Já, þetta er fyrsti spuninn minn! Og ég vona bara að ykkur eigi eftir að líka hann vel :D


„Vaknaðu nú Isabella mín, við þurfum að fara að gera okkur tilbúin“, sagði Claudia við dóttur sína. „Æjji mamma, bara klukkutíma í viðbót, gerðu það“, svaraði Isabella, úrill að vana. „Klukkutíma, ja þú biður nú ekki um lítið!“, svaraði Claudia. „Eftir klukkutíma þurfum við að vera lögð af stað á Kings Cross brautarstöðina, og ég get ekki betur séð en þú eigir eftir að pakka niður mest öllu dótinu þínu. Jacob var búinn að því fyrir meira en viku“. Isabella geispaði svo sást ofan í kok og sagði svo: „Já, þetta er líka fyrsta árið hans, ekki furða að hann sé spenntur. Hann var nú samt heppinn að ná að kaupa sér sprota áður en Ollivander hvarf“. Jacob var yngri bróðir Isabellu, eða Bellu eins og hún var oftast kölluð. Hann var að byrja sitt fyrsta ár við Hogwarts, skóla galdra og seiða. „Já, það er satt. En farðu nú að drífa þig Isabella Harlow, eða við missum af lestinni“. Móðir hennar sneri sér við og gekk út úr herberginu um leið og Isabella gretti sig framan í hana.
Svo stóð hún upp úr rúminu og leit í spegilinn. Sú sjón sem mætti henni þar var þó ekki til að gleðja hana. Hárið, sem vanalega var þykkt og krullað, var nú tvöfalt fyrirferðarmeira en vanalega. Hvers vegna gat hún aldrei munað að nota þurrkugaldurinn þegar hún fór í bað fyrir svefninn? Og þreytumerkin í óvanalega bláum augunum voru allt of augljós. Hún horfði í örstutta stund á sjálfa sig í speglinum, og sá ljóshærða, granna, hávaxna og fínlega stelpu með mikið hár og skærblá augu. Hún leit frekar undarlega út. Hún fór og reyndi að laga á sér hárið og klæddi sig í bestu Muggafötin sín og leit svo aftur í spegilinn. „Jæja, þetta er nú aðeins betra“, hugsaði hún með sjálfri sér og fór svo að ljúka við að pakka niður. Þegar því var lokið greip hún sprotann sinn, stakk honum í vasann og hélt niður í eldhús. Þar sátu fyrir mamma hennar, Claudia, sem líktist Bellu frekar mikið, há, grönn og ljóshærð, en þó með undursamlega slétt hár, sem Bella öfundaði hana af, og brún augu. Hún var hreinræktuð galdranorn, en faðir Bellu, Tim, var Muggi. Litli bróðir Bellu, Jacob, sat líka við borðið og borðaði morgunkorn úr skál. Hann var u.þ.b. 5 árum yngri en Bella, bláeygur, brúnhærður og frekar lítill. Bellu fannst hann hörmulega pirrandi.
„Það er loksins að þú lætur sjá þig“, sagði Claudia. Bella hundsaði hæðnina í rödd móður sinnar og spurði: „Hvar er pabbi?“ „BÚ!“ heyrðist öskrað á bak við hana og einhver greip utan um hana og lyfti henni upp. „Láttu mig niður, láttu mig niður NÚNA!“ öskraði Bella. „Ekki nema þú segir leyniorðið“, svaraði pabbi hennar hlæjandi. „Tim, láttu hana niður, hún er nógu pirruð fyrir“, sagði Claudia. Blá augu Bellu skutu gneistum þegar hún hreytti í pabba sinn: „Hvernig dirfistu…hvað er málið…á að láta mann fá hjartaáfall?“ „Róleg nú, þetta var bara saklaust grín“, svaraði Tim og þóttist hneykslaður.
Bella settist pirruð niður, fékk sér morgunmat og ávaxtasafa, og fletti í gegn nýjasta eintakinu af Spámannstíðindum. Þar stóð yfirleitt eitthvað svipað og vanalega: „Árásum drápara fjölgar mjög eftir endurkomu Hans-Sem-Ekki-Má-Nefna“. Þessar fréttir voru orðnar daglegt brauð og fólk varð ávallt að vera á varðbergi. Isabellu fannst hryllilegt að hugsa til þess að Hann-Sem-Ekki-Má nefna leyndist einhversstaðar þarna úti. Hún vildi helst ekki trúa því, en hvað var annað hægt, Spámannstíðindi höfðu loksins játað það eftir heilt ár þar sem þau sögðu Harry Potter vera geðveikan lygara. Hann hafði barist við Þið-Vitið-Hvern oft og mörgum sinnum og alltaf sigrað. Bella dáðist að honum. Hún var þó ári yngri en hann og vissi að hann hefði verið að hitta stelpu að nafni Cho Chang á síðasta ári. En hún vissi ekki hvort þau væru lengur saman.
Þegar hún fór að hugsa um Harry Potter hugsaði hún líka um það sem hann hafði afrekað innan veggja skólans og utan hans. Á sínu fyrsta ári hafði hann yfirbugað Þið-Vitið-Hvern og náð viskusteininum, á öðru ári hafði hann barist við basilíuslönguna í leyniklefanum (Bella hryllti sig við því að það hafi leynst svona dýr í skólanum), á þriðja ári yfirbugaði hann meira en 100 vitsugur, á fjórða ári hafði hann unnið Þrígaldraleikana og á fimmta ári hafði hann barist við Þið-Vitið-Hvern.
Bella hélt áfram að fletta blaðinu og sá nokkrar greinar um Muggadráp, sem framin voru af drápurum, þeim sjálfum til skemmtunar. Henni fannst hræðilegt að nokkur gæti gert það, sérstaklega þar sem hún þekkti nokkra krakka úr skólanum sem voru komnir af Muggum og höfðu misst nána ættingja af völdum drápara.
„Haha, Bella er farin að slefa“, heyrðist kallað. Hún hafði gleymt sér yfir Spámannstíðindum og mjólk var farin að leka út um munnvikin á henni. Hún flýtti sér að þurrka það og hvessti augun á bróður sinn sem hrökklaðist undan augnaráðinu einu. Undarlegt hvað augnaráðið hennar gat haft mikil áhrif ef hún horfði beint í augun á fólki og dýrum, hún virtist geta stjórnað því ef hún einbeitti sér og horfði nógu stíft í augun á því. Hún hafði oft setið fyrir framan spegilinn og horft í augun á sjálfri sér og látið sig dreyma um framtíðina og annað. Einnig hafði hún prófað að stara í augun á Brandon, grábrúnu uglunni sinni og reynt að stjórna honum, og það hafði virkað. Bella hafði horft stíft í augu uglunnar og hugsað: „Komdu, komdu“, og uglan hafði flogið og lent á útréttri hönd hennar. Augnabliki síðar virtist uglan hafa áttað sig á því hvað Bella hafði gert og beit hana í nefið, flaug út um opinn gluggann og lét ekki sjá sig fyrr en eftir nokkra daga. Þá ákvað Bella að skipta sér sem minnst af vilja annarra, bæði fólks og dýra. Stundum gat hún þó ekki hamið sig og stóð sjálfa sig að því að skipa ketti nágrannakonunnar í huganum að hætta að eltast við bjargarlausan fuglsunga, sem hann gerði.
En Bella hafði ekki minnst á þennan undarlega hæfileika við neinn, ekki einu sinni bestu vinkonu sína, Jessicu Ramsie. Þær höfðu þekkst síðan á sínu fyrsta ári í Hogwarts og smollið saman eins og púsluspil, þó þær væru eins og svart og hvítt. Jessica var lágvaxin, sterkbyggð og hafði axlasítt, hrafnsvart hár sem glitraði á, og grá augu. Hún virtist því fremur litlaus við hliðina á hinni hávöxnu, ljóshærðu og bláeygðu Isabellu, en samt voru þær óaðskiljanlegar. Jessica var mjög feimin og hlédræg, svo Isabella sá oftast um að tala, og strákamálin. Þær voru báðar í Ravenclaw, sem Bella skildi alls ekki því henni fannst hún ekki kunna neitt. Hún hafði oftar en einu sinni lent í því að vera föst fyrir utan setustofu Ravenclaw, því hún vissi ekki svarið við spurningunni til að komast inn. Hins vegar var Jessica mun betri í náminu, en eins og áður sagði var það ekki sterkasta hlið Isabellu. Sérstaklega ekki saga galdranna, ummyndunarfræði og stjörnufræði. Hún var sant ágæt í töfradrykkjum og vörnum gegn myrku öflunum, en í hinum fögunum var hún bara meðalgóð.
„Bella, BELLA!“, öskraði Claudia. „Hvað þarf ég að kalla oft á þig, við erum að fara! Ekki viltu missa af lestinni?“ „Róleg mamma, ég er að verða til“, svaraði Bella. Svo loksins þegar Bella var búin að græja sig gátu þau lagt af stað. Allt í einu fattaði Bella að hún hafði gleymt bókunum fyrir umönnun galdraskepna á náttborðinu sínu. Þau urðu að snúa við og þegar þau nálguðust King‘s Cross brautarstöðina voru allir í bílnum orðnir vel pirraðir. Um leið og þau komu á brautarpall 9 ¾ fór Bella að skima um eftir Jessicu. Oft sá hún svörtu, stuttu hári bregða fyrir, en aldrei jafn svörtu og hennar. Hins vegar sá hún glitta í Lúnu Lovegood, stelpu sem var í Ravenclaw og á hennar árgangi. Flestir töldu hana stórfurðulega en Bellu fannst hún ágæt, frekar dreymin kannski, en Bellu fannst að hún ætti nú ekki að segja mikið. Alltaf þegar hún fór að hugsa stíft um eitthvað varð hún frekar mikið út úr heiminum. „Ái, passaðu þig“, heyrðist sagt og Bella leit upp. Hún hafði gengið beint á rauðhærðan strák, sem hún vissi að var besti vinur Harry Potter. Bella roðnaði, sagði „Fyrirgefðu“, og labbaði í burtu. Ofboðslega gat hún nú verið mikill klaufi! Hún hélt áfram að leita að Jessicu en sá hana ekki svo hún rölti aftur til foreldra sinna sem voru að tala við Jacob. „..svo verðuru líka að passa þig að vera ekki að rölta á ganginum um næturnar og ekki …“. „Ég veit mamma, ég veit! Bella er búin að segja mér frá öllu sem á ekki að gera!“ Bella heyrði á Jacob að hann var greinilega orðinn nokkuð pirraður. Bella ákvað því að pirra hann aðeins meira og sagði : „HA? Ég sagði það aldrei“. Hún glotti framan í Jacob, þau voru mjög mikið fyrir að pirra hvort annað eins og sjá mátti. „Jacob, varstu að ljúga að mér?“ sagði Claudia, ekki sátt. „Nei mamma, Bella er að ljúga, hún var víst búin að segja mér frá reglunum í Hogwarts“. Jacob horfði á Bellu með svip sem beinlínis sagði : „Gerðu það Bella, bjargaðu mér í þetta skipti“. Og sama hvað Bellu og Jacobi þótti gaman að pirra hvort annað þá elskuðu þau hvort annað samt mjög mikið innst inni. „Allt í lagi, ég var að grínast mamma. Ég var búin að tala við Jacob um reglurnar“. „Bella, ekki…“ „Já, já, já, ég veit mamma, ekki ljúga“. „Já, það er rétt og ekki heldur grípa fram í fyrir foreldrum þínum!“ Bella horfði á mömmu sína sem virtist mjög pirruð, þær störðu í augu hvor annarrar, þar til þær allt í einu sprungu báðar úr hlátri. Tim og Jacob horfðu forviða á þær, en á endanum voru þau öll farin að hlægja. Þegar Bella tók eftir því að fólk var farið að stara á þau hætti hún skyndilega, sérstaklega þegar hún tók eftir augnaráði frá einum sérstökum strák. Hún þaggaði niður í fjölskyldunni með því að benda þeim á að reykur væri farinn að liðast úr lestinni, og kvaddi mömmu sína og pabba með kossi. Svo fylgdi hún Jacob inn í lestina þar sem hann settist inn í klefa, en Isabella hélt af stað og leitaði að Jessicu. Hún kíkti inn í hvern einasta klefa, inná öll klósett og meira að segja inn í umsjónarmannaklefann, þótt hún vissi að Jessica væri ekki umsjónarmaður. Hún skildi þetta ekki, hvar var Jessica? Hræðilegri hugsun laust niður í huga hennar; hvað ef drápararnir höfðu…? Hún gat ekki hugsað þá hugsun til enda. Tár komu fram í augu hennar og hún læsti að sér inn á klósetti. „Hættu þessum ljótu hugsunum, þú veist ekkert hvort þetta hafi gerst! Þú getur spurt Dumbledore eða McGonagall þegar þú kemur í skólann“. Hún herti upp hugann og fór fram á gang. Þar mætti hún stelpu sem var á sama aldri og hún, og líka í Ravenclaw. Þær höfðu þess vegna deilt svefnsal síðustu fjögur ár. Hún hét Theresa Williams. „Hefuru séð Jessicu Theresa?“ spurði Bella. „Nei, af hverju? Ertu að leita að henni? Hvar er hún? Af hverju er hún ekki komin? Helduru að hún hafi misst af lestinni?“ Theresa var ekki þannig manneskja að hún leyfði öðrum að svara áður en næsta spurning dundi yfir. Hún var mjög falleg, með millisítt ljóst og liðað hár, brún augu og frekar lágvaxin. „Róleg Theresa, bíddu aðeins! Ég er ekkert búin að sjá Jessicu, hún er pottþétt ekki hérna í lestinni og ég hef ekki hugmynd um hvar hún er“. „Helduru nokkuð að…“ Theresa virtist skelfingu lostin.
Hún vissi, eins og allir aðrir að með endurkomu Hans-Sem-Ekki-Má-Nefna á síðasta ári skipti það dráparana litlu máli hverjir yrðu næstu fórnarlömb þeirra, hvort sem þeir væru Muggar eða galdramenn. „Nei það held ég ekki. Það getur bara ekki verið og við eigum ekki að hugsa svona!“ Þær voru samt frekar niðurdregnar þegar þær settust inn í tóman klefa.
„Þegar ég hugsa út í það þá hef ég ekki heldur séð Kat hérna“, sagði Bella loks eftir langa þögn. Kat hét í raun Katherine Derek og hún var á þeirra ári með þeim í Ravenclaw. Hún var dökkhærð, með fallega slöngulokka, gráblá augu og frekar þybbin. Hún virtist vera stjórnsöm og frek við fyrstu kynni en innst inni var hún ljúf og góð. Kat og Theresa voru mjög góðar vinkonur, þó að sambandið milli allra stelpnanna á vistinni væri yfir höfuð gott. „Nei, hún kemur ekki fyrr en eftir viku, hún er í útlöndum með foreldrum sínum“. Katherine leit út um gluggann og svo aftur á Bellu sem sagði: „Já auðvitað, hún minntist á það í lok síðasta árs“. „Já, það virðist sem við verðum bara tvær í svefnsalnum fyrstu vikuna. Nei auðvitað, ég gleymdi Lúnu klikk“. „Ekki kalla hana þetta, kallaðu hana bara Lúnu“, sagði Bella. „Hún er ekkert klikkuð, bara frekar…tjah…sérstök“. Theresa ranghvolfdi í sér augunum og sagði svo: „Já, allt í lagi þá…“ Í þeim töluðu orðum komu inn nokkrir Hufflepuff-krakkar inn í klefann og settust niður. „Er ekki í lagi að við sitjum hérna, það er fullt alls staðar annarsstaðar“, sagði lítill, músarlegur strákur sem Bella vissi að var á fimmta ári rétt eins og þær. „Jújú, það er allt í lagi“, sagði Bella og leit í kringum sig á fólkið sem hafði rétt í þessu komið inn. Þarna voru, ásamt litla, músarlega stráknum, 2 stelpur á fjórða ári, sem voru svo líkar að þær hlutu að vera tvíburar, og annar strákur á fimmta ári sem var sterklegur og andlitsfríður. Bellu rámaði í að hann héti Tom Kreslow. „Ég heiti Kevin“, sagði litli músarlegi strákurinn brosandi. „Bella“, sagði Bella, „og þetta er Theresa“. „Ég er Cassandra og þetta er Cristine“, sagði annar tvíburinn. „Og ég er Tom“.
„Við vorum að tala um hver verði næsti kennari í vörnum gegn myrku öflunum, hafið þið einhverja hugmynd um hver það er?“ sagði Christine. „Nei, ég hef ekki hugmynd, en ég vona að það verði ekki einhver Ráðuneytissleikja, Umbridge var nógu slæm“, svaraði Bella. „Ég heyrði frá bróður vinar frænku vinkonu eldri systur minnar að það væri vampíra sem kenndi okkur þetta árið“, sagði músarlegi strákurinn. „Nei, Kevin, það getur ekki verið! Er…er það nokkuð“, heyrðist í Theresu og hún leit hrædd á Bellu.
Lestarferðin leið fljótt hjá, þau spiluðu tafl, borðuðu fullt af mat úr matarvagninum og töluðu saman. Brátt var kominn tími til þess að skipta yfir í skólabúninginn og lestin fór að hægja á sér.
Þegar lestin hafði loks numið staðar kvöddu Bella og Theresa Hufflepuff-krakkana og héldu út úr lestinni. Þar heyrðu þær kunnuglega rödd hálfrisans Hagrids þar sem hann vísaði fyrsta árs nemendunum sína leið. Bella skimaði um eftir Jacob og sá honum bregða fyrir. Rauðhærði strákurinn sem hún hafði klesst á á brautarstöðinni fyrr um daginn gekk upp að þeim og spurði: „Hafið þið nokkuð séð Harry Potter hérna einhversstaðar?“ Þær svöruðu neitandi, því þær höfðu ekki séð hann. Þær fundu sér vagn og hann tók þær upp í Hogwartskóla, sem var glæsilegur að vanda. Þær gengu inn í Stóra-Salinn og settust hlið við hlið við Ravenclawborðið. Þegar allir voru komnir inn í salinn steig prófessor Dumbledore upp og allt hljóðnaði snögglega. Hann hélt stutta ræðu á meðan McGonagall leiddi fyrsta árs nemana inn í salinn og náði svo í flokkunarhattinn og stillti honum upp fyrir framan kennaraborðið. Bella mundi vel eftir sinni flokkun, hún hafði setið með hattinn á höfðinu í frekar langan tíma og ekkert gerðist. Loksins, eftir langa bið kallaði hatturinn upp: „Ravenclaw.“
Á meðan Bella hugsaði um þetta hafði flokkunarhatturinn hafið upp raust stína og byrjað að syngja, svo Bella náði aðeins síðustu orðunum: „…gegn hættu stöndum saman, þá farnast okkur vel.“ Allir klöppuðu og klöppuðu þar til McGonagall rétti upp hönd til merkis um hljóð. „Þegar ég kalla upp nafnið ykkar –eftirnafnið fyrst“, sagði hún við fyrsta árs nemana, „skuluð ganga fram, setja á ykkur hattinn og fá ykkur sæti. Hatturinn tilkynnir ykkur hvar þið eigið að búa“.
„Ailos, Jenny.“ Þrekvaxin stúlka með skollitað hár gekk upp og setti á sig hattinn. „Gryffindor“, tilkynnti hatturinn hátt og skýrt eftir nokkra stund. Stúlkan stóð upp og fékk sér sæti við Gryffindorborðið. „Dolorie, Robert“, kallaði McGonagall og óvenju lítill strákur með dökkt hár steig fram. Hatturinn hafði aðeins snert höfuðið á honum í nokkrar sekúndur þegar hann kallaði: „Slytherin“, og mikil fagnaðarlæti brutust út við Slytherinborðið. Fleiri krakkar voru flokkaðir þar til loksins… „Harlow, Jacob.“ Jacob labbaði upp og setti á sig hattinn en ekkert gerðis. „Þetta er víst í ættinni“, heyrðist í Theresu en Bella svaraði ekki. Hún var of upptekin við að fylgjast með Jacob, þar sem hann var farinn að ókyrrast. Loksins opnaðist rifa á hattinum og hann kallaði: „Hufflepuff.“ Jacob flýtti sér að setjast niður. Svo, eftir að öllum hafði verið skipað niður í vistir reis Dumbledore upp og sagði: „Við skulum ekki draga þetta neitt lengur, ég veit að þið eruð öll orðin glorsoltin. Gjörið svo vel.“ Í sömu svipan fylltust borðin af alls kyns kræsingum.
Bella tók vel til matar síns, enda rosalega svöng. Þegar nokkuð var liðið á veisluna opnaðist hurðin á Stóra-Salnum og inn gengu prófessor Snape og … Harry Potter. Bellu fannst þetta frekar undarleg sjón, sérstaklega vegna þess að Harry Potter var útataður í blóði í framan. „Hvaða klandur hefur hann nú komið sér í“, hugsaði hún. Harry hraðaði sér fram hjá forvitnum augum samnemenda sinna og settist hjá rauðhærða stráknum við Gryffindorborðið. Bella hélt áfram að borða.
Dumbledore steig upp og breiddi út faðminn, eins og hann vildi knúsa allan salinn. Bella tók eftir því að önnur höndin á honum var dökk og visin, en hann brosti bara og hristi fjólubláa og gyllta ermina yfir meiðslin. Svo talaði hann í smá tíma, sagði þeim meðal annars að Horace Slughorn myndi kenna töfradrykki, en Snape varnir gegn myrku öflunum. Þessar fréttir höfðu mikil áhrif á allan salinn. Dumbledore ræskti sig og hávaðaskvaldrið þagnaði. Hann talaði um að Hann-Sem-Ekki-Mætti-Nefna væri kominn aftur og að þau yrðu að vara sig. Svo sagði hann þeim að fara upp í svefnsalina sína. Bella rétt náði að brosa til Jacobs, sem brosti á móti áður en hann hvarf inn í stóran nemendahóp. Bella og Theresa mættu Lúnu og saman héldu þær upp í svefnsalinn sinn þar sem þær tóku upp dótið sitt, spjölluðu saman og lögðust svo til hvílu. En Bella gat ekki sofnað. Hún gat ekki hægt að hugsa um rúmið hennar Jessicu, sem stóð autt.

Takk fyrir að lesa og ég hef ekkert á móti athugasemdum (: