Breski rithöfundurinn J.K. Rowling býst við að eiga annríkt á næsta ári, „árinu sem ég skrifa síðustu bókina í ritröðinni um Harry Potter,“ segir hún á heimasíðu sinni.

„Ég íhuga þetta verkefni með blendnum tilfinningum, bæði tilhlökkun og ótta, vegna þess að ég get varla beðið eftir því að hefja verkið, að segja lokaþátt sögunnar, og svara loks öllum spurningunum (Mun ég nokkurn tíma geta svarað öllum spurningunum? Það er best að stefna að því að svara þeim flestum); og samt mun þessu loks ljúka og ég get varla ímyndað mér lífið án Harry,” segir Rowling ennfremur.

Rowling hefur lengi sagt að bókaflokkurinn um Harry Potter eigi að verða sjö bækur. Sú sjötta kom út í sumar, Harry Potter og blendingsprinsinn. Alls hafa bækurnar selst í 300 milljónum eintaka um allan heim.

Rowling segir á heimasíðu sinni, að á undanförnum vikum hafi hún verið að fínstilla hina fínstilltu áætlun um sjö bækur. Segist hún búast við að hefja skriftirnar í janúar.



frétt tekin af mbl.is/folk