Fantasia er 14 ára ung vesturbæjarsnót sem hefur í nógu að snúast. Auk þess að stunda nám í unglingadeild grunnskóla þar sem mikil prófatörn fer að ganga í garð fljótlega er hún á kafi í tónlistarnámi og ætlar sér að taka grunnstigspróf innan fárra daga. En það er ekki allt, hún tekur sér hlé öðru hvoru og skellir sér þá í skylmingar, en þær æfir hún af krafti… svo best er að vara sig á henni.
Fantasia hefur mikinn áhuga á Harry Potter og hefur lesið bækurnar um hann um það bil þrjátíu sinnum á tveimur tungumálum. Hún er þó hrifnust af Fanganum frá Azkaban og Fönixreglunni. Hún hefur einnig séð myndirnar og hefur haft af þeim mikið gaman. Þó segir hún að best sé að horfa ekki á þær í samhengi við bækurnar, því það valdi einungis vonbrigðum. Daman virðist hrífast svolítið af vandræðagemsum og eru hennar uppáhalds persónur í bókunum pörupiltarnir Severus Snape, Sirius Black og Remus Lupin, skal nú engann undra. Hún segir þó að sér þyki mjög vænt um Mollý Weasley því hún minni hana óskaplega mikið á sína eigin móður, sem Fantasía elskar og dáir. Hún hrífst af hreinskilni og umhyggju fyrir náunganum en þessir kostir prýða hina ungu herramenn (og Mollý) með eindæmum. Hún er þó ekki jafn hrifin af Galdramálaráðherra vorum Corneliusi Fudge, enda eru hreinskilni og umhyggja ekki kostir sem hægt er að segja að prýði hann.
Fantasia sér bjarta framtíð fyrir Harry og félaga því hún telur næsta víst að hann komi til með að ná markmiðum sínum og starfa sem skyggnir þegar fram líða stundir og muni jafnvel enda sem Galdramálaráðherra framtíðarinnar. Hún telur jafn fram nokkuð ljóst að Ron Weasley og Hermione Granger komi til með að enda sem hjón.
Ef Fantasia hefði farið í Hogwarts telur flokkunarhatturinn öruggt að hún hefði lent á Gryffindorheimavistinni. Stúlkan er því sýnilega full af hugrekki og hefur sterkt hjarta.
Fantasia hefur tekið persónuleikapróf sem mælir hennar persónuleika við persónuleika hinna ýmsu persóna í galdraheiminum og kom í ljós að hún er einna líkust Albusi Dumbledore. Ekki leiðum að líkjast. En líkt og Dumbledore er Fantasia hæfileikarík, gáfuð, umhyggjusöm og hæfur leiðtogi. Hún gerir sér fullkomlega grein fyrir muninum á réttu og röngu og hefur góðan sjálfstæðan skilning á ýmsum siðfræðilegum álitamálum. Við skulum því öll hafa augun opin fyrir ferðum hennar í framtíðinni því hver veit hvar við sjáum hana næst.
Rita Skeete