((Þetta er semsagt áhugaspuninn minn sem fjallar um James Potter, Sirius Black, Remus Lupin, Lily Evans og Peter Pettigrew þegar þau voru að byrja í Hogwarts. Ég flakka á milli persóna og reyni að fjalla jafnt um þær og þeirra tilfinningar. ;) nafnið verður svo bara að koma í ljós seinna))


“ Er þetta Skástræti, pabbi?” Sagði 11 ára gamall svarthærður drengur við pabba sinn er þeir stóðu fyrir utan litla, subbulega krá í London. Faðir hans hló. “Nei, James minn. Leki seiðpotturinn er aðeins inngangurinn.” Hann tók í hendina á syni sínum, leiddi hann yfir götuna og þeir gengu inn á kránna.
“Ethan! Ethan Potter!” Kallaði barþjónninn um leið og þeir gengu inn og faðir James brosti. “Tom, gaman að sjá þig”. Ethan sleppti hendinni á syni sínum og gekk að barnum þar sem hann fór að spjalla við barþjóninn. James stóð hins vegar kyrr í dyragættinni og leit í kringum sig á hálffullri kránni. James var grannur og mjög hávaxinn miðað við sinn aldur. Hann var með kolsvart, úfið hár og ljósbrún augu bakvið kringlótt gleraugu.
Hurðin opnaðist fyrir aftan hann og inn gengu þrjár manneskjur; maður, kona og stelpa með eldrautt hár sem virtist vera á aldri við James. Hann færði sig til hliðar svo þau kæmust inn. “Þetta er staðurinn,” sagði maðurinn, sem var með kastaníubrúnt hár, sem farið var að þynnast, og stór græn augu. Hann var svolítið feitlaginn og hélt á fjólubláu bréfi, sem James vissi að væri Hogwartsbréf.
“Ertu viss, John?” Spurði konan með áhyggjuróm og leit í kringum sig. Hún var hávaxin og grönn, ljóshærð og frekar hálslöng. Maðurinn, sem greinilega hét John, leit snöggt í kringum sig. “Við spyrjum bara barþjóninn.” Hann gekk upp að barborðinu og konan hans fylgdi á eftir. Stelpan gerði það aftur á móti ekki og James leit á hana. Honum dauðbrá þegar hann sá að hún starði á hann tilbaka. Hún var með sítt, rautt hár og grænni augu en pabbi hennar. James fann að hann roðnaði smá en starði samt stíft til baka á hana. Að lokum braut hún þögnina og augnsambandið.
“Er þetta Skástræti?” Spurði hún og leit kæruleysislega yfir staðinn. James hló. “Skástræti?” Sagði hann. “Leki Seiðpotturinn er aðeins inngangurinn á Skástræti.” James fannst hann hljóma mjög gáfaður, jafnvel þó að pabbi hans hafði sagt honum þetta fyrir stuttu. Rauðhærða stelpan virtist þó ekki vera á sama máli, leit áhugalaus á hann og leit svo í áttina að foreldrum sínum við barinn.
James ræskti sig. “Hingað koma galdramenn úr öllum áttum þegar þeir eru að fara á Skástræti.” Stelpan veitti honum enga athygli svo hann hélt bara áfram. “Eins og þú sérð þá er staðurinn hálffullur af galdramönnum og….” Lengra komst hann ekki því stelpan hafði snögglega litið á hann og tekið frammí fyrir honum.
“Hálftómur.” Sagði hún. “Staðurinn er hálftómur.” James horfði undrandi á hana. Hvað í fjandanum var að henni? “Hálffullur…” Sagði hann, einfaldlega því honum langaði ekki að láta undan og leyfa þessum stelpuvitleysingi að “vinna”. Hún hvessti á hann augunum. “Hálftómur.” Hvæsti hún en hann urraði til baka. “Hálffullur..”
“Hálftó…” byrjaði hún en komst ekki lengra því að mamma hennar og pabbi höfðu gengið til þeirra, í fylgd pabba James.
“Lily elskan?” Sagði mamma hennar og lét hendina á öxlina á dóttur sinni. “Þetta er herra Potter, hann ætlar að fylgja okkur inn á Skástræti”. Ethan Potter brosti og kom sér fyrir fyrir aftan son sinn. “Þetta er sonur minn, James Potter. James? Þetta eru John og Julia Evans og þetta er dóttir þeirra, Lily. Hún er líka að byrja á fyrsta ári í Hogwarts.”
Foreldrar Lilyar brostu til hans og pabbi James brosti til Lily, enginn tók eftir því að Lily og James horfðu illgjarnlega á hvort annað.
“Jæja, við skulum ekki standa hérna eins og klæddir húsálfar” Sagði Ethan og glotti og Evans-hjónin litu undrandi á hvort annað. “Fylgið mér.” Herra Potter gekk af stað í fylgd með syni sínum og Evans fjölskyldunni út í bakgarð barsins.
Hann dró upp sprotann sinn og gekk að múrvegg, sem hlaðinn var upp frekar óreglulega beint fyrir framan útganginn. “Þrír upp, tveir þversum….” Muldraði hann. “Eða var það tveir upp, þrír þversum…” Hann prófaði að slá sprotanum í múrstein og, James til mikillar undrunar, myndaðist lítið gat þar sem faðir hans hafði haft sprotann fyrir stuttu. Gatið stækkaði og stækkaði þar til loks höfðu myndast hringgöng, nógu stór fyrir þau öll til að ganga í gegnum. Um stund var myrkur, þegar þau voru fyrir miðju gangnanna en svo sáu þau ljós á endanum.
“Guð minn almáttugur…” Stundi Julia Evans upp þegar þau gengu út úr göngunum.
“váááá….” Sögðu Lily og James samstundis en þögnuðu um leið og þau heyrðu í hvort öðru. “Velkomin, “ Sagði Ethan Potter, “á Skástræti”. Við þeim blasti hlykkjótt gata, böðuð í sólarljósi. Niður með götunum mátti sjá alls kyns búðarskilti; fatabúð, bókabúð, sprotabúð, kústabúð, dýrabúð, allt milli himins og jarðar.
“Þið viljið líklegast fara og skipta pundum yfir í galdrapeninga?” Sagði Ethan allt í einu við Evans-hjónin og herra Evans kinkaði kolli, á meðan hann starði opinmynntur á götuna fyrir framan sig. “Einmitt, “ Sagði Ethan og benti niður götuna. “ Þið farið niður götuna hérna, Skástræti, og fylgið henni þar til þið sjáið stóra byggingu úr mjög sérstöku efni. Það er ómögulegt að þið missið af henni. Það er Gringrottbanki. Þar getið þið skipt pundum í peninga og svo eru allar þær búðir sem þið þurfið að fara í hérna í götuna. Passið ykkur bara að vafra ekki út af Skástræti, það eru margar slæmar hliðargötur hérna.” Evans-hjónin þökkuðu fyrir sig og kvöddu feðgana. En James til mikillar óánægju stöðvuðu hjónin og faðir hans og horfðu á hann og Lily, eins og þau væru að bíða eftir því að þau kvöddust. Lily tók líka eftir þessu og hvolfdi eldsnöggt í sér augunum. James ræskti sig og leit á Lily. “Erm…við sjáumst bara í skólanum”. Lily setti upp mjög gervilegt bros og þau gengu í sitthvora áttina.
“Vonandi ekki…” Muldruðu þau bæði, þegar þau voru komin langt í burtu frá hvort öðru.
**********
“Ská-hástræti…”Hóstaði meðalhár drengur og birtist allt í einu á miðri götunni á Skástræti. “Það er mikið, Sirius!” Heyrðist í konu, sem virkaði afskaplega stjórnsöm. Hún tók í hendina á syni sínum og tosaði hann af stað á eftir sér. “Varstu eitthvað að leika þér? Ég vissi að ég hefði átt að taka þig með mér þegar ég kastaði flugduftinu yfir mig. Oh, ef aðeins þú gætir verið eins og restin af fjölskyldunni. Já, eða hann Regelus bróðir þinn. Þið eruð svo ólíkir. Regelus eins yndislegur, og jafnvel fullkominn, og hann er og þú…tja…þú eins og þú ert….” Konan hélt áfram að kvarta og nöldra er þau gengu upp götuna og leyfði syni sínum ekki að komast að. Sirius andvarpaði og fylgdi mömmu sinni eftir. Hann var með mikið svart hár, sem lafði fram á ennið á honum. Hann var með gráleit augu og frekar fölur á að sjá, líkt og hann hefði eytt öllu sumrinu innan dyra. Hann var mjög fríður og margar stúlkur á hans aldri litu við er hann gekk framhjá, rennandi hendinni í gegnum hárið til að draga það frá augunum.
“Byrjum hérna.” Sagði móðir hans allt í einu og dró hann inn í búð. Sirius rétt náði að sjá nafnið á búðinni áður hann fór inn: Ollivanders.
Þau gengu inn í búðina og einhvers staðar innst inni í henni hljómaði í bjöllu. Inni í búðinni var núþegar fólk; miðaldra maður með son sinn, sem virtist vera svipað gamall og Sirius. Móðir hans smellti í góm. “Herra Potter.” Sagði hún þurrlega, en neyddist til að heilsa honum svo hún kinkaði snögglega kolli. “Frú Black” Sagði maðurinn á móti og kinkaði kolli. Sirius sá að strákurinn horfði forvitinn á hann en Sirius leit undan. Hann vildi ekki kynnast fólki. Hann vildi í raun ekki fara í Hogwarts. Hann vissi vel hvernig það allt myndi enda. Hann færi þangað og myndi fara í Slytherin eins og öll fjölskyldan hans. Þar myndi hann vera með öllum frændum sínum og frænkum og börnum vina foreldra hans, þar til hann yrði alveg eins og þau. Eins kuldalegur og vægast sagt leiðinlegur.
Hann leit í kringum sig. Upp með veggjunum voru gríðarháir staflar af litlum ílöngum kössum, sprotakössum. Staflarnir náðu alveg upp í loft svo það hlaut að vera yfir þúsund kassar þarna í búðinni. Kannski yfir tíuþúsund.
“Góðan dag” Heyrðist allt í einu fyrir aftan hann. Sirius hrökk í kút og sneri sér við. Fyrir framan þau stóð maður á eldri árum, mjög grannur og með þunnt ljóst hár. Hann virtist vera ævaforn, eins og flest í þessari búð.
“Ah, herra Potter og frú Black. Ég átti von á því að þið kæmuð.” Hann brosti rólega, en þessi rólegð hans gerði Sirius virkilega órólegan. Hvernig vissi hann að þau ætluðu að koma í dag? Og af hverju í ósköpunum var hann svona rólegur?
“James Potter og Sirius Black. Þið eruð að fara byrja fyrsta árið ykkar í Hogwarts, er það ekki?” sagði hann og horfði stíft á Sirius. Augun hans virtust brenna sig í gegnum hann svo Sirius gat ekki horft á móti, heldur kinkaði aðeins kolli.
“Jú.” Svaraði hinn strákurinn, sem greinilega hét James. Herra Ollivander brosti. “Við skulum finna þinn sprota fyrst, herra Potter. Þið getið fengið ykkur sæti, frú Black. Þetta gæti tekið sinn tíma.” Móðir Siriusar kinkaði snobbuð kollinum og tosaði Sirius í átt að tveimur stólum við gluggann. Þau settust niður og fylgdust með því er herra Ollivander dró upp málbandið sitt og fór að mæla James á allar hliðar. Svo skaust hann að stöflunum, dragandi út kassa sem innihéldu sprota fyrir James að prufa.
“Prófaðu þennan, kristþyrnir, 12 cm, einhyrningahár” James tók við sprotanum og sveiflaði honum út í loftið, eins og einhver vitleysingur. Sirius glotti.
“Nei nei nei nei, alls ekki” Sagði herra Ollivander og hrifsaði af honum sprotann.
“Þessi gæti verið hentugur; pílviður, 26 cm, mjög sveigjanlegur.” Aftur gerðist það sama, James sveiflaði honum út í loftið og Ollivander hrifsaði sprotann af honum. James leit vandræðalegur í áttina að Siriusi, sem horfði alvarlegur til baka.
“Eik, 19 cm, fönixfjöður” Ekkert gerðist. “íbenholt, 23 cm, mjög eftirgefanlegur.” Ekkert.
Svona gekk þetta áfram heillengi þar til….. “Prófaðu þennan: hlynur, hjartarót úr dreka, 27,6 cm. Mjög fallegur og vandaður sproti” James tók hann í hendurnar og sveiflaði honum. Út spruttu nokkrir grænir neistar, sem duttu strax niður á gólfið. James greip andann á lofti og leit fullur af von á herra Ollivander. “Nálægt því, en ekki alveg rétt. Við erum samt mjög nálægt því að finna rétta sprotann.” Hann skaust að næsta stafla og renndi puttanum eftir kössunum, eins og til að finna rétta sprotann.
“Pabbi?” Sagði James. “Tók þetta svona langan tíma hjá þér?” Spurði hann og pabbi hans glotti. “Nei, hann faðir þinn fékk sinn sprota í hendurnar í annarri tilraun” Heyrðist í Ollivander. Hann stóð beint fyrir framan James með kassa í höndunum. “Prófum þennan. Mahóní, 28 cm. Mjög þjáll og kraftmikill.” James horfði andartak á sprotann og leit svo á Ollivander. “Ég tek bara þennan sprota, mér líst mjög vel á hann”
Herra Ollivander rak upp mjög snöggan hlátur. “Nei nei, ungi herra Potter. Galdramaður kýs ekki sprotann, sprotinn kýs galdramanninn”. James andvarpaði og tók upp sprotann. Hann sveiflaði honum og allt í einu komu út gylltir, rauðir og bláir neistar. Þeir lýstu upp búðina og jafnvel Sirius horfði opinmynntur á neistana, sem minntu á flugelda.
Herra Ollivander brosti og lét sprotann í kassann. “Svo virðist sem að þú hafir kosið þér sprota, herra Potter.” Hann glotti. “Það gera sjö galleon” Sagði hann svo við föður James og hann borgaði. Þeir löbbuðu af stað að hurðinni og Sirius og móðir hans gengu að herra Ollivander. Sirius leit snögglega til baka er hann heyrði að hurðin var opnuð og sá herra Potter ganga út og James fylgja á eftir. En svo rak hann augun í kassa sem lá á búðargólfinu við hurðina. Sprotakassann sem James hafði verið að kaupa.
“Bíddu!” kallaði hann upp og hljóp að hurðinni. Hann tók upp kassann og rétti James, sem hafði snúið sér við. “Þú misstir sprotann þinn.” James horfði um stund í augun á Siriusi og tók svo við kassanum. “Takk.” Sagði James og brosti til hans, sneri svo við og gekk á eftir pabba sínum. En áður en hurðin lokaðist á eftir þeim, sneri James sér aftur við og kallaði til Siriusar: “Við sjáumst í skólanum!” Sirius vissi ekki hvernig hann átti að svara þessu svo hann horfði bara á hurðina lokast og gekk svo til móður sinnar.
Herra Ollivander brosti til hans en móðir hans virtist ekki vera svo sátt. Þvert á móti, hún var með snobbaðan stífan svip uppi sem Sirius hafði séð svo oft áður. Þessi svipur gaf til kynna að hún var alls ekki ánægð með hann en gat ekki sagt neitt við hann í augnablikinu. “Jæja, eigum við að finna sprotann þinn herra Black?” Sagði herra Ollivander og hóf að mæla hann á alla kanta, jafnvel breiddin á nefinu á honum var mæld. “Við skulum bara byrja á sprotunum sem pössuðu ekki við herra Potter, víst þeir eru uppi.” Herra Ollivander sneri sér að afgreiðsluborðinu þar sem tugir opinna sprotakassa lágu uppi.
“Þessi var mjög nálægt því að vera sproti herra Potters. Þú sást neistana sem komu út, en þeir virkuðu ekki rétt svo ég vissi að þetta var ekki rétti sprotinn” Sagði herra Ollivander og rétti honum langan sprota úr fallegum við. “Hlynur, hjartarót úr dreka, 27,6 cm. Afskaplega vandaður sproti, þó ég segi sjálfur frá. Viðurinn á honum er einstaklega fallegur. Hann brást mjög vel við hjartarótinni, en hún lætur viðinn oft verða ljótan á litinn og jafnvel skemmast.” Sirius tók við sprotanum og fann hita leggja upp vinstri hendina á sér. Hann dró djúpt andann og sveiflaði sprotanum um. Grænir, rauðir og gylltir neistar dönsuðu um búðina og Ollivander andvarpaði brosandi. “Fyrsti sprotinn sem þú reynir, þetta gerist ekki oft!” Hann lét sprotann ofan í kassann og rétti Siriusi hann svo. “Sjö galleon, frú Black”. Móðir Siriusar opnaði svart leðurveski sitt og dró upp úr því nokkra peninga. Ollivander þakkaði fyrir sig og þau gengu út úr búðinni. Það fyrsta sem móðir hans gerði um leið og þau voru komin út var að slá hann fast utan undir. “Hvernig vogarðu þér að blanda geði við svona muggaelskandi galdramenn?” Sagði hún og greip þétt utan um upphandlegg sonar síns og dró hann áfram. “Þetta eru þeir galdramenn sem eiga eftir að valda því að við, hreinu galdrafjölskyldurnar, eigum eftir að deyja út! Ég vil ekki sjá þig með svona fólki, þú einskisverði……” Svona hélt hún áfram niður götuna. Sirius var ekki að hlusta. Hann var vanur þessu. Hann hafði heyrt þessa ræðu svo oft. Hann hafði fengið þennan kinnhest svo oft. Hann var vanur þessu.
**********
Skolhærður drengur sat í herbergi sínu á heimili sínu í úthverfi Lundúnaborgar. Hann sat á rúminu sínu og starði á skóladótið sitt sem lá á gólfinu fyrir framan hann. Allar þessar galdrabækur og galdrasprotinn hans ullu því að hann varð stressaðari og stressaðari með hverri mínútunni sem leið. Á morgun átti hann að byrja í nýjum skóla, í Hogwarts. Hann var í raun bara heppinn að hann komst inn. Það var allt nýja skólastjóranum að þakka, annars hefði hann þurft að vera heima restina af lífi sínu. Galdramaður án réttinda.
Það var bankað á opna hurðina. Í dyragættinni stóð hávaxin en svolítið þybbin, góðleg kona með skollitað hár og blá augu. Hún hélt á tveimur bollum með kakói í og brosti til drengsins er hún gekk inn. Hún settist niður á rúmið við hliðina á honum og rétti honum annan bollann.
“Kakó með rjóma, nákvæmlega eins og þú vilt það Remus minn.” Sagði hún með mjúkri röddu og lét aðra hendina yfir axlir hans. Remus fékk sér sopa og hélt svo áfram að horfa á skóladótið sitt.
“Ertu stressaður?” Spurði hún og hann kinkaði kolli. “Hvað á ég að gera þegar ég umbreytist, mamma?” Sagði hann hljóðlega. “Hvernig á ég að útskýra það fyrir öllum hinum krökkunum í skólanum? Það á einhver eftir að átta sig á þessu.”
Móðir hans strauk honum um höfuðið og horfði samúðarfull á hann. “Prófessor Dumbledore segist vera búin að finna leið til þess að fela þetta. Hann ætlar að hitta þig eftir skólasetninguna og tala við þig. Ef að þið felið þetta nógu vel, þá á enginn eftir að sjá að þú ert…..” Hún hikaði en Remus kláraði setninguna fyrir hana: “Varúlfur” Andvarpaði hann og fékk sér annan sopa. “Ég á ekki eftir að eignast neina vini, þeir eiga bara eftir að komast að þessu.” Móðir hans lagði bollann sinn frá sér og tók utan um son sinn. “Þetta á eftir að ganga upp, Remus minn. Þetta á eftir að ganga upp.” Remus lagði bollann sinn frá sér líka og faðmaði mömmu sína þétt að sér. Tár myndaðist í auga hans en hann faldi það með því að grúfa sig að mömmu sinni.
Að lokum sofnaði hann í faðmi mömmu sinnar við söng hennar. Hugsunin um að hann myndi byrja í skólanum daginn eftir, vék fyrir draumum hans um að vera eðlilegur.
*************
*************