Ég tók saman nokkrar algengar spurningar um húðflúr og svaraði þeim eftir að ég var búin að lesa mig til á netinu víðar.. Vonandi kemur þetta ykkur að góðum notum og endilega bætið við ef ykkur finnst vanta e-ð. Ég mun svo halda áfram að lesa mig til og spurjast fyrir og kem því væntanlega með fleiri svona greinar á næstunni :)

Hvað þarf maður að vera gamall til að mega fá sér húðflúr?
Þú þarft að verða orðin/n 18 ára til að geta fengið húðflúr. En með leyfi foreldra/forráðamanna þá máttu fá þér húðflúr ef þú ert ekki orðin/n 18 ára. Þau verða annaðhvort að koma með þér á staðinn eða skrifa leyfisbréf með símanúmeri á svo flúrarinn geti hringt og fengið leyfið staðfest.

Get ég ekki bara hellt mig fulla/n svo ég finni ekki sársauka?
Nei. Áfengi og önnur vímuefni þynna blóðið og það verður erfitt fyrir blekið að fara inn í skinnið og haldast þar. Einnig er ekki leyfilegt að koma undir áhrifum áfengis og/eða annarra vímuefna. Þér verður neitað um þjónustu.

Er vont að fá sér húðflúr?
Já það er vont. Hversu mikill sársaukinn er fer eftir hvar á líkamanum er verið að flúra en eftir nokkrar mínútur ertu oftast farin/n að venjast sársaukanum.

Er dýrt að fá sér húðflúr?
Það er allavegana ekki ódýrt að fá sér húðflúr. Startgjaldið á flestum stofum hér á Íslandi er á bilinu 5-6 þúsund krónur. En heildarverðið fer algjörlega eftir stærð húðflúrsins, hversu flókið það er og hversu langan tíma það tekur að gera það. En mundu að húðflúr verður á þér það sem eftir er ævinnar svo kostnaðurinn ætti ekki að skipta öllu heldur gæðin. Best er að spjalla bara við viðkomandi flúrara og fá endanlegt verð. Annaðhvort með því að gera sér ferð á tattoostofuna eða senda email.

Hvernig veit ég að flúrarinn sé í lagi? (virtur, góður o.s.frv.)
Spurðu fólk sem hefur reynslu af viðkomandi. Fáðu að sjá húðflúr eftir hann og skoðaðu einnig ljósmyndir sem flúrarinn hefur tekið af verkum sínum. (flestar tattoo-stofur eiga svoleiðis til að sýna almenningi) Á stofunni sjálfri eiga að vera sýnileg leyfisbréf. Ef þú sérð þau ekki biddu þá um að fá að sjá svoleiðis.

Hvað tekur langan tíma fyrir húðflúr að gróa?
Oftast í kringum 2 vikur.

Hvernig sé ég um nýtt húðflúr?
Þú færð leiðbeiningar um umhirðu nýs húðflúrs á stofunni sem þú ferð á og leiðbeiningarnar eru misjafnar eftir hverjum stað. Farðu eftir leiðbeiningunum sem þú færð eða eftir þeim aðferðum sem fólk mælir með.

Er hægt að fá sýkingu í húðflúr?
Það er hægt að fá sýkingu í húðflúr já, en það er afar sjaldgæft. Ef nálar, græjur og annað sem er notað til að gera húðflúrið er ekki sótthreinsað/dauðhreinsað þá gætirðu fengið sýkingu. Eftir að þú ferð út af stofunni þá er það algjörlega í þínum höndum að sjá um að það verði hreint o.s.frv. Mikilvægt er að halda húðflúrinu hreinu, bara eins og öllum öðrum sárum sem þú færð. Sumar stofur mæla með að þú berir krem (sótthreinsandi) á nýtt húðflúr á meðan það er að gróa, aðrar ekki. Farðu algjörlega eftir öllum leiðbeiningum um umhirðu nýs húðflúrs og þá ættirðu að vera örugg/ur um að fá ekki sýkingu.

Geta húðflúr upplitast?
Já þau geta gert það og þá aðallega í sól. Daufir litir upplitast frekar (hvítur, gulur, ljósblár o.s.frv.). Gæði litanna sem eru notaðir skipta líka máli, því betri því minni líkur á að húðflúrið upplitist.

Er hægt að láta fjarlægja húðflúr?
Já það er hægt með laseraðgerð. Hinsvegar kostar svona aðgerð miklu meira en húðflúrið sjálft og svona laseraðgerð skilur oftast eftir sig einhver ör.

Er hægt að nota húðlitaða liti til að fela húðflúr í staðinn fyrir að fara í laseraðgerð?
Svarið er einfaldlega nei. Ljósir litir geta ekki hulið dökka liti.

Ef ég léttist eða þyngist, hefur það einhver áhrif á húðflúrið mitt?
Ekki alltaf. Húðin hefur mikinn teygjanleika sem venjulega aðlagast breytingum í húðinni. Konur sem verða óléttar og eru með húðflúr á því svæði sem að maginn stækkar mest, eiga í hættu á að húðflúrið skemmist. En þó eru ekki allar sem lenda í því að það skemmist. Oft lagast húðflúr aftur eftir að þær eru búnar að fæða og maginn kominn í sitt eðlilega horf aftur.
Fólk sem lyftir mikið og er að reyna að fá stærri vöðva (t.d. á upphandlegg) eru ekki í hættu á að það skemmist. En það getur hinsvegar litið út fyrir að vera minna eftir því sem vöðvarnir stækka meira.

Er hægt að breyta húðflúrum? (cover-up)
Já það er hægt en getur verið erfitt ef að myndin sem á að breyta er flókin eða það á að setja flókna mynd yfir. Venjulega þarf nýja myndin að vera stærri og dekkri, en góð “cover-up” eru ekki bara þéttur, svartur ferningur. En aðeins dökkir litir geta hulið. Þú getur semsagt ekki látið breyta svörtu húðflúri í hvítt.