Mamma14 sendi inn þessa spurningu:

Þegar maður er bitin af varúlfi breytist maður þá samstundis í varúlf?

Þrátt fyrir mikla leit, hefur mér ekki tekist að finna nein afgerandi svör um þetta, en tel mig þó geta svarað þessu upp að einhverju marki.
Þjóðsagan um varúlfa er þekkt í flestum heimshlutum, en sú útgáfa af henni sem Rowling byggir sína varúlfa á, er tilkomin frá Grikklandi hinu forna eins og svo margt annað í bókaflokkinum. Ég ætla þó ekki að fara mikið dýpra í þjóðsöguna, en samkvæmt henni var fyrsti varúlfurinn konungurinn Lycaon, sem reyndi með barnsfórn að vinna sér hylli Seifs. Seifur reiddist og breytti honum í úlf, og er þaðan komið orðið lycanthropy.
Það fer svolítið eftir heimshornum hverjar leiðirnar eru til að gerast varúlfur, en sú þekktasta, og einnig sú sem Rowling notar, er að vera bitinn af öðrum varúlfi í úlfsforminu sínu (maður s.s. breytist ekki í varúlf ef maður er bitinn þegar það er ekki fullt tungl). Samkvæmt bókunum, lifa fæstir af varúlfsárás, en þeir sem gera það, eru líklega það alvarlega slasaðir eftirá að ef þeir breytast strax, eru þeir að öllum líkindum frekar meinlausir vegna áverka sinna. Það er í eðli varúlfa að leita uppi og drepa menn, það eru því líklega algjörar undantekningar sem lifa af.
Ég myndi halda því fram, án þess að hafa afgerandi rök eða sannanir fyrir því, að maður bitinn af varúlfi á fullu tungli sé of alvarlega slasaður eftirá til að breytast strax. Gefum okkur líka að í bitinu sé nokkurskonar eitur sem þarf tíma til að dreifast um líkamann, svo viðkomandi breytist ekki fyrr en á næsta fulla tungli.
En ég endurtek, þetta eru að mestu getgátur af minni hálfu, byggðar á því sem ég er búin að lesa mér til um.
Vona að þetta komi að einhverjum notum.
Svana
Kveðja,