Muniði í lok fjórðu bókarinnar þegar Dumbledore, Snape og McGonagall björguðu Harry frá Crouch yngri og Dumbledore sendi Snape að ná í flösku af Veritaserum og húsálfinn Winky og McGonagall að fylgja Siriusi inn á skrifstofu Dumbldores? Ég fór allt í einu að hugsa um þetta, Dumbledore lét senda eftir Winky áður en Crouch var búinn að missa dulargervið og hann hefði varla gert það ef hann hefði ekki grunað að hún tengdist þessu eitthvað.
En þá mundi ég eftir því að þegar Crouch eldri staulaðist til Hogwarts til að vara Dumbledore við, þá sagði Harry Dumbledore frá því að Crouch hefði minnst á son sinn, en það er eftir því sem ég best veit, eina vísbendingin sem Dumbledore fékk um að þetta tengdist honum eitthvað. Eins og við vitum náttúrulega, er Dumbledore snillingur, en fyrr má nú vera… að geta tengt svona ólíkindi með nógu mikilli vissu til að senda eftir Winky…
Á hinn bóginn er svosum ekki alveg víst að hann hafi vitað að þetta hafi verið Crouch yngri sem þóttist vera Moody, heldur giskað á að Winky gæti vitað eitthvað um þetta, því að hann grunaði út frá hvarfi Crouch eldri og draumi Harrys að Crouch hefði verið drepinn og að einhver við Hogwarts hefði gert það, líklega sá hinn sami og setti nafn Harrys í eldbikarinn. Þá hefur hann ályktað að fyrst að Crouch hefur ætlað að vara Dumbledore við, hefur hann vitað eitthvað um þetta og þá ef til vill húsálfurinn hans líka.
En hvað sem því líður, þá gerði það í rauninni ekki mikið gagn að senda eftir Winky, þar sem hún gerði fátt annað en að væla og skamma Crouch fyrir að kjafta frá, en kannski bjóst Dumbldedore við því að hún gæti veitt einhverja vitneskju sem sakborningurinn gæti ekki, en ef svo er þá finnst mér líklegra að hann hafi ekki vitað að þetta væri Crouch, fyrr en hann sá hann breytast úr Moody í sjálfan sig.
Það er hins vegar ekkert minnst á viðbrögð Dumbledores þegar áhrif ummyndunardrykksins (polyjuice potion, er það ekki svona á íslensku? man það ekki alveg) hættu, en fyrir því koma tvær ástæður helst til greina. Í fyrsta lagi sú, að mér hefur ekki fundist Dumbledore leggja það í vana sinn að taka andköf þegar hann verður hissa og í öðru lagi sú að Harry átti fullt í fangi með að vera hissa sjálfur, svo hann var kannski ekkert sérstaklega að taka eftir viðbrögðum Dumbledores og Rowling skrifar yfirleitt ekki um það sem Harry tekur ekki eftir.
En hvað finnst ykkur? Haldiði að Dumbledore hafi vitað fyrirfram að þetta hafi verið Crouch, að hann hafi áttað sig á því um leið og hann áttaði sig á að þetta væri ekki Moody, þegar hann leiddi Harry í burtu frá Dumbledore? Og ef svo er, getiði þá bent mér á fleiri hugsanlegar ástæður fyrir að Dumbledore hafi vitað það?