Í langan tíma hef ég velt fyrir mér uppeldis- og kennslufræði Hogwartsskóla og nú get ég ekki lengur orða bundist.
Ég skil ekki hvernig breska galdramannasamfélagið stendur undir sér.
Ungir galdramenn læra ekkert sem máli skiptir í þessum skóla.
Jú, þeir læra að galdra. Þeir læra að leggja álög á hluti, þeir læra að búa til seyði sem eru til ýmissa hluta nytsamleg og þeir læra að annast galdraskepnur, lesa í bolla og lófa, talnagaldra og að lesa í stjörnurnar.
En hvað með einfalda stærðfræði? Tungumálakunnáttu? Líffræði? Kynfræðslu? Heimilisfræði? Nú fá galdramenn líka laun og þurfa væntanlega að borga sína skatta. Hver ætlar að reikna út fyrir þá hversu mikið fer í skatta og hversu mikið þeir eiga skilið að fá borgað? Hver ætlar að reikna út hversu mikið hinar og þessar deildir galdramálaráðuneytisins þurfa að fá í fjárahagsáætlunum?

Það er greinilega margt sem ungir galdramenn fá engin tækifæri til að læra en það er þó ekki það sem hrellir mig mest varðandi þessa uppeldis- og kennslustofnun.

Hvað er málið með þessar heimavistir?
Nemendum er skipt niður eftir eiginleikum og getu. Þeir sem eru hugdjarfir fara allir saman í Gryffindor. Það hlýtur að vera gaman að vera yfir þeirri heimavist. Stöðugur flækingur hjá öllum á nóttunni því að allir þurfa að vera bjarga einhverju sem þeir halda að enginn annar geti reddað því þeir einir eru nógu hugrakkir til að bjarga málunum. Ég meina, come on, haldið þið að Harry og félagar séu þau einu sem flækjast um á nóttunni og bjarga hlutum? Ekki miðað við Gryffindorgoðsögnina.

Þeir sem eru gáfaðir fara allir saman í Ravenclaw. Þetta er nátturlega uppskrift af hópi af merkikertum sem vita allt betur en allir aðrir og eru svo klárir og allir vita það því þeir eru, jú, í Ravenclaw.

Þeir sem eru undirförlir og lymskulegir fara allir í Slytherin.
Halló!
Sér einhver vandamál í uppsiglingu? Ekki myndi ég vilja vera kennari í Slytherinbekk. Hver einn og einasti nemandi hefur þá persónulýsingu að vera undirförull og eiga auðvelt með að koma sér undan hlutum. Svona bekkur er bara martröð hvers kennara og getið þið ímyndað ykkur hvað fer fram á Slytherinheimavistinni? Flestir Slytherinnemar eru líka helteknir af því að vera með “hreint blóð” og komnir af “góðum og hreinum galdraættum”. Hvernig myndi fara fyrir muggafæddum einstaklingi sem væri undirförull og lymskur (því nú eru þó nokkrir muggar sem passa við þessa lýsingu) og lenti í Slytherin? Honum yrði eflaust tekið með opnum örmum eða hvað haldið þið?
Þar fyrir utan hefur þessi heimavist á sér þann stimpil að úr henni koma flestir þeir sem verða vondir.
Já, þá er nú sniðugt að setja þau öll saman í einn hóp svo þau verði örugglega öll vond. Verum nú fyrir alla muni ekki að blanda þeim saman við hina sem eru betur innrættir til að þeir gætu nú kannski haft góð áhrif á þau. Nei, það borgar sig ekki að reyna það.

Í Hufflepuff fer svo restin.
En gaman. Ég er ekki hugdjarfur, ég er ekki klár og ég er ekki undirförull. Ég er bara aumingi sem á hvergi athvarf nema í Huffelpuff og ef Helga Hufflepuff hefði ekki verið svona indæl kerling þá hefði ég ekki einu sinni fengið skólavist hérna. Það hlýtur að hafa góð áhrif á sjálfstraustið að vera flokkaður í Hufflepuff.

Væri nú ekki sniðugra að blanda í heimavistirnar? Þá myndi hver einstaklingur fá betri tækifæri til að njóta sín á eigin forsendum. Enginn þrýstingur frá foreldrum yfir því að hann hafi nú lent á “rangri heimavist” sbr. Sirius Black. Þetta væri kannski skiljanlegt ef verið væri að vinna eitthvað með þessi einstaklingseinkenni sem auðkenna heimavistirnar en svo virðist ekki vera. Þetta virðist einungis vera gert til að skapa óvild á milli heimavista. Bara rugl.

Hversu margir einstaklingar hafa farið í gegn um Slytherin og endað sem dráparar? Hefði hugsanlega verið hægt að bjarga þeim með öðrum félagstenslum? Ef Regulus Black hefði t.d. verið settur í heimavist með fólki á borð við James, Remus og Lily, haldið þið að hann hefði samt sem áður gengið til liðs við Voldemort?

Annað atriði er þessi blessaða keppni á milli heimavista. Nú fá allar heimavistirnar stig fyrir að standa sig vel (þ.e.a.s. ef kennurunum þóknast að gefa nemendunum stig. Komum aftur að kennurunum seinna) sem er gott og blessað. Aftur á móti geta ein mistök hjá einstökum nemanda orðið þess valdandi að heimavistin missir fjöldann allan af stigum og dregst aftur úr í keppninni. Það hlýtur nú að hafa góð áhrif á félagslegan þroska þessa seinheppna einstaklings. Allir koma til með að vera svo góðir og vingjarnlegir við hann eftir það. Haldið þið það ekki?

Tölum nú um kennarana.
Þeir eru nú alveg meiriháttar eða hvað?
Jú, það er nú ekki hægt að neita því að það eru mjög færir og góðir kennarar þarna inn á milli. McGonagall, Flitwick, Sprout og Lupin þegar hann var, eru öll afbragðs kennarar (þó að mér finnist reyndar að Minerva mætti vera þolinmóðari við Neville stundum). Crouch í gerfi Moodeys var reyndar líka mjög góður kennari, þrátt fyrir allt og Hagrid á alveg sínar góðu stundir. Snape er nátturlega til háborinnar skammar og ætti aldrei að fá að kenna nokkrum einasta krakka eða unglingi og sama gildir um Trewlaney. Þau eru reyndar þarna vegna ákveðinna aðstæðna og það verður að sýna því skilning. Hins vegar myndi ég taka Snape á teppið hjá mér ef ég væri Dumbledore og sýna honum fram á að svona hegðun er ekki liðin gagnvart nemendunum. En það er kannski bara ég.
Prófessor Binns er svo annað mál. Hvers vegna í ósköpunum er honum leyft að kenna? Ég efast um að það sé nokkur manneskja, önnur en Hermione, í gegn um allan hans kennsluferil sem hefur lært eitthvað hjá honum. Að sitja og þylja upp ártöl og nöfn tímunum saman, er ekki góð kennsluaðferð.
Auk þess leikur mér forvitni á að vita hvers vegna hann kennir eingöngu um svartálfauppreisnir og ekkert annað. Það hlýtur eitthvað meira spennandi að hafa gerst í sögu galdranna. Hvað með Grindewald? Hann kennir aldrei neitt um hann. Hugsanlega er einhver meiri saga á bak við Binns en við höfum fengið að sjá… ég vona það. Ef ekki þá er hann sorglegur blettur á skóla Dumbledores.

Dumbledore sjálfur virðist nú alltaf vita allt sem er að gerast í þessum blessaða skóla en gerir oftar en ekki lítið til að stoppa hluti sem ættu ekki að eiga sér stað. Þá er ég að sjálfsögðu að tala um hluti eins og hatrammar baráttur á milli heimavista (Gryffindor og Slytherin) eða þegar kennarar leggja ákveðna nemendur í einelti eins og Snape gerir við Neville, Hermione, Harry og reyndar alla Gryffindornemendur ef út í það er farið. Þó finnst mér verst hvernig hann kemur fram við Neville því hann má síst við því.
Dumbledore ætti að vinna í þeim málum sem ég hef tekið á hér að ofan og sjá til þess að úr þessu verði bætt.

Síðast en ekki síst finnst mér fáránlegt að í skólanum skuli starfa húsvörður sem þráir ekkert heitar en að fá að refsa nemendum skólans líkamlega með hinum ýmsu pyntingartækjum og tólum. Argus Filch er mjög bitur maður sem greinilega er haldinn kvalalosta af alvarlegum toga. Slíkur maður ætti ekki að starfa innan um börn.
Dumbledore hlær að honum og finnst hann vera hættulaus rugludallur en það sást greinilega hver hans innri maður var þegar Umbridge var skilin eftir með umsjón yfir skólanum.

Allt í allt finnst mér þessi skóli ekki hafa velferð nemendanna að leiðarljósi. Nemendum er kennt að nota ýmsa galdra og töfraseyði en þegar kemur að því að spjara sig í lífinu þá nær námið ekki lengra. Þeir geta þá bara reddað sér. Ef nemendurnir eiga ekki góða foreldra eða ættingja til að kenna þeim undirstöður lífsins eiga þeir ekki von á góðu.

Persónulega myndi ég aldrei senda barnið mitt í Hogwarts.

Ég vil biðja fólk um að setja ekki spoilera í svörin hér að neðan þar sem þetta er ekki spoilermerkt grein. Ef einhver vill ræða eitthvað sem inniheldur spoilera og tengist greininni má gjarnan setja upp einn kork um þessa grein á korkahlutann “6. bókin”.

Kveðja
kennaraneminn og hugamamman
Tzipporah