Sést hefur til Siriusar Blacks í Bristol Ég var að róta til á háloftinu hjá mér og rakst þar á gamla grein og datt í huga að senda hana hingað inn. Hún er skrifuð eftir þriðja ár Harrys og co.

miður júlí, 1994
Sirius Black í Bristol
Dráparinn og fjöldamorðinginn ógnvænlegi Sirius Black, sem síðasta sumar tókst hið ógerlega; að að brjótast út úr Azkaban, gengur enn laus. Í gærkvöldi hringdi* Muggi í neyðarlínu* sem var sérstaklega sett upp vegna neyðarástandsins og tilkynnti að hann hefði séð til Blacks í Bristol. Þetta eru fyrstu fregnir af honum síðan hann slapp frá Hogwarts, skóla galdra og seyða þar sem hann náðist og átti að vera kysstur af vitsugunum. Cornelíus Fudge galdramálaráðherra segist vona að næstu fréttir af þessum Drápara verði af kossinum.
Það er nú liðinn hálfur mánuður frá skólalokum Hogwarts og allir snúnir heim á leið, heilir á húfi í sumarfrí. Meðal þeirra var Ronald Weasley, sonur hr. Weasleys sem vinnur fyrir galdramálaráðuneytið og besti vinur hins eina sanna Harrys Potters. Sirius Black tók þá félaga í gíslingu auk vinkonu þeirra, Hermione Granger, en þökk sé hinum hugrakka töfradrykkjakennara Hogwarts, Severusi Snape prófessor, sluppu þau frá honum á lífi. En því miður hafði Black haft tækifæri til þess að leggja á þau álög áður en hann náðist og fengið þau til þess að trúa einhverri sögu sem hann hefur samið. Þegar þau komu úr gíslingunni trúðu þau því að Black væri í raun saklaus og sökuðu aumingja Peter heitinn Pettigrew um fjöldamorðið fyrir tólf árum. Þau héldu því jafnvel fram að hann væri enn á lífi og að þau hefðu séð hann játa. Ég spurði Ronald hvort álögin væru enn í gildi og hvort hann héldi enn að Black væri saklaus. Því miður svaraði hann mér kuldalega „Sirius Black er enginn morðingi. Hann er góður maður sem var settur í Azkaban fyrir glæp sem hann framdi ekki. Það var… það er helvítis rottan hann Pettigrew sem er brjálaði morðinginn hérna!“ En þá kom faðir hans og dró hann burt og sagði að honum myndi batna yfir sumarið.
Þetta sannar bara hversu máttugur Sirius Black er; álögin eru enn í gildi meira en mánuði eftir að hann lagði þau á unglingana og ég bið ykkur gott fólk, verið á verði og haldið lífi.

(Að hringja: aðferð sem Muggar nota til þess að tala saman í gegn um apparat sem kallast sími. Svipar til þess þegar galdrafólk talar í eldinn. Neyðarlína: Muggar eiga að hringja í þessa sérstöku neyðarlínu ef þeir verða varir við Sirius Black. Þetta sér til þess að Black er hvorki óhultur í galdra- né Muggaheimi.)