Það var komið vor. Prófin stóðu sem hæðst og allur kastalinn virtist hljóðlátari en venjulega. Í öllum skúmaskotum voru nemendur að fletta í gegn um gamlar glósur og vinna upp það sem ekki hafði náðst að læra um veturinn.
Harry teygði úr sér. Hann var nýkominn úr prófi í töfradrykkjum og nennti enganveginn að fara upp í turn að læra meira í bili. Hann vissi að hann þyrfti að læra fyrir ummyndunarprófið sem átti að vera eftir tvo daga, síðasta próf vetrarins, en hann bara nennti því alls ekki strax. Úti var sólskin og blíða eins og venjan var þegar fólk þurfti að hýrast inni og læra fyrir próf. Harry langaði að fara út og anda að sér fersku loftinu og finna sólina baða hann í hlýjum geislum sínum. Hann flýtti sér upp úr dýflissunum og gekk beina leið út á kastalalóðina.
Honum hafði gengið ágætlega í prófunum sem voru liðin og Voldemort og drápararnir virtust vera að hafa sig hæga eftir að þeir höfðu misst alla drekana sína. Þeir voru þó eflaust bara að undirbúa eitthvað jafnvel enn djöfullegra.
Harry naut þess að finna sólina leika um sig en það var eins og eitthvað væri að plaga hann. Hann vissi svo sem hvað það var. Hann hafði enn ekki náð tali af Draco. Það var komið fram í maí og þeir höfðu ekki talað saman síðan í janúar. Hann hafði reynt allt sem honum datt í hug en ekkert hafði virkað. Hann þorði ekki fyrir sitt litla líf að senda Draco uglu því það gæti vakið upp grunsemdir. Draco sást aldrei á ferðinni nema umvafinn hóp af Slytherinnemum svo ekki gat hann króað hann af til að ræða við hann. Hann var að verða ráðþrota. Hann vissi ekki hvernig hann ætti að ná til Dracos og fá hann til að tala við sig aftur.
Sambandið við Lunu var heldur ekki að ganga sem skyldi. Þau voru enn góðir vinir og töluðu mikið saman en það var eins og eitthvað vantaði. Harry hafði verið að hugsa um það síðan á ballkvöldinu þegar Ginny spurði hann hvort þau hefðu sofið saman. Það virtust allir vera að hugsa um þessa hluti. Dean var vissulega að hugsa um þessa hluti, Ron og Hermione hugsuðu greinilega mikið um þessa hluti, Lavender og Seamus voru nánast að allan daginn fyrir framan hvern sem var. Það lá við að þau væru með sýnikennslu í setustofunni.
Afhverju var Harry ekki að hugsa um að ganga lengra með Lunu. Hann langaði ekkert að gera meira en að kyssa hana. Hvers vegna ekki? Hann fékk heldur ekki lengur fiðring í magan þegar hann sá hana. Honum þótti óskaplega vænt um hana en fiðrildin voru löngu horfin. Nei, reyndar voru þau ekki alveg horfin. Þau bara birtust ekki við tilhugsunina um Lunu. Hann vissi að hann varð að tala við hana. Hún var núorðið meira eins og vinkona hans heldur en kærasta. Hún var svona álíka náin honum og Neville, nema að hann kyssti Neville aldrei. Hann hryllti sig við tilhugsunina. Nei, hann yrði að tala við Lunu.
Hann gekk niður að vatninu og fylgdist með risasmokkfisknum sulla á yfirborðinu.
Við vatnið voru nokkrir hópar af nemendum sem sátu í sólinni með skólabækurnar og reyndu að læra fyrir næstu próf.
Aðeins frá stærsta stelpnahópunum lá skolhærð stelpa á maganum með fæturna upp í loft og las í bók. Hún var með hárið tekið upp í rytjulegan hnút sem töfrasprotinn hennar virtist halda saman. Í eyrunum héngu lokkar sem voru litlir aflangir regnbogar. Hún var mjög einbeitt á svip og nagaði fjaðurpennann sinn. Hún virtist ekki gera sér nokkra grein fyrir því að hópurinn við hlið hennar var að hlæja að henni.
Harry fann reiðina sjóða í sér. Afhverju þurftu þau alltaf að vera að gera grín að henni. Hún var svolítið sérstök, hann vissi það vel, en það var líka það sem hafði heillað hann við hana. Henni var alveg sama hvað öðrum fannst. Hún var bara hún sjálf og gerði það sem hún vildi, sama hvað hverjum fannst. Harry fannst að ef fleiri væru þannig væri heimurinn eflaust betri.
Hann gekk til hennar og settist hjá henni.
Luna leit hissa upp þegar hún varð hans vör.
“Hæ,” sagði hún áhugalítil og hélt áfram að lesa.
Harry leit í áttina til stelpnahópsins og sá að margar þeirra horfðu á hann og þær voru enn að pískrast á. Hann brosti gervilega og vinkaði þeim. Stelpurnar skríktu upp og urðu vandræðalegar, roðnuðu og þóttust vera að uppteknar við að læra.
“Hvað ertu að lesa, Luna?” spurði Harry.
“Bara læra fyrir UGLurnar,” svarði hún án þess að líta upp.
“Geturðu nokkuð tekið þér smá pásu og spjallað aðeins við mig?” spurði Harry aftur. “Ég þyrfti svolítið að tala við þig,” bæti hann við alvarlegur í bragði.
Luna leit upp og lokaði bókinni sinni.
“Allt í lagi,” sagði hún og stakk öllu ofan í töskuna sína og tók hana upp.
“Ég skal bera þetta fyrir þig,” sagði Harry og tók við töskunni hennar, sem var talsvert þyngri en hún leit út fyrir að vera. Hann sveiflaði henni aftur á bakið.
“Við skulum ganga aðeins eitthvert héðan í burtu,” sagði Harry aftur og gaut augunum á stelpurnar sem enn virtust fylgjast náið með hverri hreyfingu þeirra.
“Ef þú vilt,” svaraði Luna fjarræn og gekk af stað í áttina að kastalanum.
Harry elti í humátt með þunga töskuna á bakinu.
Jæja, nú var komið að því. Hvað átti hann eiginlega að segja? Hvernig átti hann að orða þetta? Hann vildi ekki særa hana.
“Harry, ég er eiginlega ekkert skotin í þér lengur,” tilkynnti Luna allt í einu upp úr þurru.
“Ha?” Harry varð orðlaus.
“Æj, við erum bara mikið betri vinir heldur en kærustupar,” sagði hún blátt áfram. “Hefurðu ekki tekið eftir því?”
Harry var brugðið.
“Eh, jú, reyndar,” stundi hann upp. “Það var nú eiginlega það sem ég ætlaði að ræða við þig,” bætti hann við vandræðalegur á svip.
Luna ypti öxlum.
“Þá er það komið á hreint,” sagði hún. “Við höldum áfram að vera vinir en hættum þessu kærustuparaveseni, það er ekkert að virka hvort eð er.” Hún leit spyrjandi á Harry.
“Ég er sáttur,” sagði hann sannleikanum samkvæmt.
“Svo er ég líka eiginlega orðin skotin í öðrum,” hélt Luna áfram og roðnaði örlítið. “Finnst þér kannski óþægilegt ef ég tala um það?” spurði hún og hallaði undir flatt.
Spurningin kom Harry gjörsamlega í opna skjöldu eins og svo margt annað sem Luna lét út úr sér.
“Uh, nei, nei,” svaraði hann og fann sér til mikillar furðu að í raun var honum alveg sama.
“Það er Zacharias Smith í Hufflepuff,” hélt Luna áfram dreymin á svip.
Harry gat ekki varist brosi. Það væri fyndið par. Luna svona trúgjörn á hina ýmsu hluti og Zacharias sem var tortryggnari en flestir sem Harry þekkti.
“Gangi þér vel með það,” sagði hann og brosti til hennar.
“Takk,” svaraði hún alltaf jafn dreymin á svip.
“En ef það er ekkert fleira sem þú vilt ræða þá þyrfti ég eiginlega að halda áfam að læra,” sagði hún svo og leit spyrjandi á Harry.
“Nei, það var ekkert fleira,” svaraði Harry og rétti henni töskuna sína.
Þau kvöddust með faðmlagi og héldu svo brosandi hvort sína leið.

Nú þyrfti hann bara að ná tali af Draco. Hvernig átti hann að fara að því? Hann horfði yfir skólalóðina og sá að rétt hjá Eikinni Armlöngu var hópur Slytherinnema að spjalla saman í sólskininu. Meðal þeirra var Draco Malfoy.
Allt í einu fékk hann snilldarhugmynd.
Hann stökk upp í Gryffindorturn, greip huliðskikkjuna sína og hljóp út aftur. Áður en hann gekk út á kastalalóðina sveipaði hann henni um sig svo hann gat gengið út óséður.

Hann læddist aftan að Slytherinhópnum sem ýmist sat eða lá í grasinu og virtist vera að læra. Þegar hann var kominn nær sá hann að flestar stelpurnar sátu með skikkjurnar fráhnepptar, pilsunum hafði verið lyft að framan og strákarnir sem flestir lágu á maganum fyrir framan þær voru ekki að veita bókunum eins mikla athygli og því skemmtilega útsýni sem þeir höfðu. Mikið var um pískur og eitthvað um snertingar á ósæmilegum stöðum. Draco var eini strákurinn sem sat uppréttur og virtist vera að einbeita sér að bókunum.
“Malfoy, hvernig geturðu einbeitt þér að bókarskruddum þegar svona skemmtun er í boði,” sagði einn drengurinn.
“Sumum er ekki alveg sama hvaða einkunnir þeir fá, Zabini,” svaraði Draco án þess einu sinni að líta upp.
Harry þurfti örlitla stund til að jafna sig áður en hann gat haldið áfram ætlunarverki sínu. Hann læddist, hljóðlaust aftan að Draco.
“Er það svona sem Slytherinnemar læra fyrir próf?” hvíslaði hann lágt í eyra hans.
Draco stífnaði upp en virtist fljótlega átta sig á hvað var í gangi.
“Ég verð að fá að tala við þig,” hvíslaði Harry aftur. “Ég er búinn að vera að reyna að ná tali af þér síðustu mánuðina en gengur ekkert. Í þetta sinn fer ég ekki fyrr en þú kemur með mér,” bætti hann við ákveðinn.
“Varstu að segja eitthvað, Draco, elskan?” sagði Pansy Parkinson
“Nei,” svaraði Draco og leit á hana. “Ég þarf aðeins að bregða mér frá. Kem aftur á eftir,” bætti hann við og stóð upp.
Hinir í hópnum veittu honum ekki mikla athygli og hann gekk sem leið lá inn í kastalann og niður í geymsluna sem þeir Harry höfðu svo oft hist í. Harry elti í humátt á eftir.
Þegar þeir voru komnir inn fór Harry úr skikkjunni og Draco horfði ögrandi á hann.
“Hvað viltu?” sagði hann harkalega.
“Ætlarðu eitthvað að leyfa mér að útskýra hvað gerðist eftir ballið?” spurði Harry sem brá svolítið við þessi viðbrögð.
“Er eitthvað mikið til að útskýra?” spurði Draco hörkulegur á svipinn. “Þú tókst með þér Weasley stelpuna hingað niður, á staðinn okkar, til að eiga með henni rómantíska kvöldstund. Þú hundsaðir skilaboðin frá mér og hvað, sagðirðu henni kannski frá mér líka?” Draco var greinilega virkilega sár og jafnvel enn reiðari en Harry hafði átt von á.
“Þú hefur ekki hugmynd um hvað fór fram hérna, Draco,” sagði Harry sem var frekar móðgaður yfir þessum ásökunum.
“Ginny hljóp út af ballinu eftir að hafa rifist við kærastann sinn, hann Dean Thomas. Ég fór að leita að henni og fann hana hérna rétt fyrir utan hágrátandi á bak við brynjuna á ganginum. Fólk sem átti leið hér um ganginn var farið að horfa á okkur svo ég bað hana um að koma með mér afsíðis. Hún vildi ekki fara langt, var hrædd um að rekast á einhvern svo ég ákvað að bjóða henni hingað inn. Ég sagði henni ekki hvern ég var vanur að hitta hérna, sem endaði reyndar á því að hún hélt að ég væri að halda fram hjá Lunu.” Hann ranghvolfdi í sér augunum. “Þegar þú svo birtist í dyragættinni og hljópst svo út aftur áttaði hún sig á því að það varst þú sem ég var vanur að hitta hérna. Ég hljóp á eftir þér út en náði þér ekki til að útskýra og eftir að þú varst horfinn kom Hedwig með bréfið frá þér. Hún hafði ekki fundið mig því ég var lokaður inni hér niðri. Ég var miður mín yfir að hafa ekki náð þér og yfir að hafa ekki verið til staðar fyrir þig þegar þú þurftir á mér að halda. Þá sagði ég Ginny frá þér.”
Augu Dracos stækkuðu talsvert og hann virtist vera að fara í varnarstöðu.
“Ég sagði henni ekki allt. Ég sagði henni að þú værir orðinn drápari og ég sagði henni að þú værir að njósna fyrir regluna. Ég brýndi að fyrir henni að það gæti orðið þér lífshættulegt ef kæmist upp um þig. Hún segir engum. Þú getur alveg treyst því,” sagði hann ákveðinn.
Í raun mundi Harry ekki nákvæmlega hversu mikið hann hafði sagt Ginny frá Draco. Hann ákvað samt að það væri líklegast öllum fyrir bestu ef Draco væri ekki með það á hreinu hversu mikið hún vissi í raun og veru.
Hann virtist vera að melta þetta og sagði ekkert í langan tíma.
“Draco, ég var ekki að svíkja þig,” sagði Harry vingjarnlega. “Þú ert vinur minn og mér þykir vænt um þig. Ég legg það ekki í vana minn að svíkja vini mína. Ég hefði verið búinn að segja þér þetta fyrir löngu síðan ef þú hefðir gefið mér tækifæri.”
Draco settist niður og hallaði sér upp að veggnum. Hann andvarpaði þungt.
“Ég er svo mikið fífl,” sagði hann lágt. “Ég var alveg viss um að þú hefðir verið að svíkja mig, því afhverju áttir þú að vera eitthvað öðruvísi en allir aðrir í kring um mig?” spurði hann og leit upp.
“Vegna þess að ég er vinur þinn í raun og veru,” svaraði Harry ákveðinn og fékk sér sæti við hlið hans. “Þú veist að ég er ekki eins og aðrir í kring um þig, er það ekki? Þú veist að ég stend við orð mín og er sannur vinur þinn, er það ekki öruggt?” spurði hann aftur.
“Ef ég á að segja þér satt þá ert þú besti vinurinn sem ég hef nokkurn tímann átt,” sagði Draco lágt og leit skömmustulegur niður fyrir sig. “Þess vegna var ég svo rosalega sár þegar ég hélt þú hefðir svikið mig.”
Harry vissi ekki afhverju en honum fannst eins og það væri eitthvað fleira sem Draco hefði viljað segja en hann ákvað að ýta ekki á hann með það. Hann myndi segja honum það þegar hann væri reiðubúinn sjálfur.
“Vinir?” spurði Harry og rétti honum höndina.
“Vinir,” svaraði Draco og tók þakklátur í hana.
“Segðu mér nú eitt,” sagði Harry. “Eru allir Slytherinheimanámsfundir svona?” spurði hann hneykslaður á svip og fórnaði höndum.
Draco ranghvolfdi í sér augunum og hristi höfuðið.
“Verri,” svaraði hann.

Þeir sátu nokkra stund í geymslunni sinni og spjölluðu saman um það sem gerst hafði síðustu mánuði. Harry sagði Draco frá sambandsslitum sínum og Lunu fyrr um daginn og frá slagsmálunum við Dean Thomas. Draco sagði Harry frá fundum dráparanna síðustu mánuði og frá því áfalli sem ósigurinn í Fraserburgh hafði verið fyrir Voldemort. Harry sagði Draco þá frá missinum sem Fönixreglan hafði orðið fyrir í þeim bardaga og frá því er hann hafði séð Voldemort drepa Macnair um kvöldið.
Þeir sátu lengi saman og spjölluðu. Fyrr en varði var komið að kvöldmat og þeir fundu að þeir voru orðnir svangir. Draco mundi þá eftir að hann hafði skilið bækurnar sínar eftir úti á skólalóðinni og sagt að hann kæmi aftur. Hann vonaði innilega að enginn væri farinn að leita að honum.
Þeir gengu saman út um dyrnar á geymslunni og flýttu sér hvor í sína áttina.
Hvorugur þeirra tók eftir Pansy Parkinson sem stóð falin bak við brynjuna á ganginum.

Dagarnir liðu hægt en loksins var seinasta prófinu lokið.
Mikil gleði ríkti í skólanum þennan dag og eftirvæntingin var gífurleg því seinnipartinn átti að vera úrslitakeppnin í Quidditch á milli Hufflepuff og Gryffindor. Við hádegisverðinn voru allir nemendur skólans klæddir í gylt og rautt eða gult og svart.
Harry gat lítið borðað fyrir spenningi en einhvernveginn fannst honum þetta ekki eins hryllilega erfitt og honum hafði fundist það fyrstu árin sín í Hogwarts. Eftir allt sem á undan var gengið var það að vinna Quidditchbikarinn ekki eins rosalega mikilvægt og það hafði alltaf verið. Vissulega væri gaman að vinna, en himin og jörð myndu ekki farast þótt Hufflepuff myndi hreppa hnossið. Hann ákvað þó að láta það vera að segja liðsfélögum sínum það og þá sérstaklega Katie Bell sem nánast skalf af spenningi.
“Jæja, eigum við ekki að fara að koma okkur niður í búningsklefa?” spurði hún óróleg þrátt fyrir að matartíminn væri ekki hálfnaður og enn klukkustund í leikinn. Liðsmenn Gryffindorliðsins þorðu ekki fyrir sitt litla líf að mótmæla og héldu af stað á eftir henni.
Þegar allir voru komnir í keppnisskikkjurnar sínar tilbúnir með kústana við hlið sér hélt Katie stutta ræða um hversu gott liðið hafði verið í ár. Hversu vel þau hefðu leikið þrátt fyrir að vera nýtt lið þetta árið. Hún hvatti þau áfram til dáða og heimtaði að þau myndu vinna þennan leik því þetta væri síðasti leikur hennar í skólanum.
Hún virtist ótrúlega stressuð og var jafnvel farin að minna Harry örlítið á Oliver Wood.

Það var yndisleg tilfinning að ganga inn á Quidditchvöllinn í glampandi sólskininu og heyra allan skólann hrópa, kalla og hvetja sína menn. Harry naut þess í botn og sama gilti um liðsfélaga hans. Hann iðaði í skinninu að fá að fljúga á loft og leita eftir gullnu eldingunni.
Liðin stóðu hvort á sínum vallarhelmingnum og Katie Bell tók í höndina á Zacharias Smith sem nú var fyrirliði Hufflepuff liðsins. Harry leit upp í áhorfendastúkurnar og sá hvar Luna sat við hlið Nevilles og Hermione með gylltan og rauðan trefil en svarta og gula húfu. Hann gat ekki varist brosi. Luna gæti í öllu falli ekki tapað í dag.
Fröken Hooch sleppti boltunum úr öskjunum sínum og stuttu seinna blés hún til leiks.
Leikmennirnir fjórtán flugu af stað og leikurinn var hafinn.
Harry fór ofar en aðrir leikmenn og pírði augun í leit að gullnu eldingunni.
Laura Madley, leitari Hufflepuff liðsins sveif skammt frá honum og var mjög vakandi yfir öllu sem gerðist á vellinum.
Yfir völlinn hljómaði rödd Deans sem lýsti leiknum af jafn miklum ákafa og venjulega. Harry varð nú að viðurkenna að honum fannst hann ekki jafn góður í leiklýsingunum og Lee Jordan hafði verið. Kannski spilaði eitthvað inní að hann var enn ekki búinn að fyrirgefa Dean hvernig hann hafði komið fram við Ginny.
“Katie Bell skýst fram með tromluna í höndunum, hraðar en vindurinn, gefur á Ginny sem þýtur fram, hún beygir, hún sveigir, hún gefur á Vicky og Vicky gefur aftur á Katie, Katie fer fram og SKORAR!!! Glæsileg frammistaða. Tíu – núll fyrir Gryffindor. Áfram Gryffindor!” kallaði hann upp.
Fagnaðarlæti upphófust í Gryffindorstúkunum þar sem fólk, klappaði, stappaði og Dean reyndi að stjórna bylgjum eins og gert er á muggaknattspyrnuleikjum. Það gekk misvel því fæstir höfðu nokkru sinni séð slíkar bylgjur og áttuðu sig engan veginn á því hvað Dean var að meina.
Hann hristi höfuðið og hélt áfram leiklýsingunum.
“Zacharias Smith grípur nú um tromluna og skýst inn á miðjan völlinn. Hann gefur á Summers sem gefur á Jones, aftur til Summers og Summers skýtur og Ron ver þetta með glæsibrag. Frábær markvarsla hjá Ron Weasley. Það var laglegt. Gefið mér nú almennilega bylgju fyrir Ron,” kallaði hann til áhorfendabekkjanna.
Bylgjan gekk betur í þetta skiptið en þó ekki betur en það að báðir endar byrjuðu í einu svo allt fór í kássu í miðjunni. Dean hristi aftur höfuðið og sneri sér aftur að leiknum.
“Ginny tekur við tromlunni frá bróður sínum og gefur á Vicky, sem sendir boltann til Katie sem skýst áfram á hraða sem myndi láta förufálka skammast sín. Hún smýgur í gegn um vörnina og SKORAR!!! Þvílíkur snilldar leikur. Er nokkur furða að þessi stúlka sé fyrirliði okkar Gryffindormanna! Reynum nú bylgjuna aftur og við byrjum núna hægramegin.” Aftur fór bylgjan af stað á báðum endum. “Mín hægri, ykkar vinstri. Þið eruð ómöguleg. En jæja. Smith hefur tromluna, kastar til Summers, Summer skýst áfram, gefur á Jones en hvað er að gerast, Katie Bell komst á milli þeirra og stal af þeim tromlunni. Hún skýst áfram á ógnarhraða og SKORAR! Ég trúi þessu ekki. Þrjátíu – núll fyrir Gryffindor. Gerum nú alvöru bylgju. Við byrjum hér á mína hægri hönd, ykkar vinstri,” Bylgjan reis upp og féll eins og alda í fjörunni. “Það var GLÆSILEGT, það tókst!!!” Dean réði sér varla fyrir kæti. “Nú finnst mér að leikmennirnir ættu að klappa fyrir áhorfendunum,” sagði hann kátur. “En, nei annars, haldið bara áfram að keppa, ekki hugsa um okkur. En þetta var frábært, svo gerum við svona í hvert skipti sem einhver skorar eða gerir eitthvað stórfenglegt!”
Leikurinn hélt svona lengi áfram. Gryffindorliðið átti stórkostlegan leik og gerði hverja gloríuna á fætur annarri. Harry fannst að Katie Bell hefði aldrei átt jafn góðan leik. Ron varði nánast hvert skot sem hann fékk á sig. Hufflepuff liðið stóð sig ekki illa, en var ekki að ná eins góðum árangri og Gryffindor. Eftir klukkutíma leik var stigafjöldinn á þá leið að Gryffindor var með hundrað og tíu stig á móti þrjátíu stigum Hufflepuffmanna.
Harry leitaði í sífellu að gullnu eldingunni en kom hvergi auga á hana.
Allt í einu sá hann hvar Laura Madley steypti sér niður á ógnarhraða. Hún hlaut að hafa séð eldinguna. Hann steypti sér á eftir henni og reyndi að sjá hvert hún var að stefna. Þá sá hann hana. Gullna eldingin var rétt fyrir framan Lauru. Hann flýtti sér sem mest hann mátti en náði ekki í tæka tíð. Fyrr en varði lá gullna eldingin í lófa Lauru Madley, leitara Hufflepuff liðsins.
Fröken Hooch blés í flautuna.
Hufflepuff voru Quidditchmeistarar vetrarins.
Upp hófust fagnaðarlæti sem ætluðu allt um koll að keyra.
Liðsmenn beggja liða lentu á jörðinni. Hufflepuff liðið lenti nánast ofan á Lauru sem hélt eldingunni sigri hrósandi hátt fyrir ofan jörðina. Gryffindor liðið lenti í rólegheitum á hinum vallarhelmingnum.
Katie Bell gekk stolt yfir til Zachariasar Smith og óskaði honum til hamingju. Hinir liðsmennirnir fóru að fordæmi hennar.

Nú streymdu stuðningsmenn liðana inn á völlinn og fagnaðarlætin virtust engan endi ætla að taka. Harry sá að Katie var að tala við mann sem líktist henni ósegjanlega mikið. Þetta hlaut að vera pabbi hennar. Með honum var kona sem Harry giskaði á að væri mamma hennar. Hann gekk yfir til Rons og Ginnyar og hrósaði þeim fyrir góða frammistöðu í leiknum. Eftir stutta stund kom Katie aftur til þeirra og andlit hennar lýsti af gleði og sigurvímu. Harry, Ron og Ginny litu hissa hvert á annað.
“Fyrirgefðu að ég náði ekki eldingunni,” sagði Harry varfærnislega. “Ég veit það skipti þig miklu máli að sigra í dag.”
“Engar áhyggjur Harry minn, það hefði jú verið gaman að vinna bikarinn í síðasta leiknum mínum hérna en það lítur út fyrir að ég fái tækifæri til að vinna fleiri bikara í náinni framtíð,” svaraði Katie sigrihrósandi.
“Hvað áttu við?” spurði Ron tortrygginn á svip.
“Sástu konuna sem ég var að tala við þarna áðan?” spurði Katie og benti í áttina að konunni sem stóð við hlið föður hennar.
“Er þetta ekki mamma þín?” spurði Harry.
“Neibb,” svaraði Katie. “Þetta er liðstjóri Holyhead Harpies, nornaliðsins og hún var að ráða mig til að vera vara-sóknarmaður hjá þeim á næsta ári.”
Katie var farinn að hoppa upp og niður af kæti og spenningi. Ginny æpti upp yfir sig, stökk á hana og faðmaði hana að sér. Saman öskruðu þær svo og hoppuðu til og frá í dágóða stund áður en Harry og Ron komust að til að óska henni til hamingju.
Aðrir nemendur skólans skildu ekkert í þessum fagnaðarlátum hjá liðinu sem var að tapa leiknum. Fréttin var þó furðufljót að berast um völlinn og eftir skamma stund voru bæði liðin á leið upp að kastalanum með hóp af stuðningsmönnum á eftir sér í einni allsherjar sigurvímu.
Harry leit við á leiðinni upp í kastalann þegar hann gekk fram hjá hópi af Slytherinnemendum. Hann brosti örlítið til Dracos, sem brosti örsnöggt til baka. Í því mætti Harry augnaráði Pansy Parkinson sem starði á hann eins og hún grunaði hann um eitthvað.