Hér er næsti kapítuli, ég veit ég sagðist ætla senda inn fyrr en ég er greinilega of óútreiknanleg fyrir sjálfa mig. Treystið engu sem höfundur segir um þessa sögu.

Fimmtándi kapítuli

Skytturnar þrjár verða fjórar


Harry og Hermione sátu við borð í setustofunni og voru að glósa kafla í Válegar verur og varnir gegn þeim, sem fröken Norm hafði sett fyrir. Ron hafði verið eirðarlaus og sagðist ætla að fara að æfa sig í gæslunni en gleymdi svo Quidditchbúningnum sínum uppi í herbergi. Andlitið, sem hann hafði séð í glugganum sem sjöundaársneminn Bobby Drake hafði óvart fryst og glætt lífi, kallaði „Hún vill þig ekki, aumingi!“ á eftir honum. Einhver kastaði strokleðri í gluggann og blótaði honum í sand og ösku.
Stuttu eftir að Ron var farinn lagði Hermione fjaðurstafinn frá sér og ýtti hárinu hugsi á bak við eyrun.
„Heldurðu að Ron ætti nokkuð að vera úti?“ sagði hún upp úr þurru, „Það er farið að kólna á kvöldin og hann var eitthvað svo slapplegur. Fannst þér ekki?“
„Ja, hann var utangátta, ef það er það sem þú átt við,“ svaraði Harry og hætti að lesa.
„Ekki bara það,“ vildi Hermione meina, „Hann borðaði líka jafn mikið og ég núna áðan. Ron, Harry! Ron sem borðar á við tígrisdýr!“
Harry hnyklaði brýnnar og hugsaði sig um.
„Hann var samt ekkert slappur. Hann fór að æfa sig í Quidditch og hann veit að hann má ekki ofreyna sig ef hann er lasinn. Þá gæti hann orðið í alvörunni veikur og þá værum við einum manni of fá í liðinu þegar við keppum á móti Ravenclaw.“
Hann glósaði annars hugar tvö orð og Hermione iðaði sér órólega í stólnum.
„Það er samt ekki bara það,“ sagði hún svo, „Ginny var að segja mér að hann er búinn að vera eitthvað undarlega lasinn í sumar. Hann verður allt í einu voðalega slappur og þreyttur, algerlega upp úr þurru, og sefur svo kannski hálfan daginn. Í sumarfríinu vaknaði hann þrisvar sinnum lasinn um morgunn en í hvert sinn var hann orðinn hress um hádegið.“
Þetta náði athygli Harrys.
„Eins og í tímanum um daginn!“
„Akkúrat. En það er meir. Ginny sagðist ekki hefðu tekið neitt eftir þessu ef það hefði ekki verið fyrir það að hún heyrði Arthúr og Molly tala um það að örin eftir heilana í Ráðuneytinu virtust þrútna þegar hann væri svona slappur. Spurningin væri bara hvort það væri vegna þess að hann væri með hita, eða vegna þess að það væru örin sem gerðu hann svona slappan!“
Nú var Harry búinn að gleyma glósunum. Glugginn þrumaði að harður vetur væri í nánd yfir alla setustofuna svo að það heyrðist varla í Harry þegar hann svaraði.
„Heldurðu að það gæti verið?“ en sem betur fer heyrði Hermione í honum.
„Ég veit það ekki. Ég hefði haldið að þeir hefðu meiri áhrif á heilann í honum og geðheilsuna heldur en líkamlega heilsu. Ég meina, þú manst hvernig hann var eftir þá? Han var alveg snartjúllaður. Ekki það að ég hafi orðið vitni að því, en svo er mér sagt.“
Harry hafði ekki minnstu hugmynd um hvernig geðveiki lýsti sér, hvað þá ef hún var af yfirnáttúrulegum völdum.
„En Ginny sagði samt að það væri alltaf í lagi með hann á endanum. Hann hefur aldrei orðið neitt alvarlega veikur, er það nokkuð?“ spurði hann.
„Ja,“ byrjaði Hermione hikandi, „hún sagði að daginn sem við fengum Hogwartsbréfið hafi þau ætlað beint á Skástræti til þess að vera fyrst. - Þú manst hvað það kom seint, það var ekki nema rökrétt að ætla strax af stað að kaupa bækurnar til þess að vera á undan örtröðinni. – Nema hvað, Ron var veikur þegar hann vaknaði. Komst ekki framúr og sofnaði strax aftur. Og í þetta sinn vaknaði hann ekki fyrr en seint um síðir, ennþá slappur og sloj. Það var eina skiptið sem hann var veikur í heilan dag.“
„Í staðinn, þá hitti hann okkur,“ bætti Harry við og Hermione brosti veiklulega við þessu.
„Já, alltaf að líta á björtu hliðarnar, ha? En ég ætlaði bara að segja þér að ég hef áhyggjur af honum. Eða ekki áhyggjur, meira bara svona við ættum að fylgjast með honum, finnst þér ekki? Og svo fannst mér að þú ættir að vita þetta um besta vin þinn, þótt hann viti það ekki sjálfur.“
„Ha? Veit hann ekki að hann er lasinn?“
„Nei, Harry,“ stundi Hermione, „Hann er bara ekki búinn að tengja á milli slappleikans og öranna svo hann hefur engar áhyggjur. Hann er örugglega ekki einu sinni búinn að átta sig á að hann er búinn að vera meira slappur en venjulega þetta sumar. Ginny gerði það ekki fyrr en hún heyrði á tal foreldra sinna.“
„Ó,“ svaraði Harry.
Hermione fór að ganga frá dótinu sínu.
„Líklega er ekkert að en það er betra að hafa augun opin.“
Harry nagaði oddinn á fjaðurstafnum sínum þar til hann áttaði sig á að nú gæti hann ekki skrifað með honum lengur.
„Já, það er líklega rétt,“ sagði hann og fór svo að dæmi Hermione.

Seinna um kvöldið kom Ron valsandi inn í setustofuna við það að springa af gleði og rak augun í Drake, sem stóð við gluggann og var að reyna að tala við hann um hvað hafi farið úrskeiðis í persónugerfingarálögunum.
„Það er harðæri í nánd,“ sagði andlitið á glugganum dómsdagsröddu og þeir sem til heyrðu sendu honum og skapara hans illt augnaráð. Þetta var uppáhalds spáin hans og
Greyið Drake leit út fyrir að vilja sökkva ofan í jörðina af skömm. Ron lét þó þetta veðurblaður eins og vind um eyru þjóta og leitaði Harry og Hermione uppi. Hann hafði nefnilega fréttir að færa. Hann fann þau á sínum stað, þar sem þau sátu við lestur, Harry í Quidditch blaði og Hermione einhverri hroðalega þykkri bók. Viðbrögðin voru þó ekki þau sem hann hafði vonast eftir.
„Ha?“ hváði Hermione þegar hún hafði heyrt hvað hann hafði að segja og leit upp úr skræðunni, „Ert þú byrjaður með Laufeyju?“ Hún gat ekki leynt undrunarsvipnum og Ron leit á hana í vörn.
„Já, hefur þú eitthvað við það að athuga?“
„En… ég hélt…“ stamaði hún.
„Hvað hélstu?“ spurði Ron og leist ekki á blikuna. Hermione hristi af sér áfallið.
„Ekkert,“ sagði hún, „Ekkert,“ og leit svo aftur ofan í doðrantinn, hún virtist ekki vilja missa fleira út úr sér.
Ron horfði á hana. Hvað hafði hún ætlað að segja? Stuttu seinna leit hún þó aftur upp stríðnisleg á svip.
„Ron,“ sagði hún, „Ég meina það; hvað er málið með þig og ljóshærðar stelpur?“
Ron fann hvernig hann roðnaði. Hann opnaði munninn og tókst að hreyta út úr sér sama svari og í Grínbúð Weasleybræðra:
„Æ þegiðu Hermione!“
Harry og Hermione flissuðu bæði en Ron fór hjá sér og hlammaði sér niður í stól.
Við erum byrjuð saman, hugsaði hann, við erum saman! Harry gekk að honum og óskaði honum til hamingju þar sem hann sat klesstur í hægindastólnum.
„Þetta eru frábærar fréttir félagi.“
Ron brosti vandræðalega á móti, hann fór enn hjá sér.
„Hvernig gerðist þetta? Ég hafði ekki hugmynd um að ykkur félli svona vel saman,“ sagði vinur hans brosandi og eitthvert muldur heyrðist frá Hermione sem hljómaði líkt og þú tekur nú aldrei eftir neinu svoleiðis.
Ron yppti öxlum.
„Bara, við erum búin að hittast soldið núna síðustu daga og svona. En nú skulum við klára þessa ritgerð fyrir Spíru prófessor,“ sagði hann og dreif síg í að draga pergamentrúllu og bækur fram til þess að skipta um umræðuefni.
Þau hin tóku nú samt eftir því að hann brosti æði mikið við gerð þessarrar ritgerðar og skrifaði ekki mikið.

„Hvað kallast aftur rótin sem er í mannsmynd?“ spurði Harry og klóraði sér í kollinum.
Það var orðið áliðið og strákarnir voru við það að klára ritgerðina (Hermione var auðvitað löngu búin og var að lesa yfir hjá sér í þriðja sinn) þegar small við flass sem lýsti allt upp.
„Harry og félagar læra alltaf heima,“ sagði Colin Creevey í þann mund sem hann dró galdra pólaroídmynd úr myndavélinni sinni. „Fyrir skólablaðið!“ tilkynnti hann og snéri sér að næsta fórnarlambi.
„Er skólablað í Hogw… ÁI!“ gall í Harry og hann skellti lófanum á ennið á sér. „Á, mig svíður!“
„Harry? Er allt í lagi? Hvað er að gerast? Hvort er hann reiður eða glaður núna?“ bunaði Ron út úr sér og hann og Hermione hölluðu sér ósjálfrátt fram.
Harry fann þessa kunnuglegu tilfinningu að fylgjast með sjálfum sér tala, segja frá einhverju sem hann vissi ekki að hann vissi.
„Voldemort varð fyrir vonbrigðum, áætlunin gekk ekki eins og hún átti að gera en það gerðist eitthvað annað í staðinn, ekki eins gott en alls ekki slæmt. …fyrir hann. Hann er sáttur við breytinguna,“ sagði hann og nuddaði ennið með þvölum lófanum.
Þau þögðu um stund til þess að melta þessar upplýsingar og nokkrir háværir nemendur skvöldruðu og buðu góða nótt þegar þeir gengu fram hjá.
„Þetta verður æ nákvæmara hjá þér,“ sagði Hermione loks varlega og Harry gat ekki annað en velt því fyrir sér hvort að hann myndi á endanum geta lesið hugsanir Voldemorts.
Hann kyngdi. Á endanum, hugsaði hann, hvernig ætli endirinn verði? Hvor okkar mun…?
„Ættum við ekki að segja Dumbledore frá þessu?“ spurði Ron og ók sér í stólnum.
„Við getum gert það en þetta voru nú ekki neinar beinar upplýsingar,“ svaraði Hermione, „Það gæti verið ágætt að láta hann vita… en vita hvað?“
Harry yppti öxlum, sviðinn í örinu var horfinn og hann vildi fara að klára þessa ritgerð.
„Ég veit ekki meir en það sem ég sagði. Við getum sosem sagt honum að eitthvað hafi gerst og hvernig Voldemort líður. Kannski veit Dumbledore hver áætlunin var og kannski var það Reglan sem að hindraði það að honum tækist að hrinda henni í framkvæmd og þá þætti honum gott að vita af því að Voldemort sé með varaáætlun. Sem að virðist hafa gengið nokkurnveginn upp.“
Hermione kinkaði kolli.
„Þú hefur rétt fyrir þér Harry,“ sagði hún og tók upp autt pergament og skriffjöður, „Ég sendi honum stutt skeyti. Á dulmáli þótt það sé stutt að fara,“ og svo tók hún við að skrifa, sem tók örskotsstund.
Á meðan leit Harry á gluggann með frostrósunum, þær voru enn ekki farnar og virtust ekkert ætla að hverfa í bráð og allt í einu fékk hann það óþægilega á tilfinninguna að glugginn væri að horfa á hann á móti.
„Barátta upp á líf og dauða.“
Harry hrökk við, nú var það greinilegt að gluggin var að horfa á hann; hann gat greinilega séð andlit í frostrósunum sem starði á hann.
„Hermione!“ vældi hann, „Getur þú ekki losað okkur við þennan glugga sem fyrst? Hann er álíka skemmtilegur og Trelawney!“
Hermione leit í áttina að hávaxna sjöundaársnemanum og hún hristi höfuðið. Persónugerfingarálögin höfðu mistekist það hrapalega hjá Drake, að það var engin leið að aflétta þeim og á meðan sátu Gryffindornemar uppi með gluggan kuldalega, öllum til mikils ama.

* * *

Gryffindor hafði unnið Ravenclaw í fyrstu keppni vetrarins í Quidditch. Fögnuðurinn var að vonum mikill í setustofunni og seint farið að sofa það föstudagskvöld en það leiddi til þess að margir áttu erfitt með að vakna daginn eftir. Harry hafði þó ekki átt í neinum vandræðum, þetta var dagurinn sem hann myndi hitta Síríus aftur og hann var vaknaður rétt upp úr átta, þótt að þau myndu ekki leggja af stað til Hogsmeade fyrr en um ellefu leitið. Nú stóð hann ásamt Ron og Hermione neðst í tröppunum í forsal skólans og stappaði óþolinmóður niður fætinum, þar sem hann leit til skiptis á úrið og innganginn að Slytherinálmunni.
„Hvar er hún?“ spurði hann óþolinmóður, hann vildi komast sem fyrst af stað og gat ekki beðið.
„Slappaðu af maður!“ sagði Ron, „Vagnarnir leggja ekki af stað fyrr en eftir korter!“
Harry gaf bara frá sér eitthvert hnusshljóð og svaraði ekki.
Hermione ranghvolfdi í sér augunum; ferðin byrjaði ekki vel. Þau fylgdust með Slytherinnemum tínast upp úr dýflissunni en Laufey lét bíða eftir sér. Hins vegar hlaut að koma að því að Draco Malfoy birtist ásamt fylgdarliði sínu, Crabbe, Goyle, Millicent Bullstrode og annarri stelpu sem Harry kannaðist ekki við. Draco rak augun í þau og sendi Hermione þvílíkt kuldalegt augnaráð. Hann hafði greinilega ekki fyrirgefið henni kúluna sem hann fékk á höfuðið eftir dagbókina. Harry glotti við minninguna, hún hafði verið stór og fjólublá. Hermione sendi honum svipað augnaráð til baka og lét ekki slá sig útaf laginu. En þegar Draco leit svo á Harry og Ron, sendi hann þeim báðum ísmeygilegt glott áður hann lét sig hverfa orðalaust inn í þvöguna ásamt lífvörðunum og grúpppíum.
„Hvað var nú þetta?“ spurði Harry og leist ekki á blikuna.
Honum gafst þó ekki tóm til þess að íhuga það nánar, því að í þann mund birtist Laufey og Ron hrópaði upp yfir sig. Hann hljóp skælbrosandi til hennar og faðmaði hana að sér. Harry og Hermione fylgdust brosandi með því þegar þau roðnuðu svo og litu í vandræðalega kring um sig og á þau. Þau brostu til þeirra og fengu sólskinsbros á móti. Nýja parið leit af þeim, horfðist í augu og kysstist á munninn, þótt Ron færi greinilega hjá sér við það.
„Eigum við að leggja af stað?“ sagði Harry þegar þau Hermione komu til þeirra. Laufey og Ron kinkuðu kolli og leiddust að vögnunum sem áttu að flytja þau til bæjarins.

Þau gengu um Hogsmeade, hvert þeirra með hunangsöl í flösku og litu við í hinum og þessum búðum. Þau voru búin að fara til Zonkos og kaupa nokkra poka og skemmtu sér hið besta með varning úr hinum og þessum búðum, þegar þau gengu fyrir horn og voru næstum búin að rekast á Lúnu Lovegood. Lúna virtist ekki taka eftir því að hún hafði næstum verið gengin niður, hún stóð bara og starði galopnum augum á samantvinnaða fingur Rons og Laufeyjar. Harry, Ron, Laufey og Hermione störðu á ljóshærðan hnakkann á Lúnu, sem beygði sig fram að því er virtist til þess að sjá betur hvernig kærustuparið leiddist. Af svipnum á Laufeyju að dæma hagaði Lúna sér eins og hún hefði strokið af geðdeildinni á Sankti Mungó.
„Ö, hæ Lúna,“ tókst Harry loks að toga út úr sér.
Lúna rétti úr sér og leit upp á Ron svo á Harry.
„Hæ Harry,“ sagði hún, „Sæll Ron. Blessuð Hermione,“ heilsaði hún hverjum fyrir sig, „Halló Needle.“
Harry var ekki viss en honum fannst sem þetta hefði verið frekar kuldaleg kveðja. Hún hafði ekki breytt málrómnum frá sínum venjulega dreymandi tóni en Harry fannst sem hann greindi eitthvað samt.
„Ö, hæ,“ svaraði Laufey hikandi.
„Svo þið eruð byrjuð saman,“ tók Lúna til máls. Ron og Laufey kinkuðu kolli. „Athyglisvert,“ sagði hún dreymandi, „Ég hélt nefnilega að…“
„Já, veistu, ég hélt það líka en það má bíða betri tíma!“ Hermione hafði allt í einu stokkið fram og gripið fram í fyrir Lúnu um leið og hún greip um handlegginn á henni. Hún byrjaði nú að toga hana af stað og tala við hana um U.G.L.urnar. Hin ypptu öxlum og eltu þar til Laufey snarstansaði allt í einu við hliðargötu.
„Hey, krakkar, ég þarf aðeins að kíkja hingað inn!“ sagði hún og dró Ron á eftir sér inn á fáfarna götuna og að lítilli búð, „Mig vantar ýmislegt héðan.“
Harry og Ron stóðu kyrrir í sporunum fyrir utan með vandræðasvip og langaði ekkert inn. Harry rankaði fyrr við sér og nýtti tækifærið.
„Farið þið bara inn, við Ron förum bara annað á meðan, allt í lagi?“ sagði hann, þetta var einmitt tækifærið sem hann hafði beðið eftir, stelpurnar myndu örugglega vera óratíma þarna inni og þeir gætu náð upp í hellinn og til baka áður en þær kæmu út. „Þá getið þið verið eins lengi og ykkur lystir!“
„Já já, allt í lagi,“ svöruðu stelpurnar, „Hittumst á Þremur kústum um hálf þjúleytið, það er soldið annað sem við þurfum að gera hvort eð er,“ sagði Hermione svo áður en þau kvöddu.
„Takk fyrir að bjarga mér félagi,“ sagði Ron þegar þeir voru komnir fyrir hornið, „Ég var hræddur um að þurfa að hanga þarna inni með þeim að skoða makaskara eða hvað þetta nú heitir.“
Harry glotti bara og gekk hröðum skrefum í áttina úr bænum.
„Komdu, nú förum við upp í hellinn!“

~Nafnið Bobby Drake er eftir því sem ég best veit í eigu Marvel. Ég mundi ekki eftir því fyrr en eftir á að hann er einnig þekktur undir nafninu Ísmaðurinn (Iceman).