19.kafli – Pabbi?

Eitt andartak virtist tíminn hafa stöðvast gjörsamlega. Fenecca fann fyrir pínulitlum sting fyrir hjartað sem jókst hægt og bítandi og innan tíðar var henni farið að líða hörmulega. Hún hljóp eins hratt og fætur toguðu að heimili sínu. Það skipti engu þótt fólk reyndi að stöðva hana, eina hugsunin sem komst að var sú að hún ÞYRFTI að komast inn í húsið og athuga… sjá… vera viss um að þetta væri ekki satt! Þetta væri bara tilviljun. Vitlaust hús sem merkið hefði verið sent yfir. Mamma hennar var ekki dáin. Heldur ekki Tommy litli. Hann sem leit svo sakleysislega út með skollitaða hárið sitt og brúnu augun. Hann átti ekkert að deyja. Hann var svo pínulítill. Og Eric…. hvað um hann? Hann hlaut að vera þarna inni líka! Sitjandi í sófanum með dagblað og brosandi útað eyrum þegar hann læsi eitthvað fyndið. Þau voru ekki dáin…
“Kingsley, stoppaðu stelpuna!” heyrðist kallað. Tvær sterkar hendur gripu um hana, önnur um axlirnar og hin um mittið.
“Slepptu mér!” hrópaði hún og reyndi að berjast um. Hún hafði lesið um Kingsley Shacklebolt í Spámannstíðindum. Hann var skyggnir. Það hlaut að vera ástæða fyrir því að hann væri þarna en hann þurfti ekkert að gera í húsinu hennar!
“Vertu kyrr. Vertu róleg. Vertu alveg róleg,” hvíslaði hann. Andadrátturinn í Feneccu var ör og tárin runnu niður kinnarnar. Svo opnuðust dyrnar og eitthvað hvítt kom út um þær… var þetta lak? Eða draugur? Nei, það gat ekki verið því þetta var lárétt… þetta var frekar stutt og lárétt… það kom maður labbandi eftir þessu… hvað var þetta?
“TOM!” öskraði Fenecca eins hátt og hún gat. Svo varð allt svart.

“….. vissi hver hún var…. dóttir hennar fór út… heppni… Pringle… skráður í einhverri stofnun held ég….”
Samræðurnar komu og fóru í kringum Feneccu. Hún lá á hliðinni, hnipruð saman eins og köttur. Sennilega var hún í sófa því að hún fann fyrir einhverju upp við bakið á sér. Eftir að hafa ekki heyrt neitt í smá tíma opnaði hún augun og leit í kringum sig. Hún var inni á lítilli skrifstofu. Á móti henni var lítill gluggi og fyrir neðan hann hillur og skjalaskápar. Hægra megin við gluggan var svo hurð út í horni og vinstra megin var skrifborð sem var hlaðið pergamentrúllum og tómum blekdollum. Á gólfinu var blátt og silfrað, mjög rykugt, teppi og í loftinu stór kertaljósakróna sem kastaði birtu yfir herbergið. Raddir sem Fenecca gat ekki borið kennsl á bárust í gegn um litla rifu á dyrunum.
“Gáðu bara,” heyrðist sagt fyrir utan dyrnar. Andartaki seinna kíkti höfuð inn um gættina. Fenecca var smá stund á því að átta sig á því hver þetta væri. Nefið var aðeins bogið svo það minnti á arnarnef, kolsvart hárið var liðað og augun fagurgræn og lífleg.
“Cita?” hvíslaði Fenecca. Þetta var Carmencita, móðursystir hennar.
“Fenecca, elskan mín!” hrópaði Cita og hljóp til hennar og faðmaði hana að sér. Fenecca kúrði sig í fang frænku sinnar. Það var svo langt síðan hún hafði séð hana… og ástæðan fyrir því að þær hittustu núna var ekki einu sinni góð!
“Cita… af hverju… hvað ertu að gera hérna?” spurði Fenecca með tárin í augunum.
“Bara kom. Passa dóttur stóru systur,” sagði Cita og brosti þvinguðu brosi. Þær föðmuðust aftur og Fenecca fann hvernig tárin þrýstu á augnlokin.
“Hvað gerðist?” spurði hún og leit kvíðin á frænku sína. Cita varð niðurlút og hryggðin skein úr augum hennar.
“Mamma?” spurði Fenecca örvæntingarfull. Cita leit í augu hennar og kinkaði kolli með tárin í augunum.
“Tommy?” spurði Fenecca aftur og örvæntingin virtist vera að ná tökum á henni, “og Eric?”
Tárin hrundu niður kinnar hennar þegar Cita kinkaði áfram kolli með tárvota vanga. Cita tók aftur þétt utan um hana og faðmaði hana að sér. Feneccu fannst hjarta hennar vera að springa. Hún grét af lífs og sálarkröftum.
Hafði hún virkilega misst alla fjölskyldu sína á einu bretti?
Í hjarta hennar var stórt gat en sama hversu hátt hún grét og sama hversu lengi hún grét þá virtist það bara stækka. Eftir dágóða stund fór táraflóðið að minnka og hún róaðist í fangi frænku sinnar. Gatið í hjartanu var eins stórt og áður en tárin voru búin í bili.
Skyndilega rann upp fyrir henni að hún átti hvergi heima núna. Heimilið hennar hafði farið með fjölskyldunni.
“Fæ ég að búa hjá ykkur?” hvíslaði hún og leit í augu frænku sinnar. Hjartað í henni brast næstum á nýjan leik þegar Cita hristi höfuðið.
“Nei, elskan. Þeir ætla að finna föður þinn. Blóðföður þinn. Ég held að þeir séu meira að segja byrjaðir að leita,” hvíslaði Cita.
“Mamma ætlaði að segja mér þegar ég kæmi til baka. Eftir að ég væri búin að sækja snúðana ætlaði hún að segja mér hvað hann héti. Ég var svo spennt,” hvíslaði Fenecca á móti með tárin í augunum. Kannski var pabbi hennar dáinn! Var hún núna munaðarleysingi sem vissi ekkert um föður sinn?
“Æi, elskan mín. Lífið er ekki sanngjarnt. Við verðum að sætta okkur við það vinan,” sagði Cita hughreystandi. Fenecca kinkaði kolli og horfði á Shacklebolt koma inn.
“Má ég aðeins fá að tala við hana í einrúmi?” spurði hann varlega.
“Er það í lagi elskan?” spurði Cita og leit á Feneccu. Hún kinkaði aftur kolli og Cita faðmaði hana þétt að sér og kyssti hana á ennið áður en hún fór út.
Shacklebolt ræskti sig og tók stólinn sem var fyrir aftan skrifborðið og lét hann fyrir framan sófann hjá Feneccu.
“Best að byrja strax á þessu. Veistu um einhverja sérstaka ástæðu fyrir því að dráparar myndu vilja ráðast á… fjölskyldu þína?” spurði hann.
“Nei. Mamma Erics var að vísu muggi, en… við erum ekkert merkileg í galdrasamfélaginu. Ættin hennar mömmu er bara samansafn af galdrafólki, muggum og skvibbum alls staðar úr heiminum…” Fenecca yppti öxlum.
“Þannig að þið hafið einfaldlega verið óheppin. Eins og sennilega margir vinir þínir,” sagði Shacklebolt.
Fenecca kinkaði kolli. Eftir stutta þögn hélt hann áfram.
“Við erum nú að leita að blóðföður þínum. Svo virðist sem hann sé hér a Bretlandi og við erum næstum búnir að finna hann. Það verður þitt val hvort þú vilt búa hjá honum eða Carmencitu Pace frænku þinni. Veistu eitthvað um hann?”
“Ég veit að hann er rússneskur. Búið,” svaraði Fenecca og krosslagði fæturna. Shacklebolt kinkaði kolli. Andartaki seinna kom snöggt bank á hurðina og ungur maður kom inn.
“Hann er fundinn og er á leiðinni hingað í ráðuneytið,” sagði hann.
Augun í Feneccu stækkuðu um helming. Þessi ‘hann’ hlaut að vera pabbi hennar!
“Fínt er. Segðu honum að koma hingað inn þegar hann kemur,” sagði Shacklebolt. Maðurinn kinkaði kolli og fór út aftur.
“Er ekki annars í lagi að þið hittist hérna?” spurði hann og brosti aðeins.
“J-jújú,” stundi Fenecca upp.
“Ég þekkti Rozölbu aðeins…” sagði Shacklebolt eftir vandræðalega þögn. “Hún var oft með skemmtiatriði á jólaböllum ráðuneytisins. Hrikalega flókin dans oftast. Svo vildi hún fá einhvern til að hjálpa sér með eitt atriði og mér var ýtt af stað! Hún fór með mig bakvið tjald og lét kanínueyru og dindil á mig… svo tróð hún mér ofan í risastóran hatt og fór með mig fram. Sagði að þetta atriði væri mjög algengt hjá muggunum… og togaði mig upp og kanínueyrunum! Þetta var fyrsta árið mitt sem skyggnir og ég varð mjög þekktur eftir þetta og við urðum hinir ágætustu vinir. Hún hreint elskaði að eignast vini og tala við þá og kynnast þeim. Ótrúleg kona,” sagði Shacklebolt.
Fenecca brosti. Þetta var svo sannarlega líkt mömmu hennar!
“Við fórum einhverntíman í frí til Spánar og hún neyddi mig til að læra flamengó-dans. Ótrúlega flókinn og ótrúlega flottur dans. Danskennarinn þekkti hana, sagði að ‘senjoríta Rozalba hevdí verið bjesti némándi ‘ans degar ‘ann var að kjenna’. Hún sýndi mér líka einhverntíman flamengó-dans. Stundum þegar ég gat ekki sofnað tók hún upp… þarna… klikk-klikk dótið… kastarellu, eða eitthvað álíka asnalegt… og “spilaði” á þær þangað til ég sofnaði. Þessvegna hef ég alltaf getað sofnað við rigninu… það minnir mig á mömmu,” sagði Fenecca og brosti örlítið. Hún fann fyrir stórum kökki í hálsinum en hún vissi að hún myndi ekki gráta meira strax. Hún myndi eflaust alltaf hugsa um mömmu sína þegar hún heyrði regn bylja á glugga.
Shacklebolt kinkaði kolli.
“Hún var alltaf í góðu skapi. Þegar hún varð reið eða leið þurfti ótrúlega lítið til að fá hana til að brosa aftur…..” Hann stoppaði þegar það var bankað.
Hjartað í Feneccu fór að slá helmingi hraðar.
“Vertu róleg. Þetta verður allt í lagi,” hvíslaði Shacklebolt og stóð upp og gekk til dyra. Vegna þess að dyrnar opnuðust inn og í áttina að Feneccu gat hún ekki séð hver þetta var. Þeir töluðu saman í smá stund án þess að hún heyrði…

“Kingsley Shacklebolt?” spurði sá sem hafði bankað.
“Já. Ert þú… faðir Feneccu Crock?” spurði Shacklebolt.
“Já. Er hún þarna inni?”
“Jebb. Hún er hér. Frænka hennar var hérna áðan, Carmencita…”
“Ég hef hitt hana. Hún vissi ekki að ég væri faðir Feneccu.”
“Komdu núna inn og hittu hana,” sagði Shacklebolt og ætlaði að opna dyrnar aðeins meira.
“Nei! Ég… ég veit ekki… ég þori ekki…” stamaði maðurinn.
“Fyrstu skiptin eru alltaf erfiðust. Þetta verður samt örugglega allt í lagi,” sagði Shacklebolt og sneri sér við. Maðurinn hristi höfuðið.
“Þetta er einmitt ekki fyrsta skiptið…” hvíslaði Boris og gekk inn.

Fenecca starði. Þetta gat ekki verið!
“Boris?” hvíslaði hún og starði áfram. Boris Ivanovitsj, fyrrverandi kennari hennar í umönnun galdraskepna stóð í dyrunum. Alveg eins og hún mundi eftir honum, með brúnt hárið tekið í tagl, hálsmen með vígtönnum, rifin mugga-skyrta, svartar buxur og leðurstígvél. Hann gat ekki verið…. það var ómögulegt. En þá fóru nokkrar hugsanir að koma í ljós… ýmislegt sem hafði verið sagt við hana…
“Vitiði að þið eruð nákvæmlega eins þegar þið eruð að gera grín að mér?”
“Þú finnur ekki rússneskari nöfn heldur en Boris eða Ivan!”
“…. hann er rússneskur…”
“Þú hlýtur að vera að grínast,” stundi Fenecca upp. Boris hristi höfuðið hægt.
“Útskýrið aðeins… eruð þið að segja að þið þekkist eða er ég að misskilja?” spurði Shacklebolt.
“Við þekkjumst. Ég kenndi henni umönnun galdraskepna næstum heilt skólaár,” sagði Boris án þess að taka augun af Feneccu.
“Vissirðu…” hvíslaði hún með spurn í augum.
“Mig grunaði þegar ég sá þig og skjölin um þig sem eru til í skólanum staðfestu það einfaldlega,” svaraði Boris. “Megum við… getum við fengið að tala saman í einrúmi?” spurði hann Shakclebolt.
“Auðvitað. Ekkert mál. Ég fer bara… ég kem aftur eftir svona hálftíma….” svaraði Shacklebolt og gekk aftur á bak út um hurðina. Eftir að hann lokaði kom óþægileg þögn.
Boris og Fenecca pössuðu að horfa alls staðar annarsstaðar heldur en í augun á hvort öðru. Að lokum stundi Boris og settist niður í stólinn sem Shacklebolt hafði setið í áður.
“Ég þorði aldrei að segja þér eitt eða neitt því þú myndir segja Rozölbu og hún hefði örugglega klikkast. Og reið Rozalba er ekki eitthvað sem ég vil hitta! Hlýtur að vera spænska blóðið…” sagði hann.
Fenecca kinkaði bara kolli. Þetta var enn að síast inn í höfuðið á henni. Boris Ivanovitsj var pabbi hennar. Þau gátu varla gerst skildari. Þau höfðu sama blóð. Hann var faðir hennar….
“Hvernig… hvernig stendur á því að þú varðst ekki…. fyrir drápurunum? Möppudýrin hérna sögðu bara að þú hefðir ekki verið í húsinu,” hélt hann áfram. Fenecca kyngdi og reyndi að finna röddina aftur.
“Frú Daisy hringdi og spurði hvort ég vildi ekki koma til hennar og… og ná í snúða. Hún er alltaf að baka. Sko… ég ætlaði að bjóða Tom með, en hætti við… ég nennti ekki að hafa hann með mér. E-ef hann hefði farið með mér þá… hann hefði ekki… þá væri hann sennilega ekki… ekki….” Fenecca varð óþægilega vör við það að hún og Boris litu enn á hvort annað sem kennara og nemanda. Tárauppsprettan virtist hafa hafið framleiðslu á ný og nokkur tár runnu niður vanga hennar. Boris fylgdist með þeim renna niður, nokkur beint niður hökuna og á hendina á henni en hin runnu að nefinu og enduðu í munnvikinu. Ætti hann ekki að gera eitthvað? En hvað? Hann hafði aldrei verið faðir áður!
“Fenecca… ekki gráta. Þú… þú gast ekki gert neitt. Þetta er ekki þér að kenna!” sagði hann að lokum og settist við hliðina á henni í sófann og lét aðra hendina varlega yfir axlirnar á henni.
Hún hristi höfuðið en ákvað síðan að sleppa allri feimni og gróf höfuðið í bringu hans.
“Ég he-hefði getað bja-bjargað T-T-Tom. Mamma ætla-aði að segja-a mér hv-hvað þú hétir þe-gar ég kæmi ti-til baka. Ég var nýb-búin að segja he-henni frá kústinum se-sem þ-þ-þú gafst m-mér u-u-um jólin,” snökti hún.
Boris fann hvernig skyrtan hans blotnaði smám saman en var alveg sama. Þetta voru tár hans eigin dóttur og hvert þeirra var jafn mikils virði og jörðin þótt hún væri úr skíra gulli.
————————–
Ef einhver ætlar að segja að þessi kafli sé vel orðaður skulu allar þakkir fara til Tzipporah og Fantasiu sem fóru yfir kaflann og eiga nú sennilega helminginn í honum! Ég elska ykkur og þolinmæðina sem þið hafið til að nenna að fara yfir!