21.kafli - Daginn eftir


“Vesen… burt stírur…” muldraði Fenecca og nuddaði augun. Þegar hún opnaði þau blasti við henni svolítið undarleg sjón; Boris sofandi alveg á rúmgaflinum… alveg við það að detta niður…
“Fjandinn sjálfur!” hrópaði hann svo um leið og hann valt út úr rúminu. Fenecca brosti breitt. En hvað það var langt síðan hún hafði gert það.
“Flestir segja reyndar góðan daginn, en það má alveg breyta hefðinni,” sagði hún og sveiflaði fótunum niður á gólf.
“Hu? Ó. Já, einmitt, það,” rumdi í Boris meðan hann stóð upp. Hárið á honum, sem nú náði rétt niður fyrir axlir, var út um allt. Fenecca giskaði á að hún liti álíka vel út.
“Ég fæ sennilega ekki að heyra afganginn af sögunni fyrr en í kvöld?” spurði hún.
“Neibb. En í staðin færð þú að segja mér eitthvað um þig yfir daginn. Samþykkt?”
“Samþykkt.”

Það snarkaði í eggjum og sterk beikonlykt lá yfir eldhúsinu þegar Fenecca kom þangað niður. Hún sá engin merki um beitta hnífa. Sennilega hafði Boris tekið þá og falið svo seinasta nótt myndi endurtaka sig með verri afleiðingum.
“Hoppsa! Farðu frá, Fenecca! Fljúgandi egg á leiðinni!” hrópaði hann og kastaði þrem steiktum eggjum af pönnunni og yfir á disk sem var á eldhúsborðinu. Rétt á eftir köstuðust tvær brauðsneiðar úr ristinni yfir á eldhúsborðið… en flugu því miður yfir það.
“Heyrðu mig nú, ekki svona mikinn kraft!” sagði Boris og bankaði í ristina með hnúunum. Fenecca glotti aðeins og tók brauðsneiðarnar af gólfinu.
“Er ekki aðeins hagkvæmara að taka brauðsneiðarnar upp úr ristinni heldur en að láta þær kastast út í loftið?” sagði hún.
“Vitleysa. Þær kælast aðeins niður á leiðinni og svo á þessi rist ekki að nota svona mikinn kraft! Þær áttu að lenda beint á borðinu. Skammastu þín Sasí,” svaraði Boris og horfði illilega á hvíta brauðristina.
“Sasí? Skírirðu húsgögnin?”
“Já! Brauðristin heitir Sasí, eldavélin er Nínó, eldhúsborðið Erjen… uh, hvað meira… ah, einmitt, hnífaparaskúffan heitir svo Tó. Ekki horfa á mig eins og ég sé brjálaður, ég hef lifað sem piparsveinn síðan þú fæddist! Vel á minnst, hvenær í ágúst ertu fædd? Nítjánda?” sagði Boris og hlammaði sér við borðið.
“Næstum því, níunda. Klukkan þrjú um nótt. Jackie mælti með því einhverntíman að ég myndi halda upp á afmælið mitt einmitt þá,” svaraði Fenecca.
“Eruð þið ennþá óvinir? Þú, Lily, Jackie og strákarnir?” Fenecca kinkaði kolli.
“Mér er nú eiginlega alveg sama hvað þú gerir í sambandi við Black og Potter, en mér finnst að þú ættir að reyna semja frið við Lillian og Jacqueline og jafnvel Remus Lupin. Þau eru hin ágætustu. Í alvöru,” sagði Boris og klappaði Feneccu á öxlina. Hún horfði hugsandi út í loftið.
“Veistu hvort að Potter hafi átt litla systur?” spurði hún snöggt.
“Hvað þá? Nei, hann er einkabarn og hefur alltaf verið. Stendur allt um fjölskyldu hans í skránni um hann í Hogwarts. Faðir, móðir, fáeinir frændur og frænkur. Það er talað um að mamma hans geti ekki eignast fleiri börn, en ég veit ekki hvort það sé satt. Af hverju varstu annars að spyrja?”
“Því að það var logið að mér, Lily og Jackie að Potter hefði átt litla systur sem hefði dáið, og þess vegna hefði hann verið svona góður við Lily seinasta ár! Þetta var allt planað upp á hár, og Remus var með þeim. Það kemur ekki til greina að ég fyrirgefi honum,” hálf hrópaði Fenecca og kreppti höndina utan um skeiðina sem hún hélt á. Remus hafði logið að þeim! Skepnan…
“Hvað segirðu að tala um eitthvað skemmtilegra? Við gætum kannski farið og gert eitthvað í dag, t.d. farið í Skástræti. Þarf ekki að kaupa eitthvað að borða fyrir Soffíu? Já, og svo eigum við eftir að finna út peningamálin hjá þér, hvað… Rozalba… og Eric hafa gert við peningana sem þau áttu,” sagði Boris og stóð upp. “Við höfum bæði gott af því að komast út.”
“Bíddu, hvað ef ég hitti einhverja úr skólanum í Skástræti? Á ég þá að segja að þú sért pabbi minn?” spurði Fenecca snöggt og stóð líka upp. Boris klóraði sér í skeggrótinni í smá stund.
“Þú ræður. Ef þú vilt ekki að fólk finni það út þá skaltu bara sleppa því að minnast á mig. En þú mátt alveg segja þeim það mín vegna.” Og þar með labbaði hann upp stigann. Fenecca hugsaði sig um hvað hann myndi sennilega vilja. Það myndu hvort eð er allir komast að þessu á endanum, ætti hún ekki bara að segja sannleikann?

Fenecca og Boris höfðu keypt mat fyrir Soffíu, farið í Gringotts og kíkt inn í nokkrar búðir og voru nú einfaldlega að slæpast um. Fenecca hafði ekki séð neinn sem hún þekkti ennþá.
“Ég þarf aðeins að skreppa. Það er alþjóðlegt pósthús hérna rétt hjá, það gæti verið bréf til mín þar. Verður þú ekki bara á svæðinu?” sagði Boris. Alþjóðleg pósthús í galdraheiminum voru notuð ef það var of langt að senda einhver bréf með uglu. Þá var einfaldlega látið afrit af bréfinu í helstu alþjóðlegu pósthúsin og ef enginn kom að sækja bréfið í þrjá mánuði voru fleiri afrit send í alþjóðleg pósthús til minni landanna.
“Jú, ég gæti bara skroppið að fá mér ís. Bless,” sagði Fenecca og horfði á Boris hverfa niður strætið. Svo kallaði einhver nafnið hennar.
“Fenecca! Hérna! Komdu til okkar!” hrópaði Max Jordan og veifaði til hennar frá borði fyrir framan ísbúð. Við hliðina á honum sat stelpa, dökk eins og hann en með hrikalega krullað hár. Fenecca gekk til þeirra og þegar hún var komin stóð Max upp og faðmaði hana.
“Ég samhryggist. Í alvöru, mamma þín var snilld,” hvíslaði hann. Fenecca brosti aðeins. Max hafði aldrei verið… umhyggjusamur.
“Takk… æi, hérna… skiptir engu. En á ég að trúa því að þú sért kominn með kærustu?” sagði Fenecca og leit á stelpuna.
“Svo sannarlega! Hélstu að ég gæti það ekki bara af því að þú vildir mig ekki? Þú vanmetur mig Fenc!” sagði Max glaðlega og togaði auka stól frá næsta borði svo Fenecca gæti setið hjá þeim. “Dúlla, þetta er Fenecca Crock, gæslumaður Gryffindorsliðsins. Fenc, þetta er ástin mín eina, Natalie Lizard. Og Nat, ég var aldrei með Feneccu, bara svo þú vitir það.”
“Nei, en hann hótaði að bjóða mér út þegar ég var að spila fyrsta Quidditch-leikinn minn!” bætti Fenecca kaldhæðnislega við. Natalie lyfti annari augabrúninni og þóttist horfa móðguð á Max.
“Æi, það verður bara að hafa það. Ég skil ekki hvernig þú gast sagt nei við því,” sagði hún.
“Hann bar nafnið mitt fram vitlaust, það var alveg nóg,” svaraði Fenecca.
“Hjá hverjum býrðu núna? Þessari klikkuðu Citu sem ég sá á lestarstöðinni einhverntíman, eða?” spurði Max. Fenecca roðnaði aðeins við þá minningu. Carmencita hafði endilega viljað koma með henni á King’s Cross lestarstöðina einu sinni og hafði látið alveg fáránlega.
“Nei. Pabba mínum,” muldraði hún.
“Pabba þínum? Bíddu, hver er það? Eric… hann, hérna, dó líka var það ekki?”
“Jú. Ég bý núna hjá blóðföður mínum. Alvöru pabba mínum. Ráðuneytið fann hann,” sagði Fenecca og leit óörugg á Max. Það sást á honum að hann dauðlangaði að vita hver það væri.
“Og? Hver er það?” spurði hann spenntur. Fenecca leit í kringum sig og sá Boris koma gangandi upp götuna. Hún dró andann djúpt.
“Þú þekkir hann. Boris Ivanovitsj.”
“BORIS er pabbi þinn?” hálf hrópaði Max. Natalie horfði undrandi á Max og Feneccu til skiptis.
“Hver er það eiginlega?” spurði hún.
“Fyrrverandi kennari þeirra í umönnun galdraskepna. Ekki beint prófessor, en ég veit ansi mikið um dýr og skepnur,” tilkynnti Boris stoltur fyrir aftan Natalie.
“Ertu virkilega PABBI Feneccu? Þú ert að grínast!” sagði Max með augun á stærð við undirskálar.
“Kemur það þér virkilega svona mikið á óvart?” sagði Boris frekar lágt. Max hristi höfuðið hægt.
“Eiginlega ekki. Þið eruð með nákvæmlega sama augnsvipinn þegar þið eruð að stríða einhverjum og hafið of mikinn áhuga á dýrum. Og dönsum. Þannig að… nei, þetta kemur mér eiginlega ekkert mjög mikið á óvart,” svaraði Max. Boris brosti.
“Fínt er. Ætlarðu að kaupa þér ís Fenecca eða eigum við að koma?”
“Förum bara. Bless, Max og Natalie,” sagði Fenecca og stóð upp. Hún og Boris voru bara búin að ganga fáein skref þegar Fenecca sneri sér snöggt við og kallaði: “Hvar kynntust þið eiginlega?”
“Í London. Ég hellti óvart djúsi yfir Natalie og við vorum bæði næstum búin að taka upp sprotana okkar til að laga það,” svaraði Max glottandi. Fenecca veifaði þeim en hljóp síðan á eftir Boris.
“Voru einhver bréf til þín?” spurði hún. Boris kinkaði kolli.
“Já. Og ég þarf að fara aftur til Rússlands.”
“Rússlands? Ertu ekki að grínast?” spurði Fenecca og starði á hann. Boris klóraði sér í enninu.
“Því miður. Einn Síberíu drekinn eignaðist nokkur egg og eitt þeirra er að fara að klekjast út, á undan tímaáætlun. Ég þarf að fara og hjálpa til,” sagði hann og hélt áfram að klóra sér í höfðinu.
“Og hvar á ég að vera?” spurði hún.
“Tja… þú svo að segja ræður því. Mér þætti það frábært ef þú vildir koma með mér, ég veit hvað þér líkar vel við dýr og allt það, en annars gætirðu verið eftir hjá Carmencitu…” sagði Boris.
“Fengi ég að koma með? Til Rússlands, að skoða dreka? Eldspúandi, risastóra, DREKA?” stundi hún upp.
“Ekki mjög eldspúandi, Síberíu drekar búa ekki yfir miklum eldi og eru frekar litlir miðað við aðra dreka. Nýfæddir Síberíu drekar komast fyrir í lófanum á manni, ég er viss um að þú munt elska þessi dýr,” sagði Boris og reyndi að leyna brosinu. Þetta yrði frábært, dóttir hans kæmi með honum til Rússlands.
“Eru þessir Síberíu drekar eins og eðlur? Það er svo sætt!” hálf-hrópaði Fenecca og brosti út að eyrum.
“Ég ætti samt að vara þig við. Við Rússar erum með aðeins öðruvísi húmor heldur en flestir aðrir, svokallaðan svartan húmor meðal annars. Veistu hvað það er?”
“Ykkur finnst fyndið þegar einhver deyr?” svaraði Fenecca. Boris kinkaði kolli hægt.
“Það má segja það. En líka sögur með fyndnum punkti í endann. Kallast skrítlur held ég. Síðan leynast inn á milli fólk með húmor fyrir öllu. En þú ert alveg viss um að þú viljir koma? Þetta verður langt frá öllum vinum þínum og ég veit ekkert hversu lengi ég mun vera þarna.”
“Ég á hvort eð er ekki svo marga vini hérna lengur þannig að það skiptir engu.” Boris tók utan um axlirnar á Feneccu og leit á hana.
“Max er vinur þinn. Og örugglega allar stelpurnar sem Black hefur hent í burtu. Allir þessir ættingjar þínir á Ítalíu, Spán, Grikklandi, Albaníu og allt það… þau eru vinir þínir. Ekki tala svona Fenecca, lífið heldur alltaf áfram.”


—Knúsið fantasiu fyrir kaflanafn! Hún bjargaði mér!—