Eftir að hafa lesið 6. bókina um vin okkar hann Harry Potter virðist svarið við þessari spurningu afar einfalt:
Snape drap Dumbledore, Snape flúði úr Hogwarts, Snape hefur alltaf hatað Harry Potter, Snape var drápari og er það enn. Snape er vondur!

En þegar betur er að gáð kemur margt í ljós sem einfaldlega gengur ekki upp.

Í byrjun bókarinnar sjáum við Snape vera að ræða við Narsissu og Bellatrix. Þar hefur Narsissa miklar áhyggjur af syni sínum þar sem Draco hefur verið úthlutað því verkefni að drepa Dumbledore. Hún fær Snape til að sverja sér órjúfanlegan eið (unbreakable wow) þess efnis að hann muni hjálpa Draco og leysa verkefnið af hendi ef hann sjái fram á að Draco geti það ekki. Mér finnst skýna í gegn í þessum kafla að Snape þykir mjög vænt um Draco. Hann vill vernda hann og hann vill hjálpa honum. Það að vernda dreng sem er honum ekkert skyldur er fyrsta vísbendingin í bókinni um að Snape sé ekki vondur maður.

Harry sér svo Snape reyna að draga upp úr Draco hvað það er sem hann ætlar að gera. Hann heyrir að Snape býður fram hjálp sína og fréttir af órjúfanlega eiðnum. Hann segir Dumbledore frá því sem hann sá en þetta virðist ekki koma gamla manninum á óvart.
Stuttu seinna fáum við fregnir af því að Dumbledore og Snape hafi verið að rífast. Snape virðist vera útkeyrður af of mikilli vinnu og segir að kannski vilji hann ekki gera það lengur. Dumbledore segir honum að hann hafi samþykkt að gera það og nú standi honum engir aðrir vegir opnir. Hann verði að gera þetta og ekkert múður með það.
Hvað var þetta sem Snape vildi ekki gera lengur? Gæti það verið að hann vildi ekki njósna um Voldemort og dráparana lengur? Gæti það verið að hann væri orðinn hræddur? Að hann vilji ekki gera eitthvað sem Dumbledore skipar honum fyrir? Hvað gæti það verið sem Dumbledore hefur skipað honum að gera?

Dumbledore veit nú þegar hver stendur á bak við banatilræðin í skólanum og hverjum þau tilræði voru ætluð. Hann veit að Draco er á bak við þetta og hann veit að Draco á að drepa hann sjálfan. Hann veit líka að Snape hefur svarið Narsissu Malfoy óbrjótanlegan eið þess efnis að ef Draco klári ekki verkið muni hann gera það.
Ef Draco tekst nú ekki að drepa Dumbledore, sem enginn býst við að hann geti (eins og kom líka í ljós að hann gat ekki) þá eru tveir kostir í stöðunni:
1. Snape drepur Dumbleodre.
2. Snape deyr.

Ef Snape drepur Dumbledore verður hann að yfirgefa skólann fyrir fullt og allt og ganga heilshugar til liðs við Voldemort.
Ef Snape brýtur eiðinn deyr hann og þar með missir Fönixreglan sinn mikilvægasta mann úr innstu röðum Voldemorts.
Á hvorn veginn sem er þá veit Dumbledore að hann getur ekki lengur verndað Snape.

Verndað Snape?
Já, verndað Snape. Hvað hefur Dumbledore verið að gera öll þessi ár annað en að vernda Snape?
Það átti að dæma Snape fyrir að vera drápari og henda honum í Azkaban en Dumbledore tók hann undir sinn verndarvæng og sagði að Snape hefði þegar sannað sig. Hvað hann gerði til að sanna sig veit ég ekki ennþá en Dumbledore er klár maður og hann hefði ekki látið sér nægja einungis það að Snape segði “fyrirgefðu ég klúðraði málunum.” Jafnvel þó það sé ástæðan sem Dumbledore gaf Harry. Alvöru ástæðan var líklegast eitthvað sem Harry hefði ekki höndlað að heyra. (t.d. að Snape og Lily hafi verið par áður en hún og James urðu par? Að Snape sé ástæðan fyrir því að Voldemort ætlaði ekki að drepa Lily? þetta eru bara ágiskanir en ég held að sannleikurinn sé einhvernveginn á þessum nótum)
Eftir það hafði Dumbledore Snape nálægt sér og gaf honum vinnu í skólanum. Hann treysti honum fullkomlega.
Þessvegna finnst mér þessi tilgáta Harrys, Snapes sjálfs og allra annarra nemenda skólans, um að hann hafi aldrei treyst Snape til að kenna varnir gegn illu öflunum mjög ólíkleg. Hann hafði ekki nokkrar áhyggjur af því að Snape myndi falla og verða illur. Ástæðan fyrir því að Snape fékk ekki stöðuna var sú að Dumbledore var að vernda hann.
Við vitum að Voldemort lagði álög á stöðuna sem voru á þann veg að hver sá sem gengdi henni starfaði einungis í eitt ár og eftir það koma hann aldrei aftur í skólann (alla vega ekki til að kenna).
Ef Snape hefði fengið stöðuna sem hann vildi hefði hann kennt í eitt ár og eftir það verið á götunni þar sem Dumbeldore gæti ekki lengur verndað hann.

Afhverju fékk hann þá stöðuna núna?
Jú, af því að Dumbledore vissi, strax í upphafi árs, að sama hvað gerðist þá myndi Snape ekki vera við skólann eftir þennan vetur.
Það hlýtur að þýða að Snape hafi sagt Dumbledore frá órjúfanlega eiðnum og frá því hvað Draco var beðinn um að gera áður en skólinn byrjaði.

Því þykir mér líklegt að Dumbledore hafi skipað Snape að standa við loforðið sitt og ljúka því verki sem Draco átti að framkvæma. Hann vildi frekar hafa Snape á lífi í röðum Voldemorts þar sem hann gæti ennþá komið upplýsingum til Fönixreglunnar og þar með hjálpað til við að sigra hann heldur en að lifa sjálfur og missa Snape.

Þegar Snape heyrir af því að baráttan sé byrjuð og veit að nú er tíminn kominn rotar hann þau sem fyrir honum eru, hann drepur þau ekki og skaðar ekki á nokkurn hátt. Hann einungis rotar þau og læsir þau inni. Ef hann væri virkilega vondur hefði hann þá ekki nýtt sér tækifærið og drepið gáfuðust muggafæddu norn allra tíma og einn af bestu kennurum Hogwartsskóla?

Þegar Snape svo kemur inn í turninn þar sem Dumbledore er nær dauða en lífi og lítur yfir dráparana sem þar eru fyrir segir Dumbledore biðjandi “Severus”. Snape stýgur fram og úr svip hans má lesa viðbjóð og hatur.
Dumbledore biður aftur “Severus, please”. Hvað er hann að biðja hann um að gera? Að þyrma lífi sínu? GLÆTAN! Dumbledore er ekki maður sem grátbiður einhvern að þyrma lífi sínu. Hann gerði það ekki rétt áður þegar fjórir dráparar og Draco stóðu og voru að fara að drepa hann. Hann tilkynnti meira að segja þá að hann væri ekki hræddur við að deyja. Hann er að biðja Snape að drepa sig. Hann er að biðja Snape að standa við það sem hann lofaði. Að standa við áætlunina.

Afhverju er hatur og viðbjóður í svip Snapes?
Ef hann hataði Dumbledore og fannst hann viðbjóðslegur hefði hann ekki sagt honum allt sem við vitum að hann hefur sagt honum. Þá hefði hann ekki heldur verið svona lengi hjá honum. Ef hann virkilega hataði hann þá væri einhver villimannsleg ánægja í svip hans við að drepa hann.
Snape hatar sjálfan sig. Hann hefur aldrei haft góða sjálfsmynd. Hann kemur frá brotnu heimili þar sem var mikið um ofbeldi og öskur. Hann er hálfur muggi og það skammast hann sín fyrir og hefur líkast til alltaf gert. Hreinlæti hans og útliti er mjög ábótavant og það er merki um slæma sjálfsmynd. Núna á hann svo að drepa eina mannin sem hefur nokkurntíman verið honum góður. Það er ekki skrýtið að svipur hans lýsi af viðbjóði og hatri. Viðbjóði og hatri í garð hans sjálfs.

Snape flýr svo af hólmi með Draco. Harry eltir hann og reynir að senda á hann ýmsar bölvanir. Snape skipar Draco að flýja, verndar hann áfram, og verst svo öllum bölvunum Harrys. Sama hvað Harry gerir hann bægir öllu frá.
Þá komum við að mikilvægum punkti. Hann bægir ekki bara frá heldur segir við Harry að á meðan hann þurfi að segja galdraþulurnar upphátt og á meðan hann geti ekki lokað huga sínum sé ekkert mál að sigra hann.
Hann er ennþá að kenna Harry.
Hvers vegna ætti Snape að vera að kenna Harry hvernig eigi að sigra í svona einvígi ef hann virkilega er vondur?
Annar drápari leggur kvalabölvunina á Harry og Snape húðskammar hann og stöðvar þjáningarnar. Hann segir að það sé vegna þess að Voldemort vildi eiga við hann sjálfur. Ef Snape væri vondur þá væri honum alveg sama þó að Harry yrði pýndur smávegis. Hann væri hvort eð er nógu heill fyrir Voldemort að drepa seinna.
Allt fram í endan verndar hann og kennir Harry.
Honum er kannski ekki vel við Harry Potter en hann gerir skyldu sína til að vernda hann og kenna honum eins og Dumbledore bað hann um.