25.kafli – hvílíkt og annað eins

Hogwartsskóla, 3.desember

Bleeessaður!

Jæja, hvað segirðu svo? Jólafrí, ha? Það væri alveg frábært að komast héðan, ég er búin að vera í sjokki í þrjá daga. Helvíti hefur frosið og drekar eru orðnir jafn hættulausir og amma mín. Nei, hún er alveg stórhættuleg, ekki nógu góð líking… allavega, Sevi frændi var að upplýsa mig um það að Lillian Evans og James Potter hafa verið með tunguna ofan í hálsinum á hvort öðru í einhvern tíma. Náttúrulega tók ég ekkert eftir því, ég hef verið að forðast það að horfa á þau eftir bestu getu. Mjög gaman. Ég hef verið að velta því fyrir mér að framkvæma þetta plan mitt með Remus, það yrði ekkert svo slæmt, hann kyssir alveg ágætlega. Haha! Sennilega vildirðu EKKI vita þetta, en mér er svo að segja sama. Ég þurfti að segja einhverjum og ekki Díönu og Fionu, fjandinn hafi það. Vel á minnst, ég veit að hann er varúlfur. Já, mér hefur tekist alveg ágætlega að venja mig af því að blóta í tímum, kennurunum til mikillar ánægju. Ég held að Gryffindor hafi tapað til samans 20 stig út af mér og þessum orðaforða. Allt rússneskum fyllibyttum að kenna… og þér, að einhverju leiti. Talandi um rússneskar fyllibyttur, hvernig hefur liðið það þarna fyrir austan? Geturðu ekki komist að því hvort eitthvað gáfnaljósið á myndavél og tekið mynd af Frosiniiu til að senda mér?

En já, ég hef ekkert á móti því að vera með þér á jólunum. Ég veit um verri staði.

Kv.Necca


Rússlandi, 6.desember

Ef þú þolir rússneska jólagleði þá er þér velkomið að koma. Ég er ekki viss um að ég get sjálfur komið að sækja þig, en maður veit aldrei hvernig plönin fara hérna. Kerenze biður að heilsa þér. Frosiniia er búin að stækka en ég get ekki fundið neinn sem á myndavél, því miður. En ef þú kemur geturðu séð hana með eigin augum, ég held hún sakni þín óskaplega mikið.
Boris


Fenecca brosti aðeins. Hún hafði ekkert á móti því að kynnast rússneskri jólagleði svona einu sinni. Svo vildi hún miklu frekar vera hjá pabba sínum og dúllulegum dreka heldur en örfáum hræðum í Hogwarts. Svo voru þetta fyrstu jólin sem þau höfðu saman, það yrði áreiðanlega forvitnilegt að finna út hvernig þau myndu fara.

Hún settist í auðan klefa í lestinni með koffortið við hliðina á sér og Soffíu í fanginu. Síðan fór hún að rifja upp seinustu daga og koma smá reglu á hugsanir sínar.
Fenecca hafði ekki verið viss um hvort það væri hægt að plata einhverja uglu til að fara frá Rússlandi til Bretlands með jólapakka, svo hún ákvað að skilja eftir pakkann til Severusar með þeim skilyrðum að hann myndi ekki voga sér að opna hann fyrr en á jóladagsmorgunn.
“Hvað heldurðu að ég sé Fenecca? Ég svík ekki þá sem mér finnst vænt um,” hafði hann svarað og gekk síðan úr þarfaherberginu á dramatískan hátt. Hún brosti bara og hristi höfuðið. Honum þótti mjög gaman að gera þetta, snúa sér við og láta skikkjuna bylgjast á eftir sér, það kom svo virðulega út. Hann hafði látið Feneccu fá pakka líka og hún var handviss um að það væru bækur í honum. Severus vissi að hún átti í erfiðleikum með að sitja kyrr og lesa leiðinlega bók svo hann hafði tekið upp á því að benda henni á sniðugar bækur sem henni gæti þótt gaman að lesa.
“Ætlarðu ekki bara að verða barnapían mín, eða?” hafði hún sagt glottandi.
“Nei, mér líkar illa við smákrakka.”
“Veistu, ég sé þig ekki fyrir mér með konu og krakka, ef ég á að vera alveg hreinskilin. Það er bara einhvernveginn ekki þú, ef ég má segja það.”
“Ég veit. Hver myndi svo sem vilja vera með mér?”* hafði hann svarað.
“Ekki segja þetta Severus. Þú ert í raun og veru mjög indæll þegar maður fær að kynnast þér. Komast inn úr skelinni sem þú hylur þig. Eins og kókoshneta, eða… eða sykurpúði sem maður hefur grillað. Harður að utan en mjúkur að innan,” sagði Fenecca og brosti uppörvandi.
“Endilega, líktu mér við mat!” svaraði Severus. Svo hafði hún farið niður á lestarstöð og var við það að stíga í lestina þegar einhver kallaði á hana. Hafði hún gleymt einhverju á vistinni? Hún sneri sér við og stóð augliti til auglitis við sjálfan Remus Lupin, sem hún hafði gætt að forðast eftir að hafa kysst hann. Ekki að hún vissi af hverju, en af einhverjum ástæðum vildi hún ómögulega horfa á hann í augun.
“Þú ferð til Rússlands, er það ekki?” spurði hann.
“Jú, og?” Henni lá á að komast inn í lestina.
“Jæja, þá færðu jólagjöfina þína núna,” sagði hann, rétti henni pakka og kyssti hana á kinnina.


“Og hvað svo?” stundi Fenecca og hallaði höfðinu aftur. Sirius Black; fyrsta sambandið sem var marktækt. Hún hafði verið með strákum í um það bil mánuð þegar hún var þrettán, fjórtán, en slitið svo sambandinu á dramatískan hátt. Þá höfðu hún og vinkonur hennar setið yfir heitu súkkulaði og rætt alvarlega um hvað strákar voru miklir bjánar og gátu ekkert rétt. Þeir voru allir óþroskuð fífl ef engin úr vinkvennahópnum var á “föstu” en annars var bara hluti tilfinningasljóir kjánar. En aftur að Siriusi; hann var svo ótrúlega undarlegur. Samband með honum var villt og ekkert nema keleríið og ástríðan. Remus var svo allt öðruvísi en hann, hann var rólegur, skynsamur og svo tilfinninganæmur. Æi, vesen, hann var varúlfur, þeir áttu auðveldara með að greina tilfinningar annarra.
Fenecca stundi. Hvað í ósköpunum átti hún að gera? Það var allt í graut í hausnum á henni, bæði að utan og innan. Hún hafði ekki klippt á sér hárið síðan um sumarið svo að það var orðið frekar sítt. Innan í vissi hún ekkert hvað hún átti að halda; Remus var ekki lengur jafn slæmur og henni hafði fundist hann vera, Sirius var ennþá flottur, James og Lily voru ástfangin upp yfir haus, (hvernig í ósköpunum gerðist það eiginlega?) Severus var yndi og pabbi hennar ekki svo slæmur. Ef hún hefði haldið að lífið gæti varla orðið flóknara hafði hún rangt fyrir sér því það átti bara eftir að versna.

25.desember
Góðan dag og gleðileg jól!

Það er heillangt síðan ég skrifaði hérna seinast, en ég bara nennti því ekki. Fullt af hlutum búið að gerast sem ég nenni varla að telja upp. T.d. þá er Frosiniia búin að stækka um helling en er miklu veiklulegri en flestir aðrir drekar. Aumingja dúllan. Rússnesk jólagleði er ekkert svo slæm, maður hlær mikið og lætur eins og fífl, en þennan eina dag á árinu eru allir hérna edrú! Lily og James eru byrjuð saman, án þess að ég tæki eftir því, og ég er ennþá að reyna að finna út HVERNIG það gat eiginlega gerst. Sennilega er eitthvað til í þessu að ólíkt fólk laðist að hvort öðru. En hvað um það, ég fékk jólagjöf frá Remusi. Þetta var safn af miðum með málsháttum og þannig hlutum. Á þeim fremsta stóð “vinir vara að eilífu”. Þessir miðar eru allir í þeim dúr, allir um vini, ást og lífið sjálft. Hey, þetta rímaði næstum! Þetta var án efa undarlegasta jólagjöf sem ég hef fengið. Severus gaf mér litla brandarabók (ég sé þetta fyrir mér; hann að fara inn í brandarabókabúð!) og bók um lækningarjurtir og meira sem virkar fyrir dreka. Boris pabbi gaf mér síðan dagbók með dagatali, þar sem er meðal annars sagt hvenær er fullt tungl. Æi, ég fékk eitthvað meira sem ég einfaldlega nenni ekki að skrifa því ég er svo drulluþreytt!
Góða nótt,
Fenecca Crock-Ivanovitsj


Fenecca lokaði næstum því fullri dagbókinni. Eins gott að hún hafði aðra fyrir næsta ár. Hún geispaði, klóraði Soffíu bak við eyrun og lagðist svo niður. Eftir nokkrar mínútur var hún horfin inn í draumalandið og farið að dreyma. Einhvern veginn vissi hún að hún var stödd á eyju. Sólin var að setjast í vestri og kastaði gullnum og rauðum geislum yfir allt. Þetta var ótrúlega rómantískt. Svöl gola blés framan í hana og það var eins og einhver hvíslaði í eyra hennar þegar hún fór framhjá. Bíddu við, það var einhver að hvísla í raun og veru!
“Þú ert sem eldur í æðum þeirra,
um þá, þig dreymir,”** var sagt. Þetta var seiðandi rödd, full af ástríðu og þrá, og Fenecca lokaði augunum til að heyra betur, en þegar hún opnaði þau aftur var sólin sest og allt var baðað köldu silfurljósi tunglsins, vindurinn var orðinn kaldur og illur. Röddin hafði líka breyst.
“Horfðu inn í auga eilífðar,
sjáðu ást sem brennur þar,
en hugarfrið þú finnur,
þann frið sem dreymir….”** Fenecca heyrði ekki hvað var sagt meira, en það fór hrollur um hana. Hún var ekki lengur á friðsælu eyjunni heldur komin upp á fjallstind og það var ekkert kringum hana nema fleiri snævi þaktir fjallstoppar. Þetta var köld fegurð.
“Hver ertu!?” öskraði hún. Ósýnilegar verur svifu í kringum hana og röddin hló lágt að henni. Tvær hendur ýttu henni af fjallsbrúninni og hún féll og féll niður í eilífðina…

“Fenecca! Í nafni alls heilags, gerðu það, vaknaðu!” Hún fann fyrir sting í kinninni og opnaði augun snöggt.
“Þetta var hræðilegt. Hvað í ósköpunum var þig að dreyma, barn?” Boris horfði óttaslegin á dóttur sína. Hún horfði álíka hrædd á hann og hann horfði á hana. Það rann sviti niður ennið á henni, hún var andstutt og rjóð í framan og óttinn skein úr augum hennar.
“Ég man það ekki… guð minn góður, ég man það ekki, en það var hryllingur!” stundi Fenecca.
“Fyrirgefðu… ég þurfti að slá þig utan undir. Þú virtist ekki ætla að vakna og þetta var það fyrsta sem mér datt í hug,” muldraði Boris. Fenecca kinkaði kolli. Í sannleika sagt var hún himinlifandi að hann skyldi hafa vakið hana. Henni leið illa út af þessum draumi.
“Ég er að hugsa um að fara og fá mér eitthvað að drekka. Kakó eða eitthvað álíka,” muldraði Fenecca og fór úr rúminu sínu. Fæturnir skulfu og hún þurfti að styðja sig við Boris til að detta ekki.
“Ég get látið þig fá eitthvað sterkara. Þú lítur út fyrir að þarfnast þess,” sagði Boris og studdi hana niður stigann.
“Hm. Ég veit hvað ég segi þegar ég kem aftur í skólann. Já, pabbi minn var að hella mig fulla, það var alveg ofboðslega gaman. Ég man samt bara ekkert annað, því miður. Hljómar það ekki vel?” sagði Fenecca kaldhæðnislega. Boris hristi höfuðið og lét hana setjast við eldhúsborðið.
“Hverjum myndirðu segja það?”
“Severusi. Það er ekki eins og ég hafi um marga að velja.”
“Hvað með Remus?” spurði Boris og rétti Feneccu bolla af kakói sem var búið að hella slurk af rommi út í.
“Hvað með hann?” sagði Fenecca og tók stóran sopa. Svo gretti hún sig.
“Hvað léstu mikið af rommi út í þetta? Oj bara! Ég get drukkið bjór eða vín, en ekki fjandans romm!” stundi hún upp.
“Mín eigin dóttir! Getur ekki drukkið romm, ég dey af skömm,” sagði Boris og lét höndina á hjartastað.
“Æi, góði, hættu þessu væli.” Þau þögðu í smá stund eftir þetta, þangað til…
“Þú ert ekki enn búin að svara mér,” sagði Boris.
“Svara hverju?”
“Hvað með Remus?”
“Víst var ég búin að svara, ég sagði “hvað með hann?”” sagði Fenecca og lét bollan á borðið.
“Hvílíkt svar. Það er ekki eins og þú hafir verið að reyna fræðast eins mikið um varúlfa og þú getur, neinei. Þú ert búin að ausa öllum upplýsingum út úr hverjum einasta varúlfi sem er hérna. Ekki að þrír séu mikið…”
“Kannski finnst mér þau bara vera áhugaverð. Þetta tengist Remusi ekki neitt,” sagði Fenecca. Núna stóð hún upp og var á leiðinni inn í herbergið sitt. Hún var að loka hurðinni þegar Boris kom upp.
“Ég ætla bara að segja eins og er, Fenecca. Ef það er einhver sem ég held að sé verðugur þess að vera með þér, þá er það hann. Þér er áreiðanlega alveg sama, en hann var með hræðilegt samviskubit og hann REYNDI að láta þig vita hvað Black og Potter voru að gera, mundu það. Góða nótt.” Svo fór hann inn í herbergið sitt. Fenecca stóð í dyragættinni og horfði á ganginn. Fjandinn sjálfur, af hverju gat lífið ekki verið einfalt?

“Ég sé þig sennilega ekki fyrr en í útskriftinni þinni. Ef ég kemst þangað, það er að segja. Ég lofa engu, ég segi þér það bara núna. Gerðu þitt besta og ekki fá taugaáfall, einhver vinur þinn gæti boðist til að gera munn-við-munn aðferðina við þig.” Fenecca eldroðnaði þegar Boris sagði þetta. Hann hafði ekki getað komið með henni til London, það var orðin ótrúlega mikil gæsla yfir það hverjir komu og fóru frá galdra-Bretlandi.
“Eitthvað meira? Eitthvað eins og “ekki gera neitt sem ég myndi ekki gera” eða?” sagði Fenecca glottandi.
“Nei, það gæfi þér alltof mikið svigrúm. Mundu bara að ef þú ætlar að gera eitthvað á annað borð, gerðu það með stæl! Ef þú ætlar að falla á prófunum, þá er merkilegra að drullufalla heldur en að það muni pínulitlu að þú næðir. Og endilega reyndu að forðast það að deyja þarna fyrir vestan. Ég hef engan áhuga á að halda aðra jarðarför. Alls engan áhuga,” sagði Boris. Fenecca kinkaði kolli.
“Jæja, ég er farin. Bless. Það var gaman að sjá þig!” Og með þeim orðum var hún farin aftur í örvilnunina á Bretlandi án þess að vera viss um að komast þaðan aftur á lífi.

“Hvernig var jólafríið þitt?” spurði Remus kurteisislega meðan þau voru að vinna saman í töfradrykkjum. Fenecca yppti öxlum kæruleysislega.
“Er einhver sérstök ástæða fyrir því að þú ert í fýlu út í mig eða datt þér bara í hug að gera þetta upp á grínið?” spurði Remus aftur. Fenecca leit snöggt upp.
“Hver sagði að ég væri í fýlu við þig?” urraði hún.
“Afsakaðu, þetta var bara smá hugboð sem ég fékk. Kenndu varúlfinum í mér um, ég er bara svona fær um að greina í hvernig skapi fólk er,” muldraði Remus. Þau helltu hluta af seiðinu í flösku og létu það svo á kennaraborðið. Bjallan hringdi eftir örfáar mínútur. Fenecca flýtti sér út en allt í einu, þegar hún var nýkomin úr dýflissunum, var hún toguð inn í autt herbergi.
“Vinsamlegast, útskýrðu fyrir mér, Fenecca Crock, af hverju þú ert reið út í mig? Stundum líkar þér vel við mig, stundum ekki. Af hverju?” urraði Remus á hana. Þetta var án efa í fyrsta skiptið sem hún hafði séð hann reiðan og það var eitthvað sem hún vildi ekki sjá aftur. Hún vissi alveg hversu sterkir varúlfar voru og ef hann myndi brjálast ætlaði hún að hlaupa út eins og skrattinn væri á eftir henni!
“Kemur þér fjandans ekki við, kenndu hormónunum einfaldlega um!” svaraði Fenecca og ætlaði að fara út en hann stóð fyrir hurðinni.
“Ég reyndi að vara þig við! Ég sagði Lily það, ég varaði þig við þeim! Þú trúðir henni ekki, þú getur ekki kennt mér um það. Þú getur ekki kennt mér um það af hverju Lily og James eru saman, þú getur ekki kennt mér um það að Sirius sé fáviti eða að mamma þín dó, þú getur ekki kennt mér um….” Þegar Fenecca hugsaði um þennan dag mörgum árum seinna vissi hún að þetta hafði verið eitthvað sem hafði legið í henni heillengi að gera. Hún vafði höndunum um hálsinn á Remusi og kyssti hann.






*Fullt af brjáluðum aðdáendum: ÉÉÉÉÉÉG!!! Afsakið, stóðst ekki mátið, hehe.
**Þegar ég skrifaði þetta var ég nýbúin að horfa á Söngvakeppnina, og þar var “þú ert sem eldur í æðum mér, um þig mig dreymir” og “ég horfði í auga eilífðar, sá ást sem brennur þar, en hugarfrið ég fann, þann frið sem mann dreymir..” og mér fannst þetta passa svo ótrúlega vel inn í! Sennilega er rétt að segja að ég á þessa texta ekki og er ekki að gera neinn pening úr þeim og allt það, en þetta vita svo að segja… allir.
Vel á minnst, þakkið Parvati (ég vona að það hafi verið hún, ég er alltaf að gleyma hver er hver) fyrir að hafa farið yfir ;)