22.kafli – Plön

“Þú ætlaðir að segja mér eitthvað um þig í dag, var það ekki Fenecca?” spurði Boris þegar þau voru komin heim.
“Eins og hvað?”
“Bara, hvað sem er. Uppáhaldslitur, matur, óskir, plön fyrir framtíðina… breytir mig engu hvað þú segir, bara að það sé eitthvað.”
“Vínrauður eða dökkrauður eru sennilega uppáhaldslitirnir mínir. Ég er ekki viss með uppáhaldsmat, pasta kemur til greina. Ég held þú vitir hvers ég óska mér, og ég stefni á að vinna með dýr í framtíðinni,” svaraði Fenecca. Boris horfði á hana hugsandi.
“Hvernig dýr? Ég get alveg hjálpað þér með dreka og þau dýr sem lifa á kaldari svæðunum ef þú vilt. Já, drekar, það minnir mig á að þú þarft helst að klára að pakka niður í kvöld,” sagði Boris.
“Geri það. Hversu lengi verðum við eiginlega í Rússlandi? Við verðum komin áður en skólinn byrjar, er það ekki?” spurði Fenecca og fór að telja upp í huganum allt sem hún gæti þurft að taka með.
“Ég er ekki alveg viss. Síberíu-drekar eru af frostgadda ættinni svo unginn ætti að verða fljótur að bjarga sér, en hann fæðist einni og hálfri viku fyrir settan dag sem gerir hann mun aumari og hjálparvana… við verðum áreiðanlega þarna næstu tvær vikurnar, jafnvel lengur,” sagði Boris hugsi.
“Hvar verðum við? Áttu hús þarna eða þurfum við að leigja?”
“Ég á hús þarna. Fjögurra hæða ef þú telur kjallarann með.”
“Hvar í Rússlandi er þetta? Evrópumegin eða Asíu?”
“Evrópu. Við verðum norðarlega.”
“Hvað verð ég eiginlega að gera þarna á meðan þú ert að sjá um ungann? Ég kann ekkert á drekaunga.”
“Í guðanna bænum Fenecca! Geturðu ekki skrifað allar þessar spurningar á blað og látið mig fá þegar þú klárar!” hrópaði Boris.
“Fyrirgefðu, ég þurfti bara að sjá hversu lengi þú þoldir þetta. Eric féll alltaf fyrir fyrstu átta spurningunum eða svo,” sagði Fenecca glottandi.
“Hvernig var eiginlega sambandið milli þín og Erics?” spurði Boris. Fenecca hugsaði sig um.
“Það var alveg ágætt. Ég veit ekki af hverju, en ég komst aldrei upp á lagið með að kalla hann pabba, samt hafði hann verið í kringum mig síðan ég var eitthvað um hálfs árs. Sennilega…. mér tókst aldrei að líta á hann sem föður minn, mamma sagði mér svo snemma að hann væri ekki alvöru-pabbi minn. Þannig að ég leit alltaf á hann sem uppáhaldsfrænda eða eitthvað álíka. Það gæti verið ástæðan fyrir því að mér finnst ekki auðvelt að fara að kalla þig pabba, ég hef aldrei kallað einn né neinn það. Tja, svo líka það að hvernig í ósköpunum á maður að kalla fyrrverandi kennarann sinn pabba?” sagði hún.
“Já, ég skil hvað þú átt við,” sagði Boris og kinkaði hægt kolli.
“En alltaf þegar Eric talaði um þig var eins og hann talaði niður til þín, eins og þú værir eitthvað slæmt. Þannig að þegar ég komst á mótþróaskeiðið og gelgjuskeiðið fór ég að rífast við hann í hvert skipti sem hann minntist á þig. Mamma var orðin frekar pirruð. En það var aldrei gert upp á milli okkar Toms og við rifumst ekkert meira en venjuleg systkin út af fullkomlega tilgangslausum hlutum. Svo að í stuttu máli yfir öll mín ár var samband mitt og Erics alveg ágætt,” lauk Fenecca og skellti bollanum sínum á borðið og brosti.
“Það er gott. Ég kynntist kauða aldrei, en hann hefur áreiðanlega verið ágætasti náungi,” sagði Boris. Þau þögnuðu snarlega þegar ugla bankaði á eldhúsrúðuna.
“Þessi er til þín. Þekkirðu ugluna?” spurði Boris og opnaði gluggann með einni handahrefyingu. Fenecca hristi höfuðið en þekkti strax einfalda og litla skrift Díönu. Hún opnaði bréfið kæruleysislega og fór að lesa.
“Ég DREP þessa stelpu!” urraði hún og henti bréfinu á eldhúsborðið. Boris lyfti annari augabrúninni og horfði spyrjandi á hana.
“Hún heldur að… hún sá okkur í Skástræti í dag… hún hélt að, þegar við vorum að fara… æi, lestu þetta bara!” Boris tók bréfið hikandi upp, það var ekki beint sniðugt að lesa póst dóttur sinnar, en með hennar leyfi þurfti hann ekki að fá samviskubit. Fenecca fylgdist með föður sínum þegar augun í honum stækkuðu um helming.
“Hún… heldur þessi vinkona þín að við séum… saman? Af því að ég hélt utan um axlirnar á þér í Skástræti? Það er ekkert nema ógeðslegt!” sagði hann og skellti bréfinu á borðið. Fenecca kinkaði kolli. Díana hafði séð þau í Skástræti þegar þau voru að fara og hafði misskilið það MIKIÐ. En þar sem hún var nýbúin að heimsækja frænku sína í Frakklandi vissi hún ekkert hvað hafði gerst við fjölskylduna hennar.
“Það er bara eins gott að hún komist ekki að því að við höfum “sofið saman”. Þá yrðum við í djúpum skít,” sagði Fenecca og glotti aðeins. Af hverju misskildi fólk hana svona? Hún hafði aldrei haft áhyggjur af snertingum, að snerta aðra, faðma þá og þannig hluti og sá ekkert athugavert við það að faðma… pabba sinn.
“Þú ættir kannski að skrifa til baka og leiðrétta þetta? Það yrði vandræðalegt ef þetta færi mikið lengra,” sagði Boris og klóraði sér í skeggrótinni á hökunni.
“Með glöðu geði,” urraði Fenecca og stóð upp.
“Ekki vera of hörð á hana!” kallaði Boris á eftir henni. Fenecca kinkaði kolli en var samt ekkert að leyna því í bréfinu að hún væri einstaklega pirruð á því að vinkona hennar héldi að hún myndi byrja með fyrrverandi kennara sínum, manni sem var nógu gamall til að vera pabbi hennar! Sem hann var reyndar, og hún bjó hjá honum því að mamma hennar, stjúpfaðir og litli bróðir voru MYRT af drápurum stuttu eftir að skólinn endaði. Nei, hún var alls ekkert að leyna því að hún væri pirruð.

“I am a passenger…” sönglaði Boris meðan hann mokaði fötum ofan í stórt koffort. Fenecca glotti en bankaði á opna hurðina áður en hann færi að syngja mjög hátt og gera sig að algjöru fífli.
“Jamm? Hættu þessu glotti, ég hef heyrt þig syngja og það er enginn svanasöngur.”
“Gott, svanir syngja illa!”
“Sagði ég einhverntíman að þú syngur illa?” Boris glotti prakkaralega til hennar.
“Æi, góði hættu þessu. Þarf ég að taka með mikið af hlýjum fötum? Er mjög kalt þarna núna?”
“Taktu bara með öll fötin þín, það ætti að duga. Þau verða hvort eð er skítug undir eins ef þú ferð að hjálpa mér,” sagði Boris og lét stóra vekjaraklukku í koffortið.
“Fínt er. Já, og ég er búin að senda Díönu bréfið, endilega láttu mig vita ef hún svarar,” sagði Fenecca og fór inn í herbergið sitt til að pakka niður. Hún gat sennilega sleppt meirihlutanum af öllu snyrtidótinu og skartgripunum.
“En samt… Soffía, finnst þér að ég ætti að taka með hálsmenið frá Siriusi? Þótt hann sé algjör aumingi þá er það flott. Það er næstum dularfullt,” sagði Fenecca við köttinn sinn og klóraði henni á bringunni.
“Ég veit að hringar koma ekki til greina og stóru eyrnalokkarnir mínir þvælast bara fyrir ef ég tek þá með. Æi, litlu rauðu geta alveg komið með. Hvað heldur þú Soffía?” Kötturinn horfði bara á hana með tómu augnaráði. Sennilega var henni alveg sama, en maður gat nú alltaf reynt, hnýslar voru mun gáfaðri en venjulegir kettir.

Það var komið kvöld og Fenecca var búin að pakka öllu niður sem hún ætlaði sér að taka með. Núna var bara eitt eftir á dagskrá: kvöldmatur.
“Elsku, besti pabbi minn…” sagði Fenecca og gekk inn í eldhúsið með besta englasvipinn sinn.
“Hvað? Varstu að brjóta eitthvað, eða? Mér líkar ekki við þennan svip þinn,” sagði Boris.
“Nei, ég er ekki búin að brjóta neitt ENNÞÁ. En ef þú værir svo yndislegur að gefa mér leyfi til að elda kvöldmat þá gæti ég komið því í kring að brjóta eina skál eða svo, ef þú vilt.”
“Gjörðu svo vel. Með hverju ætlarðu að eitra fyrir mér?”
“Pasta rétti sem mamma kenndi mér. Finnst þér sterk sósa góð? Ég er meistari í að gera sósur!” sagði Fenecca sem gat ekki leynt brosinu. Boris kinkaði kolli og brosti á móti. Á því augnabliki uppgvötaði Fenecca Crock það, að lífið væri sennilega alveg þess virði að halda áfram, þótt hún tæki með vini sem hefðu svikið hana, misskilið samband milli hennar og “pabba” hennar og kött sem gat ekki gefið henni neinar leiðbeiningar í sambandi við skartgripi!


—–
Frekar stutt, frekar tilgangslaust og ekki mitt besta verk hingað til. En þakka ykkur fyrir þolinmæðina, ég ákvað fyrr í vikunni að senda kaflann inn fyrir páska en áttaði mig ekki á því hvað það væri stutt í páska í raun og veru :þ Gleðilega páska!