“Það er nú kurteisi að svara þegar manni er boðin góðan dag,” sagði hann. Kate starði bara og var alveg við það að koma orðunum upp úr sér þegar hann hélt áfram að tala:
“Sérstaklega þegar faðir þinn talar við þig.”
Þarna fékk hún röddina aftur.
“Þú ert ekki faðir minn!” stundi hún upp og gretti sig.
“Æi, ertu í afneitun, elsku dóttir?”
“Nei, sko…” hún andaði ótt og títt, “ég er mjög lík föður mínum! Ég bjó í Finnlandi í nokkur ár, ég veit hverjir foreldrar mínir eru, ég er ekki skyld þér, hvorki andlega né með blóðböndum. Eina skrítna galdrafólkið í minni fjölskyldu er það sem fer út í skóg og ákallar skógarvættir með rúnagöldrum. Lengra nær það ekki,” reyndi hún að útskýra, á barmi taugaáfalls. Hinn myrki herra hristi bara höfuðið.
“En Lucius Malfoy sagði mér að þú værir löngu týnd dóttir mín sem sonur hans hefði séð, nýkomna í skólann. Ekki myndi hann ljúga að mér, eða hvað?” spurði Voldemort. Á þessu augnabliki leið Kate kjánalega, með smá slatta af hræðslu reyndar, en hún var næstum því yfirborin kjánaskapnum í aðstæðunum. Hérna stóð hún, rétt fyrir utan eina hreinræktaða galdraþorp Bretlands með manngerða illsku fyrir framan sig og hann taldi sig vera faðir hennar? Núna var toppinum náð. Eða botninum, eftir því hvernig litið var á þetta. Kjánalega tilfinningin var reyndar óðum að víkja fyrir hreinum ótta. Þetta var sá-sem-ekki-mátti-nefna. Og hann stóð fyrir framan hana. Brosandi.
“Sjáðu til, herra minn, ég held að þetta sé allt einn stór misskilningur. Draco Malfoy hélt líka að ég vildi giftast honum, Severus Snape hélt að ég væri dóttir sín og Neville Longbottom stóð í þeirri trú að ég gæti ráðið náttúruöflunum með hálsmeni sem amma mín átti að hafa gefið mér. Svo kemur þú núna í þeirri trú að ég sé dóttir þín, sem ég er ekki, því að ég veit hverjir foreldrar mínir eru og ég er mjög lík þeim og ég þekki afa mína og ömmu og það er til vídeótaka af því þegar ég fæddist. Þau eru raunveruleg fjölskylda mín, það fer ekki á milli mála. Það bara virkilega fer engan veginn á milli mála. ”
Voldemort lyfti augabrún (eða því sem ætti að vera augabrún ef hann hefði eitthvað andlitshár) og starði í augu hennar.
“Þú ert allavega að segja satt svo að þú vitir til, svo mikið er víst, ungfrú Jackson,” sagði hann og gekk nær henni. Hún hefði reynt að bakka burt ef hún hefði ekki verið svo gott sem frosin við jörðina. Hann lyfti sprotanum sínum, greip aðra hönd hennar og lét sprotann renna eftir lófanum hennar. Lítil blóðrák birtist, bláir og hvítir neistar flugu úr sprotanum. Hann starði einbeittur í lófann hennar í nokkrar sekúndur, sleppti síðan hendinni hennar og yppti öxlum.
“Nei, það er víst rétt, engin blóðtengsl. Vertu sæl, ungfrú Jackson, ég þarf að eiga orð við Malfoy hinn eldri.” Með því gekk hann nokkur skref aftur á bak og virtist gera sig tilbúinn til að tilflytjast þegar rauð elding, að því virtist, lenti á bakinu hans. Kate leit yfir öxl hans og sá drenginn sem lifði af, sjálfan Harry Potter, beina sprotanum sínum að erkióvini sínum.
“Slepptu henni,” urraði hann. Kate fannst eins og hún ætti að upplýsa hann að hún væri laus, en grunaði að hann myndi ekki hlusta á hana. Voldemort aftur á móti gerði hið gagnstæða og greip Kate og lét hana fyrir framan sig eins og skjöld.
“Nei. Þú myndir ekki myrða hana eingöngu til að ná mér, er það? Þú ert of göfuglyndur, þú myndir ekki fórna saklausu lífi til að losa þig við mig,” hvæsti hann.
“Ég gæti hitt þig án þess að skaða hana,” svaraði Harry.
“Myndirðu hætta á það? Myndirðu hætta á að hæfa… þína eigin systur?”
“Nú ertu bara að búa til hluti á staðnum,” muldraði Kate og andvarpaði lágt. En þetta dugði til að slá Harry út af laginu, Voldemort kastaði bölvun í átt að honum sem hann rétt náði að færa sig undan.
“Myndir þú fórna barnabarni þínu? Þínu eigin holdi og blóði?” kallaði Harry á móti.
“Hún er ekki blóðtengd mér! Ég er búinn að athuga það!” Þetta virtist líka slá Harry út af laginu, svo að Voldemort fékk annað tækifæri til að kasta bölvun á hann, sem hæfði hann í þetta skiptið, svo hann féll til jarðar. Síðan kastaði hann Kate frá sér og tók á sprett inn í skóg. Harry reis upp og hljóp á eftir honum inn í skóg, en var fljótlega stöðvaður af varnarskyldi og svo heyrði hún hljóðið sem einkenndi tilflutning. Harry hljóp framhjá henni, kom auga á Ron og Hermione og kallaði til þeirra:
“Fljót! Upp í Hogwarts! Við verðum að segja Dumbledore að Voldemort hafi verið hérna!” Kate starði á eftir þeim í smá stund og lét sig síðan falla til jarðar.

Ekki að það hafi liðið yfir hana, svoleiðis gerist ekki við venjulegt fólk, en henni leið betur liggjandi á jörðinni þar sem hún þurfti ekki að sjá einn né neinn. Þessi fyrsti mánuður í Hogwartsskóla hafði verið alltof, alltof skrítinn. Svona lagað átti ekki að gerast við venjulegar unglingsstúlkur. Hingað til hafði mesta dramað sem hún hafði lent í verið rifrildi við stelpu í Finnlandi um þáverandi kærastan sinn og dauði ömmu hennar. Núna ætlaði hún bara að liggja þarna þangað til það færi að vaxa mosi á henni og allir myndu gleyma henni. Það er að segja, þangað til hún heyrði í einhverjum hlaupa til hennar. Kannski voru þetta stelpurnar, þær hlutu að hafa beðið heillengi eftir henni á Þremur kústum. Nei, þetta var bara ein manneskja….
“Er allt í lagi með þig?” heyrði hún kallað. Ef til vill væri best að standa upp, annars gæti þessi förulangur staðið í þeirri trú að hún væri hjálparvana og þyrfti að fara upp í sjúkrahúsálmuna. Það myndi nú bara kóróna allt saman, ef hún þyrfti að vera þar.
“Já, ég datt bara, mér líður mjög vel, takk fyrir, þú þarft ekki að…” Hún stoppaði í miðri setningu og starði á þann sem kom. Það var Justin. Justin með sætu krullurnar sínar.
“Ég skal hjálpa þér upp,” sagði hann og rétti henni hendi. Hún tók hana og hann togaði hana upp.
“Takk,” muldraði hún, roðnandi, og reyndi að dusta mesta grasið af sér.
“Hvað varstu að gera hérna?” spurði hann áhugasamur og leit yfir öxlina hennar á Draugakofann.
“Æi, bara, taka myndir af kofanum og þorpinu fyrir mömmu og pabba.”
“Er allt í lagi með myndavélina?” spurði Justin. Kate horfði undrandi á hann, en mundi svo að hún hafði víst átt að detta rétt áðan.
“Ó, já, jújú, ég bjargaði henni alveg, mér finnst svo vænt um hana. Ég passa mig alltaf á því að hún sé í heilu lagi, sama hvað gerist.”
“Sama hvað gerist? Ertu oft að lenda í einhverju með myndavélina?”
“Ah, nei. Nei, nei.”
“Ókei. Gott.”
Þau stóðu þarna og reyndu að finna eitthvað til að segja. Kate gafst að lokum upp.
“Hérna… þú trúir því alveg að ég sé eðlileg, er það ekki?” spurði hún.
“Hvað? Jú, þú ert eðlilegasta stelpa sem ég hef hitt lengi,” sagði Justin og brosti til hennar.
“Í alvöru?” spurði hún óörugg.
“Já, þú ert meira að segja með eðlilegan háralit,” sagði hann uppörvandi.
“Æi, já, mamma bannar mér að lita á mér hárið meðan ég er undir lögaldri,” útskýrði hún og renndi hendi í gegnum hárið sitt.
“Sko, þú hlýðir meira að segja því sem þau segja þér. Þú ert… eða bíddu, við hlýðirðu öllu sem þau segja?” spurði Justin og horfði tortryggnislega á hana.
“Nei, ég hef lesið fullt af hlutum sem þau vildu að ég kæmist ekki í fyrr en ég væri orðin þrítug og farið í muggapartí sem þau vissu ekkert um. Ég er ekki alveg saklaus!” sagði Kate, örlítið móðguð.
“Hvaða, þú ert alveg eðlileg,” sagði Justin ánægður. Kate létti við að heyra þetta.
“Ég ætti að koma mér á Þrjá kústa til stelpnanna, þær eru örugglega farnar að bíða eftir mér,” sagði hún og leit í átt að Hogsmeade.
“Ég er einmitt að fara þangað! Ernie og strákarnir ætluðu að vera þar. Samferða?”
“Endilega.”
Nú jæja, kannsi var einhver minnsti möguleiki á að hún gæti fengið aftur eðlilegt líf þarna. Í það minnsta virtist Justin vera voðalega eðlilegur. Og fínn. Og jú, sætur, það hjálpaði til.


Ah, þetta varð aðeins styttra en ég vonaðist til, en mér datt bara ekkert meira í hug.