Það var þreyttur hópur sem gekk út úr ummyndunartíma hjá prófessor McGonagall þennan þriðjudags eftirmiðdag. Þetta hafði verið langur dagur og erfiður tími. Viðfangsefni dagsins hafði verið að breyta hinum ýmsu dýrum í húsgögn og sem féllu inn í umhverfið. Tilvalin leið til að fela eitthvað sem ekki á að sjást, hafði prófessor McGonagall sagt.
“Sem betur fer var þetta síðasti tíminn í dag,” stundi Ron þar sem hann gekk ásamt Harry og Hermione út ganginn í átt frá ummyndunarstofunni.
“En við erum samt ekki algerlega laus enn,” svaraði Hermione. “Manstu ekki að við erum að fara í kaffi til Aniku að ræða VD og fleira?”
“Ah, já, ég var búinn að gleyma því. Það er samt allt í lagi, ég þarf ekkert að gera neitt þar annað en að borða og hlusta á ykkur.” sagði Ron og glotti. “Þið Harry þurfið að tala og útskýra, ekki ég. Úff… Harry,” bætti hann svo við með hryllingi, “svo þarft þú að fara í fyrstu eftirsetuna hjá Snape í kvöld.” Harry leit á hann og sagði með kaldhæðni í röddinni,
“Takk kærlega fyrir að minna mig á það.”
“Æ, fyrirgefðu,” svaraði Ron sneypulegur, “þetta var samt ótrúlega óréttlátt. Heill mánuður fyrir að kýla Malfoy eftir það sem hann gerði þér.”
“O, jæja, Malfoy fékk allavegana líka eftirsetu og það er nú eitthvað alveg nýtt.” sagði Harry til að eyða umræðunni áður en hann segði þeim eitthvað sem hann mátti ekki.
“Það er reyndar rétt,” svaraði Ron hugsi í sama mund og þau komu inn í Gryffindorturninn þar sem Ginny beið þeirra. Þegar allir höfðu gengið frá skóladótinu sínu gengu þau öll samferða niður á aðra hæð í átt að skrifstofu Aniku Weasley.

“Ég fékk uglu frá George í morgun,” sagði Ginny þeim á leiðinni niður stigann og hláturinn virtist krauma í henni. “Þeir Fred voru að gera tilraunir til að búa til Fílakaramellur sem breyta þeim sem borðar eina slíka í fíl í nokkrar mínútur. Það mistókst eitthvað hjá þeim og núna er Fred búinn að vera með rana og risa stór grá eyru í þrjá daga.” sagði hún og sprakk úr hlátri um leið og hún sýndi þeim mynd af Fred sem leit ekki út fyrir vera svo ánægður með nýja útlitið og virtist vera að húðskamma George sem stóð hlæjandi við hliðina á honum. Hópurinn veltist um af hlátri um leið og þau komu að dyrunum að skrifstofu Aniku. Ron opnaði dyrnar og þau ultu öll hlæjandi inn. Þegar inn var komið rak þau öll í rogastans því í litlum sófa í horni skrifstofunnar sat Severus Snape með Aniku Weasley í fanginu. Þau voru í djúpum kossi og hendur Snapes voru vægast sagt á vafasömum stöðum. Þau spruttu á fætur þegar þau urðu gesta sinna vör og gerðu sitt besta til að slétta úr skikkjunum sínum og sýnast eðlileg þrátt fyrir roðann sem óðum breiddist út um andlit þeirra. Ron stóð eins og negldur við gólfið með munninn galopinn og skelfingin skein úr augum hans. Ginny og Hermione virtust ósköp vandræðalegar og virtust ekki alveg vita hvert þær ættu helst að horfa. Harry átti í mesta basli við að bæla niður hláturinn og reyndi eftir fremsta megni að fela sig á bak við Hermione svo enginn tæki eftir baráttunni sem hann var í þann mund að tapa. Snape muldraði einhverjar afsakanir í flýti og stakk sér svo á milli Rons og Ginnyar hvarf út úr stofunni.

“Jæja, má ekki bjóða ykkur sæti?” spurði Anika hress í bragði eins og ekkert hefði í skorist. Harry og stelpurnar þáðu það og settust í sófann. Ron stóð ennþá negldur við gólfið og virtist ekki einu sinni hafa tekið eftir því að Snape væri farinn.
“Ron,” sönglaði Anika og veifaði hendinni fyrir framan andlit hans. “Ertu þarna?” Ron virtist aðeins ranka við sér og leit skelfingu lostinn á frænku sína.
“Hvað var þetta?” spurði hann með hryllingi
“Ég myndi halda að það hefði verið nokkuð augljóst,” svaraði Anika og brosti til hans. “Má bjóða ykkur súkkulaðiköku og te?” hélt hún svo áfram eins og ekkert væri sjálfsagðara um leið og hún töfraði fram á sófaborðið dýrindis súkkulaðiköku, teketil og fimm bolla. Að því loknu leit hún á stelpurnar sem voru enn hálf vandræðalegar á svip þar sem þær sátu í sófanum, hikaði aðeins með undrunarsvip, leit á Harry og svo aftur á Ron og stelpurnar.
“Var Harry ekki búinn að segja ykkur frá því að við Severus værum saman?” spurði hún svo loksins hissa. Allur hópurinn beindi nú sjónum sínum á Harry sem ákvað að nú væri góður tími til að skoða loftið á skrifstofunni svolítið og flautaði lítinn lagstúf í leiðinni.
“Vissir þú þetta?” spurði Ron og Harry heyrði að reiðin var að magnast innra með honum. Hann hætti að flauta og leit vandræðalegur á Ron
“Jah, svona eiginlega,” svaraði hann og lokaði augunum eins og hann byggist við bölvun á hverri stundu.
“Og hvað hefur þetta gengið lengi á?” þrumaði Ron og horfði fast á frænku sína.
“Síðan í veislunni daginn áður en við komum til Hogwarts,” svaraði Anika, “ekki að það komi þér samt nokkuð við Ronnatetur,” bætti hún við í áminningartón og lyfti annarri augabrúninni eins og til að mana Ron til að mótmæla henni. Ron roðnaði örlítið af reiði og settist svo þegjandi við kaffiborðið en leit illilega í átt til Harrys sem leit snögglega undan og fékk sér kökusneið.

“Jæja, segði mér nú frá þessu VD félagi ykkar og hvernig þetta var allt saman hjá ykkur.” sagði Anika. Harry og Hermione hófust strax handa við að útskýra fyrir henni allt sem viðkom VD. Þau sögðu henni frá stofnun félagsins, fundunum og þarfaherberginu. Harry tók svo upp dagbókina sem hann hafði haldið yfir fundina og rétti Aniku hana. Anika fletti í bókinni og leit öðru hvoru upp og kinkaði kolli til hans með velþóknunarsvip.
“Náðu allir tökum á verndargaldrinum?” spurði hún hissa
“Já,” svaraði Harry, “misgóðum tökum en allir gátu galdrað fram einhvern verndara áður en við hættum. Við vorum náttúrlega ekki í aðstæðum þar sem við vorum hrædd svo það var ekki mjög erfitt að finna góðar minningar.”
“En samt, bara það eitt að geta galdrað fram verndara er stór mál.” sagði Anika. “Þetta er glæsilegt hjá ykkur. Ég var að velta fyrir mér hvort að við ættum ekki að hengja upp þátttökulista í anddyrinu og fá fólk sem hefur áhuga á að vera með til að skrá sig til að við getum betur vitað hvað við eigum von á mörgum. Þá er líka auðveldara að skipuleggja það sem koma skal.” Harry, Hermione og Ginny kinkuðu kolli til samþykkis. Ron sat í stólnum sínum brúnaþungur og virtist ekki vera að fylgjast vel með.
“Það væri líka mjög gott ef þið gætuð talað persónulega við alla sem tóku þátt í fyrra og fengið þá til að vera með. Það væri mikil hjálp í því. Ég myndi gjarnan vilja að þeir sem voru með í fyrra hjálpi til við að kenna þeim sem koma nýjir inn til að við komumst fljótt á þann stað sem þið voruð komin á í fyrra. Þá þurfum við ekki jafn langann tíma til að ná upp hraða. Ég gæti líka haft aukatíma fyrir nýja meðlimi til að hjálpa þeim enn frekar.” hélt Anika áfram hugsandi á svip. “En við byrjum allavegana á að hengja upp þátttökulistann og þið fjögur talið við þá sem voru með í fyrra. Eru ekki allir sáttir við það?” Allir voru sáttir, nema Ron sem svaraði enn ekki neinu en sat bara undir sínu eigin persónulega þrumuskýi. Það var nokkurskonar þegjandi samkomulag inná skrifstofunni að vera ekkert að yrða á hann og leyfa honum bara að vera í fýlu í friði. Ginny tók upp myndina af Fred og George og sýndi frænku sinni sem skellihló að uppátækjum frænda sinna. Eftir nokkra stund var komið að kvöldmat og hópurinn kvaddi Aniku til að fara í matsalinn.

Þau voru varla komin út fyrir dyrnar þegar Ron greip um axlirnar á Harry og skellti honum upp við vegginn.
“Og hvenær ætlaðir þú svosem að segja okkur þetta? Og af hverju í ósköpunum vissir þú af þessu?” Þrumaði hann eldrauður í framan. Harry leit á hann skelfingu lostinn og barðist við að ná andanum því skikkjan var strengd þétt yfir hálsinn á honum. Hermione og Ginny stukku til og tóku hvor í sína höndina á Ron og reyndu að draga hann af Harry með litlum árangri. Eftir örstutta stund losaði Ron þó takið og Harry sleit sig samstundis lausan.
“Er ekki í lagi með þig?” æpti hann pirraður á vin sinn. “Hvers vegna heldurðu að ég hafi ekki sagt þér neitt? Akkúrat af því að ég vissi að þú myndir bregðast svona við og mig langaði ekkert sérstaklega að láta þig lemja mig. Auk þess vissi ég ekkert nákvæmlega hvað var á seyði það var ekki eins og þau hefðu sagt mér þetta.”
Ron virtist aðeins vera að róast niður en fýlusvipurinn var ógurlegur.
“Hvernig vissirðu þetta þá?” spurði hann ólundarlega.
“Við skulum bara segja að þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég stend þau að verki,” svaraði Harry og roðnaði örlítið. Þetta virtist þagga niður í Ron sem greinilega vildi ekki vera minntur á þá sýn sem blasað hafði við honum á skrifstofunni fyrr um daginn. Hann sneri sér við og strunsaði áleiðis í matsalinn. Hin fylgdu hljóð á eftir.

Eftir kvöldmatinn kvaddi Harry vini sína og gekk sem leið lá niður í töfradrykkjastofuna. Honum til mikils léttis var Draco kominn á undan honum svo að hann losnaði við að reyna að fitja uppá umræðuefni óskyldu atburðum dagsins.
Snape stóð upp frá skrifborðinu sínu og hófst handa við að útskýra hughrindingu og hugsælni fyrir Draco, Harry vissi það helsta frá því árinu áður en hlustaði samt með athygli. Í þetta skiptið ætlaði hann að einbeita sér og ná betri árangri en í fyrra. Nú skildi hann hversu mikilvægt þetta var.
“Í fyrra þegar ég reyndi að kenna þér þetta Harry,” hélt Snape áfram þegar hann hafði lokið við að útskýra það helsta fyrir Draco, “var það ég sem reyndi að brjótast inn í þinn huga og þú reyndir að stöðva mig. Núna ætlum við að gera þetta aðeins öðruvísi þar sem þið eruð tveir. Auk þess að kenna ykkur hughrindingu ætla ég að kenna ykkur hugsælni og láta ykkur reyna að brjótast inn í hug hvors annars. Þannig þjálfist þið bæði í hughrindingu og aukið færni ykkar í að komast að því hverjum þið getið í raun treyst og hverjum ekki en það er eitthvað sem þið komið báðir til með að þurfa á að halda í nánustu framtíð.” Strákarnir litu stóreygir hvor á annan en kinkuðu svo báðir kolli í átt til kennara síns. “Byrjum á að læra þuluna áður en við höldum lengra,” hélt Snape áfram. “Legilimens!” Strákarnir endurtóku orðið nokkrum sinnum þar til Snape var sáttur við árangurinn. “Sprotanum er svo sveiflað svona,” hélt hann áfram og sýndi þeim handahreyfinguna um leið og hann fór með þuluna á ný hægt og skýrt. Aftur endurtóku strákarnir athafnir og orð kennara síns þar til hann var ánægður.

“Jæja, þetta er fínt,” sagði Snape, “Draco nú skalt þú reyna að brjótast inn í huga Harrys og Harry þú gerir þitt besta til að verja þig. Mundu að reyna að tæma hugann. Draco þú þarft að hafa í huga að þú ert að leita eftir því sem hann vill fela.” Strákarnir kinkuðu kolli og tóku sér stöðu á móti hvor öðrum, fremur óstyrkir en einbeittir á svip.
“Tilbúnir?” spurði Snape. Aftur kinkuðu þeir kolli. Harry reyndi eftir fremsta megni að tæma hugann og hugsa ekki neitt.

“Legilimens!” hrópaði Draco. Harry sá töfradrykkjastofuna leysast upp og hverfa. Hugur hans fór á fleygiferð og minningarnar streymdu fram. Hann var í skápnum undir stiganum á Runnaflöt, krúnurakaður að öllu leiti nema toppurinn sem átti að fela örið, hann grét af reiði og skömm… Hagrid að segja honum frá því að hann væri galdramaður, gleði streymdi um hann allan… á hlaupum á undan Dudley og genginu hans… Marge frænka að tútna út eins og blaðra… með Cho Chang á kaffihúsinu á Valentínusardag…
'Nei… þetta færð þú ekki að sjá' hugsaði Harry
“Expelliarmus” heyrði hann sjálfan sig hrópa og féll samstundis fram fyrir sig og lenti harkalega á gólfinu. Hann leit upp og sá Draco skríða á fætur skammt frá.
“Hver var blöðru konan?” spurði Draco hlæjandi.
“Marge frænka mín” svaraði Harry hálf vandræðalegur á svip, “ég blés hana óvart upp. En hún gat sjálfri sér um kennt að vera að egna mig svona upp,” bætti hann við og glotti örlítið. Snape ræskti sig örlítið og strákarnir litu báðir á hann eins og þeir hefðu gleymt því að hann væri þarna.
“Vel af sér vikið Draco. Harry þú þarft að loka betur, hvað fékk hann að sjá mikið?” sagði hann.
“Ekkert merkilegt, bara svona hitt og þetta. Allt tengt sterkum tilfinningum reyndar, en ekkert merkilegt.” svaraði Harry.
“Það er eingöngu vegna þess að þetta var í fyrsta skipti sem hann reynir þetta” svaraði Snape. “Reynum aftur og núna Draco verður þú að reyna að kafa enn dýpra. Leita að því sem hann ekki vill sýna.”
Harry fann gamlan pirring í garð Snapes gera vart við sig.
'Ah.. ekki núna, loka á tilfinningarnar' hugsaði hann með sér.
“Tilbúnir?” spurði Snape, báðir kinkuðu kolli enn einbeittari á svip en í fyrra skiptið.

“Legilimens!” hrópaði Draco á ný.
Harry var staddur í kjallara Hogwartsskóla, fyrir framan hann stóð Quirrell og andlit Voldemorts starði á Harry út úr höfði hans, hann var stjarfur af hræðslu og reiði… Hann var í leyniklefanum, líkami Ginnyar lá líflaus á gólfinu, hræðslan þandi hverja taug í líkama hans… Basilíkuslangan kom æðandi að honum, adrenalínið flæddi um hann… Hann var í kirkjugarðinum í Litle Hangleton, líflaus líkami Cedrics starði á hann…
“NEI” hrópaði hann og lenti samstundis á steingólfinu í kennslustofunni. Hann leit upp og sá Draco stara skelfingu lostinn á hann. Hann leit niður og lokað augunum pirraður á sjálfum sér fyrir að hafa ekki tekist að loka huganum betur.
“Jæja,” sagði Snape, “Nú fékk hann að sjá ýmislegt fleira er það ekki?” Harry kinkaði hljóður kolli. Snape leit á strákana til skiptis hugsi á svip. “Takið ykkur smá pásu til að jafna ykkur og svo reynum við að víxla hlutverkum.” sagði hann og fór inn á skrifstofuna sína.

Harry settist á gólfið upp við vegginn í kennslustofunni. Hann var örmagna af þreytu. Draco hikaði en settist svo við hlið hans.
“Þetta fyrsta, hvað var þetta?” spurði Draco varfærnislega.
“Voldemort” svaraði Harry stuttlega. Draco leit hljóður niður fyrir sig.
“Hvaða stelpa var þetta?” spurði hann svo og leit á Harry, “var hún…” hélt hann svo áfram en þagnaði í miðri setningu.
“Nei hún var ekki dáin en það var ekki langt í það,” svaraði Harry. “Þetta var Ginny, í leyniklefanum á öðru árinu okkar þegar klefinn var opnaður.”
“Það var pabba að kenna,” bætti Draco við hljóðlega og Harry heyrði hatrið krauma í honum. Hann kinnkaði kolli.
“Var pabbi þarna þegar Cedric dó?” spurði hann varfærnislega og leit á Harry eins og hann væri ekki alveg viss um að hann vildi heyra svarið. Harry hristi höfuðið,
“Hann kom seinna.” svaraði hann. Draco horfði aftur niður fyrir sig. Þeir sátu þöglir hlið við hlið þar til Snape kom aftur inn í stofuna.
“Jæja, eruð þið tilbúnir?” spurði hann. Strákarnir kinkuðu kolli, stóðu á fætur og tóku sér stöðu andspænis hver öðrum.
“Harry þá reynir þú að komast inn í huga Dracos og Draco nú þarft þú að gera þitt besta til að hreinsa hugann og loka á allar tilfinningar.” Harry horfði í augu Dracos og gerði sér strax grein fyrir að það myndi reynast honum erfitt. Hann virtist enn í talsverðu uppnámi eftir að hafa séð brot af minningum Harrys. Harry reyndi sitt besta til að harka af sér og einbeita sér að því sem hann var að fara að gera.

“Legilimens!” hrópaði hann.
Kennslustofan hvarf og minningar sem ekki voru hans eigin birtust í huga hans. Herbergi fullt af allskyns leikföngum og fallegu dóti. Narsissa Malfoy sitjandi á rúminu í einu horni herbergisins með lítinn ljóshærðan dreng í fanginu. Drengurinn grátandi af miklum ekka og móðir hans að vagga honum hljóðlega eins og til að reyna að þagga niður í honum. Augu hennar lýsandi af ótta… Draco skjálfandi, samanhnipraður á köldu steingólfi í lokuðu herbergi sem virtist vera einhverskonar dýflissa. Blóð lak úr munni hans, skykkjan hans var rifin og víðsvegar um líkamann mátti sjá blóðbletti… Lucius Malfoy með sprotann á lofti, augun nánast glóandi af hatri, Draco að engjast á gólfinu… í forboðna skóginum, Draco sitjandi aleinn upp við tré, grátandi…
“Nei… Expelliarmus!” heyrði hann Draco stynja upp í fjarska. Sprotinn flaug úr höndum hans og sjálfur kastaðist hann aftur fyrir sig og lenti á gólfinu. Hann staulaðist á fætur og leit á Draco skelfingu lostinn og fullur af meðaumkun. Draco hafði líka fallið í gólfið en var að reyna að brölta á fætur. Hann horfði stýft niður fyrir sig og leið greinilega ekki allt of vel.
“Nokkuð gott Harry,” sagði Snape. “Hann komst nokkuð langt er það ekki Draco?” Draco kinkaði kolli en leit enn ekki upp. “Allt í lagi, segjum þetta gott í dag,” hélt hann áfram, “en þið verðið að æfa ykkur betur í að tæma hugann og loka á allar tilfinningar, góðar og slæmar. Sjáumst aftur hér á sama tíma annað kvöld. Góða nótt drengir.”

Harry gekk út úr kennslustofunni á eftir Draco sem virtist ætla að hraða sér í átt að Slytherinheimavistinni án þess að kveðja.
“Draco,” sagði Harry og greip í öxl hans. Draco sneri sér við og leit í augu hans óöruggur á svip. “Þú manst að þú ert ekki einn lengur. Þú átt vin.” sagði Harry vingjarnlega og brosti örlítið til hans. Þetta virtist koma Draco á óvart og hann brosti örlítið til baka.
“Takk.” sagði hann áður en hann sneri sér aftur við og hélt af stað í heimavistina sína. Harry hélt af stað í átt að Gryffindorturninum. Allt í einu fannst honum eins og hann skildi Draco miklu betur en nokkru sinni fyrr.