Þrettándi kapítuli

„Skák og mát,” sagði Ron yfirvegað en Hermione, sem lék svartan, hnyklaði brúnir svekkt.
„Ég hef telft við þig í ein fimm ár og mér hefur enn ekki tekist að sigra þig almennilega!“ sagði hún, „Ég veit að þú leyfðir mér að vinna í það skiptið Ron,“ bætti hún svo við áður en hann náði að opna munninn.
Þau sátu við borð á heimavistinni, búin með heimalærdóminn, og voru að klára taflspil. Eins og venjulega hafði Ron farið með sigur af hólmi, enda var hann ókrýndur konungur skáklistarinnar í Gryffindor, ef ekki í öllum skólanum.
„Það er eitt sem ég skil ekki,“ hóf Hermione máls, þegar síðustu peðin hennar voru að skríða upp í kassann, „Hvernig ferðu að því að vera svona klár í skák? Það þarf mikil klókindi og góðan stærðfræðiheila til þess að vera svona mikill snillingur í íþróttinni.“ Eins og margur séníinn, taldi Hermione skák sem íþrótt og þótt Harry væri á allt öðru máli, þá gat Ron ekki annað en verið sammála henni. „En afhverju gengur þér ekki betur í skólanum en raun ber vitni? Það er mér frámunað að skilja,“ hélt hún áfram, „Þú ættir að reyna talnagaldra, það er ég viss um að þú hefur dulda hæfileika í faginu.“
Ron horfði á hana með svip sem sagði hvað-í-ósköpunum-varst-þú-eiginlega-að-segja? Hún talar bókmál, hugsaði hann. Aftur ætlaði hann að opna munninn og segja eitthvað en aftur var hann stöðvaður áður en hann kom upp nokkru orði. Harry hafði hlammað sér í auða stólinn við borðið og varpað öndinni eins og eftir mikið erfiði. Hárið á honum var úfið, fötin skítug og hann angaði allur af rakri mold og laufi. Hann lagði handleggina á borðið og grúfði andlitið niður. Ron og Hermione skiptust á áhuggjufullum augngotum áður en þau hristu varlega við honum.
„Harry minn, er allt í lagi með þig?“ spurði Hermione og strauk honum blíðlega um bakið.
Harry reisti sig uppgefinn við og leit á þau.
„Já já,“ svaraði hann, „Ég er bara… þreyttur.“
Hann sat hokinn og fylgdist móður með taflmönnunum klifra upp í kassa.
„Hvað lét fröken Norm þig eininlega gera?“ spurði Ron áhyggjufullur og horfði á djúpa rispu sem náði frá gagnauga Harrys og niður á höku kveið svarinu.
„Hún fór með mig inni í Forboðnaskóginn að týnast. Það tókst vel,“ svaraði Harry í hæðnistón.
„Inn í skóginn? Að týnast?“ hrópaði Hermione stórhneyksluð upp yfir sig, „Er hún óð? Harry, þú þekki hætturnar í skóginum, af hverju hindraðirðu hana ekki í þessu?“ Hermione hafði líka lent í kentáraárás árið áður og var jafnvel enn hræddari við skóginn en Harry var. Samt sem áður voru þau bæði hugrökk, enda Gryffindornemar, en hugrekki felst ekki í því að vera óhræddur, heldur að bera skynbragð á hvenær hættan er of mikil til þess að það sé þess virði að reyna við hana.
„Hún er kennarinn Hermione, ég get ekki sagt henni fyrir verkum,“ svaraði Harry og rétti nú almennilega úr sér.
„Hún á nú samt ekkert með að stofna lífi nemenda í hættu,“ hnussaði Hermione með krosslagða handleggina.
Ron lokaði kassanum með taflmönnunum þegar sá síðasti hafði stokkið ofan í og leit á Harry, sem kinkaði kolli og virtist hafa ákveðið að gefa sig þreytunni ekki á vald.
„Ég veit,“ svaraði Harry, „Snape skammaði mig líka fyrir það.“
„Snape? Fyrir það að hún skyldi stofna lífi þínu{/i] í hættu?“ spurðu hin tvö steinhissa.
„Jamm. Hann sá okkur koma út úr skóginum og skammaði mig fyrir að segja fröken Norm ekki frá hættunum í skóginum. Eins og þetta væri allt saman mér að kenna. Svo sendi hann mig inn og hélt áfram að tala við hana.
Vitiði, ég held ég fari í sturtu fyrir mat.“
Hermione og Ron kinkuðu bara kolli og fylgdust með honum standa upp.
„Vertu fljótur, klukkan er alveg að verða.“

Draco þvoði sér um hendur og þurrkaði svo á skoskmunstruðu handklæðinu. Það var í báðum litum allra heimavistanna, mismjóar rendur sem mynduðu misstóra ferhyrninga á dökkum grunni. Oj bara, hugsaði hann, þessi handklæði eru svo hræðilega ósmekkleg! Þetta var sjötta árið hans í skólanum og hann hafði enn ekki sætt sig við handklæðin. Eftir að hafa litið stutt í spegilinn og kroppað í nýja unglingabólu gekk hann að dyrunum og opnaði þær. Af vana leit hann til beggja hliða og bjóst við auðum gangi, jafn auðum og klósettin höfðu verið, því þessi álma var ekki í notkun þetta árið. Það pirraði hann þess vegna dálítið að sjá í bakið á fjórum blaðrandi Gryffindornemum til vinstri við hann. Hann þekkti þrjú þeirra eins og skot. Hann hafði ekki hitt þau ein síðan í lestinni og þar með ekki fengið tækifæri til þess að hefna sín almennilega. Hann gekk hröðum skrefum í áttina að þeim.
„Hey!“ kallaði hann og naut þess að sjá þau hrökkva við.
Hann glotti við að sjá hatursvipinn á Weasleystráknum en fann hvernig glottið dofnaði um leið og hann leit á Potter. Þessi hrokafulli strákasni sem hélt að hann væri svo merkilegur bara vegna þess að hann var með eitthvað asnalegt ör á enninu. Það sem fór mest í Draco var að það var alveg rétt, Harry Potter var merkilegur einmitt vegna örsins á enninu. Hann mundi eftir því þegar hann hafði reynt að vingast við hann þegar þeir voru krakkar og hvernig Harry hafði gefið skít í hann. Upp frá þeim degi höfðu þeir kýtt reglulega og jafnvel slegist og óvildin vaxið dag frá degi. En hún hafði náð hámarki og orðið að hreinu hatri í garð Potters, árinu áður, þegar helvítið hafði komið upp um föður hans og sent hann í fangelsi. Azkaban. Hann hafði misst nokkra vini út af þessu og fólk var farið að koma undarlega fram við hann. Svo ekki sé minnst á að hann hafði ekki séð föður sinn í eitt einasta skipti síðan.
„Hvar eru lífverðirnir Malfoy? Ekki segja mér að þeir hafi leyft þér að fara einum á klósettið?“ spurði Harry hæðnislega.
Djöfullinn! Potter var fyrri til.
Og áður en Draco hafði ráðrúm til þess að svara fyrir sig hélt Ron móðgununum áfram:
„Þeir vildu örugglega ekki koma með, lyktin er of svæsin fyrir tröllin!“
Strákarnir hlógu og Grangerstelpan brosti. Weasleystelpan horfði bara á félaga sína en sýndi engin svipbrigði sem Draco gat lesið úr. Hann fann hvernig hann hitnaði í kinnunum. Hann mundaði sprotann snögglega og beindi honum að þeim.
„Ég ætti að drepa ykkur á staðnum!“ hvæsti hann.
Þau snarhættu að hlæja og sveifluðu öll sínum sprotum á móti honum. Uppsöfnuð reiði Dracos yfir sumarið og hatur gagnvart Harry heyrðist greinilega í málrómnum.
„Eða nei annars„ sagði hann rólegar, drafandi og hló stutt, „Ég ætti bara að frysta ykkur og tilflytjast með ykkur beinustu leið til Azkaban. Potter, þú og vitsugurnar þekkist vel, ég hef heyrt að þið séuð meira að segja ansi náin.“ Hann sendi Harry háðslegan koss og hló að reiðisvipnum á móðguðum Potter. Hermione lét sprotann sinn síga.
„Ég meina það,“ sagði hún í óþolandi gelgjutón, „Malfoy, hefur þér einhverntíman dottið í hug að nota bók til þess að koma smá vitneskju inní hausinn á þér? Þú ættir að reyna það!“ og í sömu andrá datt bók ofan á höfuðið á honum.
„Á!“ hrópaði hann upp yfir sig og nuddaði á sér hvirfilinn. Svo leit hann illilega á Hermione og blótaði henni. Hann svimaði lítillega.
„Vá, Hermione, þetta var flott!“ sagði Ron, „Hvernig fórstu að þessu? Varstu ekki búin að láta sprotann síga?“
„Þetta var ekki ég,“ sagði Hermione og starði upp í loftið, þar sem bókin hafði birst. Draco leit líka örstutt upp en sá ekkert nema viðarloftið.
„Hvaðan kom þá þessi bók?“ spurði Weasleystelpan, sem Draco vissi ekki hvað hét.
Hermione hristi höfuðið hægt.
„Ég veit það ekki.“
„Hvaða bók ætli þetta sé?“ spurði Harry en í þann mund sem hann tók fyrsta skrefið í áttina að bókinni muldraði Draco heiftarlega á milli tannanna og beindi sprotanum að bókinni og fékk sting í hvirfilinn fyrir vikið. Bókin lýstist upp að innan og eldur blossaði út á milli blaðsíðnanna eitt augnablik, áður en allt varð kyrrt á ný. Draco var illt í höfðinu, því bókin hafði fallið ansi þungt á hann og hann var sármóðgaður yfir því að Gryffindorkrakkarnir skyldu beinlínis hafa gleymt honum við komu hennar.
„Ef ég hef fengið heilahristing Granger, þá sé ég til þess að þú verðir send til Azkaban fyrir líkamsárás!“
Þannig kvaddi hann áður en hann hélt illa haldinn af stað til fröken Pomfrey.

Harry, Ron, Hermione og Ginny horfðu á brúna, leðurbundna bókina. Hvaðan kom hún? Og hvað hafði Draco gert við hana? Þeim var öllum sama um Draco, það var bara gott að hann væri farinn. Framan á bókinni voru gylltir skrautstafir sem glampaði á í ljósinu frá kyndlunum. Þar stóð skrifað stórum stöfum DAGBÓK.
„Hver skyldi eiga hana?“ velti Harry upphátt fyrir sér og gekk að henni til þess að skoða hana betur.
„Nei!“ kveinaði Ginny og fékk Harry til þess að hrökkva við. Hann snéri sér við og sá undrunarsvipinn á Hermione og Ron yfir skelfingarsvipnum á Ginnyju.
„Ekki“ hvíslaði hún. Hún stóð með aðra höndina á hjartanu og hina útrétta í átt að Harry og augun voru stór af hræðslu.
„Hvað er að?“ spurði Ron og Harry gat ekki annað en fundið fyrir kvíða.
Ginny hikaði.
„Bara… Munið þið ekki hvað gerðist síðast þegar ókunn dagbók datt ofan á hausinn á einhverjum?“ Hún leit á hin og bætti við „Þegar dagbókin hans Trevors Delgome datt í gegnum Völu væluskjóðu.“
Ron rétti úr sér og Harry skildi strax um hvað málið snérist.
„Já,“ svaraði hann, „En það er ólíklegt að þeir reyni sama bragðið aftur.“ Hann snéri sér aftur að bókinni, hann var of forvitinn til þess að geta látið hana vera. „Við skulum samt fara varlega,“ sagði hann, “Ég lofa því.“
„Harry!“ bað Ginny en Harry var nú þegar kominn niður á hnén og byrjaður að pota í bókina með töfrasprotanum sínum.
Þegar ekkert gerðist, notaði hann sprotann til þess að opna bókina. Blaðsíðurnar voru línustrikaðar og á línurnar var fínleg, hallandi tengiskrift, skrifuð með svörtu bleki.
„Það er þó sýnileg skriftin í þessari,“ sagði Harry og benti hinum á að koma líka, sem þau og gerðu.
Ron kraup niður vinstra megin, Hermione honum á hægri hönd en Ginny kaus að standa fyrir aftan þau og horfa niður á bókina, en þannig gat hún ekki lesið hvað stóð og það fannst Harry vera synd hennar vegna. Hann var sjálfur svo forvitinn að vita hvað væri skrifað og hver væri höfundurinn.
„Það er búið að brenna fyrstu blaðsíðurnar úr,“ sagði Harry vonsvikinn, „Það er örugglega það sem Malfoy gerði. Nú getum við ekki vitað hver á bókina.“
Efsta línan á fyrstu heilu blaðsíðunni byrjaði í miðri setningu.
„…fallegustu sem ég hef séð. Hann er myndarlegasti strákurinn í öllum skólanum og í hvert sinn sem ég hitti hann, þarf ég að hafa mig alla við til þess að standa í fæturna.“
„Ókei,“ sagði Harry, „Það er stelpa sem á þessa bók.“
Hermione sussaði á hann.
„Hann er svo skemmtilegur, aldrei með nein fíflalæti og honum gengur svo vel í skólanum. Hann er klár, skemmtilegur, myndarlegur og ó, hef ég minnst á brosið? Það er alveg…“
Allt í einu tók Hermione andköf og kippti í bókina en Harry hélt of fast við hana.
„Hvað ertu að gera?“ spurði hann forviða.
„Harry, nú er nóg komið, þetta eru einkamál einhvers hérna og við höfum ekkert leyfi til þess að vera að lesa þetta.“
„Harry?“ sagði Harry móðgaður, „Ron var líka að lesa þetta.“
„Bókin kom til okkar,“ sagði Ron þar sem hann starði á bókina, „Okkur er ætlað að lesa hana,“ flissaði hann og tók í bókina með Harry svo að Hermione næði henni ekki.
“ er alveg yndislegt, svo innilegt! Og svo er hann auðvitað hetja, hann hefur oftar en einu sinni bjargað galdraheiminum (og muggaheiminum) frá Honum-sem-ekki-má-nefna.
Harry fékk sting í magann og kippti bókinni undan hönd Rons og hélt fast í hana, hann vildi ekki að Ron læsi þetta.
„Harry!“ hrópaði Ron upp yfir sig og setti upp særðan svip, „Hvað ertu að gera?“
„Hún er að skrifa um mig,“ sagð Harry svo lágt að það lá við hvísli.
„Ha?“ hváðu bæði Weasleysystkynin og litu hvort á annað.
Hermione kinkaði bara kolli og rétti fram höndina.
„Harry, ég held ekki að þú ættir að lesa þetta.“
Harry hélt lokaðri bókinni þétt að sér og tók nokkur skref aftur, svo að nú var einn kyndill á milli þeirra á veggnum, sem lýsti framan í þau bæði.
„Ég ætla ekki að leyfa þér að lesa þetta,“ svaraði hann, „Ef einhver hefur rétt á að lesa þetta, þá er það ég!“
„Nei Harry!“ sagði Hermione ákveðin og gekk hægt í áttina að honum eins og hún væri að reyna að róa niður brjáðan glæpamann í sjónvarpsmynd. „Þú ert einmitt sá sem átti aldrei nokkurntímann að fá að sjá þetta!“
Harry fann hvernig hann hnyklaði ósjálfrátt brúnirnar þegar hann fann grunsemdirnar vakna.
„Hvernig veist þú það? Þekkirðu hana?“
Hermione hristi höfuðið aftur svo að hárið dansaði í kring um andlitið.
„Nei Harry. Það er almenn skynsemi sem segir mér það.“
Harry strauk hönd yfir ennið, hissa yfir því hversu harkalega hann brást við því sem stóð í dagbókinni, og kinkaði svo kolli.
„Já, það er víst rétt hjá þér.“
Hermione brosti og gerði sig líklega til þess að taka við bókinni en Harry rétti henni hana ekki.
„Ég ætla samt ekki að láta þig fá hana!“
„Ef þú skoðar skriftina getur þú kannski fundið út hver það var sem skrifaði þetta,“ stakk Ron upp á.
„Nei,“ svaraði Hermione að bragði, „Það er skrifað í bókina með sjálfritara, þið vitið, fjaðurstaf sem skrifar það sem honum er sagt að skrifa. Tókuð þið ekki eftir því?“
„Ó,“ sagði Ron vonsvikinn.
„Losið ykkur bara við hana!“ sagði Ginny, sem leist enn ekkert á blikuna.
„Og láta einhvern annan lesa um aðd… lesa einkamál hennar?“ spurði Harry, „Ekki séns!“ og þar með gekk hann af stað upp í herbergi, þar sem væri nóg ró og næði til þess að lesa í friði.

Um kvöldið lá Harry í rúminu og hugsaði um það hversu undarlega þetta ár byrjaði. Draumarnir undarlegu, sem virtust ýmist merkja eitthvað eða ekki. Síríus var á lífi en vildi ekki tala við hann. Dagbókin og leyniaðdáandinn. Laufey og félagsleg leyndarmál hennar. Og þessi stórhættulega eftirseta hjá frökn Norm. Þetta var allt of mikið í einu fannst honum og ekki nema nokkrar vikur liðnar af skólaárinu. Hann þyrfti að fara að byrja VD fundina og vanda sig betur með Quidditchæfingarnar. Hann nuddaði augun syfjulega og velti sér á hliðina og steinsofnaði um leið.