Síðustu 16 greinar sem hafa verið sendar inn á greinayfirlitið hafa verið “fanfic” sögur, þar á undan var ein spurningakeppni og ein almennileg grein, þá 9 “fanfic” sögur, viðtal, fanfic, viðtal, fanfic, grein…
Mér finnst alveg gaman að lesa þessar sögur ef þær eru vandaðar eins og margar þeirra eru, en er þetta ekki farið að kæfa dálítið almenna umræðu um bækurnar á greinayfirlitinu? Auðvitað eru korkarnir líka til staðar og hefur verið mikið notast við þá á meðan greinayfirlitið hefur verið undirlagt af smásögum, en persónulega finnst mér þægilegra að ræða um bækurnar í greinasvörum, þar sem maður þarf ekki að eyða aukatíma í að sjá hvað eru undirskriftir og hvað eru svör, sérstaklega þar sem sumar undirskriftirnar eru töluvert lengri en svörin.
Svo ég vil biðja ykkur, gott fólk, um að senda sögurnar frekar inn á áhugaspunakubbinn þar sem búið er að gera þar til gerðan kubb fyrir þær. Það ætti líka að tryggja að sögurnar verði vandaðri en sumar sögurnar hér eru, þó þær hafi nú farið verulega batnandi. Enda er mun skemmtilegra að lesa vandaðar sögur með góðu málfari, eins og ég er viss um að mörg ykkar eru sammála mér með.