Hver er BudIcer? Hver er meðstjórnandi Tzipporah í raun og veru? Er hann eins góður og hann lítur út fyrir að vera? Eða er hann eins vondur og hann lítur út fyrir að vera. Lítum á staðreyndirnar um þennan merka mann.

BudIcer er 18 ára og karlmaður mikill, eins og hann kýs að orða það. BudIcer gegnir nú þremur störfum um þessar mundir, auk þess að sinna skyldum sínum á Huga.is. Á daginn vinnur hann hjá Norðlenska ehf við að pakka niður kjöti, um helgar sem dyravörður á skemmtistað þar sem enginn skal dirfast að mótmæla honum eitt eða neitt, og aukalega slær hann svo grasflöt mikla. Undirrituð getur ekki annað en hneykslast þar sem BudIcer kýs að slá grasið svart, hvar er nú heiðarleikinn? Þvílíkt og annað eins hefur undirrituð ekki heyrt síðan Harry Potter hélt því fram að hann væri ekki hrifinn í Hermione Granger. Á veturna er BudIcer þó að stunda nám og stefnir hann á að verða matreiðslumaður í framtíðinni og hefur nú þegar réttindi til að starfa sem sjókokkur.

BudIcer er eins og gefur að skilja, mjög hrifinn af bókunum um hinn unga Harry Potter. Uppáhalds bókin hans í seríunni er fjórða bókin, Harry Potter og Eldbikarinn, en hann hefur jafnframt lesið hana oftast. þó segist hann ekki lengur hafa tölu á því hversu oft hann hafi lesið bækurnar. Uppáhaldspersóna hans í bókunum er þó af einhverju viti því að það er nú hinn eini sanni Harry Potter, og skal nú engann furða. Slíkur afbragðs drengur hlýtur að heilla hvern mann. Aftur á móti er hann lítt hrifinn af Dolores Jane Umbridge, sem ég get engan veginn skilið. Þessi undurfagra kona sem er persónuleg vinkona hr. Fudges og hefur einstaklega góðan smekk á undirskálum. Hvernig getur einhverjum verið illa við hana? Undirrituð á nú bara bágt með að trúa því.
BudIcer telur að næstu ár í lífi Harrys og félaga eigi eftir að vera erfið, full af sorg og þrautum og hann telur að hinn ungi Harry eigi jafnvel eftir að sökkva sér í þunglyndi. Hvernig dirfist hann að segja svona um hinn ljúfa og dásamlega Harry Potter, undirrituð spyr.

Sannleikurinn er getur oft verið erfiður en hann verður að koma í ljós, sama hversu ömurlegur hann kann að vera. BudIcer er skyldur Tzipporah, meðstjórnanda sínum. Þvílík skömm! Tzipporah (hægt er að lesa um hana í grein sem kom 18. maí) sem kom sér á toppinn á huga á vægast sagt vafasaman hátt. Þvílík skömm sem það er fyrir BudIcer, að vera skyldur henni, engan skal furða að hann hafi reynt að leyna því!

BudIcer hefur lokið því að taka persónuleikapróf, og þar sem undirrituð sór að segja sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann, sama hversu viðbjóðslegur hann kann að vera, læt ég hér vaða. BudIcer er lifandi eftirmynd hans-sem-ekki-má-nefna. Holdgervingur alls ills. Ekkert nema illska og hatur. BudIcer er mikill snillingur og mjög greindur ungur maður sem hefur mikla stjórnunarhæfileika en notar þá oftar en ekki til ills . Hann hræðir nágranna sína því að uppáhalds tómstundariðja hans er að sprengja fólk í tætlur. Ekki kæmi það undirritaðri á óvart þó að starf hans hjá Norðlenska ehf. fæli í sér dýpri leyndardóma en virðist í fyrstu. Er hann kannski sá sem sér um að láta fólk “hverfa” á dularfullan hátt? Hvernig kjöt er það sem hann er að pakka? Undirrituð hryllir sig við tilhugsunina.
BudIcer fékk þó að prófa flokkunarhattinn eins og aðrir sem undirrituð hefur tekið í viðtöl hér undanfarið og ef hann væri nemandi í Hogwartsskóla þá væri hann í Gryffindor. Þetta leyfir undirrituð sér að efast stórlega um. Nú grunar mig að flokkunarhatturinn sé að fara með fleipur.

Niðurstaða mín er þessi: Varið ykkur á BudIcer, því vondur hann kann að vera. Undirrituð sagðist ætla að svipta hulunni af þessum dulda manni, BudIcer og komst að þeirri niðurstöðu að það er ekki gott að vera nálægt honum þegar hann er í vondur skapi. Maður veit aldrei hvað hann, sem er holdgervingur alls ills, mun gera. Hann álítur sig vera meistara allra, því að í undirskrift hans stendur: “Þinn meistari…” og það þykir mér styðja við mál mitt að hann sé vondur og sækist eftir heimsyfirráðum.
Til ykkar sem lesa þetta og kjósa að trúa mér: Ekki treysta BudIcer. Ekki einu sinni fyrir því að vökva pottblóm, allt deyr sem hendur hans snerta svo vondur mun hann vera. Undirrituð er sjálf hissa yfir þessari niðurstöðu, þar sem hún kom mikið á óvart og ég mæli með hressingargaldri fyrir þá sem er í einhverju áfalli eftir að hafa lesið þennan ógurlega sannleika um BudIcer.

“Við gerum mistök til þess að geta lært af þeim”, segir BudIcer í lokinn, hver voru hans mistök?

Rita Skeeter

(Rita neyðist þó til að viðurkenna að greinin er að langmestum hluta unnin af aðstoðarmanni hennar, Fantasiu Skeeter, sem er nú óðum að klífa metorðastigan og Rita er nú farin að óttast um starf sitt.)