Höfundur þessa spuna hefur ákveðið að algjörlega hundsa tilvist 6.bókarinnar. Einnig fékk höfundur leyfi til að senda inn tvær sögur, þannig að allur pirringur, ef einhver er, skal beinast að Fantasiu!

Kennarastofa Hogwartsskóla, um jólin, var undarlegur staður. Þótt að prófin þjökuðu alla, voru þau alltaf svo undarlega létt og glöð yfir öllu. Það sást jafnvel munur á Snape! Reyndar, þótt að stríðinu hefði lokið fyrir heilum fimm árum var hann ekki farinn að hoppa um af gleði yfir því að jólin voru að koma. Eini munurinn sem virkilega sást á honum var að núna var hann jafn leiðinlegur við alla nemendurna, sama hvort þeir voru í Slytherin eða ekki. Kennararnir höfðu þó tekið eftir því að hann var oftar annars hugar á fundunum og það sást oftar til hans brosandi. Þó ekki brosi sem féllst í því að munnvikin á honum færðust nær eyrunum, nei, það voru þessar pínulitlu hrukkur kringum augun sem virtust aðeins færast til og augun sjálf urðu á undarlegan hátt aðeins bjartari og minntu ekki lengur á hol og svört göng. Aðeins eftir að hafa umgengist hann í einhvern tíma var hægt að sjá hvenær hann brosti svona.
“Hann er áreiðanlega ástfanginn!” tilkynnti Pomona Spíra og skellti niður bolla fullum af kaffi, sem sullaðist náttúrulega yfir allt borðið. Hún, Minerva McGonagall, Poppy Pomfrey, Estelle Sinistra, Hooch og Irma Pince voru á vikulegum slúðurfundi sínum, sem þær höfðu haldið seinast liðin… hvað, tuttugu ár eða svo. Aumingja Minervu svelgdist á teinu sínu.
“Þú hlýtur að vera að grínast! Ekki Severus, það getur varla verið,” stundi hún hóstandi upp.
“Þú og Albus funduð hvort annað um jól. Af hverju geta ekki fleiri endurtekið þann… leik?” sagði Poppy og glotti aðeins. Það höfðu verið hún og Hooch sem komu að Albusi og Minervu, kyssandi í snjónum. Í raun og veru var það eitt af fallegustu minningum hennar. Þau höfðu alltof lengi starað vonsvikið á hvort annað, viss um að hitt gæti ómögulega endurgoldið tilfinningar sínar. Hún, ásamt öllum hinum kennurunum voru að verða brjáluð á því, Severus hafði meira að segja boðist til að gera ástarseyði til að þau gætu loksins viðurkennt tilfinningar sínar. Það hafði samt ekki þurft til, því af einhverjum stórfurðulegum ástæðum sem hvorki Minerva né Albus vildu segja, höfðu þau farið að kyssast á miðju Hogwarts-vatninu, með stór snjókorn fallandi í kringum sig og í algjörri þögn. Það er að segja, alveg þangað til hún fór að hrópa upp yfir sig af gleði, bæði yfir því að þessi tvö hefðu viðurkennt ást sína og af því að hún hafði unnið 20 galleon í skemmtilegu veðmáli!
“Og má ég benda á herra og frú Malfoy, þau uppgvötuðu hvort annað á áramótunum. Ginerva var ein sú fyrsta til að taka á móti Draco opnum örmum þegar hann kom til okkar. Æi, brúðkaupið þeirra var svo fallegt, þau voru svo ástfangin. Og eru enn, náttúrulega,” sagði Pomona dreymin á svip. Já, ekki mátti gleyma Ginny og Draco Malfoy. Draco Malfoy hafði af undarlegum ástæðum séð að sér og farið til Dumbledores í von um hjálp við að sleppa frá föður sínum. Meðlimir Fönixreglunnar höfðu verið tregir til að taka hann inn í hópinn, og einn dag þegar Harry og Ron höfðu verið frekar leiðinlegir við hinn unga Malfoy sýndi hún og sannaði dóttir hverrar hún væri og öskraði sig hása á þá.
“Munið þið þegar hún öskraði á strákana? Poppy, þú varst á staðnum,” sagði Minerva og glotti aðeins. Poppy kinkaði kolli.
“Sem betur fer, en ég held að þeir þurftu meira á hjálp sálfræðings heldur en hjúkrunarfræðings. Þeir voru í losti, aumingjarnir.”
“Já, segðu Harry Potter, þeim sem sigraði sjálfan Voldemort, að hann sé aumingi,” muldraði Estelle Sinistra háðslega.
“Þegar kemur að ungri, rauðhærðri stúlku með hrikalegt skap… já, ég gæti sagt þetta upp í opið geðið á honum,” svaraði Poppy stolt. Hooch ætlaði að segja eitthvað, en hurðin opnaðist og Severus Snape æddi inn.
“Er hún… nei, fjandinn hafi það!” muldraði hann og leit æstur í kringum sig.
“Að hverri ertu að leita?” spurði Minerva kurteisislega. Severus hristi bara höfuðið.
“Skiptir engu, það eru ekki það margir staðir sem hún gæti verið á,” hélt hann áfram að muldra. Svo rauk hann jafn skyndilega út og hann hafði komið inn.
“Hann er að leita að henni! Ég veit það!” sagði Hooch og glotti.
“Leita að hverri?” spurði Irma.
“Mín kæra Irma Pince. Þrátt fyrir alla þína haukssjón ertu enn blind,” sagði Hooch og klappaði henni lauslega á höndina.
“Hvað áttu við? Að hverri er hann að leita?” spurði hún aftur og leit í kringum sig.
“Ástinni sinni einu,” sagði Hooch leyndardómsfull.
“Sem hann hefur án efa fælt burt með ógætilegum orðum,” bætti Poppy við.
“En nú leitar hann hennar til að biðjast fyrirgefningu hennar,” sagði Minerva.
“Hann ætlar sér að viðurkenna ódeyjandi ást sína á henni,” sagði Sinistra.
“Hún mun reka hann úr skelinni og gera hann hamingjusaman!” sagði Pomona.
“Segðu mér Poppy… ertu til í annað veðmál?” spurði Hooch glottandi og sneri sér að skólahjúkkunni.
“Ertu viss um að þú þolir að tapa aftur?” var eina svar Poppyar.
“10 galleon, eftir áramótin.”
“10 galleon, fyrir áramót.”
“5 galleon, fyrir jól.”
“5 galleon, eftir áramót.
“10 galleon, milli jóla og nýárs.”
“5 galleon, fyrir áramótin.” Þær glottu til hvor annarrar.
“Jæja, dömur. Eigum við að fara og fylgjast með framvindu málefna?” sagði Minerva og stóð upp. Hinar fylgdu á eftir.
“Eruð þið að segja mér að Severus Snape sé raunverulega ástfanginn af… af… af HENNI!?” stundi Irma upp og hljóp á eftir hinum.
“Mér finnst það hreint og beint yndislegt,” sagði Poppy.
“Þau passa saman, á alveg hreint ótrúlegan hátt,” sagði Hooch.
“Ég óttast samt að þau eigi eftir að rífast jafn mikið og elskast,” muldraði Minerva og varð til þess að hinar roðnuðu.
“Já, álíka oft og þú og Albus,” sagði Hooch sakleysislega á móti. Núna var komið að Minervu að roðna, allsvakalega.
“Þótt að ég hafi viljað talað um ástarlíf Albusar á mínum yngri árum, þá er það ekki beinlínis eitthvað sem ég vil ræða núna, þannig að í guðanna bænum, hættið þessu!” urraði Irma. Bókasafnsvörðurinn gat verið einstaklega viðkvæmin þegar kom að ástarmálum annarra.
“Já, Irma. Þú talaðir ekki um neitt annað þegar hann var nýkominn hingað til að kenna,” sagði Hooch og glotti.
“Vertu ekki að segja mikið, þú slefaðir alveg jafn mikið yfir honum og við hinar,” minnti Poppy hana á.
“Allar nema Minerva, eftir því sem ég hef heyrt hjá ykkur. Ég er í raun og veru fegin að hafa ekki verið á sama tíma og þið í skóla,” sagði Estelle og brosti. Stjörnufræðikennarinn var yngst í kjaftasöguklúbbnum þeirra, en það aftraði henni ekki frá því að passa inn í hópinn.
“Ójá, reyndar, þá líkaði henni hreint ekkert við hann þegar hann kom hingað fyrst! Þú hefðir átt að sjá hana, hún var alveg hrikaleg…” sagði Hooch og glotti. Minerva brosti líka aðeins.

Jólafríin voru á næsta leiti, og eins og alltaf varð hún aðeins uppstökkari og viðkvæmari en venjulega. Það bætti ekki beinlínis að það hafði komið nýr ummyndunarkennari á miðri önninni, vegna nýlegs faðernis kennarans sem var á undan. Það var Albus eitthvað Dumbledore, sem hver einasta stelpa í skólanum virtist slefa yfir. Henni fannst bara pirrandi hvað hann var alltaf glaður, brosandi og með blik í augunum. Gat hann aldrei verið alvarlegur? Svo hafði hann boðist til að halda áfram með þjálfun hennar til að verða kvikskiptingur. Fyrst hún ætlaði að vera í skólanum yfir jólin gætu þau ef til vill notað jólafríið sem undirbúning. Nei, hún gat ekki eytt miklum tíma í félagsskap hans, hann var einfaldlega alltof glaður fyrir hennar smekk. Hún gætti þess að forðast hann eftir þetta vinsamlega boð hans.
Svo hafði hún farið á jólanótt að fljúga á Quidditch-vellinum. Þegar hún flaug var hún frjáls og laus við allar áhyggjur heimsins. Hún var laus við allar slæmu minningarnar sem tengdust jólunum! Eini vandinn var sá að þegar hún var að fara í hring í loftinu sá hún prófessor Dumbledore horfa á sig frá jörðinni, missti jafnvægið og hefði kramist til bana ef jörðin hefði ekki allt í einu orðið dúnmjúk. Hann hafði afsakað sig margfalt fyrir að bregða henni, hún hafði bara ýtt honum í burtu og reynt að komast sem lengst frá honum. Hann hafði elt hana og heimtað skýringu á því af hverju henni líkaði svona illa við hann, hvað í ósköpunum hafði hann gert henni?
“Ekkert! Þú ert bara svona! Verri en Hooch og Pomfrey, alltaf brosandi, glaður og hoppandi og guð má vita hvað! Alltaf í góðu skapi þegar ég vil bara fá að vera ein í friði fyrir umheiminum, fyrir öllu fólki, fyrir öllum minningum, ÖLLU!” hafði hún öskrað á hann. Svo hafði hún hnigið niður og grátið eins og barn. Hann hafði, eins og alltaf, verið vingjarnlegur, og stutt hana upp í skólann. Svo hafði hann farið með hana á skrifstofuna sína, boðið henni heitt súkkulaði og hún hafði sagt honum sorgarsöguna af því þegar mamma hennar dó á jólunum og pabbi hennar varð svo kaldur og tilfinningalaus. Þess vegna líkaði henni illa við jólin, þau gáfu henni slæmar minningar.
“En vinan mín, Minerva. Þú getur ekki látið fortíðina eyðileggja fyrir þig framtíðina. Þú átt svo marga möguleika í lífinu, þú ert svo sterk og svo gáfuð. Ég er nokkuð viss um að móðir þín hefur ekki viljað að þú og fjölskylda þín grafi sig í sorgum sínum. Hún hefur viljað að þið haldið áfram í lífinu og að þú notir hvert einasta tækifæri þitt til að komast áfram,” hafði hann sagt henni, næstum því hvíslandi.
“Ég held að kvikskiptingsform þitt sé eitthvað kattardýr. Þú ert eins og ljónynja, þú verð þá sem þér þykir vænt um. Ég man þegar ég sá þig fyrst, þú varst að öskra þig hása á einhvern í Slytherin fyrir að meiða 1.árs Gryffindor-nema. Það eina sem ég hugsaði var að ég vildi ekki mæta þér reiðri, í einhverju myrku húsasundi!” Hún hafði hlegið svolítið yfir þessu. Hann hafði bara verið að reyna gera sem best úr hlutunum, reynt að hugga hana. Samt hafði hún alltaf verið að hugsa um það eftir á, ef það hefði kannski verið meira á bak við vinalegu faðmlögin og orðin til að hugga hana. Mörgum áratugum seinna komst hún að því að það hafði verið svo, en þar sem það hefði verið hryllilegt að það væri samband á milli kennara og nemanda hafði hann ekki vogað sér að gera neitt meira. En þau höfðu að lokum viðurkennt tilfinningar sínar og hlegið sig máttlaus af asnaskapnum í hvort öðru og eftir þetta voru jólin hjá henni miklu, miklu betri og…


“Minnie! Vaknaðu og sjáðu!” hvíslaði Poppy. Severus Snape stóð fyrir utan þarfaherbergið og bankaði eins og óður á hurðina.
“Gerðu það, komdu út! Ég meinti þetta ekki svona. Þetta átti ekki að hljóma svona… ég sagði þetta bara vitlaust! Gerðu það, talaðu við mig!” kallaði hann. Þær brostu allar, þetta var án efa í fyrsta og seinasta skiptið sem þær heyrðu sjálfan Severus Snape biðja einhvern með svona rödd!
“Ég bið þig, talaðu við mig. Fyrirgefðu mér. Fyrirgefðu, þetta átti ekki að koma svona út!” hélt hann áfram.
“Hvað haldið þið að hann hafi sagt við hana?” hvíslaði Hooch.
“Eitthvað sem hefur hljómað vitlaust,” muldraði Irma.
“Elsku besta, leyfðu mér í það minnsta að koma inn. Það eru brjálaðar kerlingar hérna að hlusta á hvert einasta orð sem ég segi og ég hef mikla þörf fyrir að sparka í EITTHVAÐ fyrir það hvað ég get verið heimskur, en ég vil ekki hætta á að meiðast sjálfur á… ýmsum stöðum. Þökk sé þeim verður þetta út um allan skólann á morgunn, ég ætti að skammast mín nógu mikið fyrir það. Fyrirgefðu mér, gerðu það opnaðu!” kallaði hann. Það kom ekki beint á óvart að hann vissi af þeim, þær voru ekkert alltof hljóðlátar.
“Poppy, ég veðja 3 knútum að hún opni ekki,” hvíslaði Hooch.
“Ertu að reyna að tapa öllu sem þú átt?” svaraði Poppy. Þær héldu niðri í sér andanum, en svo… opnaðist hurðin!
“Þetta er bara til að bjarga þér frá því að skammast þín enn meira, ekki búast við að ég hlusti endilega á þig,” var sagt. Severus kinkaði kolli og flýtti sér inn.
“Hversu lengi ætli þau verði þarna inni?” muldraði Pomona.
“Frú Spíra, að þú skulir voga þér að segja svona!” sagði Irma, en gat ekki varist brosi.
“Hvað, er þetta of viðkvæmt fyrir alvarlega bókasafnsvörðinn okkar?” sagði Minerva og glotti til Irmu.
“Ég vona einfaldlega að þau láti þagnargaldur á, annars eigum við ekki eftir að fá neinn frið fyrir öskrum,” sagði Estelle.
“Hvernig öskrum nákvæmlega, prófessor Sinistra?” var sagt fyrir aftan þær. Albus Dumbledore, klæddur í eldrauða skikkju sem drógst eftir gólfinu, gekk til þeirra.
“Tvenns konar, býst ég við. Reiðu öskrin fyrst, hin á eftir,” sagði Estelle og brosti sakleysislega.
“Þetta var eitthvað sem ég vildi EKKI vita!” muldraði Irma og stakk puttunum í eyrun.
“Hvað ert þú að gera hérna Albus?” spurði Minerva. Albus Dumbledore virtist hafa elst um 20 ár eftir að stríðinu lauk, en hann var samt sem áður alltaf jafn glaður og frískur á jólunum.
“Mér datt í hug að láta smá mistiltein í þarfaherbergið til að andrúmsloftið myndi róast niður,” svaraði hann.
“Það kemur bara öðruvísi spenna í skólann, í staðin fyrir að vera alltaf að öskra á hvort annað fara þau að bíða eftir því að hoppa á hvort annað. Eftir áramót eigum við ekki eftir að finna kelandi unglinga heldur kelandi Severus Snape og…”
“Minerva, ekki segja það! Ég á erfitt með að sjá þau tvö saman, ég þarf EKKI að heyra þetta sagt!” hrópaði Irma aftur.
“Hvað segið þið dömur, um að gefa ástarfuglunum okkar smá næði og fara burt. Ég veit að ég sjálfur óskaði mér næðis þegar ég var að viðurkenna tilfinningar mínar…” sagði Albus og leit á Hooch og Poppy.
“Heyrðu mig nú, kallinn, ekki kenna okkur um! Það voruð þið Minnie sem stóðuð á miðju svellinu að kela, við vorum einfaldlega að ganga framhjá,” sagði Hooch ásakandi.
“Já, enginn getur skammað okkur fyrir það eitt að vera úti,” bætti Poppy við.
“Hana nú, komum okkur bara í burtu. Minerva?” sagði Albus og rétti eiginkonu sinni höndina. Hún brosti og tók hana.
“Ég er komin á þá skoðun að jólin séu tími ástarinnar. Við höfum Draco og Ginervu, Minnie og Albus og núna Severus og hún. Finnst ykkur þetta ekki alveg ótrúlegt?” sagði Pomona dreymin.
“Ætli við verðum ekki að kenna andrúmsloftinu um. Það verða allir svo vingjarnlegir á jólunum, fólk verður að notfæra sér það á einhvern hátt! Dóttir mín varð fyrst ástfangin um jólin,” sagði Estelle.
“Lillian og James! Þau sáust fyrst kyssast á jóladag!” sagði Hooch, stolt yfir því að hafa fundið fleiri sem fundu ástina sína um jólin.
“Hverja fleiri vitum við um? Er ekki til einhver saga þar sem fólk varð ástfangið um jólin?” muldraði Irma.
“Það myndi engum detta í hug að skrifa um ást á jólunum, það er of… eðlilegt held ég.”