Kannski ætti þetta ekkert að vera hérna, en tæknilega séð er þetta í nánu sambandi við 7.bókina. Ef þetta má ekki vera hérna, þá skelli ég þessu bara upp í “annað”.

Þannig er mál með vexti að ég á foreldra sem eru ekkert alltof jákvæð að ég, litla barnið þeirra sem er nýskriðin úr grunnskóla, verði ein í borg óttans ásamt einhverjum örfáum hræðum á stað sem þau vita ekki hvar er. Þ.e.a.s. þau vita ekki hvar Nexus er né hversu margir verða þarna.

En ég vil fara í þessa blessuðu röð, þetta verður mitt fyrsta og síðasta skipti sem ég geri eitthvað svona, held ég. Ég veit að ég ætti að geta komist heim með rútu á sunnudaginn en þangað til þarf ég stað til að gista á. Allir mínir ættingjar eru hérna fyrir vestan í sumarfríi og ég mætti örugglega ekki vera ein í t.d. íbúðinni hennar ömmu, þótt að ömmu sjálfri væri alveg sama. Vill nokkuð svo skemmtilega til að einhver ykkar Hugara hér eigi svo sem eina aukadýnu og smá gólfpláss sem ég get setið á og lesið? Klósettaðstaða væri líka vel þegin. Það er annað hvort að ég fái að gista einhversstaðar eða ég get komist upp í íbúðina sem við eigum á Skaganum, en þá vantar mig far þangað. Eða taxa. Nei, fara taxar frá Rvk og upp á Skaga?

Já, svo var mamma líka að segja mér að ég mætti auðvitað ekki vera ein og eftirlitslaus þarna. Huh. Þ.e.a.s. hún treystir mér ekki aleinni án þess að einhver hafi auga með mér. Yfir 18 ára aldri þá. Er einhver hérna yfir 18 sem nennir að “passa upp á mig” og “taka ábyrgð” á mér?

Svo er náttúrulega hvort ég komist þangað til að byrja með. Bróðir minn nennir mögulega að skutla mér á Skagann, ég veit ekki hvernig ég kemst þaðan. En það er möguleiki að hann nenni að skutla mér í bæinn og þá verð ég komin þangað um 10 leitið.

Allavega, í stórum dráttum, þá vantar mig einhvern yfir 18 sem getur fullvissað foreldra mína um að ég fari mér ekki að voða, mig vantar stað til að vera á eða einhvern til að skutla mér upp á Skaga og einhvern til að koma mér upp á rútumiðstöð svo ég komist hingað vestur.

Kv. Gulla
sem dauðlangar að hitta alla Hugarana en kemst kannski ekki án þeirra hjálpar!

Bætt við 11. júlí 2007 - 17:54
Nei, hvur déskotinn. Svo virðist sem að mér hefur loksins tekist að fá annað hvort bróður minn eða pabba til að skutla mér í bæinn, fram og til baka. Ef bróðir minn fer, kemst ég ekki fyrr en um 10 um kvöldið. Ef pabbi fer… tja, þá gæti ég verið komin fyrr, það er allavega planið ef hann fer með mig. Svo nenna þeir jafnvel að fara með mig aftur hingað á úthjara alheims þannig að ég er í góðum málum ;) Meira að segja manneskja búin að bjóðast til að passa mig o_O

En takk samt, allir sem buðust til að redda mér fari hálfa leið eða gistingu. Ég bjóst ekki beint við því að mér myndi takast að fá einhverja fjölskyldumeðlimi til að fara með mig, en… :)

Þannig að, ef allt fer samkvæmt áætlun, sjáumst í röðinni hjá Nexus eftir 9 daga!