13.kafli- Brjálaðar stelpur, brjálaðir strákar…

Eftir að hafa borðað í eldhúsinu (Fenecca vissi ekki einu sinni hvað allt hét sem hún hafði smakkað) ákvað Sirius að þau ættu að fara aftur upp í Gryffindorturninn. Þau höfðu tæpar 10 mínútur til þess, eftir það myndi Filch eða einhver kennari gefa þeim eftirsetu. (Sirius upplýsti hana samt um það að það færi eftir því hvaða kennari næði þeim, Dumbledore og Flitwick tóku yfirleitt bara nokkur stig af og sögðu þeim svo að halda áfram. Ef það væri McGonagall, Akaddo eða Stella Lecita, sem kenndi stjörnufræði og var umsjónarkennari Slytherins, þá ættu þau yfir höfði sér eftirsetu).
“Veistu Sirius, þetta er afskaplega fræðandi en viltu hætta þessu?” muldraði Fenecca þreytulega.
“Þetta er nauðsynlegt að vita, Fenecca. Að vísu þá höfum við ekki komist að því hvernig Boris Ivanovitsj er, en ég held að hann sé fínn. Remus var eitthvað að segja um daginn að….” Fenecca greip í úlnliðinn á honum, sneri honum við og kyssti hann.
“Mmm, þetta er var eina leiðin til að þagga í þér,” muldraði hún eftir smá stund. Hann glotti og þau gengu áfram. Þegjandi.

“Hei, James var að segja að þú og Sirius væruð saman! Þú ert svo heppin! ÞÚ með sætasta stráknum í SKÓLANUM!” stundi Díana, herbergisfélagi Feneccu, þegar hún kom inn.
“Hvað? Ó, jú….” muldraði Fenecca svolítið hissa. Díana gaf frá sér dramatíska stunu.
“Er það satt að munnurinn á honum bragðast eins og súkkulaði? Nei, sykurfjöðurstafur…. já, er það satt?” sagði Díana hratt og horfði stórum augum á Feneccu.
“Mm…. veistu, ég er svolítið þreytt, ég held að ég fari bara að sofa, sko…” sagði Fenecca vandræðalega og flýtti sér upp. Hún stundi og lokaði á eftir sér. Frábært, fyrst að JAMES hafði verið að segja þetta, þá ætti allur skólinn eftir að vita þetta um morguninn. Og ef Fenecca þekkti slúðurlið Hogwartsskóla rétt, þá ætti eitthvað MIKIÐ meira eftir að koma með í förina.
“Það var slæm hugmynd hjá mér að aflétta þagnargaldrinum, var það ekki?” sagði einhver lágt. Fenecca hrökk við. Lily sat í rúminu sínu með bók í fanginu.
“Um hádegi á morgun heldur örugglega helmingur skólans að þú sért ófrísk, hinn að þið séuð gift,” bætti Lily við og fletti. Fenecca kinkaði reiðilega kolli en gekk svo að náttborðinu sínu og tók fram dagbókina sína.

25.nóvember, 1975

Klikkaður dagur. McGonagall setti okkur HAUG fyrir, ég held að ég nái ekki að klára þetta fyrr en ég útskrifast! Svo að ég hef nokkurnveginn eitt og hálft ár. Fjör það en það hlýtur að duga. Vona það. Ég held að Lily og Severus séu ennþá óvinir…


Fenecca hikaði, leit svo á Lily.
“Eruð þið og Severus enn óvinir?” spurði hún. Lily kinkaði kolli og einblíndi á bókina.
Mmm, klikkaður dagur…. útskrifast… eitt og hálft ár, Lily og Severus… já, hugsaði Fenecca og renndi augunum yfir það sem var komið. Hún dýfði fjöðurstafnum í blekið og hélt áfram:
… ennþá óvinir síðan á hrekkjavökunni. Af hverju þarf hrekkjavakan alltaf að vera svona slæm, ég hélt að það ætti að vera gaman á hrekkjavöku. En, ég var hrikaleg þegar ég var 13 ára! Hvernig var hægt að vera svona heimsk? Jackie þurfti endilega að rifja upp hvað við skrifuðum í dagbækurnar okkar þegar við vorum 13.
“Þetta var frábær dagur. Og Sirius var alltaf að horfa á mig!”
Hvað vorum við að reykja eiginlega? Jæja, núna ætla ég að ganga í barndóm og skrifa á þrettándísku:
“Sirius kyssti mig! Sko, við vorum bara út í snjónum og það var allt ótrúlega flott, og svo bara… púff! OG hann bað mig að byrja með sér! Svo mikil dúlla!


Fenecca stoppaði aðeins þarna og glotti. Jú, hún hefði svo sannarlega skrifað eitthvað í þessum dúr væri hún 12 eða 13 aftur. Guð sé lof að svo var ekki! Skyndilega rak hún augun í þar sem stóð að Sirius hafði “spurt” hana. Þegar hún hugsaði um það eftir á…. það var frekar barnalegt af honum. Og skrítið. En, hann var skrítin, við hverju var að búast?

Ég er dauðþreytt í augnablikinu, og nenni ekki að standa í því að skrifa eitthvað drama-dót í augnablikinu. En helvítis hormónar, ég væri til í að fara aftur niður í setustofu og kyssa hann, ef hún væri ekki full!
Fjandans hormónar…
Góða nótt-
Fenecca Crock!


Morguninn kom, og það fyrsta sem Fenecca gerði þegar hún kom í setustofuna var að stíga á fótinn á sofandi Siriusi Black. Óvart, að vísu, en þetta var vont fyrir hann engu að síður.
“AAAA! Hvað í- Fenc? Ó. Ekki GERA mér þetta! Ég beið alla nóttina hérna, bíðandi eftir þér, af hverju komstu ekki? Ég hélt að þú ætlaðir ekki strax að sofa, klukkan var rétt yfir tíu!” sagði Sirius og nuggaði löppina.
“Æi, ég nennti ekki að vera í hóp af stelpum sem slefuðu yfir því hvað ég var heppin og svo framvegis. Díana var að gera mig klikkaða, og ég talaði varla við hana í mínútu.”
“Ah, þannig. Ertu að fara niður í Stóra sal núna? Gott, ég kem með þér,” sagði Sirius og stóð upp. Fenecca tók eftir því að hann hafði augljóslega verið þarna alla nóttina, hárið var úfið og fötin krumpuð.
“Eh, Sirius… þú ættir kannski að fara í sturtu og skipta um föt áður en þú ferð. Og tannbursta þig!” Þetta síðasta sagði Fenecca mjög ákveðið, því þegar hann hafði gert tilraun til að kyssa hana hafði hún fundið andfýlu STÆKJU úr honum.
“Gleðispillir,” muldraði hann, en fór samt upp í herbergið sitt.

Dagarnir liðu, einn af öðrum. Allir í skólanum höfðu frétt af Feneccu og Siriusi fyrir hádegið, en eftir hádegið fóru allir að halda því fram að þau væru gift, trúlofuð, Fenecca ófrísk og margir fullyrtu það að hafa séð þau saman síðan á 1.árinu. (Fenecca var ekki viss en henni fannst sem einhver hefði sagt að hún hefði ÞEGAR átt barn með Siriusi… og það gat vel verið, því að henni hafði það heyrst koma frá Justine Payne, næstmestu slúðurskjóðu í sögu Hogwartsskóla. Berta Jorkins hafði fengið 1.sæti í slúðri). Svo þegar mest allt slúðrið var uppurið, fóru stelpur frá öllum húsum og sennilega öllum aldri að spyrja Feneccu í smáatriðum um Sirius. (Hvernig kyssir hann? Hafið þið sofið saman? Systir mín sagði að hann væri með tungu sem næði niður í kok! Hvenær byrjuðu þið saman?) Sem pirraði hana meira en slúðrið.
“Veistu hvað, stelpa? Næst færðu sögur FRÁ aðdáendum Siriusar sem fjalla um samband ÞEIRRA og hans! Haha!” Jackie sagði þetta, með langvarandi hláturskasti. Hún og Lily voru þær einu sem höfðu ekki spurt neitt. (Feneccu fannst það ekki líklegt að Lily myndi spyrja, og Jackie var að pæla í einhverjum Ravenclaw-strák í Quidditchliðinu).
“Æi, haltu kjafti,” muldraði Fenecca og hélt áfram að fylgjast með því sem Boris var að segja.
“Já, þá er það komið í dag. Og í næsta tíma, verið í mugga-fötum ef þið eigið þau til,” endaði Boris og settist aftur í stólinn. (Hann hafði setið á borðbrúninni á skrifborðinu sínu meðan hann var að tala). Svo bætti hann við: “Og þið sem eigið ekki, endilega fáið lánuð.”

“Hvað skyldi eiga að vera í næsta tíma? Það er sjaldgæft að kennararnir biðji okkur um að mæta í sérstökum fötum,” sagði Sirius eftir tímann meðan þau voru að ganga í burtu.
“Ka-kannski eitthvað hættulegt. Svo þurfum við að vera tilbúin að hlaupa í burtu!” stamaði Peter.
“Láttu ekki eins og fífl! Þau færu aldrei að koma með eitthvað hættulegt hingað,” sagði James og sló laust í hausinn á Peter.
“Hvað ert ÞÚ þá að gera hérna?” urraði Lily.
“Ég? Ég er að töfra þig, ástin,” sagði James og hneigði sig. Lily ranghvolfdi í sér augunum og hraðaði sér í burtu.
“Fenecca, Jackie, eruð þið að koma?” kallaði hún án þess að líta við. Jackie leit á Feneccu en hljóp svo af stað.
“Mm, ég ætla með Siriusi….” muldraði Fenecca. Lily stundi.
“Veistu Fenc, ég held að okkar elskulegu Lily Evans líki ekki það að þú og Þófi séuð svona mikið saman,” sagði James.
“James, prufaðu eitt. HÆTTU að ganga svona mikið á eftir Lily, HÆTTU að láta eins og krakki og HÆTTU að kasta bölvunum á Snape þegar hún sér til!” sagði Remus reiðilega. Fenecca glotti. Hvað skyldi James halda um hans elskulegu Lily Evans ef hann kæmist að því að hún og “Hori” hefðu verið vinir!
“Remus, þú segir þetta bara af því að þú hefur aldrei verið ástfanginn! Þú veist ekkert hvernig mér líður þegar ég sé hárið á henni flaksast til, eða þegar hún hlær! Eða þegar hún horfir á mig þessum ótrúlegu og grænu augum, og….” Sirius stundi og ákvað að taka við af vini sínum.
“Eða þegar hún öskrar á þig og kastar bölvun!” James þagnaði og augun, sem höfðu starað dramatísk á eftir Lily, urðu reiðileg.
“Halt þú kjafti!”

Umönnun galdraskepna hafði verið síðasti tíminn þennan dag, svo það sem eftir var dagsins fór í lærdóm og kossa hjá Feneccu. (Og Siriusi). Lily og Jackie létu ekki sjá sig í setustofunni og Sirius og James sprengdu hálfan kassa af flugeldum. Þeir sögðust vera að prufa þá fyrir Filebuster. Og svo kom kvöldmaturinn, fullt af góðum mat og tilkynning frá Dumbledore.
“Hvenær ætlar hann að segja þetta…” muldraði Lily og gjóaði augunum á Dumbledore. Remus gaf henni olnbogaskot.
“Lily! Hættu þessu,” hvíslaði hann. Lily virtist ætla að segja eitthvað á móti en rétt í því stóð prófessore Dumbledore upp og salurinn þagnaði.
“Nemendur, ef þið vilduð vera svo væn og taka eftir í smá stund. Og þið megið smjatta á meðan ég tala,” sagði hann. “Þessi jól höfum við ákveðið að halda jólaball. EF það verður viss fjöldi eftir yfir jólafríið.” Þögnin sem hafði umkringt þau vék fyrir klappi og hrópum.
“Og,” sagði Dumbledore og lyfti höndunum upp til að fá hljóð, “því ættuð þið sem verðið eftir að kaupa spariskikkju á næstu Hogsmeade-helgi. Takk fyrir!”
“Var það ÞETTA það sem hann ætlaði að segja?” sagði Fenecca undrandi við Lily og Remus. Þau kinkuðu kolli.
“Hann talaði við umsjónarmennina og nemendaformennina um þetta fyrir löngu. Við erum búin að reyna ákveða hvernig þetta eigi að vera og guð má vita hvað, heillengi,” sagði Lily og stóð upp.
“Hei Lily, vildir þú….” James sneri sér við til að kalla á Lily, en hún var farin frá borðinu.
“James, trúðu mér. Hún fer EKKI með þér,” kallaði Fenecca til James. (Lily vildi helst ekki sitja nálægt honum, og Fenecca hafði viljað vera hjá vinkonu sinni þetta kvöld svo að hún neyddist til að vera langt frá Ræningjunum*).
“Hvað veist þú um það?” svaraði hann reiðilega og stóð upp.
“Þvílíkur bjáni….” muldraði Sirius.

Það fyrsta sem Fenecca gerði þegar hún kom upp í turninn var að skrifa bréf heim til sín til að spyrja hvort hún mætti verða eftir yfir jólin.

Mamma, Eric og Tom!

Halló þið heima. Það er ekkert að frétta héðan nema það að sennilega á að vera ball í jólafríinu. Ég var að hugsa hvort það væri ekki í lagi að ég yrði eftir í Hogwarts núna. Bara í þetta eina skipti! Þá get ég líka verið nálægt vinum mínum einu sinni yfir jólin. (Og séð svipin á þeim þegar þau opna jólapakkana). Og ef þið leyfið mér að vera eftir hérna, þá held ég að ég þurfi pening til að kaupa spariskikkju á næstu Hogsmeade-helgi. Gé re ðem áms í utsðen innuffúkssðrobfirks!!!**
Vonandi er allt gott að frétta þarna hjá ykkur!
Fenecca


“Voila,” muldraði Fenecca og lokaði bréfinu. Soffía, kötturinn hennar, kom skokkandi til hennar og stökk í fangið á henni.
“Nei, ég get ekki notað þig til að senda bréfið, Soffía,” sagði Fenecca og klóraði kettinum bakvið eyrun.
“Þetta er svo sætur köttur,” sagði Jackie brosandi. Hún dýrkaði lítil og loðin dýr. Ef þau voru hættulaus.
“En frekar gagnslaus. Æi, ég er að ljúga, hún gerir ótrúlegt gagn. Kemurðu með mér upp í ugluturn?”
“Nei, ég ætla að klára þessa asnalegu ritgerð fyrir…. eitthvað fag.” Fenecca kinkaði kolli og stóð upp.
Þegar maður var vanur þessari leið þá var ekkert svo erfitt að komast upp í ugluturninn. Verst að það var kvöld og flestar uglurnar úti…
“Fjandans tímasetningar hjá mér… ég get aldrei gert neitt rétt eða verið á réttum stað á réttum tíma. Er einhver bölvun á mér?” Til allrar hamingju kom ein ugla inn eftir smá stund, glöð yfir því að fá að gera gagn.
Fenecca lagði af stað niður. Það var alveg hljótt í kastalanum. Samt var hún með það á tilfinningunni að einhver væri að fylgjast með henni, jafnvel að elta hana. Hún stoppaði aðeins. Þetta hlaut að vera ímyndun. Það var enginn að fylgjast með henni eða bíðandi við næsta horn… það heyrðist heldur enginn andardráttur við næsta horn… jú. En… þetta geta verið málverk, hugsaði Fenecca og slakaði aðeins á. Svo tók hún eftir einu. Þetta var vesturendinn á 4 hæð. Það VORU engin málverk í kringum hana. Það var einhver við næsta horn. Það hafði einhver verið að elta hana. Og sjötta skiliningavitið sagði henni að þetta væri ekki einhver sem henni líkaði vel við. Vertu róleg, þetta er allt í lagi. Hver ætti svo sem að vilja elta þig? Enginn! Ekki nokkur lifandi sála, hugsaði hún róandi. Svo hélt hún áfram.

“Gott kvöld,” sagði Rosier glottandi. Fenecca fraus. Jú, það var einmitt EINHVER sem vildi elta hana!
“Hva-hvað ert þú að gera hérna?” stamaði hún. Hryllilegri staðreynd skaust upp í hugann á henni: hún hafði skilið sprotan eftir í setustofunni!
“Ég gæti alveg spurt þig hins sama Crock. Stúlkur,” hann hikaði aðeins hérna og virti hana fyrir sér, “konur ættu ekki að ganga einar um að nóttu til. Það er aldrei að vita hvað felur sig í myrkrinu.”
“Já, og þessvegna ætla ég bara að halda áfram,” svaraði Fenecca hraðmælt og reyndi að ganga framhjá Rosier. Sem stöðvaði hana.
“Af hverju? Varla ertu… hrædd við mig, er það?” hvíslaði hann og færði sig nær. Hún kyngdi. JÚ, hún var dauðhrædd við hann og það sem hann gæti gert henni. Það var nótt, hún var ekki með sprotan sinn, engin málverk í kring… Fenecca stífnaði upp. Hann hafði vafið annari hendinni um mittið á henni.
“Kannski ERTU hrædd við mig, Crock. Af hverju er nú það? Það er ekki… eins og ég geti gert þér eitthvað, er það?” Hann glotti illilega. “Jú, veistu hvað? Ég GET einmitt gert þér eitthvað. Og, ég er að hugsa um að notfæra mér það, elskan mín.” Hún greip andann á lofti þegar hann skellti henni upp við vegg og kyssti hana. Og það versta var að sama hvað hún reyndi að berjast um… hann hélt henni fastri!







*Ræningjarnir eru íslenska þýðingin á ‘the Marauders’ en ég er samt að pæla í því hvort það sé ekki til eitthvað betra nafn á þá á íslensku… ef þið hafið einhverjar góðar hugmyndir að öðru nafni og tímið að leyfa mér að nota það þá þætti mér MJÖG vænt um það! *sendi öllu hvolpa svip/puppy eyes og skelli geislabauginum á*

**Þetta er aftur á bak. Upplýsingar um hvar Fenecca geymir peningana sína en hún vill ekki að Tom komist að því og skrifar það því aftur á bak. Hún hefur gert það áður svo að það var óþarfi að útskýra þetta fyrir foreldrum sínum. Þetta er afgangurinn síðan hún var í Skástræti, hún var aldrei búin að senda hann í Gringotts.



Úff, ég lenti í hrikalegum vandræðum með þennan kafla. Ég ætlaði upphaflega að hafa eitthvað atriði þar sem Bellatrix Black væri að kasta bölvunum á Andromedu, og síðan kæmi Sirius til bjargar en… uppgvötaði að Andromeda VÆRI sennilega eldri en Sirius, hehe, svo að ég lamdi mig í hausinn og fann upp á einhverju öðru.
Næsti kafli: jólin koma og eru komin!