Þrír leikarar úr Harry Potter myndunum hafa verið tilnefndir til Emmy verðlauna, þó ekki fyrir HP-myndirnar sjálfar. Sýnir þetta fram á það hversu mikið af úrvals leikurum má sjá í þessum kvikmyndum um galdramanninn vinsæla, Harry James Potter.

Alan Rickman, sem leikur prófessor Severus Snape, var tilnefndur sem aðalleikari í kvikmynd eða miniseríu fyrir hlutverk sitt sem Alfred Blalock í “Something the Lord Made”.

Emma Thompson, sem leikur rugludallinn og spákonuna prófessor Sybill Trelawny, var tilnefn sem aðalleikona í kvikmynd eða miniseríu fyrir hlutverk sitt sem hjúkkan Emily í “Angels in America” (sjónvarpsþáttaröð sem mun hefja göngu sína á Stöð 2 bráðlega).

Gamanleikarinn John Cleese, sem leikur Gryffindordrauginn Næstum hauslausa Nick, var svo tilnefndur sem gestaleikari í grínþætti, fyrir hlutverk sitt sem Lyle Finster í “Will & Grace”.

Verðlaunin verða afhent 19.september næstkomandi og verður gaman að sjá hvort einhver þessara leikara muni hreppa hnossið.