Já, kjörbókin mín þessa önnina var Harry Potter bók númer fimm. Ákvað að skella ritgerðinni hérna inn, en ég vil taka eitt fram. Ef þið hafið ekki lesið bókina, skuluð þið alls ekki lesa þessa ritgerð.

Sem sagt, alls ekki lesa þessa ritgerð ef þið hafið ekki lesið bókina.

En þá er það ritgerðin:






Ég ku hafa lesið bókina Harry Potter og Fönixreglan eftir hana Joanne Kathleen Rowling. Bókin kom út árið 2003 og er fimmta bókin í bókaseríu sem mun verða 7 bækur, en sex hafa komið út þegar þetta er skrifað.



Í byrjun bókarinnar … Tja, ég man ekki alveg hvernig hún byrjaði. Bíðið á meðan ég kíki. [autt]. Jú, þarna kom það. Harry Potter var heima hjá sér að reyna að hlusta á fréttir. Það var lítt spennandi þannig að hann rölti í burtu, hitti allt í einu frænda sinn síðan þegar hann var á leiðinni heim aftur. Síðan komu stórar ljótar verur sem kallast vitsugur og reyndu að stela sálinni hans Harrys, og einnig sál frænda hans. Þessum illu verum tókst það ekki af því að Harry er svo svalur galdramaður að hann galdraði fram heilan hjört til að verja sig og frænda sinn.

Þetta hafði seinna afleiðingar því hann mátti víst ekki galdra á þessum árstíma. Úps. Hann var kærður og allt þannig en slapp þó. Fljótlega eftir þessa atburði flytur Harry tímabundið inn til guðföður síns ásamt fjölskyldu besta vinar síns. Einnig voru nokkrir verðir þarna til gamans, þar sem þetta hús var einnig höfuðstöðvar fyrir leynilega reglu sem var að reyna að vinna á móti Voldemort. Ef þú vissir það ekki þá er Voldemort stærsti, ljótasti og verst lyktandi vondi kall allra tíma.

Eftir sumarið þá var komið að skóla fyrir hann Harry, þannig að hann gerði sér lítið fyrir, vippaði sér upp í næstu lest á leið í skólann og var mættur þar tímanlega fyrir opnunarveisluna. Þar fékk hann að frétta að það væri leiðinleg kvensa byrjuð að starfa við skólann og að utanaðkomandi öfl, ráðuneytið það er, voru að reyna að stjórna skólanum. Sussubía, það voru vondar fréttir.

Síðan var komið að venjulegu skólastarfi, í byrjun var það út um allan skóla að Harry væri geðveikur af því að eitthvað dagblað var að birta fréttir um það. Ástæðan fyrir þessari geðveiki á að vera sú að hann kolféll í Spádómafræði vorið áður. Djók. Ástæðan átti að hafa verið sú að Harry hélt því fram að hann hefði séð Voldemort endurlífgast vorið áður og nú væri Voldemort á lífi aftur, gangandi, talandi og drepandi, og því full ástæða til að hafa varann á. Hins vegar þótti flestum þetta fáránlegt. Skrítna fólk.

En áfram hélt skólastarfið, smáatriði komu upp eins og eftirsetur með sadískum kennara og brottvikning úr Quidditch-liði skólans. Quidditch er íþrótt þar sem klikkað fólk flýgur upp í háloftunum og reynir að kasta bolta inn í mark á meðan það flýr undan klikkuðum boltum með sjálfstæðan vilja, ef þú vissir það ekki.

Skyndilega meiddist faðir besta vinar Harrys, en vegna undarlegra aðstæðna hélt Harry að það væri sér að kenna. Hann s.s. sá árásina “live” í draumi og hélt að hann hefði framið hana. Hann er ekki sá allra besti í rökfræði, drengurinn.

Síðan komu og liðu jólin og allt batnaði, hlutir virtust fínir og allt gekk sinn vanagang, föður vinarins batnaði. Harry fór aftur í skólann þar sem sama rútínan hélt áfram, læra læra læra, eftirseta hjá sadískum kennara, læra læra læra. Enda voru stór og þýðingarmikil próf þá um vorið. Próf sem myndu hafa áhrif á hvaða starf hann gæti valið og þannig dóterí.

Síðan komu prófin, honum gekk ágætlega en það var ljóst að þetta var eitt leiðinlegasta skólaár í sögu skólans, enda hafði skólameistarinn, Dumbledore að nafni, alveg hreint úrvalsmaður með fínan húmor og frábæra stjórnunarhæfileika, verið vikið úr starfi. Ef þú varst búin/n að gleyma hvað ég var að meina útaf svakaræðunni minni um kosti Dumbledores þá skal ég segja aftur: Skólaárið sem lýst var í bókinni var eitt það leiðinlegasta í sögu skólans þar sem Dumbledore hafði verið rekinn á því miðju. Í hans stað var ráðinn sadíski kennarinn.

Í einu prófinu - því síðasta - sofnaði Harry. Allt í einu dreymdi hann draum. Það var eitt með þessa drauma hans, þeir voru yfirleitt allir frá huga Voldemorts og höfðu fram að þessu alltaf verið sannir. Harry sá guðföður sinn pyntaðan eins og skólastrákar pynta fiðrildi sem þeir ná, og gat ekki þolað það. Hann rauk af stað, úr prófinu, og reyndi að komast sem fyrst til guðföðurs síns. Það gekk illa en eftir lítið ævintýr var hann kominn á staðinn. Málið er að þá vantaði bara guðföðurinn. Komu þá nokkrir dráparar, en þeir eru illir stuðnigsmenn Voldemorts sem lykta næstum jafnilla og hann, og sögðu Harry að þetta hefði verið gildra. Reyndu Harry og vinir hans þá að sleppa, en það tókst nú svona upp og ofan og það var mikill bardagi og eltingaleikur sem þarf ekki að lýsa i smáatriðum.

Skyndilega barst þeim samt liðsauki, nokkrir úr leynireglunni sem sagt var frá fyrr í ritgerðinni komu og byrjuðu að berjast með þeim. Meðal þeirra sem komu var guðfaðir Harrys.

Eftir dulítinn bardaga þá allt, allt í einu gerist svolítið hræðilegt. Guðfaðir Harrys fær einhverja bölvun á sig - ekki svona bölvun eins og fjandinn hirði þig, nei bölvun sem er framkölluð með töfrasprota - og fékk bölvunin hann til að detta aftur fyrir sig og í eitthvað hlið, en hann kom aldrei þaðan aftur. Hann var dáinn og Harry hafði horft upp á það. Sárt.

Seinna, þegar allt var orðið í lagi og Harry var kominn heill aftur í skólann, fékk Harry að vita allt. Voldemort hafði verið að reyna að lokka hann í þetta herbergi allan veturinn til að láta hann, Harry, ná í spádóm fyrir sig. Þetta var nefnilega spádómaherbergi. En Harry var ekkert ánægður með að guðfaðir hans væri dáinn og fékk smá útrás á munum skólameistarans, sem brotnuðu margir hverjir við þann árekstur. Skólameistarinn sagði Harry nú spádóminn, Harry þyrfti annaðhvort að drepa Voldemort eða vera drepinn af honum. Alltaf gaman að vita að maður eigi að verða morðingi.

Harry reyndi að sætta sig við þetta, en það var erfitt og hann var ekkert að hlakka til sumarsins í lok bókar.


Sagan gerist veturinn ‘95/’96 í Skotlandi, í heimavistarskóla út í náttúrunni. Stöku sinnum er þó skroppið til London. Þetta er samt ekkert venjulegt skoskt umhverfi eða venjulegt Lundúnaútsýni. Nei, það er galdrað alls staðar, alltaf, í bókinni. Galdrar eru daglegt brauð og setja sitt mark á umhverfið.

Sumir segja að boðskapur sögunnar sé að hvetja æsku nútímans til að verða villitrúarmenn og djöfladýrkendur, einfaldlega þar sem það er veifað litlum kjánalegum sprota úr viði nokkrum sinnum í sögunni. En boðskapur sögunnar er nú samt frekar sá að vinátta er góð, maður á að rækta sambandið við vinina og berjast gegn því illa sem verður á vegi manns. Það er bara mitt álit, það hafa allir sitt persónulega álit á því hver boðskapur Harry Potter-bókanna er.

Allt í allt er þetta skemmtileg bók, um heim langt í burt sem gaman væri að búa í. Maður flýgur með í heim galdranna og festist þar, les allan bókaflokkinn og sendir höfundinum blóm og ástarljóð á viku fresti. Mér fannst þessi bók einstaklega skemmtileg lesning.