Ninas er ung Akureyrarmær á fjórtánda ári. Hún er lífleg og tápmikil stúlka sem hefur í nógu að snúast. Hún stundar nám við einn af grunnskólunum í höfuðstað norðurlands og er nú í óðaönn að undirbúa sig fyrir prófin. Ef henni gengur jafn vel í prófunum í skólanum og að svara spurningunum í triviunni hér á síðunni, þarf hún nú ekki að hafa miklar áhyggjur. Henni er tónlistin í blóð borin og leikur hún bæði á fiðlu og syngur af krafti með stúlknakór Akureyrarkirkju. Hún stefnir nú á að leggja land undir fót og stinga af til útlanda með kórnum í sumar svo að hugsanlega nær þá einhver að nýta sér fjarveru hennar og leggja hana af velli í triviunni okkar í sumar, hvað haldið þið?
Ninas hefur einstakann áhuga á Harry Potter bókunum og öllu sem þeim viðkemur. Hún á allar bækurnar um hann og hefur lesið þær spjaldanna á milli svo oft að þær eru við það að slitna í sundur. Hún segist eiga erfitt með að gera upp á milli bókanna en finnst þó að Fanginn frá Azkaban standi hinum bókunum örlítið framar. Hún hefur einnig séð kvikmyndirnar en ber þeim ekki góða söguna. Hún segir þær til háborinnar skammar og varpa skugga og skömm á þær frábæru bókmenntir sem J.K.Rowling hefur fært okkur. En þar sem ninas er bjartsýn að eðlisfari horfir hún vongóð til sumars og bindur vonir sínar við myndina sem þá kemur út, gerð eftir uppáhalds bókinni hennar Fanganum frá Azkaban og vonar að sú mynd komi til með að hífa þessa kvikmyndagerð uppá hærra plan. Hún á aftur á móti ekki orð til að lýsa reiði sinni og hneykslan yfir fáfróðum Ameríkönum sem dirfast að eyðileggja þessar dásamlegu bækur með bókabrennum og sjá ekkert nema skrattann sjálfan í þessum snilldar verkum. Þvílík synd og skömm.
Ninas er kvenskörungur mikill og því skal engan undra að kjarnorkukvendin Hermione Granger og Nimphadora Tonks séu hennar uppáhalds persónur í bókunum. Hún er þó algerlega mótfallin konum sem misnota vald sitt og níðast á saklausum einstaklingum og er henni því mjög gramt í geði þegar hún hugsar til hinnar fyrrverandi skólastýru Hogwarts Dolores Umbridge.
Framtíðin er björt fyrir Harry og félaga að mati ninas, hún telur víst að Harry nái sínu takmarki og leggi löggæslu galdramannanna lið sem skyggnir í fylgd sinnar heittelskuðu. Hver hans heittelskaða verður er kannski ekki alveg á tæru en ninas telur líklegt að það verði annað hvort Cho Chang eða Virginia Weasley. Hún telur líka mjög líklegt að einhvern tíman í framtíðinni komi Ronald Weasley loksins til með að manna sig upp og ná athygli Hermione Granger og þau verði hamingjusöm um aldur og eilífð ávallt í góðu sambandi við æskuvin sinn Harry.
Ef ninas hefði farið í Hogwarts telur flokkunarhatturinn næsta víst að hún hefði lent í Slytherin. Hmmm…. ninas er því greinilega nokkuð slóttug og lævís. Við ættum því að hafa varann á okkur þegar við eigum samskipti við hana, hún lumar greinilega á ýmsu.
Ninas hefur einnig tekið persónuleikapróf sem mælir hennar persónuleika við persónuleika hinna ýmsu persóna í galdraheiminum og kom í ljós að hún er einna líkust Harry Potter sjálfum. Líkt og Harry er hún hugrökk, umhyggjusöm og ævintýragjörn. Hún er yfirleitt vingjarnleg en getur tekið upp á því að vera þvermóðskufull og jafnvel svolítið fýld. Hún hefur vissa tilhneigingu til að hundsa ýmsar reglur og er talsvert hvatvís og kemur það henni stundum í vanda, en þrátt fyrir það er hún hugulsöm og samviskusöm stúlka.
Gaman væri að vita hvernig fer fyrir henni í framtíðinni, skyldi hún stefna á svipaðar brautir og vinur hennar hr Potter og enda í löggæslustörfum eða hefur hún rólegri framtíðarplön? Það verður spennandi að fylgjast með því.

Rita Skeete