1.kafli, Upphafið

Nicholas lá með opin augu og starði upp í loftið. Hann gat ekki sofnað, hann var búinn að liggja hér tímunum saman en hann gat engan veginn sofnað. Brátt kæmi sólin upp, hann yrði að reyna fá einhvern svefn. Nicholas teygði sig í jakkann sem lá á stól við rúmið, hann þreifaði á innanvert fóðrið og upp úr leyndum vasa dró hann frekar stórt umslag, það var orðið frekar snjáð og krumpað en hann veitti því enga athygli. Hann var sem í leiðslu og vélrænum handartökum opnaði hann umslagið varlega og tók upp innihaldið. Það var mynd, hún var tekin á jólaballi Hogwarts loka árið hans í skólanum. Á henni stóð hann og veifaði til myndavélarinnar með annarri hendinni, brosandi en með hinni hélt hann utan um unga konu. Emmeline Cubitt hafði verið glæsilegri en nokkur önnur á jólaballinu. Klædd í vínrauða samkvæmisskikkju, alla skreytta með gyllingum og blúndum. Og á sama tíma og flestar stúlkurnar kepptust við að hafa sem flottustu og flóknustu hárgreiðsluna í hárinu greiddi hún það rétt frá andlitinu og festi með kambi. Svo einfalt og um leið svo undur fallegt. Þú fannst ekki saklausari stúlku, eða það hafði hann talið. Svo hafði hún svikið hann. Þau höfðu ætlað að gifta sig strax eftir skólann, hún ætlaði heim og ræða við föður sinn og hann að ræða við sinn. Hún hafði sjálf stungið uppá því að hún myndi senda honum uglu þegar faðir hennar hefði gefið leyfið, þótt það væri aðeins formsatriði eins og hún orðaði það. Hann beið enn eftir þeirri uglu nú sex árum síðar. Og á morgun, ef heppnin yrði með honum, þá myndi hann í fyrsta sinn í sex ár sjá hana berum augum, konuna sem hafði rænt hann hjartanu og síðan stungið af með það án þess að svo mikið sem kveðja. Hann hafði virkilega elskað Emmeline en svo virtist sem hún hefði einfaldlega horfið daginn eftir að skólanum hafði verið slitið sex árum áður. Þetta var grímuball í tilefni hrekkjavökunnar svo allir yrðu grímuklæddir, en hann ætti að geta fundið út hver hún var ef það var rétt sem hann hafði heyrt, að hún yrði á dansleiknum.

Nicholas horfði á myndina svolitla stund í viðbót en gekk síðan frá henni og lagðist aftur á koddann. Augnlokin byrjuðu að þyngjast og eftir ekki svo langa stund náði hann loksins að sofna.

Við fyrstu sólargeislana sem læddust inn um lítinn kráargluggann vaknaði Nicholas. Hann stóð upp, teygði úr sér og geispaði. Þar næst teygði hann sig í fatahrúguna sem lá á stólnum. Það sem Nicholas leit á sem sitt aðal einkenni, fyrir utan hjartalaga fæðingarblett ofarlega á enninu, var án efa hvítur kragi sem hann bar ávalt um hálsinn og fjólublár hattur. Hatturinn hafði verið jólagjöf hans frá Lin og hann var mjög stoltur af að bera hattinn en öðru máli gegndi með fæðingarblettinn. Þeir fáu sem vissu af honum vissu einnig hversu mjög hann fyrirleit blettinn. Lin hafði verið vön að grínast með hann. Kalla blettinn Emmeline í höfuðið á sjálfri sér. Um leið og hún sneri uppá lokkinn sem féll fyrir hann.

Nicholas var mjög sérstakur. Ljósbrúnir lokkarnir náðu rétt niður fyrir axlir og þessi eðlilegu, gráu augu fylltu mann strax öryggi. Hann var í raun mjög eðlilegur maður, þótt hann teldist fríður, skaraði hann ekki framúr, og þótt hann hefði staðið sig vel í skóla var hann ekki einn af þeim sem talað var um hversu klárir væru. Hann var í raun eins eðlilegur og hægt var að kallast. En það var samt eitthvað dularfullt við þennan mann, á bak við allt sem hann reyndi að fela…

Það var þó ekki þetta sem leið í gegnum huga Nicholasar á leið hans niður stigann. Hann gekk hægum skrefum að hesthúsinu og beislaði hestinn sinn. Oft hafði verið gert grín af honum fyrir að ferðast á hesti í stað þess að fljúga, en það vissi Nicholas að hann gæti það ekki. Það hafði alltaf fylgt honum í gegnum skóla að hann gæti ekki flogið án þess að detta, og það fylgdi honum enn. Hann lauk við að festa hnakkinn og sté á bak. Ovation var svartur með rauðbrúnni snoppu og hann hneggjaði hátt þegar Nicholas settist á bak. Hann kom sér betur fyrir í hnakknum og klóraði sér á bak við eyrað um leið og hann sneri hestinum við. Um leið og hann reið úr hlaði kyssti hann varlega með tveimur fingrum á umslagið sem hann fann móta fyrir í jakkavasanum.

Þessi fallegi dagur, 31 Október 1491, lagðist mjög vel í Nicholas de Mimsy-Porpington þar sem hann reið eftir veginum og innan skamms, á því augnabliki er hann hélt lífið gæti ekki verið betra, sá hann London blasa við.

Þótt hann væri meira fyrir útreiðatúra í náttúrunni gat hann ekki annað en heillast er hann nálgaðist hvít steinhúsin og glymur borgarinnar færðist nær og nær.

Nicholas var ekki lengi að finna heimili Ruberts, Rubert Giles hafði verið besti vinur hans í gegnum Hogwarts og var það enn. Það hafði verið Rubert sem sagði honum frá því að Emmeline yrði á dansleiknum og það hafði líka verið hann sem sá um að útvega honum boðsmiða og ætlaði að leyfa honum að búa á heimili sínu í London meðan hann væri þar, Nicholas sté af baki Ovation og batt hann á bak við húsið, þar næst gekk hann og bankaði á dyrnar, ekki leið á löngu áður en hann heyrði að gengið var til dyra.


***

Emmeline sat og horfði vandlega á sjálfa sig í speglinum. Hún var ekki alveg ánægð með það sem hún sá. Hún var að máta fötin sem hún ætlaði að klæðast á dansleiknum, fagurblár kjóll með stóru pilsi og fullt af fellingum. Hún hafði sjálf látið sníða hann og sauma nákvæmlega eins og hún vildi hafa hann. Hún ætlaði að hafa hluta af hárinu uppi og festa í það litlar páfuglsfjaðrir. Hún hafði einnig látið ganga þannig frá kjólnum að hægt var að stinga stórum páfuglsfjöðrum aftan á bakið. Þegar hún væri tilbúin og búin að setja upp grímuna yrði hún án efa ein af glæsilegustu gestunum. Hún var viss um það.

Skyndilega var bankað á hurðina, hún greiddi niður úr hárinu og fór til dyra. Það var faðir hennar Anton Cubbit. Hann var digur um miðjuna og eins og alltaf glæsilega til fara. “Emmeline” tónninn sem hann notaði sýndi Lin að hann var mjög stoltur af einhverju sem hann hafði nú ákveðið, “ég hef ákveðið að kynna þig fyrir ákveðnum manni núna í kvöld. Manni sem ég held að yrði fullkomið mannsefni fyrir þig.” Að þessum orðum loknum gekk hann burt eftir löngum ganginum. Emmeline starði á eftir honum, hvenær ætlaði hann að skilja hún ætlaði aldrei að gefa sig og giftast þeim sem hann ákvæði að væri góður fyrir hana. Hún ætlaði að gifta sig þegar hún kynntist sannri ást loksins… aftur.

Dagurinn var að kvöldi kominn og Emmeline var að leggja loka hönd á hár sitt. Amanda, þjónustustúlkan hennar, hafði nýlega komið og hjálpað henni með því að setja stóru fjaðrirnar aftan á kjólinn. Þær stungust frekar mikið inní bakið á henni en hún hlaut að geta lifa það af. Hún heyrði í vagninum fyrir utan, það var komið af því. Nú legðu þau af stað. Hún gekk tígurlega niður stigann og fyrir neðan kepptist þjónustufólkið við að dást af henni, í kapp við foreldra hennar auðvitað. Um leið og hún gekk útí kvöldið setti hún upp bláa fagurskreytta grímuna og bað þess í hljóði að kvöldið færi vel.