Það var margt um manninn í Hroðagerði þegar Harry og vinir hans komu inn ásamt fylgdarliði sínu. Molly Weasley stökk undir eins á börnin sín og vini þeirra og faðmaði þau að sér, fegin að sjá þau eftir svo langan tíma. Eftir stutt faðmlag og kossa frá Molly sneri Harry sér að Remusi sem hafði verið með í fylgdarliðinu að þessu sinni.
“Er fundur í kvöld?” spurði hann, því það þótti honum líklegasta skýringin á þessum fólksfjölda.
“Nei, ekki í kvöld,” svaraði Remus. “Núna í hádeginu. Þú ættir að flýta þér að koma dótinu þínu upp því hann byrjar eftir korter.”
Harry lét ekki segja sér það tvisvar og hraðaði sér með allt sitt hafurtask upp í herbergið sem hann og Ron deildu venjulega. Ron kom í humátt á eftir.
“Hvenær ætli ég fái að fara á reglufundi?” spurði hann ólundarlega.
“Hvaða máli skiptir það?” spurði Harry og ypti öxlum. “Það er ekki eins og ég segi þér ekki frá öllu þegar ég kem upp aftur.”
“Það er samt ekki það sama,” hélt Ron áfram með sama ólundarsvipinn.
“Æj, góði hresstu þig við,” sagði Harry í flýti. “Farðu upp og spjallaðu við Ginny og Hermione. Ég kem svo beint þangað þegar ég er laus og segi ykkur frá því sem fram fór. Ég lofa því.” Bætti hann við um leið og hann hljóp niður stigann og inn í eldhúsið þar sem fundurinn var í þann mund að hefjast.

Í eldhúsinu voru allir að fá sér sæti og gera sig tilbúna fyrir fundinn. Harry settist við stóra eldhúsborðið við hlið Remusar sem var niðursokkinn í samræður við Tonks. Í eldhúsinu voru ekki jafn margir og höfðu verið þar á fundinum sem Harry hafði mætt á um haustið. Hann vissi að mikið af fólki í reglunni var að störfum hér og þar um landið. Sumir í leit að týndu drekunum, aðrir í rannsóknarstörfum og enn aðrir að leita að vitsugunum. Harry sá þó mörg kunnugleg andlit í eldhúsinu. Þarna voru Arthur og Molly Weasley, Fred og George, Percy, Kingsley, Snape, Dumbledore og einhverjir fimm galdramenn og þrjár nornir í viðbót sem Harry þekkti ekki.
Dumbledore hóf fundinn,
“Jæja, við skulum þá fara að hefjast handa fyrst allir eru mættir,” sagði hann. “Þessi fundur er fremur fámennur eins og þið sjáið en það er að sjálfsögðu vegna þess hve stuttur fyrirvari var á honum. Severus Snape kallaði saman þennan fund og nú gef ég honum orðið.”
“Þakka þér fyrir Dumbledore,” sagði Snape og hneigði höfuðið lítið eitt í áttina til hans. “Ég er að koma beint úr herbúðum hins myrka herra. Þar er margt í gangi núna. Hann er að missa mikið fylgi meðal hálfmennskra, þá sérstaklega varúlfanna, eftir allar þær breytingar sem gerðar hafa verið á reglugerðum varðandi þá undanfarið. Hann er Galdramálaráðuneytinu mjög reiður fyrir þetta og þá einkum og sér í lagi þér Arthur.”
Snape leit á Arthur í þessum töluðu orðum en hann kinkaði rólegur kolli til baka.
“Það kemur svo sem ekki sérlega á óvart,” svaraði hann rólegur í bragði.
“Ég held að þið ættuð að forða ykkur úr Hreysinu alfarið núna. Hann hefur komist að því hvar þið búið og hann mun innan skamms senda menn sína til að ráðast þar inn og jafna það við jörðu,” hélt Snape áfram. Molly hljóðaði upp og greip fyrir munnin á sér. Skelfingin skein úr augum hennar. Arthur sat hljóður við hlið hennar og kinkaði kolli.
“Við getum farið þangað á eftir og náð í alla ykkar persónulegu hluti. Allt sem þið viljið ekki missa og komið með það hingað,” sagði Remus hughreystandi. “Það er að segja ef það er í lagi þín vegna Harry?” bætti hann svo við og leit á Harry eins og hann væri að hvetja hann til að leggja eitthvað til málanna.
“Já, auðvitað er það í lagi,” sagði Harry og um leið rann það upp fyrir honum hvað Remus var að meina. “Að sjálfsögðu, þið komið náttúrulega bara og búið hér. Við finnum herbergi handa ykkur öllum og þið getið bara litið á þetta hús sem ykkar heimili,” sagði hann ákveðinn á svip. Molly leit á hann með tárin í augunum.
“Þakka þér fyrir Harry minn,” sagði hún svo lágt að varla heyrðist.
“Þetta er höfðinglega boðið Harry,” bætti Arthur við og brosti örlítið til hans.
“Þetta er nú bara það minnsta sem ég get gert eftir allt sem þið hafið gert fyrir mig,” svaraði Harry og meinti hvert orð.
“Ég held það væri ráð að fara frekar fyrr en seinna að ná í persónulega hluti ykkar,” sagði Snape. “Og reynið að láta ekki of mikið á því bera,” bætti hann við.
“Fred og George, ég held að þið ættuð líka að flytja hér inn í bili,” sagði Arthur nú hugsi. “Ef hann veit hvar við búum er ekki spurning að Galdrabrellur Weasleys eru líka skotmark. Allt sem getur komið sér illa fyrir mig að missa,” bætti hann við. “Þið getið haldið áfram að vinna í búðinni á daginn, hún er á það opnu svæði við Skástrætið að það eru ekki miklar líkur á að þeir ráðist þar inn um hábjartan dag. Engu að síður eruð þið berskjaldaðir þegar líða tekur á kvöldið og fólksmergðin fer að minka. Ég myndi meta það mikils ef þið gætuð stytt vinnutíma ykkar örlítið og komið hingað á nóttunni.” sagði hann.
Fred og George litu hvor á annan og kinkuðu kolli til samþykkis.
“Þá er það ákveðið,” sagði Dumbledore. “En það var líka eitt annað sem við vildum fá að ræða við ykkur. Nú í byrjun janúar mun Severus fá liðsauka í herbúðum Voldemorts. Sjötta árs nemandi í Slytherinheimavistinni verður vígður inn sem drápari á afmælisdegi sínum þann þrettánda janúar. Hann hefur nú þegar starfað með Harry og Severusi í Hogwarts við þjálfun í hughrindingu og fengið undirbúning hjá Severusi fyrir það sem hann á í vændum. Eins og flest ykkar vita hefur Severus fengið það hlutverk frá Voldemort að gæta að upprennandi drápurum innan Hogwarts. Innræta þeim rétta siði ef svo má að orði komast. Hann er því í góðri stöðu til að standa með þessum unga herramanni og ég býst fastlega við að þetta samstarf muni skila miklu inn á borð til okkar. Þessi ungi herramaður hefur góð sambönd núþegar vegna fjölskyldu sinnar og veit því margt sem gengur á. Nokkur ykkar þekkja hann, allir hér inni hafa heyrt um hann og föður hans. Áður en ég segi hver hann er vil ég ítreka það að nafn hans, né nokkuð um tilvist hans, má ekki alls ekki ræða við nokkurn þann sem ekki situr þessa fundi. Ekki einusinni við þá sem eru hér á efri hæðinni. Líf hans liggur hér við.”
Allir viðstaddir kinnkuðu kolli og Harry gat varla varist brosi er hann sá forvitnina sem skein úr andlitum tvíburabræðranna.
“Þessi ungi herramaður er Draco Malfoy,” hélt Dumbledore áfram. “Hann hefur snúið baki við föður sínum og starfar nú með okkur að því að gera heiminn að öruggari stað.”
Það leit helst út fyrir að augun ætluðu að detta úr höfðinu á bræðrunum. Þeir litu báðir á Harry skeptískir á svip,
“Er þetta satt?” spurði Fred hljóðlaust með varahreyfingum.
Harry kinkaði kolli.
Bræðurnir virtust mjög ringlaðir á svip og hristu bara höfuðin.
“Ég get fullvissað hvern þann sem hefur áhyggjur af heillindum Dracos um að honum er fyllilega treystandi og hann er okkar maður út í gegn,” sagði Dumbledore ákveðið svo enginn þorði að mótmæla.
“En þá segi ég þessum fundi slitið og þeir sem geta hjálpað til við að fara í Hreysið að sækja föggur Weasleyfjölskyldunnar eru beðnir um að hinkra andartak því við leggjum af stað von bráðar,” lauk hann ræðu sinni.

Harry gekk yfir til Weasley hjónanna,
“Á ég að koma með ykkur?” bauð hann. Arthur tók utan um hann,
“Þakka þér fyrir Harry minn en ég held ekki. Ég held ég vilji halda ykkur unglingunum utan við þetta í bili. Við tilflytjumst mestmegnis og þið gerið mikið meira gagn að vera hér heima og byrja að raða okkur niður í herbergi og taka við því sem við komum með hingað,” sagði hann.
“Harry, minn, ertu nokkuð til í að hlaupa upp og sækja krakkana fyrir okkur,” sagði Molly. “Við þurfum að segja þeim þetta.”
Harry kinkaði kolli og flýtti sér upp í herbergi til Ginnyar og Hermione þar sem Ron og Ginny sátu við tafl en Hermione var að lesa. Þau litu öll spennt upp þegar hann kom inn.
“Hvað gerðist?” spurði Ron eftirvæntingafullur.
“Þið þurfið að koma niður. Mamma þín og pabbi ætla að segja ykkur hvað gerðist,” sagði Harry alvarlegur í bragði. Ginny og Ron litu hvort á annað og svo aftur á Harry,
“Er allt í lagi með Bill?” spurði Ginny og hræðslan sem skein úr andliti hennar lét Harry langa til að taka utan um hana og aldrei sleppa.
“Já, já, það er allt í lagi með hann,” flýtti hann sér að svara. Hræðslusvipurinn hvarf þó ekki af andliti hennar og Harry sá að hún var að telja upp í huganum hverja hún hafði séð í húsinu um morguninn.
“Það er allt í lagi með alla,” reyndi hann að fullvissa hana um. “Það er enginn dáinn.” Ginny blés frá sér af létti og lagði af stað niður stigann. Ron flýtti sér á eftir henni og Harry og Hermione ráku lestina. Þegar þau komu niður í eldhúsið tóku Weasley hjónin á móti þeim og sögðu þeim allt það sem Snape hafði sagt nokkrum mínútum áður. Ron og Ginny tóku þessu með jafnaðargeði kinkuðu bara kolli og sátu þögul undir þessum fréttum í nokkra stund.
“En, eigum við þá hvergi heima?” spurði Ginny allt í einu.
“Jú, við eigum heima hér núna,” svaraði pabbi hennar. “Harry var svo góðhjartaður að bjóða okkur að gera okkur heimili hér. Við erum núna að fara nokkur af stað til að sækja persónulega hluti okkar sem við viljum ekki að hverfi með húsinu ef allt fer á versta veg. Ef það er eitthvað sem þið munið eftir sem þið viljið fá þá skuluð þið endilega skrifa það niður á lista. Við förum eftir smá stund.”
Ginny kinkaði kolli.
“Fáum við ekki að koma með að sækja það sem vantar?” spurði Ron pirraður.
“Nei, vinur minn,” svaraði pabbi hans. “Við komum til með að tilflytjast og slíkt svo það er hreinlega ekki hægt að hafa ykkur með. Mér þykir það leitt.”
“Við verðum bara hér á meðan að velja okkur herbergi,” lagði Harry nú til málanna. “Við getum þá valið fyrst. Það þarf eitt handa mér, sitthvort handa ykkur, eitt handa þeim,” sagði hann og benti á Arthur og Molly,” “Eitt… eða kannski tvö? Handa tvíburunum. Viljið þið sitthvort herbergið eða sameiginlegt herbergi?” kallaði hann til tvíburanna sem voru önnum kafnir við að setja niður á sína lista það sem þeir áttu enn í Hreysinu og stefndu á að bjarga.
“Tvö, maður,” kallaði George til baka. “Angelina gæti kannski komið í heimsókn og þá vil ég ekki vera í sama herbergi og þau,” bætti hann við og hryllti sig.
“En það væri reyndar gott ef þau væru samliggjandi,” bætti Fred við, “það má nú ekki vera of langt á milli okkar, þú skilur. Bestu hrekkjabrögðin verða til um miðjar nætur,” sagði hann og blikkaði í átt til mömmu sinnar sem lét sér nægja að hrista höfuðið að svo stöddu.
“Þá sérðu það,” hélt Harry áfram hlæjandi, “nóg að gera. Svo vantar eitt handa Percy og Remus verður nátturlega áfram í herberginu hans Siriusar, eða er það ekki annars Remus?” spurði hann í sama mund og Remus gekk fram hjá þeim.
“Það væri frábært ef ég mætti það Harry,” sagði Remus.
“Auðvitað máttu það,” sagði Harry og sló á bakið á honum. “Það er nú nokkuð örugg heimagæsla að vera með varúlf á heimilinu eða hvað heldur þú,” hélt hann áfram og blikkaði hann. Remus hló við,
“Þannig að ég er bara öryggisþjónusta?” spurði hann og þóttist hneykslaður.
“Öryggisþjónusta og fjölskyldumeðlimur,” sagði Molly og horfði blítt á Remus sem roðnaði upp í hársrætur. Það var eitthvað sem Harry hafði aldrei séð áður.
“Jæja, gott fólk,” kallaði nú Dumbledore yfir eldhúsið. “Það er kominn tími til að leggja í hann.”

Það tók ekki langan tíma að raða öllum niður í herbergi. Ginny ákvað að hún vildi halda herberginu sem þær Hermione höfðu deilt frá því þær komu fyrst til að dvelja í Hroðagerði. Það var á þriðju hæðinni en á þeirri hæð var einnig stórt baðherbergi, lítil setustofa og tvö önnur svefnherbergi sem Ron og Harry ákváðu að eigna sér. Á fimmtu hæðinni var svo stórt hjónaherbergi sem Grágoggur hafði lagt undir sig síðustu ár. Hann hafði nú fengið náðun hjá Galdramálaráðuneytinu og var fluttur á sveitabæ, í nágrenni við Hogwartsskóla, sem ræktaði hippogryffina. Ginny stakk upp á að Arthur og Molly fengju að eiga þá hæð út af fyrir sig. Þar var gott baðherbergi og lítið aukaherbergi sem Arthur gæti nýtt sem skrifstofu. Hinum leist vel á það og fannst Weasleyhjónin svo sannarlega eiga það skilið að fá að hafa einhvern stað hússins algerlega út af fyrir sig.
Á fjórðu hæðinni voru fjögur lítil svefnherbergi og Hermione stakk upp á að þar yrðu höfð gestaherbergi fyrir fólk úr reglunni sem þyrfti að gista.
“Og þar þarf að sjálfsögðu að vera eitt Hermione-herbergi líka,” bætti Harry við og blikkaði hana. “Fyrir svona Hermione-ur sem nánast eiga heima hérna líka.” Hermione flaug um hálsinn á honum þakkaði honum fyrir brosandi út fyrir eyru.
Á annarri hæðinni var svo herbergið hans Siriusar, sem núna var að sjálfsögðu herbergið hans Remusar. Þar voru líka tvær stórar stofur og herbergið sem Ron og Harry voru vanir að hafa. Þar inni hékk eina myndin sem hafði fengið að vera eftir í öllu húsinu. Myndin af Phineas Nigellus. Dumbledore hafði beðið um að hún yrði ekki tekin niður á meðan húsið gengdi hlutverki höfuðstöðva reglunnar. Harry hafði fúslega samþykkt það. Ákveðið var að gefa Percy það herbergi. Nú vantaði bara herbergi handa tvíburunum og Harry var með ákveðnar skoðanir á því málefni. Á jarðhæðinni voru tvö samliggjandi herbergi og fyrir utan þau lá stigi niður í kjallarann. Harry ákvað að gott væri að láta bræðrunum eftir þessi herbergi og gefa þeim leyfi til að útbúa litla vinnustofu í kjallaranum.

Vinirnir gengu nú um og merktu hurðirnar að öllum herbergjunum til að allir vissu hver ætti heima hvar. Þegar þau höfðu lokið því var hópurinn sem hafði farið í Hreysið að koma aftur með allskyns muni sem fjölskyldan vildi halda fast í. Allir skoðuðu sig um og virtust ánægðir með það herbergi sem þeim hafði verið úthlutað. Tvíburarnir voru yfir sig hrifnir af sinni aðstöðu og fannst sérstaklega hugulsamt af Harry að gefa þeim eftir rými til að gera sér vinnuaðstöðu. Molly fékk tár í augun og faðmaði Harry að sér þegar hún frétti að þau hjónin fengju alla efstu hæðina út af fyrir sig.
Sum herbergin voru yfir full af skít og drullu og ljóst var að út úr þeim þyrfti að hreinsa ef einhver ætti að sofa í þeim í nótt. Molly sem var afrekamest í hreinsigöldrum fór í það ásamt fleirum sem kunnu til verka. Hermione sem nú var komin á lögaldur fór með Molly til að læra af henni. Tonks ákvað að hjálpa til við að hreinsa út úr einu af gestaherbergjunum. Það fór þó ekki betur en svo að allt rykið úr herberginu safnaðist saman í stóran bolta sem sprakk svo í allar áttir svo herbergið var engu skárra en það var í upphafi. Eina breytingin var að nú var Tonks sem hafði staðið inni í herberginu öll grá og ógeðlseg. Dumbledore hló við og bauðst til að taka við af henni í hreingerningunum.
Remus hristist allur af hlátri á meðan hann dró vonsvikna, rykuga Tonks á eftir sér í áttina að baðherberginu og bauðst til að spúla hana.

Fljótlega var mesta rykið og drullan á bak og burt. Dumbledore töfraði fram nokkrar málningarfötur, pensla og fleira því um líkt og bauð þeim sem voru undir lögaldri að skella sér í málningarvinnuna. Hermione var orðin þreytt á að æfa sig við rykhreinsigaldra og ákvað að mála með hinum.
“Eigum við ekki að vera tvö og tvö saman?” stakk Harry upp á. “Þá getum við klárað hvert herbergi fyrr.”
Öllum leist vel á það.
“Verum þá stelpa og strákur saman,” stakk Ron upp á. “Við strákarnir náum hærra en stelpurnar svo það þýðir ekkert að setja þær tvær saman,” bætti hann við og glotti.
“Hermione, vilt þú koma með mér og hjálpa mér að mála mitt herbergi fyrst?” Hermione samþykkti það og fór að tína til það sem þau þurftu.
“Og hvaða lit má bjóða þér á herbergið þitt herra Ronald?” spurði Dumbledore hátíðlega og blikkaði hann. Ron þurfti ekki að hugsa sig lengi um.
“Appelsínugult,” svaraði hann ákafur. “Litur Chudley Cannons, maður.” Hann greip andann á lofti, “Haujjj, svo gæti ég gert logoið þeirra með svörtu á einn vegginn.” Hin í kring um hann gátu varla varist hlátri.
“Hvað?” spurði Ron hálf móðgaður á þessum viðbrögðum. Hermione lagði höndina yfir axlir hans og brosti.
”Ekkert, Ron minn,” sagði hún blíðlega og brosti. ”Þú ert bara svo dásamlegur.”
Ron roðnaði upp úr öllu valdi við þessi blíðuhót og vissi ekkert hvernig hann átti að haga sér. Ginny og Harry ákváðu að byrja á að mála herbergi Ginnyar en það átti að vera hvítt og einn veggur smaragðsgrænn. Dumbledore breytti litnum á málningunni eftir því sem þau báðu um og þau létu strax hendur standa fram úr ermum.
Ron og Hermione gengu inn í herbergið hans og hófust handa við að undirbúa herbergið svo þau gætu byrjað. Það tók ekki langann tíma.
”Eigum við að taka sitthvorn vegginn eða taka einn vegg í einu saman?” spurði Hermione.
”Tökum saman einn vegg í einu,“ svaraði Ron. “Ég tek miðjuna og uppúr og þú tekur miðjuna og niðurúr, okei?” spurði hann kátur í bragði.
Hermione samþykkti það og greip pensil og byrjaði.
Ron horfði á hana í dálitla stund á meðan hún málaði vegginn. Hún var með hárið bundi aftur í tagl, klædd í hvítan þröngan stuttermabol sem lyftist örlítið upp í hvert sinn sem hún teygði sig svo að það sást örlítið í naflann. Hún var í stuttu rauðköflóttu pilsi og háum svörtum sokkum sem náðu upp á lærin. Ef hann beygði sig mikið og þóttist vera að ná í málningu þá gat hann næstum séð uppundir pilsið hjá henni. Í því sneri Hermione sér við til að sjá hvað það var sem tefði hann svo mjög.
”Ronald Weasley,” sagði hún í hneykslunartón, en virtist þó ekki vera reið. ”Hvað heldur þú eiginlega að þú sért að gera?” Hún virtist enn ekki reið.
”Bara að njóta útsýnisins,” svaraði hann og reyndi að virka saklaus.
”Jæja,” svaraði Hermione og sveiflaði penslinum sínum í áttina til hans svo að appelsínugul sletta fór beint yfir bringuna á honum.
”Hey!” kallaði Ron upp kíminn og stökk í áttina að henni til að reyna að afvopna hana. Hermione hljóp undan og sletti aftur í áttina til hans sem reyndar fór fram hjá og lenti á veggnum fyrir aftan hann. Ron tók undir sig stökk réðst á hana og kitlaði í síðurnar. Hermione reyndi að berjast á móti en gat ekki staðið í fæturna lengur því hana kitlaði svo óskaplega. Hún lyppaðist á gólfið og Ron á eftir. Hún reyndi allt hvað af tók að kitla til baka og náði stundum yfirhöndinni en fyrr en varði lá hún föst á bakinu og Ron ofan á henni. Hún engdist sundur og saman og baðst vægðar á meðan hann kitlaði hana. Ron stoppaði og horfði á hana liggja, hlæjandi, undir sér. Hún var svo falleg. Hrokkið hárið var farið að losna talsvert úr taglinu eftir allan hamaganginn og örlítil appelsínugul sletta hafði lent í því. Kinnarnar voru rjóðar og augun geisluðu af gleði. Hún var hætt að hlæja. Hún horfði með þessum fallegu augum beint í augun hans. Án þess að hugsa beygði hann sig niður og kyssti hana beint á munninn. Hermione svaraði kossi hans undir eins. Hún færði hendur sínar aftur fyrir háls hans og faldi þær í hári hans. Þau kysstust langa stund eins og hvorugt þeirra vildi láta þessa stund hverfa. Þegar þau loksins slitu kossinum vafði hún höndunum þétt utan um hann og hvíslaði,
“Ég hélt þú ætlaðir aldrei að láta verða af þessu.”

Harry og Ginny voru langt komin með að mála herbergið hennar Ginnyar þegar Harry fór að taka eftir því að hann var orðinn frekar svangur.
“Heldurðu að það fari ekki að koma matur bráðum?” Spurði hann og strauk á sér magann.
Ginny hló að honum.
“Jú eflaust fljótlega. Fred og George eru að elda held ég,” svarði hún. Harry leist nú ekki vel á þá hugmynd. Ginny leit á hann og sprakk úr hlátri.
“Þú treystir þeim ekki mikið í matreiðslunni er það?” spurði hún hlæjandi. Harry varð hálf vandræðalegur og hristi höfuðið.
“Engar áhyggjur,” hughreysti hún hann. “Þeir eru reyndar snillingar í eldhúsinu. Ég held þeir hafi lært eitt og annað af húsálfunum í eldhúsinu á Hogwarts,” sagði hún og brosti.
“Talandi um húsálfana í Hogwarts,” bætti hún við. “Hefurðu eitthvað séð af Dobby í vetur?”
“Já, við Luna kíktum á hann í gærkvöldi,” svaraði Harry. “Fór og gaf honum sokka í jólagjöf,” bætti hann við og glotti.
“Þú og Luna, ha?” sagði Ginny og glotti til hans. Harry fann að hann roðnaði aðeins.
“Já, ég og Luna,” svaraði hann og gat ekki varist því að brosa örlítið.
“Eruð þið búin að vera lengi saman?” spurði Ginny.
“Nei, eiginlega bara síðan í gær,” svaraði Harry vandræðalega.
“En hvernig gengur hjá þér og Dean?” spurði Harry. “Þið virkuðuð nokkuð samrýmd í gær líka,” bætti hann við og glotti.
“Já, hann er alger draumur,” svaraði Ginny og brosti út fyrir eyru.
Þau luku við að mála herbergið og spjölluðu meira saman allan tíman.
“Jæja,” sagði Ginny þegar herbergið var tilbúið. “Eigum við að athuga hvernig gengur hjá Ron og Hermione?”
Þau gengu frá penslunum sínum og kíktu inn í næsta herbergi. Þar lágu Ron og Hermione ennþá í faðmlögum á gólfinu í miðjum kossi.
Enn var ekki búið að mála nema örlítinn hluta af einum vegg.
“Jæja,” sagði Ginny. “Er það svona sem maður málar? Harry við höfum alveg klikkað á því. Við þurfum að prófa þessa aðferð þegar við málum þitt herbergi,” sagði hún og glotti.
Ron og Hermione snar stoppuðu og litu vandræðalega upp.
“Hmm.. já,” svaraði Harry og leit á hana. “Við þurfum að prófa það.”
Í því kölluðu tvíburarnir og tilkynntu að maturinn væri til.

Ginny hafði engu logið. Fred og George virtist margt til lista lagt og þar á meðal matargerð. Þeir höfðu töfrað fram dýrindis steikur, bakaðar kartöflur, þrjár tegundir af salati og þriggja laga súkkulaðitertu í eftirmat. Þeir höfðu greinilega erft eitthvað af matreiðsluhæfileikum móður sinnar.
Þegar matartíminn var búinn kvöddu flestir þeir sem ekki bjuggu í húsinu og þau einu sem sátu eftir voru Weasley fjölskyldan, Harry, Hermione, Remus og Tonks sem hafði þegið gistingu í gestaherberginu við hlið Hermione-herbergisins. Þau sátu öll saman nokkra stund í eldhúsinu og spjölluðu saman. Tonks var að fíflast við að breyta hinum ýmsu útlitseinkennum sem vakti alltaf jafn mikla kátínu. Arthur og Molly sátu saman við endann á eldhúsborðinu og horfðu yfir hópinn. Arthur hallaði sér að Molly og hvíslaði einhverju að henni. Molly hugsaði sig um í örlitla stund og kinkaði svo kolli. Í augum hennar mátti sjá hryggð en jafnframt gleði og þakklæti. Það var skrýtin blanda og í hjarta hennar voru tilfinningar sem einungis móðir getur skilið. Hún horfði yfir hópinn. Hópinn sinn, og brosti.
Arthur stóð upp og gekk fram á gang. Eftir stutta stund kom hann inn aftur með stóru klukkuna sem alltaf hafði staðið í eldhúsinu á heimili þeirra. Hann stillti klukkunni upp við auðan vegg í eldhúsinu. Á klukkunni voru níu vísar. Á vísunum voru nöfn fjölskyldumeðlima og vísarnir bentu á hvar hægt væri að finna viðkomandi. Nú voru 7 vísar á “heima”, vísirinn sem merktur var Bill var á “á ferðalagi” og vísirinn sem merktur var Charlie var ennþá á “í lífshættu”. Allir hættu undir eins að fíflast og Tonks fékk sér strax sitt rétta útlit, eða það útlit sem hún var vönust að nota. Arthur opnaði klukkuna og tók úr henni vísinn sem merktur var Charlie. Hann rétti Molly vísinn og hún tók hljóðlaust við honum og hélt þétt upp að sér. Hann tók svo fram tvo nýja vísa og settist með þá við matarborðið. Hann tók fram fjaðurstaf og skrifaði á þá. Á annan skrifaði hann Harry og á hinn Remus. Hann leit upp.
“Aðstæðurnar hafa fært okkur saman og við verðum vonandi saman um langan tíma,” tók hann til máls. “Þó við séum ekki bundin blóðböndum þá erum við ein stór fjölskylda. Harry, ég vil þakka þér fyrir að bjóða okkur velkomin í húsið þitt. Þú hefur lengi vel verið fjölskylduvinur en nú ertu það ekki lengur heldur hluti af fjölskyldunni. Remus, þú líka. Þú hefur líka verið góður vinur, þó að við höfum ekki þekkt þig eins lengi og Harry, þá hefur þú sýnt það á mjög áþreifanlegan hátt að þú ert maður orða þinna og maður sem hægt er að treysta á. Stuðningur þinn frá því í haust hefur verið ómetanlegur í persónulegum lífum okkar, við störf í reglunni og ekki síst í ráðuneytinu.
Þessi fjölskylda á sína galla eins og allar fjölskyldur en þessi fjölskylda stendur saman í gegn um súrt og sætt. Eigi einhver í vandræðum eru hinir alltaf til staðar til að rétta hjálparhönd. Þið hafið báðir þurft að bera ykkar byrgðar einir og óstuddir allt of lengi. Leyfið okkur nú að bera þær með ykkur. Munið að þið getið treyst á okkur, rétt eins og við getum treyst á ykkur.”
Harry fannst hann varla geta dregið andann. Það var eins og stór kökkur sæti fastur í hálsinum á honum og neitaði að hreyfast. Hann átti fjölskyldu! Hann átti stóra og dásamlega fjölskyldu sem enginn fengi að taka af honum og þetta var ekki bara einhver fjölskylda. Þetta var fjölskyldan sem hann hafði dreymt um að eiga allt frá því að hann hitti þau fyrst. Hann leit á Remus sem sat hinumegin við borðið og sá að hann var orðinn rauðeygður og var í flýti að þurrka sér um augun. Molly brosti til þeirra beggja.
“Velkomnir í fjölskylduna strákar mínir,” sagði hún og frá henni stafaði hlýja sem eingöngu getur komið frá móður.