Harry Potter and the Half Blood Prince: Kvikmyndagagnrýni(SPOILER) Ég ákvað að bæta enn annarri kvikmyndagagnrýninni um Harry Potter og Blendingsprinsinn í safnið. „Afhverju, eru þrjár ekki nóg?“ hugsar þú kannski, og jú, það er vissulega komið nóg af gagnrýnum á þessa mynd. En hvað um það, alla langar að segja sýna skoðun, þú ræður hvort þú lest eða ekki. Að sumu leyti er ég eflaust sammála höfundum fyrri greina (sabbath, ahamm og flexi) en svo eru skiptar skoðanir um annað.

Eins og þarf nú vart að benda á þá inniheldur þessi grein spoilera og ef svo sérkennilega vill til að þú sért að slæpast um á hugi.is/hp án þess að hafa lesið allar sjö bækurnar mæli ég með því að þú hættir að lesa NÚNA.

Það ber að nefna að ég las, það er að segja hlustaði, á 6. Harry Potter bókina í vikunni áður en myndin kom út og er ég því líklega heldur smámunasöm varðandi ýmislegt gert öðruvísi í myndinni. Ég hyggst samt byrja á að nefna það sem mér fannst slæmt en mun svo koma með ýmsa góða punkta um myndina líka.


Slæmt

Byrjunin. Hluta af upphafi myndarinnar hefði ég viljað sjá öðruvísi. Þetta er enginn stórfenglegur galli á myndinni en varðandi stelpuna á matsölustaðnum í byrjun myndarinnar þá finnst mér svolítið kjánalegt að bæta svona inn í, enda finnst mér það stangast á við karakter Harrys að láta hann vera að blikka þjónustustúlkur. Það sem verra er var þó að sleppa fundi Dumbledores við Dursley-fjölskylduna, ég hafði einkar gaman af því atriði í bókinni en eins og ég segi, þetta er ekkert stórmál.

Ég var mun meira svekkt yfir því hvað tók við eftir árás Draco á Harry í lestinni. Mér þótti mikilvægt fyrir samband Tonks og Lupin að hún kæmi og bjargaði honum til þess eins að koma á framfæri að Verndari (e. Patronus) hennar hefði breyst skyndilega í varúlf, þ.e. Lupin.

Tvær mismikilvægar upplýsingar sem hefðu átt að koma fram var einnig sleppt.
Hið fyrsta var þegar Hermione kom af bókasafninu og sagðist hafa reynt að grafa upp eitthvað um the Half-Blood Prince en kvaðst svo ekki hafa fundið neitt. Þvert á móti á hún að hafa fundið konu með eftirnafnið Prince og kom svo í ljós seinna að umrædd kona væri móðir Snapes, þetta hefði mátt vera haft með.
Það sem merkilegra er þó er að mikilvægasta upplýsingabút úr kennslu Dumbledores var sleppt í myndinni. Ég minnist þess að hafa einungis heyrt það nefnt að helkross væri hluti sálar sem gæti verið falinn í hvaða hlut sem er, og vissulega er það rétt en Dumbledore dró í raun þá ályktun að mjög líklega væru sjö hlutum sálar Voldemorts skipt svo:

- Einn í dagbók Tom Riddles sem Harry eyðilagði í HP og Leyniklefinn.
- Einn í hring Marvolos sem Dumbledore hafði eyðilagt.
- Einn í nisti Salazar Slytherin.
- Einn í bikar Helgu Huffelpuff, sem þeir sáu einmitt í minningu sem ekki var sýnd í myndinni.
- Einn í einhverjum merkishlut sem hafði áður verið í eigu Gryffindor eða Ravenclaw.
- Einn í Nagini, slöngu Voldemorts.
- Einn í Voldemort sjálfum. (Þó að síðar hafi komið í ljós að þar hafi ekki verið neinn hluti sálar hans, heldur í Harry sjálfum.)


Dumbledore hafði að miklu leyti rétt fyrir sér í þessu og er þetta leiðbeinandi fyrir Harry í allri 7. bókinni, ég veit ekki hvernig þeir ætla að gera þetta í 7. myndinni, láta hann komast að þessu sjálfur?

Endirinn var að mínu mati góður og slæmur. Það sem mér fannst slæmt var vissulega það að þeir slepptu bardaganum. Harry á ekki að hafa séð mikinn hluta hans og ég hefði ekki verið sár þótt við hefðum ekki fengið að SJÁ bardagann en hann ætti vissulega að hafa átt sér stað. Þar að auki var Bill Weasley bitinn af Fenrir Greyback í þeim bardaga og skiptir þetta vissulega sköpum, a.m.k. fyrir Bill, því hann mun vera varúlfur það sem eftir er vegna þessa. Hins vegar sluppu hin Weasley-systkinin og Hermione vegna örlætis og góðmennsku Harrys að hafa gefið þeim restina af Felix Felicis-drykknum en ekki drukkið hann allan sjálfur.

Það virðast allir vera sammála um að bruninn á Hreysinu(e. the Burrow) var óþarfi og jafnvel tímaeyðsla, settur inn í mynd sem virkilega hafði nóg upp á að bjóða svo að ekki þurfti að bæta neitt frekar inn í hana. Þeir hefðu til dæmis getað notað tímann sem fór í þetta atriði fyrir smá umtal um lokabardagann í endi myndarinnar.

Ég vil minnast svolítið á samband Harrys og Ginny. Handritshöfundar gera þessa mynd svolítið frábrugðna fyrri myndum svo hún eigi sér stærri áhorfendahóp, þeir bæta inn í fullt af gríni - sem vissulega er af hinu góða - en jafnframt bæta þeir inn meiri rómantík en kom fram í bókunum. Ég vildi sjá Harry uppgötva ást sína á Ginny svo að það kæmi honum sjálfum á óvart, óundirbúið og fyrirvaralaust. Ég vildi sjá að kossinn væri af meiri alvöru og hann átti auðvitað að eiga sér stað fyrir framan hóp sigrihrósandi nemenda í sæluvímu í setustofu Gryffindor eftir velheppnaðan Quidditch-leik. Að láta Harry horfa á væminn hátt á Ginny upp í glugganum strax í byrjun myndarinnar og að hafa einhvern mömmukoss AFTUR í the Room of Requirement (ísl?) var afleitt að mínu mati, hann var nú þegar búinn að kyssa Cho Chang þar svo þetta varð svolítið kjánalegt.

Að lokum vil ég rétt benda á að atriðið á baðherberginu með bardaga Harrys og Dracos hefði frekar átt að eiga sér stað með álögum og göldrum sem orðaðir voru upphátt.
Þannig var það í bókinni og það væri að mínu mati áhrifameira ef álög eins og „stupefy“ og „expelliarmus“ væru notuð (upphátt) þar til Harry kemur með Sectumsempra.
Hitt var kjánalegt, enda tók ég sérstaklega eftir því hve undarlegt það var að þeir skyldu kasta álögum í hljóði þar til Harry öskrar „Sectumsempra!“. Þar að auki á hvorugur að hafa verið góður í að kasta álögum hljóðlaust á þessum tímapunkti.

Gott

Nóg af kvarti yfir lélegum atriðum/handriti, það var margt gott við myndina sem vó upp á móti hinu slæma. Þar ber að nefna:

Byrjunina. Allra fyrstu sekúndurnar í myndinni þóttu mér mjög flottar, tæknibrellurnar, brúin, fljúgandi dráparar voru jafnvel að virka þó það sé ekki eins og það á að vera og ég er sammála því að það á að hafa komið á óvart að Voldemort flýgur en samt sem áður…

Kómískum atriðum myndarinnar hafði ég einkar gaman af, Hermione að fara yfir um af pirringi og áreynslu við að reyna að toppa Harry í Potions (ísl?) var fyndið ásamt ógleymanlegum atriðum eins og þegar Harry drakk Felix Felicis og þegar Ronald kvaðst vera ástfanginn af Romildu Vane. „Harry, I think I‘m in love with her“. Tær snilld.
Allt umstangið í kringum Ron og Lavender var stórskemmtilegt að horfa á, leikkonan var ekki eins og ég hafði ímyndað mér en persónulega hafði ég mjög gaman af áráttukenndri hrifningu hennar á Ron.
Að lokum var allt sem tengdist Ron að spila Quidditch stórfenglegt, kjánalegur hjálmurinn/húfan, hvernig hann leit út á kústinum. Ekki skemmdu vel gerðar tæknibrellur fyrir, Quidditch var í heild sinni mjög gott í þessari mynd.

Þegar kemur að alvarlegri atriðunum fannst mér ýmislegt vel gert.

Atriðið með Hermione á tröppunum með Harry þótti mér gott og vel leikið.

Minningarnar voru misgóðar, að sjálfsögðu er ekki hægt að koma öllum minningunum fyrir í einni mynd en þeim tókst ágætlega upp með það sem þeir höfðu með.
Minningin um Tom Riddle á munaðarleysingjahæli var einkar góð, enda nærri orðrétt upp úr bókinni, en þeir náðu vissulega að láta þennan litla Tom Riddle líta nógu ógnandi út, hann var illur út í gegn alveg.
Ég var ekki nógu sátt við leikaravalið á Tom Riddle sem ungling, mér þótti leikarinn sem lék hann í Harry Potter og Leyniklefanum henta mun betur. Líklega er sá leikari of gamall núna til að leika þetta hlutverk, en hvað um það, mig langaði bara að koma þessu að.

Ólíkt öðrum álitum sem ég hef heyrt þótti mér endirinn mjög góður, ef litið er framhjá þeirri staðreynd að þeir slepptu öllum hasar með bardagann innan skólans.
Atriðið í hellinum var í heild mjög gott, ég hef nærri ekkert út á það að setja, ekki svo merkilegt að ég muni neina galla a.m.k.
Jafnframt þótti mér lokaatriðið með morði Dumbledores magnþrungið og ekki gert nærri eins lítið úr dauða hans og aðrir segja.
Að hafa Harry ekki lamaðan undir huliðsskykkjunni þótti mér mjög sterkur leikur.
Þar sem Harry hefði í bókinni gert tilraun til að gera eitthvað í málunum, hversu gagnslaust og hættulegt sem það væri, stóð hann aðgerðarlaus hjá. Þrátt fyrir að vera ekki fastur undir huliðsskykkjunni líkt og í bókinni gerði hann enga til raun til að bjarga Dumbledore.
Það tel ég hafa verið vegna Snapes.
Snape kom upp að honum þar sem hann var falinn undir rampnum og sussaði á hann og hélt svo upp. Þar var líkt og Harry héldi að þar væri kominn einhver til bjargar en svo reyndist ekki. Vissulega sterkur leikur hjá handritshöfundum til að magna upp hatur Harrys á Snape og jafnframt það að Snape sé svo sannarlega illur.
Einnig lék Tom Felton hlutverk sitt mjög vel og allt þetta með „Please, Severus“ þótti mér mjög gott.
Ég var í heild mjög sátt við atriðið.

Leikarar

Til að byrja með stóð Tom Felton sig STÓRKOSTLEGA. Mér hefur aldrei þótt hann ná Draco eins vel og ég vildi, hann lítur heldur ekki eins út og ég ímyndaði mér Draco líta út, en í þessari mynd fer hann á kostum. Dauft, áhyggjufullt og tómt augnaráðið, atriðið á baðherberginu, jakkafötin, hvernig hann leikur sjálfumgleðina þegar Draco fer að líta á vissan hátt á sig sem „hinn útvalda“ þar sem Voldemort valdi hann í verkið, hjálparleysið þegar hann áttar sig svo og vill ekki ljúka verkinu. Ég var jafnvel farin að vorkenna Draco Malfoy, svo að mér finnst honum hafa tekist merkilega vel upp, stórkostleg persónutúlkun, svo sannarlega framfarir. Hann á allt mitt hrós.

Að vanda stóðu Helena Bonham Carter og Alan Rickman sig mjög vel, enda henta þau mjög vel í sín hlutverk.
Emma Watson tók framförum og Rupert Grint fór sérlega vel með hlutverk sitt sem „fyndni náunginn“. Eins og ég hef áður sagt var það hlutverk sem hann átti í Quidditch leikjunum ásamt sambandi hans við Lavender og ást hans á Romildu allt saman kostulegt.

Þegar kemur að Jim Broadbent var ég hins vegar ekki alveg nógu sátt. Mér þótti leikarinn ná persónu Slughorns alveg hreint ágætlega en það er svo mikið must fyrir mig að leikararnir passi inn í útlit persónu sinna. Hvar var rostungaskeggið, stóri maginn (Jim er nú ekki svo feitur) og gleraugun?
Talandi um útlit, þá fannst mér Helen McCrory fráleit í hlutverki Narcissu Malfoy. Það vantaði ógnandi augun, sítt, hvítt (hvítt, ekki grátt!) hárið og yfirvegunina í svip hennar. Þetta var einfaldlega ekki að gera sig.

Bonnie Wright var fremur dauf, aldrei þótt hún neitt stórkostleg leikkona þótt útlit hennar passi Ginnyar.
Daniel Radcliffe var alveg ágætur þó ég sé enginn stór aðdáandi. Felix Felicis var vafalaust besta atriðið með honum.

Aðra leikara er óþarfi að nefna, utan Michael Gambon, sem mér finnst aldrei ná rólyndi Dumbledores líkt og sá gamli gerði. Því miður dó hann, ekki hægt að kvarta yfir því, en samt sem áður. Hann var betri Dumbledore en Michael Gambon.

Tæknibrellur/Tónlist/Myndataka

Eins og flestir er ég sammála um tæknibrellurnar, þær voru virkilega góðar, kústarnir, bækurnar sem flugu sjálfar upp í hillu, uglan á stalli Dumbledores og ýmislegt annað eins. Tónlistin var mjög góð en ég tók sérstaklega eftir myndatökunni, sjónarhorn voru mjög flott og það var einnig á tímapunkti sem skjárinn varð svartur í nokkrar sekúndur (strax eftir dauða Dumbledores að mig minnir) og var það mjög viðeigandi.

Leikstjórn


Leikstjórn myndarinnar þótti mér heppnast vel, framfarir leikaranna hljóta að hluta til að vera David Yates að þakka og það segja þau jafnvel sjálf (t.d. Tom Felton) í viðtölum.
Hann er uppáhaldsleikstjórinn minn af þeim sem unnið hafa við Harry Potter myndirnar, hann er klárlega að gera góða hluti.

Í heild finnst mér myndin mjög góð. Þegar ég gekk út var ég sannfærð um að þetta væri vafalaust besta Harry Potter myndin, vissulega kemst meira efni fyrir í myndum eitt og tvö miðað við bækurnar (því þær voru styttri) en fyndið og jafnframt myrkt yfirbragð yfir þessari mynd var frábært, ótrúlega margt vel gert. Ég gæfi henni 8/10.

Ef þú virkilega nenntir að lesa fjórðu gagnrýnina og jafnvel þá lengstu líka, þá þakka ég þér fyrir, endilega segðu álit þitt eða bættu við því sem þér finnst ég ekki koma nógu vel inn á.

~ Aersa