A.t.h. Kjóllinn hennar Feneccu er breyttur. Ég uppgvötaði allt í einu að mamma hennar er SPÆNSK og að það er til sérstök gerð af spænskum kjólum. Ég get ekki lýst þeim, en þeir eru eins og kjólarnir sem spænsku söngvararnir voru í í Eurovision og líka í pólska laginu. Neðst í kaflanum eru myndir af ýmsum spænskum kjólum svo þið fáið hugmynd um hvernig þeir eru.

16.kafli – Dansi, dansi dúkkan mín…

Eftir mjög fjörugt snjóstríð þurfti meirhlutinn af stelpunum að fara inn að gera sig tilbúnar.
“Þið látið á ykkur varalit og klæðið ykkur. Búið! Til hvers þurfið þið tvo tíma?” kallaði James á eftir þeim.
“Því að ólíkt þér, þá þurfum við að greiða okkur líka!” kallaði Lily.
“Lily, hvað segirðu um að við söfnum fyrir greiðu fyrir hann? Í jóla- eða afmælisgjöf kannski,” sagði Jackie glottandi.
“Mjög stóra og sterka til að hún brotni ekki ef hann reynir að greiða sér með henni,” svaraði Lily. Fenecca sá að afgangurinn af stelpunum ranghvolfdi í sér augunum.

Sirius, Remus, James og Peter sátu rólegir og horfðu yfir skólalóðina. Þeir sátu á þakinu fyrir ofan stelpnaálmuna og hlustuðu á þær flissa og tala. Þegar…
“AAAAAAAAA!” Þeir urðu stjarfir og horfðu í kringum sig, en skyndilega heyrðist líka…
“LILLIAN, VILTU PASSA ÞIG! ÉG ER HÁRSÁR!” kom eftir á. Strákarnir stundu fegnir. Þetta hafði bara verið Fenecca að öskra. Flestir í skólanum vissu núna að hún væri hársár.
“Ég passa mig eins og ég get! Það er ekki mín sök að ef maður rétt svo kemur við hárið á þér þá ferðu að öskra!” svaraði Lily snúðugt.
“Ég sagði þér það; ég er hársár.”
“Af hverju klippirðu hárið ekki bara af?”
“Af því.”
“Af því hvað?”
“Af því bara!”
“Trúi þér ekki.”
“Og?”
“Til hvers ertu með sítt hár ef þú ert hársár og nennir ekki að gera einn einasta andskota við það!” heyrðist í Jackie.
“Mamma heimtar að ég hafi það sítt! Allt í lagi?”
“Mömmustelpa, mömmustelpa…”
“Stelpur, þið eigið eftir að sjá eftir þessu.”
“Lítil og þæg mömmustelpa!”
“Þú vilt virkilega að ég kasti bölvun á þig, er það ekki?”
“…. sem gerir allt fyrir hana og…”

Það var bankað. Stelpurnar litu upp og sáu Sirius Black á hvolfi fyrir utan gluggann hjá þeim.
“Hvað þykist þú vera að GERA?!?!” skrækti Lily og þaut að glugganum. Sirius kippti upp höfðinu þegar hún opnaði gluggann.
“Ég? Fylgjast með skemmtilegu samræðunum ykkar. Núna veit ég af hverju stelpur eru alltaf svona lengi að gera sig tilbúnar, þið eyðið meirihlutanum í tal,” sagði hann glottandi.
“Burt með þig! Ég læt McGonagall vita!” sagði Lily reiðilega. Sirius glotti meira og hristi höfuðið.
“Við yrðum farnir þegar hún kæmi til baka.”
“VIÐ?!?!” skrækti Lily, en um leið og Sirius hafði sleppt orðinu höfðu hinir strákarnir skotist í burtu. Og áður en Lily tókst að grípa í Sirius hafði hann líka farið í burtu.
“Fjandinn hafi þá. Ég er viss um að þeir hafi allir verið þarna… allir fjórir!” urraði hún og labbaði til baka. Fenecca stundi og leit í spegilinn. Hárið á henni var… út um allt.
“Stelpur… af hverju má ég ekki bara hafa þetta einfalt? Fáeinar fléttur hér og þar og síðan bara blóm! Búið mál,” sagði hún. Mamma hennar vildi endilega að hún hefði sítt hár og náttúrulega hafði hún, Fenecca Crock hinn alhliða engill, samþykkt það. Hún var farin að sjá eftir því núna!
“En það er svo.. svo…” stamaði Jackie.
“Einfalt?” botnaði Fenecca.
“Akkúrat!” sagði Jackie og horfði á Feneccu. Hún var vonlaust tilfelli þegar það kom að hári.
“Stelpur! Hættið þessu! Það er bara klukkutími þangað til við eigum að vera komnar!” hrópaði Díana og leit á klukkuna sína. Eftir þetta héldu þær áfram að reyna koma einhverju í hárið á Feneccu í hljóði.

Allir strákarnir sem höfðu orðið eftir yfir jólafríið sátu og biðu í setustofunni eftir dansfélögum sínum. Sumir voru farnir að ná í dansfélaga úr öðrum heimavistum. Flestar stelpurnar frá sama ári komu allar niður í einu og stelpurnar frá 6.ári voru enn uppi.
“Já, Vígtönn, með hverjum ferð þú eiginlega?” spurði Sirius til að hafa eitthvað að gera.
“Leyndarmál,” svaraði varúlfurinn og brosti vandræðalega.
“Eruð þið búnir að komast að því með hverjum Lily fer?” sagði James og leit snöggt upp. Strákarnir hristu höfuðið.
“Fjandinn…” muldraði James og horfði löngunaraugum á stigann. Hann færi með Emily, 7.árs nema í Gryffindor. Sem var náttúrulega frábært því að mati allra var hún meðal sætustu stelpnanna í þeim árgangi en hann væri ánægðari að fara með Lily. Hún var svo… öðruvísi.
“Öh… þær eru komnar…” stundi Sirius og starði upp. Hinir litu líka upp. Þær stóðu þarna allar fimm; Fenecca, Jackie, Lily, Díana og Fiona. Fenecca hafði ákveðið að halda sig við þjóðleg áhrif og var í skikkju sem minnti helst á spænskan kjól… þröngur í mittið, með langt og vítt pils, víðar ermar og með eitthvað sem helst minnti á sjal utan um pilsið og hún bar hálsmenið sem hann hafði gefið henni um morguninn. Svo virtist sem hún hafði fengið að hafa hárið sitt sett einfaldlega upp, hún var með eitt gult og hvítt blóm í því og tvær fléttur sem sameinuðust í hnakkanum. Sirius kyngdi munnvatni og starði áfram.
“Vá,” stundi hann að lokum upp þegar Fenecca var komin alveg að honum. Hún brosti prakkaralega til hans og sneri sér svo í hring.
“Hvernig finnst þér?” spurði hún. Hann gat ekki komist hjá því að taka eftir glitrandi vörunum á henni þegar hún talaði.
“Fr-frábært!” stamaði hann. Fenecca glotti og sendi honum dillandi augnaráð.
“Sirius… þú ert farinn að slefa. Passaðu þig,” hvíslaði hún alveg upp við eyrað á honum.
“ÞETTA var bannað!” urraði hann og ætlaði að kyssa hana en hún tók nokkur skref aftur á bak.
“Neibb Siri litli. Kemur ekki til grænna greina,” sagði hún og glotti jafnvel ennþá meira.
“Þú ert illgjörn. Þú ert MJÖG illgjörn,” muldraði Sirius fúll.
“Jæja, Lily. Með hverjum ferðu á ballið?” spurði Fenecca og gekk til Lilyar. Í staðinn fyrir að svara gekk hún í burtu og endaði við hliðina á… Remusi?
“Remusi Lupin?” hrópaði James.
“Jebb,” svaraði Lily brosandi.
“Svikari…” muldraði James og horfði illilega á Remus. Hann yppti bara öxlum og horfði afsakandi á James.
“Hún spurði…” muldraði hann afsakandi. Lily brosti bara.
“Eigum við að fara?” spurði hún brosandi og tók í höndina á honum. Sirius fór til Feneccu.
“NÚNA er hann pirraður,” hvíslaði hann brosandi.
“Jebb. Eigum við líka að koma?”

Þegar Fenecca og Sirius komu inn í salinn gerðu þau það sama og allir aðrir: göptu. Hann var stórkostlegur! Um allan salinn var mistilteinn fljótandi um loftið, tólf risastór jólatré sem voru að falla af öllu skrautinu og gólfið var galdrað til að vera eins og snjór og svell. Á sumum borðunum voru grýlukerti sem voru göldruð til að bráðna ekki og alls staðar eldrauð kerti. Það var varla hægt að lýsa þessu með orðum!
“Dumbledore gamli kann þetta ennþá,” sagði Sirius agndofa og horfði upp í loftið. Stjörnur blikuðu glaðlega þar og það var hægt að sjá daufa skímu tunglsins.
“Ójá,” hvíslaði Fenecca og gekk af stað án þess að vera viss um hvert hún væri að fara.
“Hei, þarna eru Remus, Lily, Jackie og… hver er þetta?” sagði Sirius og hnippti í Feneccu. Hún leit við og sá Jackie sitja við hliðina á strák með brúnt hár og fallega blá augu.
“Ég held að þetta sé Edward Lexar. Hann er úr Quidditch-liði Ravenclaws minnir mig,” útskýrði Fenecca.
“Jú. Hann er í Quidditch-liðinu. Hvað er Jackie að gera með gaur eins og honum? Hann hefur engan húmor!” sagði Sirius og horfði á Jackie eins og hún væri með fjórar hendur upp úr hausnum.
“Hann er sætur. Þessvegna er hún með honum,” svaraði Fenecca.
“Sætari en ég?” spurði Sirius og laumaði annari hendinni utan um axlirnar á henni.
“Viltu virkilega að ég svari þessu?”
“Hei, komið hingað!” kallaði Lily áður en Siriusi tókst að svara. Fenecca glotti til hans og settist svo við hliðina á Lily.
“Remus, þú gerir þér grein fyrir því að James á eftir að láta þig deyja hægum og kvalafullum dauða eftir þetta kvöld?” sagði Sirius kæruleysislega yfir axlirnar á Feneccu og Lily.
“Lily myndi stoppa hann. Hann myndi örugglega ekki þora að gera einn einasta hlut ef hún vildi það ekki,” sagði Remus og brosti aðeins.
“Ég vildi óska þess…” muldraði Lily. Eftir nokkrar mínútur var James kominn með hina “engilfríðu” Emily Usher (hún var alltaf kölluð “engilfríð” því hún leit út eins og engill, fyrir utan vængina og geislabauginn) og Dumbledore stóð upp. Hann var klæddur í fjólubláa skikkju sem var alsett einhverju sem helst minnti á snjókorn. Við hliðina á honum sat McGonagall, öll í eldrauðu fyrir utan hattinn hennar sem var með gylltu í.
“Verið velkomin!” sagði Dumbledore glaðlega, eins og alltaf. “Ég sjálfur er að deyja úr hungri og ætla því að flýta mér með það sem ég ætla að segja. Það eru matseðlar við hvert borð og til að fá eitthvað að borða skoðið þið bara matseðilinn og segið ofan í diskinn hvað þið viljið fá. Það sama gildir um drykki. Eftir matinn mun svo ballið sjálft byrja. Verði ykkur að góðu!” Allur salurinn klappaði og greip í matseðlana á borðinu.
“Ég er SVO feginn að Dumbledore sé skólastjóri. Þegar ég var á fyrsta ári var Armando Dippet ennþá skólastjóri og ræðurnar sem hann hélt… brrr… þær voru hryllilega langar! Allir voru orðnir soltnir þegar hann var loksins búinn að tala,” sagði Emily og renndi augunum yfir matseðilinn.
“Ég gæti aldrei setið lengi við matarborð og hlustað á gamlann karl tala,” sagði Remus og pantaði kjúklingabringu.
“Þú ert líka botnlaus þegar það kemur að mat! Reyndar þið allir!” sagði Fenecca og hallaði sér áfram til að sjá Remus. Það var alveg satt, hann, Sirius, James og Peter gátu borðað botnlaust og sá eini sem sást eitthvað á var Peter. Hinir þrír voru alltaf jafn mjóir, vöðvamiklir, fallegir, æsandi… ‘Fenecca, þú ert að borða! Hættu þessum perralegu hugsunum þínum!’

Maturinn leið fljótt og fyrr en varði var búið að ýta öllum borðunum út við vegg og Dumbledore og McGonagall og nemendaformennirnir settu dansinn. Það var einstaklega fyndið að sjá Dumbledore svífa léttilega um dansgólfið meðan McGonagall fór stíf um. Synd að þau voru ekki með myndavélar.
“Má bjóða frökeninni upp í dans?” spurði Sirius og hneigði sig fyrir framan Feneccu. Hún brosti og tók í höndina á honum.
“Auðvitað herra minn,” sagði hún og reyndi að hljóma alvarlega. Smám saman fóru fleiri að dansa og eftir nokkrar mínútur var dansgólfið fullt af fólki. Það undarlega var að það var enn eftir pláss fyrir í það minnsta 50 manns í viðbót.
“Geta þau ekki farið að spila eitthvað fjörlegt,” muldraði Fenecca fúl. Hún hataði rólegog væmin lög sem var bara hægt að dansa vals við!
“Fenecca! Ekki segja þetta! Vangadans er einhver besta ástæða fyrir strák til þess að vera með hendurnar á rassinum á stelpu!” sagði Sirius og brosti sakleysislega.
“Láttu þig dreyma,” urraði Fenecca. Eftir fimm lög í viðbót voru fæturnir á Feneccu farnir að kvarta svo hún ákvað að setjast við hliðina á Remusi.
“Hvar er Lily?”
“James fékk hana til að dansa við sig. Ég bíð eftir því að hún lemji hann,” svaraði Remus og fékk sér sopa af einhverju.
“Þú meinar…” Þau þögðu í smá stund þangað til Remus spurði:
“Gaf Sirius þér ekki þetta hálsmen í morgun sem jólagjöf?”
“Jú. Veistu hvar hann fékk það?”
“Neibb. En… ég ætla að leita að Lily. Athuga hvort hún hafi nokkuð drepið James…” sagði Remus glottandi og stóð upp. Fenecca kinkaði kolli og horfði á eftir honum.

Frá sjónarhorni Remusar Lupins, í þriðju persónu.

Hann leit í kringum sig. Hvar var hún? Ah, þau voru enn að dansa. Og Lily virtist ekki einu sinni vera pirruð! Þarna var Sirius… hann yrði að spyrja hann að einu núna.
“Hei, Þófi,” sagði hann og potaði í öxlina á Siriusi.
“Blessður Remmy. Rine, hittu Remus Lupin, gáfaðasta vin sem ég á. Remmy, hittu Katherine Fork, vinkonu mína,” sagði Sirius brosandi.
“Sæl Katherine. Sirius, hvar keyptirðu hálsmenið hennar Feneccu?” Sirius roðnaði aðeins og labbði í burtu með Remusi.
“Ah… hérna, ætlarðu nokkuð að segja henni?” spurði hann vandræðalega.
“Af hverju ætti ég að gera það? Er einhver ástæða til þess?” spurði Remus.
“Neinei… ég hitti bara Mundungus Fletcher í Hogmeade og hérna… keypti hálsmenið af honum… en varningurinn sem hann er með er ótrúlega oft ekta! Í alvöru!” sagði Sirius hratt.
“Svo þú keyptir hálsmen handa kærustunni þinni af þjófi?”
“Nei. Bara af manni með ýmis sambönd. Af hverju varstu að pæla í þessu annars?” Remus leit í kringum sig.
“Mér líkar ekki við þetta hálsmen. Það gætu verið einhverjir galdrar á því. Það… ég er bara ekki viss, en í hvert sinn sem ég er nálægt Feneccu eða horfi á hálsmenið þá fæ ég einhverja tilfinningu um að það eigi eftir að koma með ekkert nema ógæfu. Bara hugboð, en… maður veit aldrei,” sagði Remus lágt. Sirius kinkaði kolli.
“Kannski. Mér finnst… uhm… ég er samt viss um að þetta er bara ímyndun í þér. Fullt tungl á næstunni, svo það er þinn tími mánaðarins,” sagði Sirius og brosti.
“Jájá. Ég er sennilega bara að verða gamall.”

“Þetta er skítlétt! Reynið þetta!” hrópaði Boris sem stóð í miðjum hring. Hann hafði verið að kynna þeim kósakkadans og var að reyna fá nokkra krakka til að dansa. Gekk reyndar hrikalega illa, en það var alltaf gaman að reyna.
“Þetta er ekki hægt!” stundi Max Jordan sem sat á gólfinu og hristi hausinn.
“Hvað var ég þá að gera, Jordan?” spurði Boris og togaði hann upp á annari hendinni.
“Uh… galdrar?”
“Jájá. Reynum eitthvað einfaldara! Írskur þjóðdans!” hrópaði Boris aftur og fór að taka einhver hrikalega flókin spor með hendurnar þétt að síðunum.
“Evans og O’Neil, þið hljótið að vera írsk. Reynið,” sagði hann og greip í Lily Evans og einn strák sem voru í kringum hann. Lily hristi hföuðið og flýtti sér aftur inn í hópinn en strákurinn varð eftir.
“Hvað á ég að gera?” spurði hann. Boris glotti.
“Bara svona,” sagði hann kæruleysislega og tók nokkur spor. Írskur þjóðdans var eitt af því flóknasta sem til var! Ungversku og úkraínsku dansarnir voru að vísu líka ansi flóknir…
“Ah! Ég veit! Crock, komdu þér hingað! Sannaðu ætt þína og dansaðu flamengó,” sagði hann skyndilega og benti Feneccu á að koma. Hún starði á hann.
“Ég?” stundi hún.
“Já! Fenecca, þú kannt þennan flalengó-dans, varstu ekki að læra hann í heilt sumar einhverntíma?” sagði Jackie og ýtti henni áfram.
“Jacquline Toqué, ég drep þig fyrir þetta!” sagði Fenecca þegar hún var komin inn í hringinn.
“Af hverju eru allir með dauðahótanir til mín í dag?” muldraði Jackie hugsandi. Boris greip Feneccu og togaði hana í miðjuna.
“Þú varst einmitt að segja mér frá Rozölbu Croxcok í dag, hinni spænsku senjórítu. Og eins og allar senjórítur á hún að kunna flamengó og þar sem þú ert hálf-senjóríta átt þú að einhverju leiti að kunna flamengó,” sagði Boris brosandi. Fenecca beit í neðri vörina á sér.
“Bara… hérna?” spurðu hún.
“Jabb. Heyrðu, bíddu aðeins… það vantar rétta tónlist…” sagði Boris og tók upp sprotann sinn og veifaði honum aðeins. Um leið breyttist tónlistin í eitthvað hratt banjó-eitthvað. Fullkomið fyrir flamengó. Fenecca brosti. Kannski yrði þetta ekki svo slæmt… hún fór af stað. Eftir nokkur spor lokaði hún augunum til að fá betri einbeitingu. Tveir hringir, þrír hringir, fimm hringir, sjö hringir… paff! Niður með annan fótinn og hendurnar á mjaðmirnar! Eftir að hafa dansað svona í áreiðanlega þrjár mínútur stoppaði hún og tónlistin. Það var þögn í smá stund, síðan…
“Jahú!”
“Frábært hjá þér Fenecca!”
“Vá….”
“Góð stelpa!” Hún brosti og hneigði sig svo aðeins.
“Ég ætla að fá mér að drekka,” stundi hún upp.
———————–
Spænskur kjóll
Og hér
Og svo hér