Tókuði eftir því, að í byrjun annars kaflans í fimmtu bókinni fáum við loksins beinharða staðfestingu á því að frú Figg hefur verið að nota kettina sína til að fylgjast með Harry? Það kemur fram í byrjun fyrsta kaflans að þegar hvellurinn heyrðist, hafi köttur skotist undan bíl í grenndinni. Í byrjun annars kaflans segir frú Figg að það hafi verið heppni að hún hafi látið Mr. Tibbles fylgjast með Mundungus Fletcher, því að Mr. Tibbles hafi síðan skotist og aðvarað hana þegar Fletcher hvarf.
Síðan þegar hún er að fylgja Harry og Dudley aftur heim til sín, þá kíkir hún fyrir horn og segir, “hvað er þetta? Ó, þetta er bara Mr. Prentice” og því geri ég ráð fyrir að það sé enn annar af köttunum hennar.
En eins og margir athugulir lesendur hafa tekið eftir, þá hefur stundum verið gefið í skyn í fyrri bókum að það sé algengt að kettir ráfi um Runnaflöt. Til dæmis í fjórðu bókinni þegar Harry vaknar upp við að hann finnur til í örinu, þá stendur hann upp og lítur út um gluggann, þar sem hann sér að allt er óvenju kyrrlátt, ekki einu sinni köttur á ferli.
Það sem ég er hins vegar forvitinn um núna, er hvaða kött var frú Figg svona óánægð með í fyrstu bókinni, að hún hlífði Harry við því að skoða myndir af öllum köttunum sínum, en leyfði Harry í staðinn að horfa á sjónvarpið og gaf honum meira að segja köku, sem reyndar bragðaðist eins og hún hefði verið geymd inni í skáp í nokkur ár. Hún bar því við að hún hefði dottið um einn köttinn sinn og fótbrotnað, því eins og þið munið kannski, þá var hún fótbrotin, en gerðist það í alvöru? Ef það sem gerðist í raun og veru var eitthvað tengt galdraheiminum, gat hún náttúrulega ekki sagt Harry sannleikann, svo að þetta var ágætis afsökun, en hvað haldið þið?