Tökur á Harry Potter 5 á góðri ferð Kvikmyndun fimmtu bókarinnar um Harry Potter er komin á fullt skrið, nýlegar fréttir hermdu að hluti myndarinnar yrði tekin upp nálægt Savona á Ítalíu en í yfirlýsingu sem WB sendu frá sér nýlega segja þeir að hætt hafi verið við að taka upp á Ítalíu. Hingað til hefur venjan verið sú að taka myndirnar upp í Bretlandi, en í þessu tilfelli er verið að skoða aukalega tökustaði og er Skandinavía einnig hugsanleg.

Myndin, sem ber nafnið Harry Potter og Fönixreglan, segir frá fimmta ári í skólagöngu galdrastráksins fræga sem er nú orðinn 15 ára og hormónarnir tekið völdin. Ýmislegt rekur á fjörur hans, þar á meðal nýr og illgjarn kennari, vandræði með Quidditch-liðið ásamt yfirvofandi prófum, og yfir öllu hvílir svo ógnin af Voldemort.

Harry Potter myndirnar eru meðal gróðamestu mynda sem sögur fara af, en eins og stendur eru þær allar að fráskildu sú þriðja meðal efstu 10 sæta á heimslistanum, þar sem Viskusteinninn er í þriðja sæti á eftir The Return of the King og Titanic.

Leikstjóri Fönixreglunnar er hinn breski David Yates, sem hefur hlotið verðlaun fyrir verk sín í sjónvarpsmyndageiranum, og handritshöfundur er Michael Goldenberg, sem vann m.a. við Zemeckis-myndina Contact.

Fyrsta bíóbrotið kemur að líkindum út síðari hluta ársins, en það stendur til að frumsýna myndina í júlí á næsta ári.

——
www.topp5.is

Edit:Loftur Ingi Bjarnason “fréttamaður” á topp5.is skrifaði þessa grein, kíkið endilega á topp5.is þar getið þið skoðað það nýjasta sem er að gerast í kvikmyndaheiminum og margt annað.
Greinin í upprunalegri mynd : http://topp5.is/?sida=frettir&id=109