Harry Potter og Blendingsprinsinn: 532 síður
Það er verið að leggja lokahönd á íslensku þýðinguna á Harry Potter og Blendingsprinsinum í höfuðstöðvunum Bjarts. Nú er ljóst að bókin verður 532 síður, hún fer í prentun í fyrramálið. Helga Haraldsdóttir þýðandi hefur unnið myrkranna á milli undanfarna sólarhringa og fjölmargir velunnarar þýðandans og forlagsins lagt verkinu lið. Helga gekk léttstig út um dyrnar hér á Bræðraborgarstígnum kl. 22.12 í kvöld, á vit fjölskyldunnar sem hefur sýnt einstakan stuðning, þolinmæði og biðlund frá því að verkið hófst í lok júlímánaðar.

Líkt og undanfarin ár verður mikið um dýrðir þegar þetta sjötta bindi í bókaflokknum um galdrastrákinn Harry Potter kemur út á Íslandi, en það verður væntanlega 12. nóvember. Bókin er prentuð í Finnlandi og hefur Eimskipafélagið lofað að hraða uppskipun upplagsins eftir megni. Fyrsta upplag er 15.000 eintök en ef marka má viðtökur við fyrri bókum er vissara fyrir lesendur að hafa hraðar hendur. Fyrri bækurnar hafa selst hér á landi í samtals 85.000 til 90.000 eintökum þannig að búast má við að 100.000 eintakið seljist nú fyrir jólin. Kaupandi þess mun uppgötva óvæntan glaðning á síðu 333. Meira um það síðar.
C/P úr www.bjartur.is