24.kafli – nei, fjandinn hafi það!

Eitt brjálæðislegt augnablik fannst Feneccu sem Severus Snape ætlaði að ná í sprotann sinn og drepa hana, en eftir að þau höfðu staðið og starað á hvort annað í nokkrar mínútur sagði Fenecca mjög andstutt:
“Hæ, frændi.” Augabrúnirnar hans lyftust undir hárið.
“Hvenær fékkst þú að vita að við værum skyld?” spurði hann hikandi.
“Boris, pabbi, sagði mér það. Vissirðu það?”
“Já, ég stalst til að athuga ættfræðibækurnar þegar ég var 13. Minn hluti ættarinnar skammast sín fyrir ykkur og öfugt, eftir því sem ég hef heyrt,” svaraði Severus. Fenecca kinkaði kolli.
“Ertu hérna einn? Tom á Seiðpottinum sagði Boris að enginn þyrði að vera einn úti á götu núna og í stuttu máli að allt væri að fara til fjandans hérna,” sagði Fenecca.
“Foreldrum mínum er nákvæmlega sama hvar ég er,” urraði Severus á Feneccu. Hún hrökk ósjálfrátt aftur á bak, hann hafði verið einstaklega góður við hana seinni önnina og virkað sem hálfgerður boðberi milli hennar og Lilyar. Já, talandi um Lily…
“Ég ætti að koma mér. Hérna, hefurðu heyrt eitthvað í Lily?” spurði Fenecca taugaóstyrk. Severus Snape gat verið ógnvekjandi ef hann vildi og ef hann myndi stækka um örfáa sentimetra í viðbót yrði hann enn ógnvænlegri.
“Aðeins.” Hann ætlaði að bæta einhverju við en í því kom Boris aftur inn með pyngju fulla af peningum.
“Bless, Severus. Sjáumst í skólanum í haust,” sagði Fenecca og gekk í burtu.
“Við hvern varstu að tala?” spurði Boris hana.
“Sevilius frænda,” sagði Fenecca og glotti aðeins.
“Hann Sevilius þinn? Þú ert nú meiri…”

“Soffía í búrinu?”
“Já.”
“Allar bækurnar ofan í koffortinu?”
“Já.”
“Öll föt? Skikkjur?”
“Já.”
“10 kíló af snyrtidóti?”
“Auðvitað!”
“Fyrirgefning til Lilyar?”
“Hættu þessu, ég þarf ekki að tala við hana nema ég vilji,” urraði Fenecca. Þau voru að gera seinustu tékk á öllu áður en hún færi á sitt seinasta ár í Hogwarts. Boris myndi ekki kenna umönnun galdraskepna á þessu ári, heldur Kettelburn sem hafði fengið kennslu frá feðginunum í verklegri kennslu. Boris hafði sagt í gríni við hann að hann gæti spurt Feneccu ef hann vissi ekki eitthvað, en hún var handviss um að Kettelburn hefði tekið það alvarlega.
“Eigum við þá að fara af stað áður en þú gugnar á því að fara í þitt seinasta ár?” sagði Boris og tók koffortið hennar.
“Hver andskotinn, þetta eru 10 kíló af snyrtidóti og fimmtíu af fötum!” muldraði hann brosandi. Fenecca hafði tekið það upp eftir honum að blóta meira en venjulega og var viss um að það tæki smá tíma að venja sig af því þegar hún kæmi í skólann á ný. Tja, það væri eins gott að hún myndi venja sig af því, annars yrðu kennaranir frekar óánægðir með hana.
“Hvenær ferðu aftur til Rússlands?” spurði Fenecca. Boris þurfti að fara þangað aftur til að fylgjast með uppvexti Frosiniiu og sjá um að hún dafnaði vel.
“Byrjun október held ég. Ég kem kannski aftur um jólin, er ekki alveg viss, en ég mun koma hingað í apríl,” sagði Boris og skellti koffortinu í aftursætið á Landrovernum.
“Þú ættir að fá þér nýjan bíl. Þessi lekur eins og gatasigti,” sagði Fenecca og settist í framsætið.
“Necca mín, allir Landroverar leka,” sagði Boris og fór af stað, “bara engir tveir á sama stað.”*
“Þú gætir reynt að finna einhvern sem lekur ekki beint ofan í farþegasætið!”

Það var allt önnur tilfinning að koma á lestarstöðina núna heldur en öll hin sex skiptin. Mun tilfinningameiri kveðjur, foreldrarnir vissu núna að það væri mikill möguleiki á að þau myndu aldrei aftur sjá börnin sín.
“Ég er einstaklega fegin að hafa ekki verið hérna í sumar,” sagði Fenecca og færði sig aðeins nær Boris.
“Ég segi það með þér. Heyrðu, þú manst að skrifa öðru hvoru og segja hvað sé að gerast þarna norðar. Ég bið að heilsa Kettelburn og öllum hinum kennurunum. Endilega skilaðu kveðju til Evans, Toqués og Snapes… og Black, ekki koma nálægt dóttur minni!” urraði Boris á Sirius Black sem hafði gengið framhjá þeim. Hann fór í burtu skelfingu lostinn og minnti Feneccu helst á hund með skottið á milli lappanna.
“Bítt’ ‘ann ef hann fer að ibba sig,” sagði Boris brosandi. Fenecca hristi höfuðið en glotti samt með honum.
“Ég ætla að koma mér fyrir í lestinni svo ég lendi ekki í klefa með honum eða Lily. Bless… pabbi,” sagði Fenecca og kyssti hann á kinnina.
“Ái! Viltu annað hvort raka þessar nálar af þér eða bara safna almennilega!”
“Kannski ég geri það einhvern daginn. En veistu, það yrði frekar gott fyrir þig að lenda í klefa með Lillian Evans… ekki það að þú viðurkennir það, en það er aukaatriði Necca. Bless vinan,” sagði Boris og rétti Feneccu koffortið sitt. Hún brosti til hans og fór svo inn í lestina. Hún leit í kringum sig og sá mörg döpur andlit. Reyndar sá hún ekkert nema döpur andlit þarna. Það var aðeins Boris sem var hálfbrosandi.
“Ætlarðu að standa þarna í allan dag?” urraði Severus Snape sem beið eftir því að komast inn í lestina.
“Afsakaðu frændakrútt, ég skal ekki vera í vegi þínum mikið lengur,” svaraði Fenecca og ýtti koffortinu inn ganginn.
“Ekki,” sagði Severus á milli samanbitinna tannanna, “kalla mig frænda þegar aðrir geta heyrt!”
“Jájá,” muldraði Fenecca og horfði í kringum sig eftir lausum klefa. Á endanum plantaði hún sér með Díönu og Fíónu.
“Ætlarðu að semja frið við Black?” spurði Díana spennt.
“Ekki séns í helvíti!”
“En Remus dúlluna? Hann gerði ekki beint neitt, Lily sagði mér að hann hefði reynt að aðvara þig gegnum sig en ekki gengið. Það var þá sem, tja, þú veist. Þið Lily urðu óvinkonur. Jackie baktalar þig eins og ég veit ekki hvað! Hún getur verið svo mikil tík stundum, samt er hún oftast yndisleg. Ekki það að ég sé að segja að hún sé eitthvað skemmtileg, en þú veist hvað ég er að meina. Hún er brussa og klunni. En ætlarðu ekki að fyrirgefa Remusi? Hann er svo krúttaralegur að það er ekki hægt að vera ill við hann eða Peter litla. Í raun og veru gæti ég aldrei verið í fýlu við James, hann er bara sexý, og líka Sirius…” Fiona stoppaði í miðri setningu þegar hún uppgvötaði að hún var farin að segja of mikið af góðum hlutum um Sirius og James.
“Díana, heldurðu ekki að herðapúðar fari að komast í tísku á næstunni?” sagði hún snöggt og sneri sér til Díönu. Fenecca ranghvolfdi í sér augunum.
“Bíddu aðeins. Fenecca, er Boris virkilega pabbi þinn?” spurði Díana. Hún kinkaði kolli.
“Já, og ég er farin á klósettið. Kem aftur bráðum,” sagði Fenecca og fór út. Hefði hún verið þarna inni mikið lengur hefði hún mjög líklega kýlt Fionu. Ekki það að hún ætlaði að fara á klósettið, en það nægði að ganga um. Gangan hafði mjög róandi áhrif á hana, alveg þangað til hún kom auga á Lily. Þau horfðust í augu í nokkrar tilfinningaþrungnar sekúndur.
“Hæ,” hvíslaði Fenecca. Það var eitthvað skrítið við Lily. Augnaráðið var kaldara, bakið beinna, varirnar herptar saman og hendurnar stífar. Hún var svo… köld.
“Burt,” sagði hún. Þetta voru seinustu orðaskipti þeirra í langan tíma.

Dagar urðu að vikum og vikur að mánuðum. Lokaár Feneccu leið hægt áfram, hún var að mestu leiti ein, sem var mjög erfitt fyrir félagsmanneskju eins og hana. Það voru daglegar fréttir að dráparar hefðu framið eitthvað ódæðisverk í Bretlandi, fólk sem hafði verið leitað að í margar vikur hefði fundist, stundum búið að aflima grey mannveruna, snúa höfðinu í hring eða aðrar pyntingar sem enginn lifandi sál ætti að þurfa að fara gegnum. Boris skrifaði Feneccu bréf öðru hvoru og sendi henni myndir af Frosiniiu, sem stækkaði óðum. Hún ætti án efa eftir að verða hraustur, en þó lítill, dreki. Remus reyndi ennþá að fá Feneccu til að tala við sig eða Lily, en án árangurs. Hún hafði ekki reynt að fá inngöngu í Quidditch-lið Gryffindors núna, tilhugsunin um að vera með Siriusi Black og James Potter í liði var ekki góð. Áður en Fenecca vissi var seinasta Hogsmead-helgin komin og hún var að leita að jólagjöfum fyrir pabba sinn, einhverja ættingja sína og Severus. Hún var ekki viss hvort hún ætlaði að eyða þessum jólum hjá Boris eða í skólanum, en jólafríið byrjaði ekki fyrr en eftir tvær vikur þannig að það var nægur tími til stefnu.
“Fenc, kemurðu með okkur?” kallaði Díana. Fenecca hristi höfuðið og fór inn á Þrjá kústa. Hún hafði ekki þolinmæði í Díönu eða Fionu. Reyndar hafði hún kynnst stelpu í Huffelpuff sem var í umönnun galdraskepna með henni og hún var alveg ágæt. Kannski gæti hún hangið með henni ef hún fyndi hana. Nei, fjandinn sjálfur! Hún var auðvitað að slefa upp í kærastann sinn út í horni.
“Ég er farin,” muldraði Fenecca og fór aftur út. Eftir að hafa leitað í hálftíma að einhverju til að gefa Severusi fann hún dökkgræna vettlinga úr kasmírull og trefil í stíl. Fyrir Boris keypti hún hjartalaga myndaramma og lét mynd af sér þegar hún var pínulítil í fangi Rozölbu. Aftan á skrifaði hún Það er ekki hægt að breyta því sem hefur þegar gerst.

Seinasti tíminn í umönnun galdraskepna hjá Kettelburn fyrir jól. Þau voru stödd úti fyrir utan kofa Hagrids á meðan Kettelburn og Hagrid voru í skóginum að ná í eitthvað. Eftir smá stund heyrðu þau tramp og um það bil tíu Abraxan-hestar komu hlaupandi í girðingu rétt hjá þeim. Og, ásamt Hagrid og Kettelburn, kom góðkunningi Feneccu, Shakar Jaser Khalil frá Arabíu. (Hann hafði unnið fyrir furstann, sjá 23.kafla).
“Shakar!” kallaði Fenecca og veifaði honum. Hann brosti breitt til hennar og eftir að hafa lokað girðingunni hljóp hann til hennar.
“Fe’ecca, yndislegt að sjá þig! Tókst ekki að gifta þig prinsinum?” sagði hann og faðmaði hana að sér.
“Sem betur fer ekki! Afsakaðu að við fórum án þess að kveðja, við vorum að flýta okkur,” sagði Fenecca. Kettelburn ræskti sig og benti Shakar á að koma til sín.
“Nemendur, þetta er Sjeikur Jósef Kallill sem… ha? Segðu þetta aftur… Sjakkar Jasseff Kalli? Nei, ég næ þessu ekki… það nægir að kalla þig Kalli er það ekki? K-hal-il. Frábært. Khalil. Já, aftur að kennslunni. Khalil ætlar að fræða okkur um Abraxan-hestana, sem eru orðnir mjög vinsælir í Frakklandi og á Spáni en eru upprunalega frá Arabíu. Þeir fá vængi þegar þeir eru þriggja vetra en….”

Þarfaherbergið. Sirius hafði oft farið með Feneccu þangað á seinasta ári. Besti staðurinn þessa dagana til að róa sig niður. Stundum var hurð þarna þegar hún kom á staðin, þetta var einn af þeim dögum. Nema, í þetta skipti var einhver þarna fyrir. Remus nokkur Lupin.
“Halló,” sagði hann og brosti aðeins eins og hann hefði planað þetta út. Fenecca sneri sér við og ætlaði út en hann, með hugarorkunni einni, læsti hurðinni.
“Remus, leyfðu mér að fara burt. Ég á ekkert ósagt við þig og vil ekkert segja við þig!” sagði Fenecca og hætti að hrista hurðarhúninn.
“Neibb. Ekki fyrr en þú hlustar aðeins á mig,” sagði Remus kæruleysislega og fékk sér sæti í mjúkum og stórum sófa sem var þarna. Fenecca var á suðumarki. Reiði, sárindi, einmanaleiki og angist sem höfðu safnast saman síðan í byrjun septembers brustu út í líki brjálaðrar Feneccu.
“Þú ömurlegi og ósvífni…” byrjaði hún og hefði kýlt Remus í höfuðið ef hann hefði ekki staðið leiftursnöggt upp, gripið báðar hendurnar hennar, snúið henni við og haldið henni þannig, pikkfastri. Hann gat ómögulega verið svona sterkur, hann æfði ekkert. Nema… hún hafði fundið svona fast tak áður, í Rússlandi. Varúlfurinn þar, þau höfðu farið í sjómann og hann hafði ekki haggast.
“Remus… ertu varúlfur?” hvíslaði Fenecca svo lágt að það var ómögulegt að heyra það nema maður hefði ofurheyrn, sem og allir varúlfar höfðu.
“Hvernig… af hverju heldurðu það?” spurði hann og fölnaði upp.
“Því ég hitti varúlf í Rússlandi. Indælis náungi sem breyttist í skrímsli einu sinni í mánuði, alveg eins og þú. Þú hefur horfið einu sinni í mánuði síðan ég kynntist þér en aldrei pælt í því af hverju. Þú ert varúlfur og strákarnir vita það!” sagði Fenecca. Núna hafði hún eitthvað gegn honum, loksins! En, pínulítil rödd sem hljómaði eins og rödd mömmu hennar, hvíslaði að henni að það væri ekki réttlátt að láta allan skólann vita af þessu, þetta var ekki Remusi að kenna. Hann var yndislegur og góður alla aðra daga mánaðarins.
“Fenecca, gerðu það, ekki segja öllum. Við eigum nokkra mánuði eftir hérna, ég vil ljúka þeim í friði. Það verður alveg nógu erfitt fyrir mig að fá vinnu eftir skólann, enn erfiðara ef ég klára ekki prófin,” sagði Remus og tók fastar utan um hendurnar á Feneccu.
“Ég segi ekki, ef þú sleppir mér núna. Þú meiðir mig,” sagði Fenecca. Remus sleppti henni um leið og bakkaði nokkur skref frá henni.
“En gætirðu samt látið mig fá þann heiður og greiða að tala aðeins við mig?” spurði hann varfærnislega.
“Kannski það. Um hvað?”
“Sirius og James. Lily. Varúlfa. Það er svona helsta umræðuefnið sem mér dettur í hug.”
“Ég veit í það minnsta af hverju þú ert svona sterkur. Jackie var alveg viss um að þú æfðir lyftingar, þú ert svo massaður,” sagði Fenecca og glotti aðeins.
“Ég þarf þess ekki. Ef ég væri ekki með svona mikinn líkamlegan styrk myndi ég deyja við umbreytingarnar, mannslíkaminn þyldi þær ekki,” sagði Remus og fékk sér aftur sæti í sófanum.
“Þinn tími mánaðarins. Engin furða að þú gerðir aldrei grín að okkur stelpunum. En hvað viltu segja um fávitana, vini þína og Lily?”
“Semdu frið við Lily. Hún saknar þín, í alvöru. Hún mun ekki niðurlægja þig ef þú kemur til hennar. Jackie er á báðum áttum, henni finnst þú hafa móðgað Lily ófyrirgefanlega mikið en það er ekkert hægt að gera við því núna. Í sambandi við Sirius og James… ég veit ekki hvort þú vilt heyra það, en þessi áætlun þeirra virðist hafa virkað einhvernveginn. James og Lily hafa verið mikið saman núna, hlægjandi og að skemmta sér. Hann er einn af fáum sem fær hana til að brosa núna, við erum að reyna komast að því hvað gerðist í sumar hjá henni. Peter er alveg við það að veiða það upp úr Jackie, hann lætur sér nægja að líta sakleysislega og heimskulega út og þá virkar það.” Hann þagnaði og leit á Feneccu. Hún kinkaði kolli.
“Ég sá hana í lestinni. Hún leit út eins og hún ætlaði að bíta mig ef ég kæmi of nálægt henni. Mjög óhugnalegt.”
“Ég veit. En, það er eitt í viðbót…” sagði Remus og stóð upp. Síðan, með eldsnöggri hreyfingu, fór hann með höndina að hálsi Feneccu og togaði upp keðjuna á hálsmeninu sem Sirius hafði gefið henni.
“Ef þú hatar hann svona mikið, af hverju ertu enn með þetta?” hvíslaði hann. Fenecca hristi bara höfuðið án þess að svara. Remus lét hálsmenið aftur undir hálsmálið á bolnum hennar og tók í hönd hennar.
“Eigum við koma í Gryffindor-turninn?” spurði hann og leiddi hana út. Eftir að hafa gengið á göngunum í smá stund rákust þau á vegg. Ósýnilegan vegg.
“Nei, fjandinn hafi það!” bölvaði Fenecca og leit upp á lítinn og saklausan mistiltein sem hefði glottað til þeirra hefði hann getað það.
“Svona nú, ég er ekki þetta ófríður,” muldraði Remus og leit líka upp.
“Fljótur þá áður en einhverjir koma,” sagði Fenecca, lét höndina bak við hnakka Remusar og togaði höfuðið niður. Það sem átti upphaflega að vera lítill og saklaus koss varð lengri og lengri þangað til að þau slitu sig í sundur, andlaus.
“Þetta… var ekki sniðugt,” stundi Fenecca upp.
“Ekki beint, nei. Við losnuðum undan mistilteininum, það er í það minnsta jákvætt,” sagði Remus og roðnaði aðeins. Fenecca mundi aðeins eftir planinu sem hún hafði gert í sumar, um að tæla Remus til að gera Sirius afbrýðissaman. Það kæmi ekki til greina að hún myndi framkvæma það!
“Ég held ég hafi gleymt skólatöskunni minni í þarfaherberginu. Ég kem í turninn á eftir,” sagði Fenecca, sneri við og gekk hratt í burtu. Hugsanirnar hringsnerust í höfðinu á henni. ‘Láttu ekki eins og krakki, þú ert 17 ára. Þú kysstir hann, hvað með það? Það er ekki eins og þetta hafi verið í fyrsta sinn sem þú kyssir einhvern! En hann var með í þessu makki þeirra, hann er alveg jafn tilfinningalaus og Sirius Black! Æi… þegiðu,’ hugsaði Fenecca og stég inn í þarfaherbergið. Þar lagðist hún niður á breitt rúm og grét. Tilfinningarnar sem höfðu ekki náð að brjótast fram þegar hún ætlaði að lemja Remus brustu nú fram í formi tára. Hún grét og grét, alveg þangað til hún sofnaði. Þannig fann Severus Snape hana um miðja nótt.

“Fenecca, vaknaðu. Þú átt ekki að vera hérna, stelpa!” heyrði hún. Æi, þetta var einhver leiðinlegur. Hún þurfti ekkert að vakna, það var helgi.
“Fenecca Crock, drullastu á lappir undir eins!” og augnabliki seinna fékk hún kalda vatnsgusu yfir sig. Fenecca saup hveljur og rauk upp.
“Hvað? Hvað?” stundi hún upp.
“Hvað? Já, HVAÐ ert þú að gera hérna?” sagði Severus Snape, sem stóð með tóma fötu í hendinni.
“Sofa, svona í aðalatriðum,” muldraði Fenecca og lét þurrkunargaldur á sig.
“Ertu ekki að skauta í tunglsljósinu ásamt turtildúfunum?” spurði Severus og sneri sér snöggt við. Fenecca nuggaði augun en stóð svo upp og gekk að glugganum. Hún sá einhverja skauta, strákurinn var með gleraugu og stelpa sítt hár. Bíddu nú aðeins…
“Lily Evans og James Potter? Sé ég ofsjónir, eða?”
“Hefurðu ekki verið að fylgjast með? Þau eru ofan í hálsinum á hvor öðru alla daga!” sagði Severus bitur.
“En, eruð þið ekki áfram vinir?”
“Ekki lengur. Ég ætla ekki að deila henni með Potter. Þetta bölvaða fífl tekur ALLT frá mér! Sama hvað það er, hann stelur því frá mér með sínum viðbjóðslegum höndum,” hélt Severus áfram.
“Mér þykir það leitt. Persónulega, þá held ég að þú og Lily myndu frekar passa saman en Potter og hún,” sagði Fenecca og gekk til síns niðurbrotna frænda.
“Það yrði brandari ársins, Fenecca Ivanovitsj,” sagði hann og glotti aðeins. Fenecca horfði stíft á hann.
“Hvað?”
“Finnst þér ekkert leiðinlegt að hún er núna með Potter? Vel á minnst, ég heiti ekki Ivanovitsj.”
“Hvað heldurðu?” sagði Severus, stóð upp og hrinti Feneccu harkalega í burtu.
“Fyrirgefðu að ég spurði! Gætirðu kannski sagt mér hvernig þetta byrjaði hjá þeim?”
“Systir Lilyar þurfti að giftast einhverjum karli svo þau hefðu einhverja peninga undir höndunum. Núna er hún aldrei heima og er búin að skera algjörlega á öll bönd milli þeirra. Lily varð leið og svo virtist sem hún þáði huggun hjá hverjum sem er. Potter bauð henni öxl til að gráta á og tada hún hefur ekki farið úr fanginu á honum síðan. Hvar hefurðu verið seinustu mánuði?” sagði Severus. Fenecca yppti öxlum.
“Hérna, bókasafninu, tímum… aðallega hérna samt sem áður.”
“Gott hjá þér frænka. Ég veit um verri staði til að vera á.”



*Þessum brandara stal ég frá pabba, en hvort hann stal honum frá einhverjum öðrum veit ég ekki.
Shakar Jaser Khalil þýðir þakklátur, óttalaus, vinur í Arabísku nafnakerfi, eftir því sem ég veit best, ég fór bara eftir einhverri síðu sem ég fann á netinu.
—————————
Afsakið töfina. Það er búið að standa á korktöflu í herberginu mínu: muna, klára og senda inn 24.kafla í FACE áður en skólinn byrjaði í haust!