Ég fékk allt í einu óstjórnlega löngun til að skrifa eitthvað á þetta áhugamál. Ég var svo oft hér þegar ég var yngri og ég skil ekki og veit ekki almennilega af hverju ég hætti að stunda þetta áhugamál jafn mikið og ég gerði. Þetta er frábært áhugamál og ég er sko pottþétt byrjuð aftur. Til að fagna því ákvað ég að segja ykkur frá Harry Potter nördinu í mér.

Nördið braust fram þegar ég lauk fyrstu bókinni bara 9 ára gömul. Ég fékk hana í jólagjöf og var treg til að taka plastið af, því mér fannst kápan líta svo leiðinlega út. En ég hef aldrei skilið neina jólabók útundan og ég ætlaði sko ekki að gera það þessi jól heldur. Ég held ég hafi byrjað að minnsta kosti þrisvar á fyrsta kaflanum, og ég verð að viðurkenna að mér finnst hann ennþá leiðinlegur. En hann er nauðsynlegur. Ég kolféll samt fyrir bókinni og las hana minnir mig tvisvar fyrir áramót og síðan þá hef ég lesið hana svo oft að ég hef misst tölu (Já… ég taldi hversu oft ég las bækurnar).

Næstu jól fékk ég næstu bók og þegar ég opnaði hana byrjaði ég strax að lesa. Ég pældi ekki einu sinni í jólagjöfunum sem ég átti eftir að opna og átti erfitt með að slíta mig frá bókinni til að geta klárað að opna gjafirnar mínar. Ég eyddi kvöldinu svo í að lesa bókina. Þegar ég fékk þriðju bókina var ég orðin háð. Ég var byrjuð að safna, og á ennþá safnið mitt, Harry Potter dóti.

Ég man eftir deginum sem fjórða bókin kom út. Ég var búin í skólanum á hádegi og ég hljóp heim því ég vissi að heima biði ný bók til að lesa. Það tók mig 11 tíma að lesa hana enda bara 11 ára. Ég hafði varla tíma fyrir annað, ég sleppti meira að segja æfingu og sat með bókina við kvöldverðarborðið, tók varla eftir því hvað ég borðaði. Ég man vel þegar ég las um það hvernig Cedric dó. Ég las línuna aftur og aftur, jafnvel þótt hann væri lítil persóna þá var ég gjörsamlega agndofa.
Mér fannst bækurnar alltaf verða betri og betri en ég átti mér aldrei uppáhald.

Myndirnar byrjuðu að koma út og ég varð fljótt yfir mig skotin í Rupert Grint. Ég bjó til aðdáandasíðu þegar ég var 13 og byrjaði þá einnig að sækja spjallborð (forum) tileinkað honum. Þar kynntist ég ýmsu fólki, mörgum sem ég held góðu sambandi við og get jafnvel kallað vini mína. Þó mér finnist myndirnar ekki nærri því eins góðar og bækurnar er ég samt mjög hrifin af þeim og ég get ekki beðið eftir næstu mynd.
Sömuleiðis get ég ekki beðið eftir næstu bók en ég veit að það verður erfitt að lesa hana - vitandi að þetta er síðasta bókin! Ég er búin að hlakka til og kvíða fyrir að lesa hana.

Eftir því sem ég varð eldri sofnaði nördinn aðeins í mér, en ég hætti samt aldrei að elska Harry Potter. Ég sé eftir því að hafa hætt þessum svakalega ákafa sem ég hafði því ég er alveg dottin út og veit ekkert um hvað fólk er að spá og spekúlera þessa dagana, en ég ætla líka að breyta því. Ég ætla að finna nördann í mér aftur og vekja hann og gera hann sterkari en aldrei fyrr. Ég ákvað að þetta gengi ekki lengur þegar ég byrjaði að lesa syrpuna upp á nýtt áður en sjöunda bókin kemur út og bið alla um hjálp við að vekja nördann í mér aftur!

Því Harry Potter er bara svo miklu meira en ‘einhverjar barnabækur’. Harry Potter er heill heimur af ævintýrum.

Til að enda þetta ætla ég að telja upp meiri hlutann af því Harry Potter tengdu dóti sem ég á.

2 bolir, hattur, sokkapar, koddi, sproti, skikkja, gleraugu, bunka af “tattúum”, tvær límmiðabækur (eina tileinkaða fyrstu myndinni, eina tileinkaða þriðju myndinni), límmiða í þær bækur, bréfin utan af og aftan af límmiðunum, tvær troðfullar úrklippubækur (bæði fréttir úr blöðum og tímaritum, og svo klippti ég út bíóauglýsingar úr blöðum), 2 gáma, glás af stílabókum, blýanta, strokleður, reglustiku, allar bækurnar á íslensku, 2. og 6. bókina á ensku, Barry Trotter (Harry Potter grínbók), pop-up bók, 3 eða 4 stór plaggöt, bréf frá Daniel ásamt mynd með eiginhandaráritun, jólakort frá Daniel, 2 bréf frá Rupert ásamt mynd með eiginhandaráritun, bréf frá JKR, skólataska, bréfsefni (pappír og umslög í stíl), Gryffindor trefil… og svo framvegis!
-Tinna