Það var komið fram í miðjan október og þennan laugardagsmorgun var komið að fyrsta leik Gryffindorliðsins í quidditch. Keppinautar þeirra að þessu sinni voru hinir illkvittnu Slytherinnemar. Það var fallegur haustdagur, lygnt og milt veður þó að það væri fremur svalt. Skógurinn skartaði sínum fegurstu haustlitum í sólskininu þegar Harry leit yfir hann þar sem hann sveif yfir quidditchvellinum á kústinum sínum. Allir leikmenn beggja liða voru komnir á sína staði og biðu eftir að fröken Hooch blési til leiks. Katie Bell hafði gefið liðinu sínu heilmikla ræðu um dugnað og samstöðu áður en haldið var á völlinn. Hún var farin að minna Harry ískyggilega mikið á Olvier Wood. Harry virti fyrir sér leikmennina þar sem hann sveif yfir vellinum. Ginny og Victoria voru að standa sig prýðilega á æfingum og gáfu í raun Angelinu og Aliciu ekkert eftir. Ginny var reyndar talsvert betri en Victoria eftir að hafa verið notuð mikið til að hjálpa bræðrum sínum að æfa sig heima á sumrin. Jack Sloper og Andrew Kirke voru ekki eins góðir varnarmenn og tvíburabræðurnir ennþá en þeir tóku miklum framförum með hverri vikunni sem leið. Ron var óðum að fá meira sjálfstraust í markinu og var nú farin að geta varið jafnvel þó verið væri að horfa á hann. Það var þó reyndar talsverður dagamunur á honum og suma daga virtist hann engan veginn geta einbeitt sér að leiknum. Í dag virtist hann þó í góðum gír og Harry var mjög bjartsýnn á að leikurinn í dag yrði góður leikur. Slytherin liðið var reyndar mjög gott í ár svo það var aldrei að vita hvernig leikurinn færi.

Hann leit yfir á hinn vallarhelminginn og beint í augun á Draco Malfoy sem brosti örlítið og leit svo snögglega undan. Það var sífellt að verða erfiðara að halda uppi þessum feluleik. Þeir Draco voru orðnir virkilega góðir vinir þessa dagana. Hughrindingin gekk ótrúlega vel og þeir voru báðir að ná nokkuð góðum tökum á henni. Þeir höfðu þó fengið að sjá talsvert meira af lífum hvers annars og svo virtist sem þeir næðu betur saman í hvert skipti sem þeir fengu að sjá ný minningabrot. Þeir höfðu tekið upp á því að laumast afsíðis endrum og sinnum eftir hughrindingartímana og taka eina og eina galdraskák. Þeir höfðu fundið ágætis herbergi sem enginn virtist vita af niðri í dýflissunum þar sem þeir gátu teflt óáreittir, spjallað og verið vinir án þess að eiga það á hættu að einhver sæi til þeirra. Að mörgu leiti var þessi vinátta nánari en nokkur önnur vinátta sem Harry hafði áður þekkt. Líklega vegna þess að á milli þeirra voru engin leyndarmál, þeir vissu hér um bil allt hvor um annan. Harry var farinn að þrá það að geta sagt Hermione og Ron frá þessari nýju vináttu og bjóða Draco velkominn í hópinn en hann vissi að það yrði að bíða þar til öllu væri óhætt.

Nú sleppti fröken Hooch boltunum af stað, blés í flautuna og leikurinn hófst. Dean Thomas sem hafði tekið við stöðu Lee Jordans við leiklýsingarnar hóf upp raust sína.
“Leikurinn er hafinn, Katie Bell er með tromluna og hún flýgur léttilega yfir á vallarhelming Slytherinliðsmanna en hvað er þetta þarna kemur Crabbe og þrumar rotara í áttina til hennar. Passaðu þig Katie… hjúkk… hún slapp en hún missti tromluna í öllum látunum. Þarna kemur Victoria Frobisher og nær tromluni sem var á hraðri leið niður til jarðarinnar. Glæsileg frammistaða hjá þessum nýja sóknarmanni okkar Gryffindormanna. Snilldar frammistaða. Hún smeygir sér inn í þyrpingu Slytherinmanna og kastar tromlunni til minnar ástkæru Ginnyar sem grípur og smeygir henni léttilega í gegn um vinstri markhringinn!!! Glæsileg frammistaða elskan! Sú fær sko góðan koss á eftir.”
“Dean, leikurinn” heyrði Harry McGonagall segja. Hann leit á Ron og sá að hann var ekki beint ánægður með þessar yfirlýsingar Deans.
“Staðan er þá 10 - 0 fyrir Gryffindor.” Harry vonaði að Dean myndi hætta að minnast á hrifningu sína á Ginny til að Ron gæti betur einbeitt sér að leiknum. Hann skimaði um völlinn í leit að gullnu eldingunni en hana var hvergi að sjá. Draco virtist vera að gleyma sér við að fylgjast með leiknum eins og hann gerði oftast. Harry brosti út í annað, það var alveg satt sem Draco hafði sagt, hann hefði aldrei komist inn í liðið af sjálfsdáðum. Hann sneri sér við og leit í áttina til Rons sem var rétt í þessu að verja þrususkot frá einum af Slytherin sóknarmönnunum. Fagnaðarópin hljómuðu um völlinn.
“Ron Weasley þessi snilldar drengur og herbergisfélagi minn til margra ára hér við Hogwarts ver þetta eins og honum einum er lagið. Þvílíkur snillingur!” En rétt í því sá Harry glitta í eitthvað gyllt við fætur Rons, það var eldingin. Hann var talsvert nær henni en Draco svo hann þurfti ekki að hafa áhyggjur af því að Draco sæi hvað hann var að gera svo hann þaut af stað og áður en fagnaðarópin yfir markvörslu Rons voru dáin út hélt Harry gullnu eldingunni í lófanum sigri hrósandi. Það ætlaði allt að verða vitlaust í áhorfendaskaranum.
“Harry Potter hefur náð gullnu eldingunni og við Gryffindormenn hrósum því sigri með 160 stig gegn engu stigi Slytherinmanna eftir einungis fjögurra mínútna og 45 sekúndna leik. Þetta hlýtur að vera nýtt skólamet!” Dean Thomas réð sér varla fyrir kæti en það heyrðist varla í honum fyrir fagnaðarópunum frá áhorfendastúkunum. Harry og hinir leikmennirnir flugu til jarðarinnar þar sem Harry var keyrður um koll með fagnaðarlátum og allt endaði í einni allsherjar hrúgu af sigrihrósandi leikmönnum. Hópur Gryffindornema ruddist inn á völlinn og leikmenn sigurliðsins voru bornir út af vellinum og upp í turn þar sem slegið var upp mikilli veislu. Ron og Harry stungu af niður í eldhúsið og komu upp með kynstrin öll af góðgæti sem Dobby og hinir húsálfarnir höfðu hlaðið á þá með glöðu geði.

Þegar aðeins fór að sljákka í fagnaðarlátunum í veislunni settist Harry með Ron og Hermione út í uppáhalds hornið þeirra í turninum. Þau höfðu haft svo lítinn tíma til að vera bara þrjú saman þetta haust. Hann hafði haft í svo miklu að snúast. VD fundirnir voru að ganga prýðilega en tóku talsvert af tíma hans, hughrindingartímar voru á hverju kvöldi og þó að þeim Draco tækist ágætlega til við að ná tökum á hughrindingunni áttu þeir enn langt í land. Auk þess þurfti hann að hitta Dumbledore reglulega til að fá upplýsingar um það sem var að gerast innan reglunnar og sinna heimanáminu sínu, sem var talsvert magn af þessa dagana. Hann hafði varla haft tíma til að anda hvað þá tala við vini sína. Reyndar fannst honum frekar erfitt að hitta vini sína þessa dagana vegna þess að hann var að fela svo margt fyrir þeim. Hann þoldi það ekki að eiga leyndarmál sem hann gat ekki sagt þeim frá og þess vegna var betra að vera sem minnst einn með þeim til að eiga það ekki á hættu að missa eitthvað út úr sér. En í dag ætlaði hann að vera með þeim og bara þeim og njóta þess að vera til.
“Þetta var ágætis leikur en helst til stuttur, maður náði ekkert að njóta hans” sagði hann um leið og hann hallaði sér aftur á bak í hægindastólnum sínum.
“Hmm.. já,” sagði Ron sem var augljóslega ekki að fylgjast með því sem Harry var að segja heldur horfði illilega á Dean Thomas sem sat með Ginny í fanginu í hinum enda setustofunnar og var hvísla einhverju í eyra hennar. Ginny roðnaði og flissaði örlítið, bróðir hennar roðnaði um leið en af allt öðrum ástæðum.
“Láttu þau eiga sig,” sagði Hermione í áminningartón og stoppaði Ron af þegar hann ætlaði að rjúka á fætur. “Þau eru bara að fíflast og hvað ætlarðu svo sem að segja við þau? Það er ekki eins og þú getir bannað Ginny að eiga kærasta, hún er enginn krakki lengur hún er fimmtán ára.” Ron settist aftur niður með ólundarsvip,
“Hmm…” hnussaði í honum, “Hann skal bara vara sig að fara vel með hana, við erum nokkuð góður hópur bræðra sem passar upp á hana.” sagði hann með ógnandi röddu. “Sex bræður geta sko gert heilmikinn skaða ef þeir…” hann stoppaði í miðri setningu og fölnaði örlítið. “Nei… við erum víst bara fimm núna,” bætti hann við hljóðlega. Harry fann sting fara í gegn um hjartað. Hversu oft hafði hann ekki hugsað með sér að spyrja Sirius um eitthvað áður en hann fattaði að hann gæti það víst ekki lengur. Hermione horfði á Ron með meðaumkun. Hún færði sig á gólfið fyrir framan stólinn hans og tók í höndina á honum.
“Það er ekki auðvelt að missa einhvern svona nákominn, það tekur tíma að átta sig á að hann sé farinn.” sagði hún hljóðlega með huggandi röddu. Harry starði hljóður fram fyrir sig og kinkaði ósjálfrátt kolli rétt eins og þessum orðum hefði verið beint til hans. Ron leit á vinkonu sína
“Það er kominn langur tími, það eru komnir næstum því tveir mánuðir. Hversu langan tíma á það eiginlega að taka að fatta svona hluti?” sagði hann og óþolinmæðin skein af honum.
“Ég er ekki enn búinn að fatta að Sirius sé dáinn,” sagði Harry svo hljóðlega að það heyrðist varla.
“Ennþá?” spurði Ron örvæntingarfullur, “það er næstum komið hálft ár síðan hann dó.”
“Ron,” sagði Hermione óörugg, “mér skilst að það geti liðið nokkur ár áður en þetta fer að síast almennilega inn.”
“Hvað heldur þú að þú vitir um það” svaraði Ron bálreiður á svip og rauk á fætur. “Hefur þú einhvern tímann misst systkin?” Hermione roðnaði og leit niður fyrir sig,
“Nei það hef ég ekki gert,” sagði hún hljóðlega. “Ég hef bara verið að lesa mér til um sorg og sorgarviðbrögð.” hún leit varfærnislega á Ron.
“Þú veist ekkert hvernig mér líður og hvernig mín sorgarviðbrögð eru. Það eru ekki til neinar bækur um mig!” þrumaði hann og strunsaði upp í svefnálmu drengjanna.

Hermione faldi andlitið í lófum sínum þar sem hún sat á gólfinu og Harry sá axlirnar hennar skjálfa lítillega. Hann færði sig niður á gólfið til hennar og tók utan um hana. Hún hallaði höfði sínu upp að öxl hans og grét hljóðlega.
“Ég meinti þetta ekkert illa, ég var bara að reyna að gera það eina sem ég kann, að lesa mér til. Ég hélt ég gæti best hjálpað þannig.” sagði hún á milli ekkasoganna.
“Ég veit,” sagði Harry sefandi, “Hann vill bara ekki endilega heyra staðreyndir. Ég held að það borgi sig frekar að hlusta bara á hann og vera til staðar fyrir hann. Hann lætur þig vita hvað það er sem hann þarfnast. Stundum þarf maður líka bara að fá að vera reiður út í allt og alla og fá að vera einn. Ég var til dæmis alveg brjálaður við Dumbledore í vor, braut og bramlaði allt á skrifstofunni hans. Hann bara leyfði mér það og svo fyrir rest þá róaðist ég og áttaði mig á að ég var ekkert reiður við hann. Svona bækur gefa örugglega alveg góð ráð og allt, en fólk er bara svo misjafnt og hver og einn upplifir sorgina á sinn hátt. Þú sérð bara hvernig Ginny tekur þessu allt öðruvísi en Ron.” Hermione kinkaði kolli og þurrkaði sér um augun.
“Hvernig hefur þú það annars Harry?” spurði hún og leit í augu hans.
“Ég lifi” svaraði Harry hljóðlega, “Þetta er drulluerfitt stundum og ég hef alveg allt of mikið að gera núna þessa dagana en ég á góða að.” sagði hann og brosti til hennar. Hún brosti til baka og stóð á fætur.
“Ég ætla að skreppa á bókasafnið að læra svolitla stund,” sagði hún, “viltu koma með?” Harry hristi höfuðið
“Ég ætla að kíkja á Ron snöggvast,” svarði hann. Hermione kinkaði kolli til hans.
“Allt í lagi. En mundu að ef þig vantar einhvern til að tala við þá geturðu alltaf komið til mín,” sagði hún og brosti hughreystandi til hans. Harry þakkaði henni fyrir og faðmaði hana að sér áður en hann gekk rólega upp stigann að svefnherbergi 6. árs drengjanna.

Þegar Harry kom inn í herbergið hafði Ron dregið fyrir tjöldin í kring um rúmið sitt. Þeir voru bara tveir í herberginu.
“Ron” sagði Harry hljóðlega. Ekkert svar.
“Ron” sagði hann aftur aðeins hærra.
“Hvað?” heyrðist þrumað úr rúminu.
“Þú veist alveg að hún meinti þetta ekkert illa, er það ekki?” sagði Harry. Ron hentist fram úr rúminu rauðeygður og pirraður á svip.
“Nei, hún meinti þetta eflaust ekki illa en fjandinn hafi það, ég þoli það ekki þegar fólk heldur að það viti hvernig mér líður. Það er ekki til neinn leiðbeiningabæklingur um mig og það veit enginn hvernig mér líður. Ég veit það varla sjálfur,” þrumaði hann og strunsaði út úr herberginu og skellti hurðinni á eftir sér. Harry settist á rúmið sitt og andvarpaði. Hann skildi Ron svo sem ágætlega. Það var óþolandi þegar fólk hélt að það vissi hvernig manni líður þegar það hefur ekki hugmynd um það og það var ennþá verra þegar fólk reyndi að skilgreina tilfinningarnar sem hann var sjálfur ekki einu sinni búinn að átta sig á. Hann vissi bara að hann saknaði Siriusar og hann vildi gefa nánast hvað sem væri til að fá hann aftur. Hann teygði sig undir koddann sinn og náði í spegilinn sem Sirius hafði eitt sinn gefið honum. Í vor hafði hann mölbrotið hann en hann hafði fljótlega séð eftir því og lagað hann stuttu seinna. Hann starði á spegilmynd sína og óskaði þess enn og aftur að hann hefði vitað af honum áður en Sirius dó. Tárin laumuðust fram í augnkrókana og hann hætti að sjá skýrt.

“Harry?” heyrðist allt í einu rödd sem hann þekkti vel. Harry lagði frá sér spegilinn, þurrkaði sér um augun í flýti og leit í kring um sig.
Það var enginn í herberginu.
“Harry, ég er í speglinum.” sagði röddin aftur. Hjartað barðist um í brjósti hans og hann starði niður á spegilinn, tók hann hægt upp og gægðist ofur varlega í hann. Gæti það verið? Var það mögulegt?
“Sæll vinur.” Hann starði í spegilinn í örfáar sekúndur áður en hann áttaði sig.
Remus Lupin starði til baka.
“Er allt í lagi Harry?” spurði hann áhyggjufullur á svip.
“Já, já” svaraði Harry og harkaði af sér. “Mér brá bara. Ég hélt… ” hann stoppaði í miðri setningu. Hann gat ekki farið að segja Lupin hvað hann hafði haldið.
“Ó,” sagði Lupin og augnaráð hans virtist lesa hugsanir Harrys, “þú hélst að ég væri Sirius.” Harry kinkaði kolli vandræðalegur á svip. “Það er svo sem ekki skrítið, þar sem hann hefur væntanlega gefið þér spegilinn, er það ekki?” Harry kinkaði aftur kolli.
“Veistu,” hélt Lupin áfram “Ég hélt fyrst ég væri að horfa á pabba þinn þegar þú birtist í speglinum hjá mér. Alveg þar til ég tók eftir örinu.”
“Í alvöru?” spurði Harry hissa á svip
“Þeir áttu speglana, pabbi þinn og Sirius. Við notuðum þá mikið. Ég fann spegilinn hans Siriusar um daginn og hef stundum tekið hann upp til að ylja mér aðeins við gamlar minningar,” sagði Lupin. “Ég býst alltaf hálfvegis við að sjá annan þeirra horfa á mig til baka. Það er eitthvað svo óraunverulegt að þeir séu farnir og komi aldrei aftur.”
“Ennþá?” spurði Harry, “Ennþá með pabba á ég við? Það eru 15 ár síðan hann dó og er það ekki ennþá orðið raunverulegt fyrir þér?”
“Harry, það verður eflaust aldrei alveg raunverulegt. Það er sjaldnar sem ég hugsa um það nú orðið en öðru hvoru, til dæmis þegar ég sé eitthvað sem hann eða mamma þín hefðu gaman af, þá hugsa ég með mér ‘þessu verð ég að segja þeim frá’ áður en ég man að það er ekki hægt. Það er bara ekki hægt að skilja alveg hvernig einhver sem hefur verið svo stór hluti af lífi manns getur allt í einu bara horfið og komið aldrei aftur. Við bara erum ekki þannig gerð.” Lupin var sorgmæddur á svip svo leit hann aftur á Harry, “En hvernig hefur þú það annars, vinur minn?” Harry yppti öxlum “Bara ágætt svo sem býst ég við, miðað við aðstæður” svaraði hann. Lupin kinkaði kolli, brosti til hans og sagði
“Ég er fegin að Sirius skyldi gefa þér spegilinn, mig hefur svo oft langað til að tala við þig síðan þú fórst í skólann en þar sem við getum ekki sent uglur héðan þá hef ég ekki getað haft samband við þig. Ég fæ þó reyndar fréttir af þér öðru hvoru, bæði með Severusi og Dumbledore.” Harry brosti, “Ég hef saknað þín Harry og ég er mikið búinn að hugsa til þín eftir að við spjölluðum saman í haust. Ég er ekki viss hvort að ég svaraði spurningum þínum nægilega vel, ertu sáttari við tilhugsunina um pabba þinn og mömmu núna en þú varst í haust?” Harry kinkaði kolli
“Já, ég fékk líka ágætar útskýringar frá Snape. Hann sagði mér ýmislegt sem ég vissi ekki áður, við erum líka orðnir ágætis vinir núna. Þó svo að við sýnum það ekkert endilega á almanna færi,” bætti hann við og glotti. Lupin brosti til baka,
“Já er það? Það eru þá orðnir nokkrir leynivinir sem þú átt þessa dagana eða hvað? Mér skilst að þið Draco Malfoy séuð að ná ágætlega saman líka.”
“Veistu af því?” spurði Harry glaður
“Já, Severus og Dumbledore sögðu mér frá því. Þeir sögðu að þið væruð að æfa hughrindingu saman. Hvernig gengur það?”
“Það gengur bara ágætlega, mikið betur en í fyrra allavegana. Svo erum við bara orðnir ótrúlega góðir vinir þar fyrir utan. Það er eiginlega farið að verða svolítið erfitt að þykjast hata hann. Aldrei hélt ég að sá dagur myndi renna upp að við Malfoy yrðum vinir,” sagði Harry með miklum áherslum. “Mikið er ég fegin að geta talað um þetta við einhvern. Það er orðið svo erfitt að vera með svona mikið af leyndarmálum,” bætti hann við.
“Þú veist að þú getur alltaf talað við mig Harry,” sagði Lupin, “Ég veit að ég kem ekki í staðinn fyrir Sirius og ég er engan veginn að reyna að koma í stað foreldra þinna en við gátum nú stundum talað saman þegar ég var að kenna þér og mér finnst ég nú eiga svolítið í þér. Ég meina við vorum nú líka ágætis félagar þegar þú varst eins árs,” sagði hann og blikkaði Harry sem hló til baka.
“Takk fyrir það Lupin, ég veit að ég get leitað til þín,” svaraði hann.
“Harry,” sagði Lupin, “kallaðu mig Remus. Það er ekki eins og ég sé kennarinn þinn lengur.”
“Okei, Remus.” sagði Harry og brosti. “En það er alveg gagnkvæmt líka, þú mátt líka alveg tala við mig ef þig vantar einhvern til að tala við. Hvernig gengur í nýju vinnunni?”
“Bara vel þakka þér fyrir. Ég er búinn að koma heilmiklu í verk finnst mér. Ég er búinn að koma af stað stuðningshópum fyrir varúlfa og við erum að ná því í gegn að varúlfar sem eru muggar eru að fá full réttindi í galdraheiminum. Það er búið að byggja upp nýjar og talsvert vistlegri Tunglskynskytrur og stefnt er á að eftir ár geti allir sem vilja fengið úlfsmáraseyði fyrir hvert fullt tungl. Veröldin er að verða bjartari fyrir hálfmennska.” sagði Remus glaður og stoltur í bragði. “Tonks er líka búin að vera ómetanleg aðstoð í skipulagningunni á þessu öllu saman. Það er eins og hún hafi verið búin að sjá þetta allt saman fyrir sér fyrir löngu síðan. Hún er alveg ótrúleg.” Harry tók eftir að glampinn í augum Remusar breyttist þegar hann fór að tala um Tonks og það var eins og augun lýstu einhvernvegin. Hann brosti lúmskt,
“Þið Tonks að verða svolítið náin?” spurði hann með glettni í röddinni. Remus roðnaði allur upp og hóstaði gífurlega,
“jah, sko, hérna… nei… við erum bara góðir vinir,” tókst honum loksins að stynja upp. Harry gat ekki annað en hlegið,
“Ennþá…” skaut hann inní.
“Harry, hættu þessu,” sagði Remus vandræðalegur á svip, “Hvað hef ég svo sem til að bjóða nokkurri konu upp á?” bætti hann við ofurlágt.
“Hvað meinarðu?” spurði Harry forviða, “Þú ert ekkert verri maður en hver annar og betri en flestir að mínu mati,” bætti hann við. Það hnussaði lítillega í Remusi,
“Já já, ég er rosalegur mannkostur en varaðu þig, hann breytist í skrímsli þrjár nætur í mánuði og ef þú eða börnin ykkar verða á vegi hans þá er ykkur bráður bani vís, eða örlög verri en dauðinn.” sagði hann með kaldhæðni.
“Remus,” sagði Harry í áminningartón. “Varstu ekki að enda við að segja að verið sé að gera heiminn að betri stað fyrir varúlfa og aðra hálfmennska?”
“Jú, en…”
“Ekkert en, neitt,” greip Harry fram í fyrir honum. “Það þarf líka enginn að segja mér að Tonks láti smáatriði eins og það að þú sért varúlfur stoppa sig ef hún er hrifin af þér.”
“Hún er ekkert hrifin af mér, við erum bara vinir,” hélt Remus áfram þrjóskur.
“Jæja, allt í lagi, þú um það,” svaraði Harry “En ég verð að fara að koma mér, það er að koma kvöldmatur. Það var gaman að sjá þig Remus.”
“Takk sömuleiðis vinurinn,” svaraði Remus, “Mundu að ef þig vantar eitthvað þá kallarðu bara. Ég skal alltaf vera með spegilinn á mér.”
“Takk og ég verð með minn ef þig vantar eitthvað,” svaraði Harry.
Hann stakk speglinum í vasann og flýtti sér niður í kvöldmat, talsvert léttari í bragði en hann hafði verið hálftíma fyrr.