Persóna mánaðarins að þessu sinni er hinn margumtalaði Aberforth Dumbledore, sem af hagkvæmni ástæðum við skulum einfaldlega kalla Abe.
Abe er ein umtalaðasta persónan úr bókunum um þessar mundir, einkum vegna þess að margir ef ekki flestir telja hann vera með hálsmenið sem aftur, margir, ef ekki flestir telja vera einn helkrossinn. Hinsvegar vitum við lítið um þennan dularfulla en mikilvæga karakter sem drottning vor, J.K. Rowling hefur fært okkur úr smiðju ímyndunarafls síns.
Þessi persóna mánaðarins verður því með eilítið öðru sniði þar sem staðreyndir og tímalína er ekki fyrir hendi (Nema í afar litlu mæli). Ég vona því að þið fyrirgefið mér fyrir ályktanirnar sem ég dreg í þessari grein og hvet ykkur til þess að svara greininni ef það eru einhver atriði sem þið eruð ósammála.

Það sem við vitum: ályktanir og staðreyndir

Staðreyndirnar um Abe eru eins og áður segir óljósar og fáar sérstaklega þar sem Albus talar nær aldrei um bróður sinn.
Við vitum að hann komst í vandræði fyrir óviðeigandi galdra á geit, og það að hann sé barþjónninn á Glaða villigeltinum. Það mikilvægasta sem við vitum er að hann var, og að öllum líkindum er, meðlimur Fönix reglunnar. Einnig telst líklegast að hann hafi stöðugt verið að sinni leynilegum verkefnum fyrir regluna því í eina skiptið sem fólk minnist hans er við myndatökuna á hinni frægu mynd.
En þá flækist málið. Við vitum það ekki fyrir víst að hann hafi verið að sinna verkefnum fyrir regluna, við drögum bara þá ályktun að hann hafi verið það því enginn minnist á hann eða vissi hvað hann gerði. Af hverju þessi leynd? Af hverju í hinu tiltölulega smáa galdra samfélagi lítur út fyrir að Albus hafi skammast sín fyrir bróður sinn?
Því hefur verið fleygt fram að ef til vill séu þeir hálf, eða stjúpbræður og þeim hafi aldrei líkað við hvorn annan. Það vekur aðra spurningu. Eru skilnaðir í galdra samfélaginu? Giftast galdramenn og nornir aftur eftir brottfall maka sinna? Er hjónaband galdramanna órjúfanleg heit? Ómögulegt að segja, en a hvorn veginn sem er tel ég það ekki líklega skýringu. Ég endurtek, það eina sem við vitum um Abe er að vitum ósköp lítið, þótt við viljum öll vita meira (og ég tel meira en líklegt að J.K. láti það eftir okkur).

Það er erfitt að vera Aberforth

Það hlýtur að hafa verið ótrúlega erfitt að vera Abe, litli bróðir hins mikla Albus Dumbledors. Robin Williams gerði frábært uppistand þar sem hann lýsir því hversu erfitt það væri að vera Jakob, litli bróðir Jesú. Eftir að lesa bækurnar hlýtur maður að komast að þerri niðurstöðu að það sama eigi við um Abe. Bróðir hans er talinn, af nánast öllum, vera öflugasti galdramaður síns tíma, ef ekki allra tíma (ef til vill með undantekningum fyrir Merlin og Godric Gryffindor). Frægðarljómi hans skín skært, afrekin mörg og mikil og hæfileikarnir óneitanlegir. Og hver ert þú? Barþjónn! Getið þið ímyndað ykkur hvernig það hefur verið fyrir Abe að fara í Hogwarts á eftir bróður sínum? Allir kennarar og eldri nemendur hljóta að hafa sagt;
”Í Merlins nafni, þú ert bróðir hans Albusar Dumbledors, þú verður pott þétt magnaður galdramaður.”
Engin smá pressa að reyna að lifa undir nafni bróður síns. Sálarkvölin sem hefur fylgt, þegar af augljósum ástæðum hann brást vonum allra þessara ókunnugu manneskja, því hann gat ómögulega lifað undir nafni Albusar, hlýtur að hafa verið mikil. Þá er ég ekki að hann hafi ekki verið jafn öflugur galdramaður, því um það vitum við ekkert. Heldur það að hann hljóti að hafa þjáðst af svolitlu Neville heilkenni með slettu af Weasley aðstæðum. Sífellt verið að bera þig saman við fjölskyldumeðlim, “af hverju ert þú ekki jafn fær og bróðir þinn” og þess háttar spurningar. Það eina sem gæti skapað meiri sálarflækju fyrir aumingja Abe er það ef hann skyldi hafa verið eldri bróðir Albusar (við höfum ekki fengið upplýsingar um það hvor sé eldri). Þá hafa allir verið að segja, “litli bróðir þinn er magnaður, hann er nú þegar öflugri en þú,” “hann er betri en þú,” “sjáðu allt sem hann hefur afrekað, hvað hefur þú gert?” “Af hverju ert þú ekki jafn góðu og litli bróðir þinn?” Aumingja maðurinn hlýtur þá að hafa þjáðst af meiriháttar minnimáttarkennd (sem gæti útskýrt geitar atvikið).
Mikilvæg vísbending frá kvikmyndunum: Þeir munu sína Abe í fimmtu myndinni (leikinn af Jim McManus), þar sem hann er barþjónninn, svo ekki sé mynnst á atriðið í þankalauginni þar sem hann fylgir, þá ungum FKSEVNÁN (“Fyrrum kennari sem ekki verður nefndur á nafn”) út af barnum þegar hann heyrir fyrir slysni spádóminn? (við vitum ekki hversu mikið hann mun sjást). Hann kemur svo aftur fyrir í sjöttu bókinni í jarðaförinni. Hægt er að sleppa báðum atriðum til þess að spara tíma (sem þeir hafa óhikað gert við gerð myndanna) en þar sem hann kemur fram er það sterk vísbending um það að Abe muni koma meira við sögu í sjöundu bókinni því J.K. hefur alltaf samráð við handritshöfundana um það hvað þurfi að vera inni.

Hvað ég tel að sé í vændum

Þetta er mjög stutt yfirferð á persónu mánaðarins, því enn og aftur, það eru svo litlar upplýsingar um hann. En ástæða þess að ég tel nauðsynlegt að taka hann fyrir er sú að eftir um það bil eitt ár kemur út bók sjö, síðasta bókin í seríunni (tár lekur hægt niður vangann) og ég vill að allir séu meðvitaðir um Abe, því að mínu mati mun hann gegna lykilhlutverki í loka bókinni. Ég vona að ekki aðeins verði hann viðstaddur í loka uppgjörinu heldur fáum við smá vestra stemmingu og hann komi þarna til þess að hefna bróður síns með því að drepa FKSEVNÁN. Margir aðdáendur vilja sjá Harry drepa hann, og efast ég ekki um að það er fátt sem Harry vill meira þessa stundina. En hefnd er frátekin fyrir þá sem eiga hana hvað mest skilið, annað er ekki sanngjarnt. Þannig að fyrir mér þá verður Lupin að drepa Grábak, Neville að drepa Bellatrix, Harry að drepa Voldemort og Abe að drepa FKSEVNÁN.

Persónugerð Abe

Hver er Abeforth Dumbledore? Eins og ég hef gert ljóst hef ég ekki hugmynd… Hinsvegar er ég mikill aðdáandi vangaveltna. Þannig að ég leyfi mér að geta mér til um hvað leynist í hugarheimi J.K.
Með það í huga hvernig Albus Dumbledore er og notum það sem beinagrind (við vitum nú þegar að þeir líta mjög líkt út), getum við reynt að geta okkur til um hvernig Abe er. Við vitum að Albus er svona eins og svali, gamli afinn, þá vill ég gefa mér það að Abe hafi eitthvað af hinni margfrægu kímni Albusar. Hinsvegar var Albus alltaf í efstu lögum galdrasamfélagsins. Sú staða og virðing sem hann hélt þar gerði það að verkum að hann þurfti mikla fágun og nærgætni í því sem hann sagði eða gerði. Albus var lítið fyrir það að láta fara mikið sér og kaus að vera í bakgrunninum, við sjáum það vel í öllu tilstandinu í kringum Umbridge: takið eftir að hann kom aldrei hreint fram og sagði hvað honum fannst um Umbridge eða ráðuneytið fyrr en leiðir skildu.
Það þarf hinsvegar ekki að eiga við um Abe. Ég tel hann hafa sömu vitrænu hæfileika (kannski ekki í alveg jafn miklu mæli), en að á hinn bóginn þarf hann ekki að sýnast fyrir neinum og gjörðir hans hafa ekki sömu víðtæku afleiðingar eins og gjörðir Albusar óhjákvæmilega höfðu.
Ég tel því að í sjöundu bókinni munum við sjá að Abe er eins og óritskoðuð útgáfa af Albusi. Hann er barþjónn á vafasömum bar og þar af leiðandi eflaust harður í horn að taka. Hann var (og eflaust er) meðlimur Fönix reglunnar, þannig að vafalaust getur hann séð um sjálfan sig. Ef gen hafa eitthvað að segja í galdraheiminum (og við höfum séð ítrekuð merki þess) þá er hann mun hæfileikaríkari en gróft yfirborðið sínir. Ef við tökum fyrir geita málið þá veldur það því að ég tel hann vera ansi sérvitran. Alls ekki brjálaðan, heimskan, gagnslausan eða athyglissjúkan eins og sumir hafa haldið fram (þeir vilja meina að þetta hafi verið kall á athygli frá ungum manni sem lifði í gríðarlega stórum skugga bróður síns). Því enginn vill þess konar athygli sem hann fékk. Hann er einmanna og passar hvergi inn (of gáfaður og klár fyrir lægri lög samfélagsins, eða myrku hliðina, en of grófur og skrítinn fyrir efstu lög samfélagsins). Ég tel einnig að hann sé eilítið óöruggur ef ekki fráhrindandi gagnvart börnum (sjá samskipti hans við Hogwarts nema sem fara inn á barinn hans).
Áður en ég lýk þessari yfirferð minni vill ég skella einni skemmtilegri vangaveltu fram, hvað ef Abe verður næsti kennari í Vörnum gegn myrku öflunum? Hann var/er í Fönix reglunni, hann er bróðir Albusar, hver veit, gæti gengið. Það væri líka gaman að sjá hvaða áhrif það hefði á Harry ef bróðir Albusar kenndi við skólann. Ég tel að Harry muni þá reyna að vingast við hann, en komast að því að ómögulegt er að tengjast Abe, allavega þangað til í lokaköflunum. (Tek það mál fyrir fljótlega af hverju Harry mun snúa aftur til Hogwarts).

Sem síðustu málsgrein vill ég byrja á því að segja áður en svörin streyma inn sem segja mér að hann geti ekki verið gáfur og alls ekki kennari, því Dumbledore sagðist ekki viss hvort hann væri læs, þegar hann hughreysti Hagrid.
Ég tel það nokkuð ljóst að þarna hafi verið á ferðinni enn eitt dæmið um furðulega en jafnframt dásamlega kímni Dumbledors. Hann var búinn að koma sínum rökum á framfæri, hann er búinn að róa Hagrid og til þess að létta andrúmsloftið segir hann þetta. Mjög ólíklegt verður að teljast að bróðir einhvers mesta galdramanns í heimi hafi ekki gengið í skóla. Né að foreldrar Albusar hafi ekki einnig kennt Abe að lesa. Líklegra verður að teljast að Abe hafi staðið af sér útskúfunina því hann er eilítið furðulegur, grófur og var hvort eð er alla tíð einn á báti.
Voldemort is my past, present and future.