm
0 gauge = 8,25 mm
00 gauge = 9,5 mm

Einnig er hægt að nota svokölluð plugs en það er ekki hægt að sjá í gegnum þau. Fólk kýs oft frekar að nota tunnelin í staðinn fyrir plugs vegna þess að þau eru ekki eins þung. Því stærri því þyngra og þegar fólk er með stórar og miklar teygingar þá er það oftast með tunnel.

Tunnel eru fáanleg úr mörgum gerðum og efnum, svosem læknastáli, titanium, gleri, sílíkoni, acryl plasti og mörgum náttúrulegum efnum eins og timbri, beini, bambus, steinum og trjákvoðu svo e-ð sé nefnt.

Dæmi eru um að fólk sé að teygja tungugöt, nasavængi, miðnes, geirvörtur og fleira en langalgengast er að fólk teygi eyrnasnepla og eru vinsældir þess sífellt að aukast. Hér tala ég um teygingu á eyrnasneplum þó að þetta gagnist ábyggilega fyrir annað líka.

Til eru nokkrar aðferðir til þess að teygja göt. Sem dæmi má nefna er hægt að nota svokallaða tapers og svo eru sumar stofur sem bjóða upp á að skera bút úr eyrnasneplinum eða þvinga einhversskonar þykkum stöngum í gegn til að búa til gat á stuttum tíma. Ég nota tapers til að búa til mín tunnel og ég tel það vera góða og örugga aðferð. Ég ræð algjörlega sjálf ferðinni og svo er bara skemmtilegra að fá að gera þetta sjálfur ;) Því ætla ég í þessari grein að tala um “tapers” aðferðina því það er sú aðferð sem ég hef bestu reynsluna af. Eins og með grein sem ég skrifaði hér í denn um “Umhirðu líkamsgata” þá er þetta eingöngu mín skoðun og mín reynsla svo ég afþakka öll skítköst. :) Ég veit að þetta er ekki eina aðferðin, ég veit líka að ekki allir eru hlynntir þessu og ég veit líka að sumir hér lofsyngja hina og þessa í sambandi við göt en skoðanir manna eru misjafnar eins og við erum mörg og þetta er besta aðferðin að mínu mati og ég veit að það eru margir sammála mér..

Tapers eru tegund af lokkum sem líta oft út eins og horn og eru þau til í mörgum gerðum og stærðum. Tapers eru oftast mjó neðst og verða svo alltaf þykkari og þykkari. Hér er dæmi um tapers og þetta er nákvæmlega það sem ég er að nota ..
Þessir eru gerðir úr acryl. Á báðum endum eru teygjur gerðar annaðhvort úr latexi eða sílikoni sem halda þessu í eyranu. Það er líka hægt að nota svona litlar tannlæknateygjur sem fást í apóteki ef hinar eru ekki að virka. Tapers eru alltaf hafðir í eyranu alveg þangað til sú stærð sem þú vilt hafa er komin og þangað til þú setur tunnel eða plug í það.

Til þess að byrja að teygja eyrnasnepilinn verður að hafa venjulegt gat í eyrnasneplinum áður. Ef það er ekki þá liggur það í augum uppi að þú þarft að láta búa það til. Það gerirðu með því að fara á stofu og láta stinga með nál, það er allavega sú aðferð sem ég mæli með. Ef gatið er komið þá byrjarðu á því að kaupa allt sem þarf í þetta teygingarferli: Tapers, tunnel/plug sem þú ætlar að vera með þegar þú ert búin/n að teygja og svo er gott að hafa e-ð krem eða áburð svo eyrað verði sleipara. Ég nota Tea Tree oil body lotion og/eða sturtusápu. Það er náttúrulegt og hefur reynst mér vel. Ég nota sturtusápuna þegar ég er í sturtu og ég nudda eyrnasnepilinn með henni ásamt heitu vatni áður en ég ýti tapers lengra inn. Eyrað verður mýkra og sleipara við þetta. Þegar ég er ekki í sturtu þá nota ég body lotion alveg eins nema ekkert heitt vatn þá. Það er eflaust hægt að nota hvað sem er svo lengi sem það ertir ekki húðina. Svo eru sumir sem nota ekkert til að hjálpa til við en þá eykst hættan á að eyrnasnepillinn rifni.

Ekki er mælt með að teygja mikið í hvert skipti og hef ég heyrt að 1-2 mm á viku sé í það mesta. En auðvitað er það einstaklingsbundið og fólk finnur oftast sjálft hvað það getur teygt mikið. Þetta á ekki að vera vont svo ef og þegar þú byrjar að finna e-ð til þá er gott að hætta að teygja í það skipti.

Þessi aðferð krefst mikillar þolinmæði en í mínu tilfelli er þetta algjörlega sársaukalaus aðferð og því mæli ég með henni. Það er kannski ekkert flott að vera með svona risa tapers í eyranu á meðan þú ert að teygja en það er alveg þess virði þegar teygingarferlið er búið og þú ert komið með flott tunnel/plug í eyrað ;)

Myndin sýnir eyrað á mér eins og það er núna en ég er að teygja hægra eyrnasnepilinn í 10mm núna…

Gangi ykkur vel og vonandi kom þetta að einhverju gagni ;)

Kv. PraiseTheLeaf