Ég var að ljúka við fjórðu bókina í enn eitt skiptið og fyrsta skiptið eftir að ég las þá fimmtu. Eitt af því sem ég tók eftir í endann á henni er það að þegar þau eru að yfirgefa skólann og Ron ákveður loksins að biðja Krum um eiginhandaráritun, þá lítur Hermione undan og fer að fylgjast með vögnunum í staðinn, sem eru einmitt að aka af sjálfsdáðum (eins og við héldum þá) upp að kastalanum.
Þarna var Harry náttúrulega búinn að verða vitni að dauða Cedrics, svo að hann ætti að sjá dráttardýrin, en þess er þó ekki getið.
Það er reyndar ekki tekið fram að Harry hafi litið þangað, aðeins Hermione, en það er dálítið skrýtið til þess að hugsa að hann hafi síðan gengið niður að þeim og klifrað inn í einn vagninn án þess að taka eftir neinu. OK, hann var í uppnámi eftir allt sem hafði gerst síðustu daga, en samt…
Sérstaklega finnst mér þetta skrýtið þar sem Rowling hefur greinilega haft þessi dýr í huga síðan hún byrjaði á bókunum (eða að minnsta kosti síðan í þriðju bókinni, sem sagt síðan áður en þetta atvik á sér stað), en það er eins og hún hafi gleymt sér aðeins þarna.
Það þarf þó ekki að vera, kannski gerði hún þetta viljandi til þess að vera ekki að bæta inn meiri upplýsingum í endinn á þessarri bók, þar sem þær koma söguþræði bókarinnar sjálfrar ekkert við, heldur myndi bara lengja bókina að óþörfu. Kannski er það jafnvel þess vegna sem hún lætur það vera Hermione sem lítur þangað og Harry gerir bara ráð fyrir að hún sjá enga hesta því hann hefur ekki ástæðu til að halda annað. Þess vegna mætti jafnvel ætla að Harry hafi reyndar tekið eftir þeim þegar hann sneri sér að vögnunum, en okkur ekki verið sagt frá því til að lengja ekki bókina að óþörfu.
Þó stenst það ekki, því í fimmtu bókinni kemur það skýrt fram hve hann er hissa þegar hann sér hestana beislaða við vagnana, sem segir okkur að þetta sé í fyrsta skipti sem hann sér þá, eða að minnsta kosti tekur eftir þeim. Þar af leiðandi getur hann ekki hafa tekið eftir þeim í lok fjórðu bókarinnar, hvort sem það var vegna þess að hann var of annars hugar eftir allt sem hafði gerst, eða að hann labbaði með lokuð augun niður að vögnunum, við fáum líklega aldrei að vita hvort það var…
Hvað haldið þið?