Merkilegt nokk að enginn setur út á eða nefnir það sem ég held að ég eigi eftir að fá komment á. Jú, ég fékk reyndar eitt komment á Creeveyþríburana, sem betur fer, þeir urðu til í einvherju flippi eftir of mikið páskaeggjaát (vá hað er langt síðan ég byrjaði á þessu) og ég var alls ekki viss um hvort þeir myndu falla í kramið.
En það hefur enginn minnst á það hvernig ég stafa nafnið Síríus Black. Ég hélt að ég myndi fá að heyra það frá aðdáendum hans. :P Og enginn virðist hafa tekið eftir því hvernig sjónarhornið í sögunni hefur breyst, það byrjaði hjá Harry eins og í bókunum en smám saman færst meira yfir á aðra, sérstaklega Ron. Og jafnvel Draco :) Það er meðvitað en öðruvísi en ég ætlaði mér, ég hef ekki fullkomna stjórn á sögunniiiiii!

Verið nú dugleg að spyrja í því sem þið skiljið ekki, nefna það sem ykkur finnst vel takast og benda mér á það sem betur mætti fara. Hvernig eru persónurnar? Að tapa sér frá bókunum? Hvernig er sagan? Virðist hún stefnulaus?
Kommenta, kommenta, kommenta!



Fjórtándi kapítuli

Kvöldstund við vatnið

Laufey sat á rúminu sínu og stundi. Galleonið sem Hermione hafði gefið henni hafði hitnað þá um morguninn og sagt til um að næsti VD tími yrði sama kvöld, rúmum hálftíma eftir kvöldmatinn. Hún hafði verið snögg að snæða og flýtt sér niður í svefnálmuna til þess að hafa sig til. Hún réð bara ekki við sig.
Hún stóð upp, tók sér hárbusta í hönd og greiddi sér meðan hún leit yfir herbergið. Þetta árið var hún með nýjum herbergisfélögum. Dumbledore, eða hver það nú var sem sá um þetta, vissi greinilega hvað var í gangi á milli þeirra vinkvennanna. Fyrst í stað hafði hún verið fegin og þakklát þessum skiptum en þá datt henni í hug að þetta gæti þýtt að þeir vissu að þær myndu aldrei ná sáttum. Hún hikstaði og fékk næstum tár í augun við tilhugsunina. Hún saug upp í nefið, lauk við að greiða sér og tók til við að laga maskarann og meikið áður en hún legði af stað upp í Þarfaherbergið. Hún varð að líta vel út ef hún vildi ná athygli hans.
„Kannski ég ætti bara að kyssa hann án þess að spyrja…“ hugsaði hún upphátt þegar hún leit í spegilinn.
„Láttu þér ekki detta það í hug!“ hrópaði spegilmyndin angistarfull á móti henni og gretti sig svo að Laufey hrökk undan og flýtti sér út.

* * *

Hár hvellur kvað við í setustofu Gryffindornema, sem fékk alla þá sem þar voru til þess að líta upp. Sumir stóðu upp og söfnuðust saman við einn gluggann, sem nú var þakinn frostrósum þrátt fyrir að það væri 10 stiga hiti úti.
„Hvað gengur hér á?“ þrumaði Hermione og strunsaði í átt að þeim sem var ábyrgur fyrir látunum, hávöxnum sjöunda árs nema sem stóð ráðvilltur fyrir framan gluggann. Harry og Ron skiptust á augngotum og kímdu yfir vandræðasvipnum sem kom á strákinn þegar hann heyrði í Hermione. Hún fór eitthvað að umsjónast, eins og Ron kallaði það og þeir strákarnir skiptu sér ekkert af því heldur héldu tali sínu áfram.
„En ertu viss um að þetta sé hann?“
„Já aðvitað! Hver annar ætti þetta að vera?“
Þeir voru að tala um hundskepnuna, sem hafði birst Harry nokkrum sinnum og sem Harry var sannfærður um að væri Síríus í hundslíki en heill á húfi. Fyrsti mánuður skólans var liðinn og haustið komið með fylgjandi kára svo kveikt var í arninum öll kvöld og notalegt snarkið hlýjaði þeim næstum jafn mikið og eldurinn sjálfur.
„Hver annar? Ég var meira að hugsa um hvað annað,“ sagði Ron, sem treysti því enn ekki að Síríus væri á lífi.
Harry sendi honum stingandi augnaráð.
„Og af hverju í ósköpunum ætti einhver villihundur úr Forboðna skóginum að vera að fylgjast með mér og reyna að láta mig sjá sig?“ hreytti Harry næstum út úr sér.
„Ég veit ekki…“
„Nákvæmlega!“ Harry leyfði Ron ekki einu sinni að klára setninguna, ekki það að hann hefði vitað hverju hann ætti að svara hvort sem er.
„Sko, ég er með áætlun,“ hélt hann svo áfram án þess að hika, „Hogsmeade helgin er alveg að skella á og ég er viss um að þá geti ég náð tali af honum og hann mun útskýra fyrir mér hvernig í öllu liggur, með bogahliðið og hvarfið og af hverju í ósköpunum allir láta sem hann sé dáinn!“ Hann var orðinn æstur og Ron sat bara á móti honum og hlustaði, datt ekki í hug að reyna að koma að orði. Hann vissi að það væri ekki góð hugmynd.
„Ókei, sko! Þegar við förum til Hogsmeade, þá ætla ég að fara upp í hellinn þar sem hann faldi sig síðast, hann er líklegast þar, fyrst hann er hérna á svæðinu.“ Hann hugsaði sig örlítið um. „Kannski ég komi við hjá Draugakofanum líka, bara svona til öryggis. Og þú kemur auðvitað með Ron en Hermione er eitthvað svo…“ hann leit yfir til hennar þar sem hún stóð enn þá hjá hávaxna stráknum við frystan gluggann.
Frostrósirnar mynduðu andlit og ef Ron færði sig, þá leit það út fyrir að hreyfa sig með. Hann var hættur að hlusta, hann vissi alveg hvað Harry ætlaði að segja.
„Hún er svo regluföst,“ sagði Harry loks, „Hún trúir öllu því sem Reglan segir henni og hún tekur því þegjandi og hljóðalaust. Hún heldur bara að ég sé eitthvað skrítinn ef ég minnist á að Síríus sé enn á lífi og að draumurinn í sumar hafi eitthvað með veru hans hér að gera. Eða að hann hafi sagt mér það, að hann væri enn á lífi, að hann sé sönnun þess. Hún getur verið óþolandi þrjósk stundum, finnst þér ekki?“
Harry leit á Ron sem starði fjarrænum augum út í buskann.
„Ron?“
Harry vinkaði honum beint fyrir framan augun á honum.
„Halló! Er einhver heima? Ron!“
Hann stóð upp og hristi vin sinn sem saup hveljur og leit ráðvilltur í kring um sig.
„Varstu ekki að hlusta? Þú varst með störu maður,“ sagði Harry í ásakandi tón.
„Fyrirgefðu félagi, ég… þú varst bara farinn að tala í hringi, þú hefur sagt þetta áður og… Jeminn, ég sá Laufeyju fyrir mér vera að tala við Malfoy.“
„Ha?“ sagði Harry, „Hvar?“
„Það veit ég ekki, hér í skólanum býst ég við. En asnalegt,“ sagði hann ringlaður.
Harry hló að honum.
„Ég hefði skilið það ef þú hefðir séð sjálfan þig vinna Quidditchleik, en að sjá Laufeyju og Malfoy tala! En ómerkilegt!“ Svo hló hann enn meir.
„Sem minnir mig á!“ sagði Ron allt í einu, „Laufey bað okkur um að fá að vera samferða til Hogsmeade!“
Harry hætti að hlæja.
„Ó já. Ansans. Æ, getið þið Hermione ekki bara séð um það á meðan ég fer að hitta Snata?“ stakk hann svo upp á.
„Harry,“ sagði Ron áminnandi, „Þú varst sá sem lofaðir henni að sýna henni Draugakofann,“ minnti hann hann á, „Og svo veistu ekkert hvort Snati verður þarna eða hvort hann ætli að tala við þig. Og hvað eigum við að segja Laufeyju?“ bætti hann við að lokum.
Harry hugsaði sig pirraður um. Af hverju hafði hann lofað henni þessu? Það eyðilagði allt. Eða kannski ekki.
„Jæja þá, ég verð með ykkur og sýni Laufeyju Draugakofann en svo fer ég og kíki á hellinn.“
Ron kinkaði bara kolli, þetta var ágæt lausn. Vonandi (en ekki líklega) myndi Harry gleyma þessu. Hann var farinn að hafa áhyggjur af vini sínum. Þótt að annað sem Harry hafði lent í, sem benti til geðveiki, hefði reynst satt og rétt, eins og að heyra raddir og tryllast yfir draumi, þá var þetta öðruvísi. Þetta var óskyggja sem Harry hékk í. Það höfðu verið vitni að falli Síríusar í gegn um hliðið og þau voru öll fullorðin og margreynd á hinum ýmsu furðusviðum. Og öll töldu guðföður Harrys látinn.
„Ron. Af hverju horfir þú svona á mig? Ertu kominn með aðra störu?“
Ron hrökk upp úr hugsunum sínum og fór hjá sér.
„Ha, nei ég… Fyrirgefðu,“ datt út úr honum.
„Hvað sástu núna? Snape og fröken Norm að drekka te?“ stríddi Harry honum.
„Haha! Já einmitt!“

* * *

Ron var á gangi í kring um vatnið. Hann hélt á Quidditchkústinum sínum yfir herðarnar, með báða handleggi krækta yfir hann og flautaði hægan lagstúf. Skuggarnir voru farnir að lengjast og skrímslið í vatninu gáraði yfirborðið með smá gutli.
Hann hafði aftur tekið upp á því að æfa sig einn í gæslumannsstöðunni, því þótt síðasta ár hafði ekki endað illa, var hann enn ekki nógu sjálfsöruggur og alls ekki sannfærður um getu sína. Æfingin þetta kvöld hafði gengið vel og af því hann var svo léttur í lund og veðrið svo gott, ákvað hann að ganga lengri leiðina heim og ganga hringinn í kring um vatnið.
Hann horfði yfir glitrandi yfirborðið og grænt grasið á bakkanum hinu megin og brosti með sjálfum sér. Það voru fáir á ferli. Hann nálgaðist runnana sem Harry hafði falið sig á bak við á þriðja árinu þeirra, rétt áður en hann bjargaði sjálfum sér frá vitsugunum.
Undir þeim sat einhver í svörtum skólakufli með ljósa lokka niður á bak. Þetta var Laufey Needle.
Hjartað í Ron tók kipp.
„Hæ!“ kallaði hann og hraðaði sér til hennar. Hann lagði kústinn frá sér og settist við hliðina á henni.
„Hæ,“ svaraði Laufey og þurrkaði sér í flýti um augun um leið og hún saug upp í nefið.
„Er allt í lagi?“ spurði Ron hissa en umhyggjusamlega. Laufey leit reiðilega á hann, eins og það væri hann sem hún væri í fýlu út í. Hún starði eitt augnablik á hann rauðbólgnum augum áður en hún svaraði.
„Nei,“ sagði hún grimmilega, „Veistu, ég er orðin leið á því að vera nánast vinalaus!“ Svo spratt hún á fætur og starði öskuill niður á gáttaðan Ron. „Veistu,“ hélt hún svo ásakandi áfram, „Þú…“ Svo hikaði hún eins og hún ætti erfitt með að koma orðunum út úr sér. Hún gretti sig eins og til að hindra táraflóð, eins og það tæki á. “Þú…. AAH!“ Svo stundi hún í uppgjöf og féll niður á hnén. “Æi.“ Augun voru klemmd aftur og hún tók fyrir andlitið. Hún tók stórt ekkasog og þegar Ron, sem vissi ekki hvernig hann ætti að bregðast við, lagði hönd á öxl hennar, fleygði hún sér um hálsinn á honum og hágrét. Ron brá en klappaði henni samt hughreystandi á bakið og reyndi að halda traustvekjandi utan um hana.
Ég er vinur þinn,“ hvíslaði hann lágt og hikandi.
Hún er svo lítil, hugsaði hann, hún er bara barn. Og vinir hennar eru hættir að tala við hana. Af hverju? Hann mundi þegar hann hafði hætt að tala við Harry. Það hafði verið sárt. Líka fyrir hann, ekki bara Harry.
„Ég er viss um að þær munu tala við þig aftur. Þær eiga bara eftir að gera sér grein fyrir því hvað þær fara á mis við. Ég veit það af því að einu sinni hætti ég að tala við besta vin minn.“ Svo sagði hann Laufeyju frá því þegar hann hafði fengið nóg af vinsældum og frægðarljóma Harrys, þar sem hann sat með hana í fanginu í sívaxandi rökkrinu og smám saman hætti hún að gráta og að lokum hvarf ekkinn alveg. Þá sleppti hann henni og þau sátu á móti hvort öðru og brostu örlítið. Henni leið betur og þá leið honum betur. Þau horfðust í augu og Ron var ekki frá því að hún horfði á hann á annan hátt en áður.
Hún leit af honum og yfir vatnið.
„Sjáðu,“ sagði hún og benti. Rödd hennar var eylítið rám eftir allan grátinn. Hann leit þangað og sá eikina armlöngu.
„Þetta tré, sagði hún, ég hef séð það hreyfa sig.“
Hann glotti.
„Já, ég veit. Þetta tré er brjálað, það ræðst á alla sem koma nálægt því.“
“Ha? Hvað segiru?“ spurði Laufey hlessa.
„Alveg satt. Og veistu hvað,“ hélt hann áfram og lækkaði róminn, „Það var gróðursett þarna til þess að gæta inngangsins að leynigöngum!“
„Í alvöru?“ spurði Laufey hrifin.
Ron glotti áfram. Áætlun hans ætlaði að takast, Laufey var að kætast og virtist hafa gleymt vandamálum sínum í bili.
„Jebb, alveg satt,“ sagði hann, „Ég hef meira að segja komið þangað!“
„Nei, nú lýgur þú!“ sagði hún og flissaði, „Hvernig komstu fram hjá eikinni án þess að meiða þig?“
„Ja, ég slapp nú ekki ómeiddur, skal ég segja þér en það var ekki eikinni armlöngu að kenna…“
Og svo sagði hann henni söguna af því þegar hann, Harry og Hermione fóru í heimsókn til Hagrids og fundu þar óvænt rottuna hans, Scabber, sem hafði verið týndur og talinn af. Hann sagði frá því hvernig stóri svarti hundurinn hafði ráðist á hann og hvernig hann hafði fótbrotnað þegar hundurinn dró hann ofan í holuna við rætur eikarinnar armlöngu. Hann sagði henni alla sólarsöguna um Síríus og Peter Pettigrew, frá Draugakofanum og Lupin en hún vissi nú þegar helminginn af því, þar sem Lupin hafði líka kennt henni.
Svona hélt hann áfram að segja frá þar til þau tóku eftir því að þeim var kalt og sólin næstum alveg gengin til viðar. Þá stóðu þau upp og gengu upp í kastalann en þar skildu leiðir. Ron var kominn hálfa leið að tröppunum þegar Laufey kallaði á hann. Hann snéri sér við og leit á hana þar sem hún stóð með lokkaflóðið og brosti ljúft.
„Takk,“ sagði hún.
Hann brosti á móti og hlýnaði öllum að innan.