Heil og sæl elsku hugararnir mínir.
Það er orðið allt of langt síðan ég hef látið sjá mig hér inni. Ég ætlaði mér alls ekki að hætta hér í haust en oft gerast hlutir á annan hátt en ætlað var. Það er skemmst frá því að segja að ég fór í fyrsta sinn í 100% vinnu (og rúmlega það) eftir að dætur mínar fæddust og hef ekki haft tíma til að gera neitt annað en að vinna og sinna fjölskyldunni minni. Ég var í stöðugri afneitun um að ég gæti ekki komist inn á huga og var alltaf á leiðinni að kíkja á ykkur þess vegna kvaddi ég aldrei. Nú er ég að átta mig á stöðu minni og vil því þakka fyrir frábæra tíma með ykkur og senda ykkur hérna einn spuna sem ég var nánast búin að klára í haust en lauk svo við núna áðan.
Það ber þó ekki að skilja þetta sem svo að ég komi aldrei meir hér inn, ég kem eflaust til með að kíkja eitthvað öðru hvoru og sérstaklega í kring um útgáfu bókarinnar í sumar en ekki sem stjórnandi og ekki í eins miklum mæli. Það þýðir þó engan veginn að ég afsali mér titlinum “hugamamman” en ég sé að ég er að skilja ykkur eftir í góðum höndum, greinilega mikið og gott starf hér enn þrátt fyrir að ég sé horfin. Frábært að sjá Triviuna aftur… hún er ekkert smá þung… ;)

Þessi spuni gerist á meðan Harry er á fimmta árinu sínu í Hogwarts og fjallar upp uppáhalds parið mitt í þessum heimi - Lupin og Tonks.

—-

Bara í nótt


Eldurinn snarkaði í arninum og veitti örlítilli birtu inn í annars dimma setustofuna í Hroðagerði. Remus Lupin sat aleinn í myrku, hljóðu húsinu í þungum þönkum. Nokkrum klukkustundum áður höfðu hann og Sirius setið í eldhúsinu og minnst liðinna tíma. Harry hafði talað við þá frá Hogwarts í gegn um arininn og haft ýmsar spurningar um fortíð þeirra og foreldra hans. Eftir að hann hafði farið sátu vinirnir tveir í langan tíma og rifjuðu upp gömlu góðu dagana í Hogwarts. Sirius og Lupin voru ólíkir um margt en eitt áttu þeir sameiginlegt, besti tími lífs þeirra hafði verið í Hogwarts. Þegar leið á kvöldið hafði orðið minna um gamla brandara og söknuðurinn hafði farið að gera verulega vart við sig í brjósti Lupins. Hann bjóst við að það sama hefði verið uppi á teningnum hjá Siriusi því stuttu seinna hafði hann afsakað sig og stungið af upp í herbergið sitt. Lupin gat ekki afborið að sitja einn í myrku og köldu herberginu sínu í kvöld. Hann gat samt ekki hugsað sér að tala við neinn. Hann vildi bara fá að vera einn á notalegum stað. Hann hafði því laumast upp í setustofuna og látið fara lítið fyrir sér þar til allir í húsinu voru komnir í ró. Hann hafði kveikt upp í arninum og sat svo í sófanum, starði í logana og hugsaði um allt sem hann hafði misst.
Foreldrar hans voru bæði dáinn fyrir nokkrum árum síðan, James var dáinn. James sem alltaf var svo kátur og skemmtilegur og var sá fyrsti sem Lupin sagði frá leyndarmálinu sínu í Hogwartsskóla. Litla loðna leyndarmálinu, eins og James hafði kallað það þegar annað fólk heyrði til. Hann hafði aldrei litið svo á málin að Lupin væri eitthvað öðruvísi en aðrir. Hann hafði hjálpað honum að gleyma því hvað hann virkilega var. Nú var þessi frábæri vinur horfinn úr þessum harða heimi og fékk ekki einu sinni að þekkja son sinn og kenna honum allt það góða sem lífið hafði upp á að bjóða. Nokkur tár tóku að streyma niður kinnar Lupins en hann gerði enga tilraun til að þerra þau. Ekki var Lily heldur á staðnum til að hugsa um Harry. Lily, dásamlega og yndislega Lily. Lily sem alltaf sá betur en nokkur annar þegar einhverjum leið illa. Lily sem alltaf var tilbúin í að verja hvern sem var fyrir ranglæti. Dásamlega, hugrakka, fallega Lily.
Allt í einu var hurðinni á setustofunni hrundið upp og Tonks kom askvaðandi inn í stofuna. Lupin hrökk við og reyndi eftir fremsta megni að þurka sér um augun áður en hún tæki eftir honum en það var of seint. Hún stoppaði á miðju stofugólfinu og stóð eins og nelgd niður eitt augnablik.
“Vantaði þig eitthvað?” spurði Lupin harkalegar en hann hafði ætlað sér í tilraun til að fela tilfinningarnar sem flóðu innra með honum. Hann passaði sig á að leyfa henni ekki að sjá andlit sitt.
“Ég ætlaði bara að sækja bókina mína sem ég gleymdi hérna í dag,” sagði Tonks óörugg og gekk hægt að sófaborðinu fyrir framan Lupin þar sem gamall slitinn reifari lá. Hún staðnæmdist fyrir framan hann.
“Remus,” sagði hún blíðlega. “Er eitthvað að? Kom eitthvað fyrir?”
Lupin leit upp og sá áhyggjurnar skína úr augum hennar. Hann reyndi að brosa, með litlum árangri.
“Ekki í dag,” svaraði hann. “Ég er bara búinn að vera fastur í fortíðinni í kvöld.”
Tonks færði sig nær og kraup í sófanum við hlið hans. Hann starði ákveðinn inn í eldinn og reyndi að bægja frá sér tilfinningunum sem spruttu upp þegar hann fann ilminn af henni. Þennan dásamlega ilm.
“Um hvað ertu búinn að vera að hugsa?” spurði hún varfærnislega.
Lupin starði áfram þögull inn í eldinn.
“Viltu að ég fari?” spurði hún lágt.
Lupin þoldi ekki að heyra sársaukan í rödd hennar. Hann vissi að hann ætti að biðja hana að fara en hann gat ekki fengið það af sér.
“Ég var bara að hugsa um Lily og James,” sagði hann án þess að líta á hana. Hann vissi ekki hvernig það myndi enda ef hann leyfði sér að líta á hana.
“Saknarðu þeirra mikið ennþá?” spurði hún og flækti vandræðalega saman fingrunum í kjöltu sér.
“Á hverjum degi,” svaraði Lupin. “Suma daga minna en aðra en þau voru bestu vinir mínir, þau voru það besta sem ég hef nokkru sinni átt í lífinu. Þau og foreldrar mínir, sem eru líka dáin og Sirius,” endaði hann hljóðlega og eitt tár rann niður vanga hans.
Tonks hallaði sér nær honum, teygði fram höndina og þerraði tárið.
Hann fann hitan frá líkama hennar og ilmurinn af henni var sterkari en nokkru sinni fyrr. Hann hélt hann myndi springa af þrá til hennar, vangi hans logaði þar sem hönd hennar hafði stokið burtu tárið. Hann þorði ekki að hreyfa sig. Andadráttur hans var orðin örari og hann fann að hún hikaði örstutta stund áður en hún færði sig enn nær honum og renndi höndinni í gegn um grásprengt hár hans.
Hann greip öndina á lofti er hann fann fyrir mjúklegri, dásamlegri snertingunni. Hann sneri höfðinu örlítið og teygaði í sig anganinn úr lófa hennar. Hann fann hvernig púlsinn örvaðist í hendin hennar og fann hvernig hún fraus eitt augnablik þegar hann kyssti lófan. Varir hans fundu fyrir yndislegri mjúkri húðinni og tungan braust fram svo hann gæti betur bragðað á yndislegri hendi hennar. Hann fann hvað hún færði sig nær og fyrr en varði var höndin aftur komin á vanga hans en í staðinn voru varir hennar þétt við hans. Hann renndi tungunni lauslega eftir vörum hennar og fyrr en varði voru þau læst í ástríðufullum kossi. Hendur hans fundu mitti hennar og hann lyfti henni léttilega upp og færði hana í fang sitt. Hún gróf hendurnar í hári hans og kyssti hann af jafn miklum ákafa og hann kyssti hana. Hann færði sig undan henni og fyrr en varði lá hún í sófanum og hann ofan á henni. Hann strauk bleikt hárið og færði svo hendur sínar neðar. Hún var klædd í stutt pils sem hann dró upp og fyrr en varði var ekkert sem aðskildi þau lengur.
Þau voru eitt.

Þegar Lupin rankaði við sér tók það hann nokkra stund að átta sig á hvers vegna hann væri í setustofunni og hversvegna heitur, nakinn líkami lá við hlið hans, líkami sem ilmaði eins og Tonks.
Tonks!
Hann galopnaði augun og leit niður. Í faðmi hans lá Nymphadora Tonks og svaf með sælubros á vör.
'Hvað hef ég gert,' hugsaði Lupin skelfingu lostinn. Hann hafði vitað af því að Tonks bæri með sér einhverjar tilfinningar í hans garð og sjálfur vissi hann að hann var yfir sig hrifinn af henni en hann hafði lofað sjálfum sér að það yrði ekkert úr þessu. Að hann gæti haft hemil á sér. Hvað hafði hann gert. Hvað hafði hann gert henni. Nú myndu tilfinningar hennar til hans vaxa um helming þegar hún hélt að eitthvað myndi verða úr þessu hjá þeim. Hann vissi að hún gæti aldrei orðið hans, ekki í alvöru. Hvaða líf gæti hann boðið henni. Hún átti svo mikið betra skilið. Hann var allt of gamall fyrir hana og það var minnsta málið, hann var varúlfur. Hvaða líf gæti varúlfur boðið þessari yndislegur stúlku upp á? Hann gæti aldrei fengið almennilega vinnu því lögin bönnuðu honum það og gæti þar af leiðandi aldrei boðið henni almennilegt líf, heimili og fjölskyldu… Fjölskyldu! hvernig ætti hann að stofna fjölskyldu? Hann sem breyttist í skrímsli á fullu tungli og gæti rifið fjölskylduna sína í tætlur. Hann gæti rifið hana í tætlur.
Svitinn spratt út á enni hans og skelfingin náði tökum á hverri taug líkamans. Hann smeygði sér fram úr sófanum án þess að vekja Tonks. Hann breiddi yfir hana teppi, tók saman fötin sín og laumaðist svo upp í herbergið sitt.
Þar skreið hann upp í rúm og faldi sig undir sænginni.

Hann mundi eftir deginum þegar hann hitti hana fyrst. Það var daginn sem hún gekk til liðs við Fönixregluna og kom til að vera í Hroðagerði í nokkra daga. Hún hafði gengið inn með Dumbledore og hann hafði kynnt hana á Reglu-fundinum þann dag. Hann mundi hvað hann var hissa þegar hann sá hana. Hann hafði vitað að litla frænka Siriusar væri að koma til að ganga til liðs við regluna en hann hafði ekki grunað að hún væri svona falleg, svona lífleg. Það var eins og ferskur andvari léki um herbergið þegar hún gekk inn í það. Allt var svo mollulegt og grátt í húsinu en hún var með bleikt hár í skærum fötum og iðaði af lífi. Lupin mundi eftir að hafa hugsað með sér að hún væri heppin að hún væri frænka Siriusar því annars hefði hún örugglega lent fljótlega í klóm Hjartaknúsarans mikla frá Gryffindor, eins þeir vinirnir höfðu stundum kallað hann í skólanum.
Lupin beit í vörina á sér þegar hann minntist þess að hafa hugsað þetta.
'Hún hefði verið betur sett að vera með Siriusi heldur en með mér,' hugsaði hann bitur.
Hann mundi að þegar þau settust svo til borðs þetta kvöld hafði Tonks sest við hlið hans. Hún hafði litið beint í augu hans og heilsað honum brosandi á svip.
“Þú ert Remus Lupin er það ekki?” hafði hún spurt og gleðin geislaði úr dökkum augum hennar. Hún áttaði sig fljótlega á hvað honum brá við þessa spurningu svo hún hafði bætt við, “Sirius var búinn að segja mér frá þér. Hann sagði mér að þú værir besti vinur hans og einhvernveginn voru ekki margir hérna í stofunni sem litu út fyrir að vera besti vinur Siriusar úr skólanum.”
Það var rétt hjá henni einungis Dumbledore, McGonnagal, Arthure, Snape, Hagrid, Molly og Weasley krakkarnir höfðu verið við matarborðið og ekkert þeirra leit út fyrir að hafa verið með Siriusi í skóla, nema Snape og enginn gat haldið að þeir Sirius væru vinir.
“Hm, já, það er rétt hjá þér, ég er Remus Lupin.” hafði hann svarað og brosað til baka.
“Ferð þú í geymslurnar hjá Ráðuneitinu um helgina?” hafði hún spurt beint út án þess að blikka. Lupin hafði krossbrugðið við þetta. Hann hafði ekki grunað að hún vissi að hann væri varúlfur. Hún var svo eðlileg við hann að það gat ekki verið. Flestir ókunnugir sem hittu hann í fyrsta sinn og vissu hvað hann var voru óöruggir og þorðu helst ekki að koma nálægt honum en hún hagaði sér eins og ekkert væri eðlilegra.
“Uhh… nei,” svarði hann. “Severus Snape hefur bruggað fyrir mig úlfsmáraseiði sem ég drekk og þá get ég verið rólegur í herberginu mínu á meðan fulla tunglið gengur yfir,” sagði hann og horfði undrandi á hana.
“Vá, frábært,” hafði hún svarað. “ Þú ert heppinn, það hlýtur að vera mikið betra en að hýrast í þessum kompum. Bróðir vinkonu minnar úr skyggnaskólanum var bitinn fyrir nokkrum árum og hann þarf alltaf að fara í geymslurnar. Ég fylgdi honum nokkrum sinnum þangað og sá hvernig þetta er. Ömurlegar kompur,” hafði hún bætt við og hryllt sig.
'Þar kom skýringin,' hafði Lupin hugsað. ‘Hún átti vin sem var líka varúlfur.’
“Hefurðu komið þangað niður eftir?” hafði hún haldið áfram um leið og hún teygði sig eftir vatnskönnunni.
“Uh, já, nokkrum sinnum,” hafði Lupin stamað rétt áður en hún hafði misst vatnskönnuna yfir borðið svo allt varð gegnblautt og þar á meðal hún sjálf og stór hluti af honum. Hún hafði roðnað upp í hársrætur svo andlit hennar varð næstum samlitt bleikum broddunum sem stóðu í allar áttir. Lupin hafði átt erfitt með að halda aftur af brosinu.
“Ekkert mál,” hafði hann sagt hugreystandi um leið og hann hafði tekið upp sprotann sinn og þurrkað allt með einu handbragði án þess að nokkur yrði var við klaufaskapinn.
Hún hafði litið þakklát í augu hans og brosað vandræðalega og hvíslað
“Takk.”
Lupin hafði verið þakklátur fyrir að sitja þá stundina því annars hefði hann eflaust kiknað í hnjánum.
'Var til eitthvað yndislegra í þessum heimi en þessi dásamlega lifandi mannvera sem sat þarna við hlið hans' hafði hann hugsað.
Hann hafði barist við þessar tilfinningar allt frá þeim degi. Aftur og aftur hafði hann sagt sjálfum sér að hann væri of gamall og of hættulegur fyrir hana. Honum hafði gengið það vel. Þau voru góðir vinir en ekkert meira hafði gerst.
Þar til í kvöld.

Hann heyrði þrusk frammi á stigapallinum sem sleit hann upp úr hugsunum sínum. Hann heyrði fótatak sem nálgaðist dyrnar og hann vissi að það var hún. Hjartað barðist um í brjósti hans en hann lá grafkyrr með lokuð augun þegar hann heyrði að dyrnar voru opnaðar varlega. Hann fann anganina af henni fylla herbergið og mundi samstundis eftir hvernig hafði verið að bragða á henni, að finna fyrir henni undir sér, í faðmi sér. Hann reyndi eftir fremsta megni að liggja kyrr og þóttist sofa. Hann vildi ekki missa sig aftur í faðm hennar. Hann vildi ekki gera illt verra með því að njóta hennar aftur.
Hún fikraði sig nær rúminu í myrkrinu, rak fótinn í kommóðuna hans, hrökk aftur á bak og henti niður kertastjaka sem hafði staðið á litlu borði fyrir aftan hana.
“Rassgat!” muldraði hún lágt.
Lupin vissi að hann gat ekki þóst sofa mikið lengur, hávaðinn í henni hlyti að vekja alla í húsinu bráðlega. Hann laumaðist til að opna augun og sá þá hvar hún kraup á gólfinu og reyndi að finna kertastjakan með litlum árangri. Hún virtist ekki sjá jafnvel í myrkrinu og hann. Að lokum gafst hún upp og reis á fætur. Lupin þurfti á öllum sínum styrk að halda til að koma ekki upp um sig. Hún var komin í stuttan skærbleikan gegnsæjan náttkjól og hárið var nú orðið axlasítt. Þvílíka fegurð hafði hann aldrei áður séð.
Hún var fullkomin.
Nú leit hún í átt til hans og hann flýtti sér að loka augunum og þóttist ekki hafa vaknað við lætin í henni.
Hún hélt áfram að fikra sig í áttina að rúminu og var greinilega farin að venjast myrkrinu dálítið. Þegar hún loksins fann rúmið smeygði hún sér hljóðlega undir sængina til hans. Í því braust nánast fullur máninn undan skýjunum og veitti dálítilli birtu inn um gluggann til þeirra.
Tonks lagði höndina á bera bringu hans og strauk yfir stæltan brjóstkassann.
Lupin fann hvað hann þráði þessa snertingu en reyndi allt til að hvetja hana ekki frekar og þóttist enn sofa. Hann iðraðist þess sáran að hafa ekki asnast til að fara í náttföt áður en hann henti sér upp í rúmið. Hann hafði alls ekki búist við að hún myndi elta hann inn. En þrátt fyrir að hann þættist sofa hélt Tonks áfram að strjúka bringu hans og maga. Hún virtist jafnvel njóta þess að skoða líkama hans án truflana. Hún dró sængina neðar og virti fyrir sér stæltan líkamann sem var allur settur örum. Hún strauk fingri yfir stærstu örin og svo þau minni. Það var eins og hún væri að leggja á minnið hvert ör og hverja freknu á líkama hans. Lupin lá grafkyrr með lokuð augun en hann þóttist vita að hún væri búin að átta sig á blekkingunni.
Tonks hélt áfram að rekja örin með fingrinum en hallaði sér svo yfir hann og kyssti þau. Hann átti mjög erfitt með að vera kyrr. Hann hafði aldrei sýnt neinum þessi ör. Ekki einu sinni sínum nánustu vinum. Á heitum sumardögum fækkað hann aldrei fötum eins og vinir hans því hann vildi ekki sýna öðrum örin sem minntu hann stöðugt á hvað hann var.
Allt í einu fann hann lítinn heitan dropa lenda á bringu hans og stuttu seinna annan og fljótlega heyrði hann að hún var farin að snökta. Hann galopnaði augun og leit niður. Tonks var hætt að kyssa örin en lá og grét hljóðlega með höfuðið á bringu hans. Honum fannst eins og hjarta hans myndi bresta. Hann tók mjúklega utan um hana reisti sig upp við rúmgaflinn. Hún lá enn bringu hans og hann hélt þétt utan um hana.
“Hvað er að elskan?” spurði hann ringlaður á svip og strauk bleikt hárið frá andliti hennar og reyndi að þerra tárin sem láku nú niður vangana í stríðum straumum.
Hún strauk yfir stærsta örið sem lá frá hægra brjósti hans niður að naflanum.
“Ég vissi ekki að þú værir svona illa farinn,” stundi hún upp og saug upp í nefið. “Ég vissi ekki að þetta væri svona slæmt.”
Lupin stýfnaði upp og fann hvernig hann hrökk ósjálfrátt í vörn.
'Ég vissi að hún vildi mig ekki. Hún er loksins núna að átta sig á hvað ég er og þá hættir hún við allt saman.' hugsaði hann og hjarta hans sveið af sársauka yfir þessari höfnun.
“Það er enginn að biðja þig að sætta þig við eitt eða neitt mín vegna,” sagði hann reiður. “Ef þú ræður ekki við þetta þá er þér einfaldlega best að hypja þig héðan út.”
Afhverju var hann svona reiður. Var það ekki þetta sem hann var búinn að segja sér allan tímann, að hann væri ekki nógu góður fyrir hana. Hann var búinn að reyna að halda aftur af sér í marga mánuði hennar vegna og núna þegar hún var að gera honum ljóst að hún vildi hann ekki varð hann sár og reiður. Hann vissi að hann ætti ekki að vera það en hann gat engan veginn haft hemil á þessari tilfinningu. Hann sem reiddist nánast aldrei.
Tonks lyfti höfðinu rólega af bringu hans og starði á hann líkt og hún héldi að hann væri bilaður.
“Er ekki allt í lagi með þig?” spurði hún og vantrúin skein úr andliti hennar. “Ég meinti það alls ekki þannig. Það eina sem ég meinti var að ég vissi ekki hversu mikið þú hefur þurft að þjást. Ég fann til með þér. Ég sá öll örin á líkamanum þínum og vissi hvað þú hefur upplifað margt. Ég vissi að umbreytingarnæturnar væru erfiðar en ég vissi ekki að þær væru svona erfiðar. Ég grét vegna þess að ég vildi óska að ég hefði getað verið hjá þér til að hjúkra þér, til að hughreysta þig, til að elska þig.” sagði hún lágt.
Það var eins og hjarta hans hætti að slá örlitla stund. Gat hún virkilega verið að meina þetta? Vildi hún hann þrátt fyrir allt?
“Ég hélt þú þekktir mig betur en þetta Remus,” bætti hún við ásakandi. “Ég hélt þú vissir að það skiptir mig engu máli að þú sért varúlfur. Ég er ekki hrædd við þig. Ég þekki þig. Þú ert sá dásamlegasti maður sem til er í þessari veröld og ég ætla alls ekki að hypja mig eitt eða neitt. Ekki eftir þetta dásamlega kvöld. Í kvöld sá ég loksins að þú berð sömu tilfinningar í minn garð og ég ber til þín. Ég sleppi þér ekki núna þegar ég hef loksins fengið þig Remus Lupin.” sagði hún ákveðin.
Hann starði á hana örlitla stund. Hann vissi ekki hvernig hann átti að bregðast við þessu. Hann sem hafði ætlað að enda þetta. Hann vissi að þetta gat ekki orðið til frambúðar, hann vissi að hún gat ekki verið hans að eilífu en hann vissi líka að hann gat ekkert gert í kvöld. Hann vissi að hún myndi ekki hlusta á hann í kvöld og núna vildi hann fá að njóta þess að vera hjá henni. Hann myndi enda þetta á morgun. Áður en allt væri á enda myndu þau eiga eina nótt.
Hann beygði sig nær henni og kyssti hana þétt á munninn.