Ég ætla bara að þakka ykkur fyrir að kynna mig fyrir takka á lyklaborðinu sem er nú orðinn góður vinur minn : ENTER
Og ég ætla bara að vona að ykkur líki við þennan kafla :)
Mér finnst alltaf gaman að fá álit, og endilega segið mér ef það er eitthvað sem þarf að laga!


„Bella, Bella! ISABELLA HARLOW ERTU ROTUÐ EÐA HVAÐ?“
Öskrin í Theresu heyrðust ábyggilega niður í Stóra sal, en Bella svaf sem fastast.
Hún hrökk þó upp þegar Theresa sagði: „Sjáðu hver kom í nótt.“
Bella stökk upp og öskraði: „Jessica! JESSICA!“ og faðmaði stelpuna sem stóð við rúmið hennar.
„Já blessuð Bella mín, en svakalega ertu orðin gleymin. Síðast þegar ég vissi hét ég nú Katherine.“
„Óó, fyrirgefðu. Ég hélt að…æjji skiptir engu.“
Bella var mjög svekkt, eitt andartak hafði hún haldið að Jessica væri komin.
„En hvar er Jessica annars?“ spurði Kat.
„Við vitum það ekki,“ svaraði Theresa, hálf hás eftir öll öskrin.
„Áttir þú ekki að koma eftir viku?“ spurði Bella Kat.
„Jú, en svo frétti pabbi af drápurum í nágrenni við Tyrkland og ákvað að fara heim fyrr.“
„Já, ég skil“ svaraði Bella.
„Hæ Lúna,“ sagði Kat.
Lúna leit við og svaraði svo: „Hæ Kat, sástu nokkuð einhverja krumpuhyrnda snurta? Pabbi segir að það sé allt morandi af þeim í Tyrklandi.“
„Nei, það gerði ég nú ekki,“ sagði Kat og horfði á Theresu með Guð-Minn-Góður-Hvað-Er-Hún-Að-Tala-Um svipnum.
„Við þurfum að fara niður í Stóra sal, Bella í guðanna bænum klæddu þig,“ sagði Kat.
„Morgunmaturinn er löngu byrjaður og McGonagall er ábyggilega búin að láta alla fá stundarskrárnar sínar.“
„Já, mig langar að vita í hvaða tíma við förum í dag,“ sagði Theresa.
Þær gengu allar fjórar niður í Stóra sal og Bella, Kat og Theresa settust við Ravenclaw borðið en Lúna fór að tala við Ginny Weasley. Bella rak augun í Jacob og veifaði til hans. Svo tóku þær allar duglega til matar síns. McGonagall kom og rétti þeim stundarskrárnar sínar, og þær skoðuðu þær yfir.
„Jemundur minn, við byrjum á tvöföldum ummyndunartíma í dag! Það er hörmulegt,“ sagði Theresa, sem fattaði ekki að prófessor McGonagall stæði þarna ennþá.
„Já það er nú gaman að vita hvað þér finnst um tímana mína, Theresa Williams,“ sagði McGonagall og horfði stíft á Theresu.
„Uuuu, nei prófessor, ég meinti þetta ekki! Ég var bara að grínast…ha ha ha,“ bablaði Theresa.
McGonagall strunsaði í burtu og settist við kennaraborðið, munnurinn á henni var eitt, þunnt strik.
„Ofboðslega ertu alltaf KLÁR Theresa,“ sagði Kat.
„Ben gvernig gag hún vigad a…“
„Bella, ekki tala með fullan munninn! Í alvöru talað stelpur, eruð þið fimm ára eða fimmtán?“ sagði Kat, mjög pirruð.
„Hey, hættið að kasta mat í hvorn annan,“ sagði hún svo við þrjá fyrsta árs nema sem sátu á móti þeim.
„HÆTTIÐ ÞESSU! ÉG ER UMSJÓNARMAÐUR OG ÞIÐ EIGIÐ AÐ HÆTTA ÞESSU NÚNA!“
Svipurinn á andliti Kat minnti óneitanlega mikið á svip McGonagall og drengirnir stukku upp frá borðinu og hlupu út úr Stóra salnum.
Á sama tíma gengu þrír strákar inn í salinn, sem voru á þeirra ári í Ravenclaw, þeir Jake Holter, Benjamin Bradley og John Dixie.
Jake var dökkhærður, hávaxinn og myndarlegur, frekar vinsæll og í Quidditchliði Ravenclaw.
Benjamin var „góði strákurinn“ í hópnum, ljóshærður, og frekar lágvaxinn.
Svo var það John, en hann taldist víst heppinn að fá að hanga með þessum strákum. Hann hafði skollitað hár, var frekar lágvaxinn og þybbinn.
Einn annar strákur var yfirleitt með þeim líka, en það var Gary Warnier. Hann var ljóshærður og brúneygður, frekar hávaxinn og vinsæll, en hann var ekki að sjá þarna.
„Róleg Kat, þú þarft ekki að láta grey strákana fá hjartaáfall. En hvað þú varst samt yndisleg að losa sæti beint á móti ykkur,“ sagði Jake, og hann og strákarnir settust beint á móti stelpunum.
„En afhverju ertu komin svona snemma? Benjamin var sagt í umsjónarmannaklefanum að þú kæmir ekki fyrr en eftir viku.“
„ÞÚ! Ert ÞÚ umsjónarmaður?“ hreytti Katherine í Benjamin sem sat á móti henni, og það mátti vel heyra vanþóknunartóninn í rödd hennar.
„Þú af öllum! Ég er stórlega farin að efast um dómgreind Dumbledores,“ bætti hún svo við, og ranghvolfdi í sér augunum.
„Það kemur sér allavega vel fyrir okkur ,“ sagði Jake og hló.
„Guð minn góður, þessi staður er að fara í hundana,“ sagði Kat þá.
Allt í einu sprakk Bella úr hlátri svo graskerssafi frussaðist út úr henni, og beint á strákana.
„Almáttugur, Bella, alltaf jafn snyrtileg,“ sagði Jake og starði á hana.
„Hvað er svona fyndið manneskja.“
Bella benti á John, ennþá skellihlæjandi.
„Hann…hann er…hann er…“
Hún gat varla talað fyrir hlátri. Allir litu á John, en sáu ekkert athugavert við hann.
„Róleg Bella, róaðu þig niður,“ sagði Theresa. „Hvað er eiginlega í gangi?“
„Hann…HANN ER MEÐ SULTU Á NEFINU!“
Allir í salnum litu við og störðu á þau, sem varð upphafið að nýrri hlátursgusu hjá Bellu, sem var farin að tárast af hlátri. Hún leit á John sem þurrkaði sér um nefið og roðnaði heilmikið, og Bella þurfti að beygja sig undir borðið til að geta hætt að hlægja.
„Já já, voða fyndið,“ sagði hann skömmustulegur.
Jake og Benjamin horfðu hissa á Bellu og ávaxtasafi lak úr andliti þeirra.
„Þú…ert furðulegasta manneskja sem ég veit um!“ sagði Jake og undrunin leyndi sér ekki í svip hans.
Bella roðnaði og fékk sér svo sopa af graskerssafa. Strákarnir beygðu sig niður, hræddir um að fá aðra gusu yfir sig.
„Það er ekkert að óttast, ég er hætt að hlægja,“ sagði Bella, og strákarnir komu fram undan borðinu.
Bella dýfði puttunum ofan í glasið og skvetti aðeins á Jake. Hann brást við með því að henda í hana jarðarberi, og loks voru heilu brauðsneiðarnar farnar á flug þvert yfir borðið.
„Hvað er málið? Ég var að enda við að banna strákunum sem voru hérna áðan þetta! Eruð þið á fyrsta ári eða hvað?“ Kat var orðin verulega pirruð, en Bella og Jake hlógu bara.
„Hey, hvar er Gary? Ég sá hann í setustofunni í gærkvöldi eftir veisluna,“ spurði Theresa eftir nokkra þögn.
„Hann er uppi í svefnálmu. Hann fékk uglu í gærkvöldi um að stóra systir hans hefði verið myrt af drápurum. Hún var skyggnir,“ svaraði Benjamin.
„Guð minn góður,“ stundi Theresa, Katherine gapti og Bella missti brauðsneiðina sína í gólfið.
„Já, þetta er hræðilegt,“ sagði John. „Hann fer heim í dag en kemur svo aftur sem fyrst. Það er auðvitað ekki gott af missa af miklu á U.G.L.u-árinu okkar.“
„Einmitt,“ svaraði Kat.
Þau tóku eftir því að fólk var farið að tínast út úr salnum og Kat sagði: „Eigum við ekki að fara að koma okkur í tíma? Það er best fyrir okkur öll að mæta á réttum tíma í kennslustund hjá McGonagall, og sérstaklega þig, Theresa.“
Strákarnir horfðu spurnaraugum á Theresu sem sagði: „Skiptir engu, komum okkur bara!“
Þau stóðu upp og gengu saman að ummyndunarstofunni. Þau settust saman við borð, og sáu að þau voru í tímum með Hufflepuff þetta árið.
McGonagall gekk inn, og Bella gat ekki betur séð en hún hvessti augun á Theresu sem hrökk undan.
„Í lok árs takið þið U.G.L.u-prófin ykkar, og ef þið ætlið að halda áfram í ummyndun,“ sagði hún, „verðið þið að leggja ykkur sérstaklega vel fram. Ég tek aðeins við nemendum sem fá Afburðagott eða Fer fram úr væntingum á prófunum.“
Hún varð trufluð við það að Lúna gekk inn í stofuna.
„Og hvers vegna mætir þú of seint í tíma hjá mér, fröken Lovegood,“ sagði McGonagall.
„Fyrirgefðu prófessor, ég fékk rugluþeytu í höfuðið og villtist.“
„Ruglu-hvað…?“ svaraði McGonagall og horfði skilningssljó á Lúnu.
„Rugluþeytu. Þær eru ósýnilegar og fljúga inn um eyrun á manni og gera hugsanir manns óskýrar,“ útskýrði Lúna, með tóni sem hefði verið vel við hæfi ef maður væri að útskýra eitthvað fyrir fimm ára barni.
„Þessir…,“ bætti hún svo við og benti á radísueyrnalokkana sína „…virka þó yfirleitt sem rugluþeytufæla, en áhrifin eru víst eitthvað farin að dofna. Ég verð bara að strá smá mold yfir þá á næsta fulla tungli, þá munu þeir örugglega ná aftur sínum fyrri styrk.“
McGonagall starði opinmynnt á Lúnu, sem fékk sér sæti við næsta borð.
„Já..uuu.. eins og ég var að segja þá…þá mun ég aðeins taka inn þá nemendur sem fá góðar einkunnir á næsta ári, svo það er eins gott að þið haldið ykkur vel við efnið.“
Bella leit í kringum sig og sá að allir störðu á McGonagall.
„Í ár byrjum við á að læra hvarfgaldra. En ég ætla að vara ykkur við. Hvarfgaldrar þarfnast mikillar einbeitingar, sem ég veit með vissu að suma hérna skortir.“
Hún leit á Benjamin, Jake og John, sem voru farnir að tala saman á fullu.
„Jake Holter, Benjamin Bradley og John Dixie viljið þið gjöra svo vel að fylgjast með,“ bætti hún svo við þegar strákarnir sýndu orðum hennar enga athygli.
Þeir hrukku þó við þegar hún sagði nöfnin þeirra og hættu strax að tala.
„Ég læt ykkur öll fá einn snigil og þið æfið ykkur á honum.“
Í lok tímans hafði engum tekist að láta snigilinn sinn hverfa, en snigill Kat var þó alveg á mörkunum að teljast heill. Theresu hafði tekist að sprengja sinn snigil í loft upp svo hann slettist í allar áttir, og það varð ekki til að bæta umhyggju McGonagall í hennar garð. Bella hafði gert sinn snigil fjólubláan, og hún hafði ekki hugmynd um hvernig, og allir fengu heimavinnu um að æfa sig betur í hvarfgöldrum fyrir næsta tíma.
Á eftir ummyndun gengu þau út á skólalóðina til að fara í umönnun galdraskepna, aftur með Hufflepuff-krökkunum. Þar beið hálfrisinn Hagrid eftir þeim, en það undarlega var að hann hafði engar furðuskepnur meðferðis.
„Í dag ætlum við að fjalla um…,“ sagði hann þegar allir voru komnir „…DREKA!“
Skelfingaróp heyrðust úr hópnum og litli, músarlegi strákurinn sem Bella kannaðist við úr lestinni sagði titrandi röddu: „Þú… þú ert þó ekki með…með dreka hé…hér er það nokkuð?“
„Nei Kevin, auðvitað ekki,“ rumdi í Hagrid.
„Ég er þó með myndir af nokkrum tegundum sem við ætlum að fjalla um, og ég náði líka að redda mér nokkrum líkönum af þeim. Þetta verður örugglega mjög skemmtilegur tími hjá okkur í dag!“
Og Hagrid hafði lög að mæla. Tíminn var mjög áhugaverður, og sérstaklega að því leyti að enginn brenndi sig, stakk sig eða meiddi sig á neinn hátt. Bellu hefði aldrei dottið í hug að drekar væru svona áhugaverðar verur.
Eftir þennan óvenju skemmtilega tíma fóru þau í töfradrykki hjá prófessor Slughorn. Bellu hlakkaði frekar til þess, því töfradrykkir voru sú grein sem henni gekk best í.
Þau gengu inn í stofuna og Bella uppgötvaði, henni til mikillar óánægju, að þau yrðu með Slytherin í tíma, eins og í fyrra. Það hafði þó verið verra þegar Snape kenndi töfradrykki, hann hafði verið mjög óréttlátur við Ravenclaw-nemana.
Stofan var þegar mettuð af gufum og undarlegum þef þegar þau komu inn, aldrei þessu vant.
Bella, Kat, Theresa og Lúna settust saman við eitt borð og strákarnir við annað. Slytherin-nemarnir gáfu Ravenclaw-krökkunum illt auga, sem Ravenclaw-krakkarnir endurguldu.
Slughorn prófessor gekk inn í stofuna og skikkjan rétt náði yfir vömbina á honum. Bella sá nokkra seiðpotta sem allir innihéldu einhverskonar drykki, en hún var þó ekki viss hvaða drykki.
„Takið nú upp áhöldin ykkar, í dag munuð þið brugga verulega flókinn drykk, vaxtadrykk. En fyrst…“ sagði Slughorn með frekar dramatískri röddu „…ætlum við að giska saman á hvaða drykki ég hef hérna í seiðpottunum.“
Hann brosti breiðu brosi og gekk svo að fyrsta seiðpottinum. Í honum var eitthvað sem líktist sjóðandi vatni.
„Veit einhver hvað þessi drykkur heitir?“ spurði Slughorn.
Hönd Kat skaust á loft og Slughorn prófessor benti henni á að svara.
„Þetta er Verítaserum, sannleikslyfið,“ svaraði Kat stolt.
„Alveg rétt!“ sagði Slughorn og gekk að næsta seiðpotti, sem innihélt þykkan, aurkenndan vökva.
„Jæja, þekkir einhver þennan drykk?“
Engin hönd fór á loft, ekki einu sinni Kat vissi hvaða drykkur þetta var.
„Enginn?“ spurði Slughorn. „Jæja, þetta er ummyndunardrykkur. Ég bjóst nú ekki við því að þið þekktuð alla þessa drykki, en í lok M.U.G.G.astigsins eigið þið að vera tilbúin til þess að brugga þá. En getur einhver…“ Slughorn gekk að þriðja drykknum „…sagt mér hvað þessi drykkur heitir?“
Enginn svaraði, svo Slughorn benti á Bellu og sagði: „Jæja fröken. Getur þú nokkuð sagt mér hvaða drykkur þetta er?“
Bella hafði óljósa hugmynd um það, en var þó ekki alveg viss. Hún ákvað þó að taka af skarið og sagði: „Er þetta ekki einhvers konar ástarseiði, herra?“
Slughorn brosti breitt og sagði svo: „Jú, hárrétt vina mín. Þetta er einmitt ástaræði, öflugasti ástardrykkur í heimi. 5 stig til Ravenclaw.“
Hann gekk að skrifborðinu sínu þar sem lítill svartur seiðpottur, sem innihélt gylltan drykk, stóð.
„Eins og ég sagði ykkur áðan ætlum við að brugga vaxtardrykk, og hann er frekar flókinn. Svo ég hef ákveðið að verðlauna þann sem gerir besta drykkinn í þessum tíma. Verðlaunin eru ein flaska af þessum drykk hérna.“
Hann benti ofan í seiðpottinn.
„Ég ætlaði nú aðeins að gera þetta fyrir sjötta og sjöunda árs nemana, en fyrst það varð smá afgangur fær einn nemandi hér inni flösku af þessum.“
„En hvaða drykkur er þetta, prófessor?“ spurði strákur úr Slytherin.
„Þetta, McGowan, er Felix Felicis.“
„Í alvöru?“ gargaði Kat.
„Já, Katherine, í alvöru,“ svaraði Slughorn.
„En…en …sá sem drekkur það verður heppinn í tólf klukkustundir!“ sagði Kat og gapti.
„Það er satt fröken Derek, það er satt. Þess vegna er til mikils að vinna, og þá er bara eitt eftir. Að hefjast handa.“
Allir flýttu sér að byrja, því öllum langaði að vinna flöskuna. Slughorn hafði þó ekkert verið að skafa af því þegar hann sagði vaxtadrykkinn flókinn. En í lok tímans fannst Bellu henni bara hafa tekist vel til.
„Jæja krakkar, tíminn er búinn. Þið skuluð hætta núna og ég ætla að skoða drykkina ykkar,“ sagði Slughorn og gekk á milli pottanna.
Hann leit ofan í pott Bellu og brosti til hennar.
„Vel gert krakkar mínir, vel gert! Mér datt aldrei í hug að þetta kæmi svona vel út hjá ykkur öllum. Það verður víst erfitt að velja sigurvegarann.“
„Hmm…“ sagði Slughorn hugsi. „Jæja, sigurvegarinn er fröken Harlow.“
Bella varð mjög undrandi, en þó ánægð í senn. Slughorn rétti henni flöskuna og svo fór hún og gekk frá dótinu sínu.
Svo var kominn matur og þau gengu öll saman niður í matsal.
„Hvenær ætlaru að nota þetta?“ spurði Theresa.
„Ég hef ekki hugmynd, bara einhverntíman þegar það hentar mér,“ svaraði Bella, en hún var komin með nóg af öllum þessum spurningum.
„Vá, hvað ég vildi óska að ég ætti þennan drykk,“ sagði Kat.
„Eh, hvar er Lúna?“ spurði Bella eftir nokkra þögn.
„Hef ekki hugmynd, örugglega að leita að rugluþeytum eða eitthvað.“
Þau settust öll saman við Ravenclawborðið, Bella, Theresa, Kat, Jake, Ben og John.
„Leiðinlegt að Gary sé ekki hérna,“ sagði Bella.
„Já, einmitt,“ sagði John.
„En hvar er Jessica eiginlega?“ spurði Jake.
Bella hafði gleymt Jessicu í æsingi dagsins og táraðist.
„Ég veit það ekki, það veit enginn um hana,“ sagði hún loks.
„Hún hlýtur að koma bráðum, henni hefur bara seinkað aðeins,“ sagði Jake hughreystandi en Bella var ekki að hlusta.
Hana langaði að fá svör, fá svör um verustað Jessicu. Þess vegna ákvað hún að fara til Dumbledores á morgun, ef Jessica léti ekki sjá sig! Þau borðuðu hádegismatinn þegjandi og héldu svo í næsta tíma, Sögu galdranna.
Prófessor Binns hélt skelfilega langa ræðu um risastríðin með sinni tilbreytingarlausu röddu, og Bella dottaði hvað eftir annað ofan í bókina sína. Loks var tíminn búinn og þar sem þetta var síðasti tíminn þennan dag röltu krakkarnir allir saman niður að vatninu.