Eftirfarandi frétt er fengin af mbl.is

“Höfundur bókanna um galdrapiltinn Harry Potter, JK Rowling, hefur greint frá því að hún gangi með sitt þriðja barn og eigi von á sér á næsta ári, að því er segir í frétt BBC. Rowling, 38 ára, greindi frá þessu á vefsíðu sinni. Fyrir á hún dótturina Jessicu og soninn David, sem fæddist á síðasta ári.

Rowling sagði: „Mig langaði alltaf að eiga þrjú börn svo að ég gæti ekki verið hamingjusamari.“

Þá sagði hún að meðgangan muni ekki hafa áhrif á útkomu næstu bókarinnar um Harry Potter. „Ég fullvissa ykkur um að sjötta bókin er í burðarliðnum. Ef allt gengur að óskum sé ég ekki fyrir neina truflun vegna barnsins.“

Þá bætti höfundurinn við: „Ég get ekki sagt með vissu hvenær honum verður lokið en ég er búin að skrifa helling og líkar það mjög vel (hvílík ögrun við örlögin, ég er viss um að það mun ganga herfilega að skrifa næsta kafla),“ skrifar Rowling á vefsíðuna.

Sjötta bókin mun bera titilinn Harry Potter og blendingsprinsinn.”


Svo að Rowling á núna von á sínu þriðja barni! Ég bara varð að setja þetta inn, enda yndislegar fréttir.

Fantasia