“Þetta er vissulega áhugaverð og spennandi saga,” sagði herra Wilkinson, framkvæmdastjóri Watford & Wilkinson bókaforlagsins, “og hún verður að öllum líkindum metsölubók eftir breytingarnar.”
Neville hnyklaði brýrnar. “Breytingar? Hvaða breytingar? Þetta er líf mitt, þetta er sagan mín! Hvernig er hægt að breyta henni?” sagði hann með vantrúarsvip.
Ungfrú Watford brosti til hans. “Jú vissulega, vissulega, þetta er sagan þín, en hún er bara alls ekki söluhæf í núverandi ástandi. Fjölskylda mín hefur gefið út bækur í tæplega tvöhundruð ár og þú getur treyst mér, bókin mun seljast eins og heitar lummur þegar við höfum lagað hana. Við vitum hvað fólk vill lesa.”
“Hverju viljið þið eiginlega breyta? Ég get ekki lagt nafn mitt við einhverja skrumskælingu!” hvein í Neville, aðeins hærra en hann hafði ætlað.

Wilkinson setti upp gleraugun og leit snöggt niður á minnisblaðið sem Neville hafði ekki tekist að lesa. “Við höfum ákveðið að breyta sjónarhorni sögunnar lítið eitt, ásamt minniháttar breytingum á titli og efnistökum.”
“Titillinn?!? ‘Neville Longbottom og hnakkasvipurinn ógurlegi’? Það tók mig þrjá daga að upphugsa hann!” Nú var Neville hætt að standa á sama.
Ungfrú Watford missti næstum brosið en tókst þó að halda svip.
“Hann er mjög fínn, en við höfum ákveðið að ‘Harry Potter og viskusteinninn’ sé söluvænasti titillinn sem völ er á,” sagði hún og gaut augunum ósjálfrátt til Harry.

“Harr- Harr-,” stamaði Neville, “HARRY POTTER OG VISKUSTEINNINN?”
Orðin glumdu hátt í steinlögðu fundarherberginu. “Harry Potter! Harry Potter! Harry Potter og viskusteinninn!” urraði Neville og starði á félaga sinn.
“Þetta er ekki eins og þú heldur,” sagði Harry óðamála, “ég vildi þetta ekki heldur í byrjun en herra Wilkinson er búinn að útskýra þetta allt fyrir mér. Við fáum báðir miklu meira í okkar hlut en ef bókin myndi ekki seljast.” Harry forðaðist að líta framan í Neville. “Það er heldur ekki auðvelt að segja nei við tuttugu prósentum af heildarveltu bókarinnar,” muldraði Harry lágt.

“Tuttugu prósent?” Neville trúði ekki eigin eyrum. “Ég fæ tíu prósent! Og það var ég sem sigraði Voldemort! Þið getið ekki gert þetta!”
Wilkinson ræskti sig og fletti í samningnum. “Jú, samkvæmt fjórtándu undirgrein þriðja kafla, á blaðsíðu 47. Stafirnir þínir eru hérna neðst á síðunni, eins og á öllum hinum síðunum.” Hann leit vandræðalega í áttina að Neville. “Nafnið er líka vandamál. Aðdáendurnir vilja frekar vera þekktir sem ‘Potthausar’ en ‘Síðbotnar’.
Wilkinson gat ekki stillt sig um að glotta. ”Þú getur heldur ekki neitað því að merki Voldemorts fer betur á Harry en þér.“

Nú var Neville nóg boðið. ”Merki Voldemorts? Ertu að meina örið eftir tertuspaðaóhappið? Ekki nóg með að hann Harry hérna sé svikull sem naðra, á hann núna að græða á því að hafa dottið á tertuspaða þegar leið yfir hann eftir óhóflegt sykurát í afmælinu mínu? Það er ég sem ber merki Voldemorts og enginn annar!“ Neville var af augljósum ástæðum ekki vel við að sýna fólki merkið, en nú héldu honum engin bönd. Hann leysti axlaböndin og sneri sér við. Rauðglóandi handarfar blasti við á hægri þjóhnappi.

”Þetta merki hef ég borið síðan ég man eftir mér, það hefur valdið mér sársauka og hugarangri oftar en ég kæri mig um að muna. Er það svona lítils virði?“ spurði Neville og sneri sér við. Wilkinson ræskti sig aftur. ”Þú hlýtur að sjá það, kæri Neville, að við getum ekki haft söguhetju sem grípur veinandi um sitjandann í hvert sinn sem erkióvinurinn nálgast. Þú ert einfaldlega ekki trúverðuglegur sem söguhetja."

Neville kom ekki upp nokkru orði. Hann strunsaði út úr herberginu og leit ekki við þegar Harry kallaði á eftir honum.
I have a plan so cunning you could put a tail on it and call it a weasel!